Alþjóðaólympíunefndin
Alþjóðaólympíunefndin er svissnesk sjálfseignarstofnun með aðsetur í Lausanne. Nefndin var stofnuð af franska baróninum Pierre de Coubertin 23. júní 1894. Fyrsti formaður nefndarinnar var Demetrios Vikelas. Nefndin hefur yfirumsjón með skipulagi Ólympíuleikanna og Ólympíuleika æskunnar. Nú sitja 100 virkir nefndarmenn í nefndinni, auk 33 heiðursfélaga og eins sérstaks heiðursfélaga. Á árlegum aðalfundi nefndarinnar er kjörið framkvæmdaráð sem fer með ábyrgð á stjórn nefndarinnar. Í framkvæmdaráðinu sitja forseti nefndarinnar, varaforseti og tíu aðrir nefndarmenn.