Sumarólympíuleikarnir 1960
17. sumarólympíuleikarnir | |
Bær: | Róm, Ítalíu |
Þátttökulönd: | 83 |
Þátttakendur: | 5.347 (4.734 karlar, 613 konur) |
Keppnir: | 150 í 17 greinum |
Hófust: | 25. ágúst 1960 |
Lauk: | 11. september 1960 |
Settir af: | Giovanni Gronchi forseta |
Íslenskur fánaberi: | Pétur Rögnvaldsson |
Sumarólympíuleikarnir 1960 voru haldnir í Rómaborg á Ítalíu frá 25. ágúst til 11. september. Mikið var lagt í umgjörð leikanna, þar sem heimamenn kappkostuðu að rifja upp forna sögu Rómar. Íslendingar bundu vonir við að Vilhjálmur Einarsson kæmist á verðlaunapall eins og fjórum árum fyrr, en hann hafnaði í fimmta sæti í þrístökkskeppninni.
Aðdragandi og skipulag
[breyta | breyta frumkóða]Rómaborg átti á sínum tíma að halda Ólympíuleikana 1908 en fallið var frá því, ekki hvað síst vegna eldgoss í Vesúvíusi árið 1906.
Ákvörðunin um staðarvalið var tekin sumarið 1955. Sex aðrar borgir sóttust eftir upphefðinni: Brussel, Búdapest, Detroit, Lausanne, Mexíkóborg og Tókýó. Fór Róm með sigur af hólmi eftir harða baráttu við Lausanne.
Íþróttamenn frá 83 löndum tóku þátt á leikunum, en líkt og á leikunum 1956 og 1964 kepptu Austur- og Vestur-Þjóðverjar saman undir merkjum Þýskalands. Suður-Afríka var meðal þátttökulanda í síðasta sinn uns aðskilnaðarstefnan var afnumin í landinu.
Keppnisgreinar
[breyta | breyta frumkóða]Keppt var í 150 greinum. Fjöldi keppna í einstökum íþróttaflokkum er gefinn upp í sviga.
|
|
|
Einstakir afreksmenn
[breyta | breyta frumkóða]Bandaríski spretthlauparinn Wilma Rudolph vann gullverðlaun í 100 metrum, 200 metrum og 4*100 metra boðhlaupi. Hún öðlaðist miklar vinsældir heimafyrir og var mikið gert úr þeirri staðreynd að hún átti við lömunarveiki og fleiri alvarlega sjúkdóma að etja fram á unglingsár.
Abebe Bikila frá Eþíópíu varð fyrstur þeldökkra Afríkubúa til að vinna gullverðlaun á Ólympíuleikum þegar hann kom fyrstur í mark í Maraþonhlaupi. Undrun vakti að hann hljóp berfættur alla leiðina.
Rafer Johnson frá Bandaríkjunum hlaut gullverðlaunin í tugþraut. Meðan á æfingum fyrir leikana stóð bauðst honum hlutverk í stórmyndinni Spartacus, sem hann neyddist að lokum til að afþakka þar sem talið var að slíkur kvikmyndaleikur myndi stangast á við áhugamannareglur Ólympíuleikanna.
Tyrkir höfnuðu í sjötta sæti yfir fjölda gullverðlauna á leikunum, með sjö slík verðlaun. Þau unnust öll í fangbragðakeppninni.
Sovétmennirnir Júríj Vlasov sigraði í þungavigt kraftlyftinga. Vlasov þótti óvenjulegur lyftingakappi, skartaði þykkum gleraugum og lá í bókum. Hann sneri sér síðar að ritstörfum og stjórnmálum og átti um tíma sæti á rússneska þinginu.
Danskur hjólreiðakappi, Knud Enemark Jensen, hneig niður í miðri hjólreiðakeppninni og var úrskurðaður látinn á sjúkrahúsi skömmu síðar. Hann varð þar með annar íþróttamaðurinn í sögu nútímaólympíuleikanna til að deyja í keppni. Síðar kom í ljós að lyfjanotkun Jensens hefði átt hlut að máli og varð það til þess að farið var að taka lyfjamisnotkun íþróttamanna fastari tökum en verið hafði.
Aladár Gerevich var í gullverðlaunasveit Ungverja í skylmingakeppninni, fimmtugur að aldri. Hann vann þar með til verðlauna á sínum sjöttu leikum, en hann keppti fyrst í Los Angeles árið 1932.
Kóngafólk var fyrirferðarmikið í siglingakeppninni. Gríski krónprinsinn (síðar Konstantín II Grikkjakonungur) vann til gullverðlauna fyrir þjóð sína, en Soffía systir hans (síðar drottning Spánar) keppti í kvennaflokki.
Pakistan rauf óslitna sigurgöngu Indverja í hokkíkeppninni frá leikunum 1928.
Sovésku stúlkurnar unnu fimmtán af sextán mögulegum verðlaunum í fimleikakeppninni.
Cassius Clay, sem síðar tók upp nafnið Muhammad Ali, sigraði í -81 kílógramma flokki hnefaleikakeppninnar.
Þátttaka Íslendinga á leikunum
[breyta | breyta frumkóða]Íslendingar sendu níu íþróttamenn til keppni á leikunum, sjö frjálsíþróttamenn og tvo keppendur í sundi. Ágústa Þorsteinsdóttir keppti í sundi og varð fyrsta konan til að keppa fyrir Íslands hönd á sumarólympíuleikum frá því á leikunum í Lundúnum tólf árum fyrr.
Svavar Markússon varð tuttugasti í 1.500 metra hlaupi á nýju Íslandsmeti, 3:47,1 mínútum. Var það eina Íslandsmetið á leikunum.
Mestar vonir voru bundnar við Vilhjálm Einarsson. Til að gefa honum kost á að prófa aðstæður, var Vilhjálmur einnig skráður til keppni í langstökki, þrátt fyrir að leggja ekki sérstaklega stund á þá grein. Í úrslitum þrístökkskeppninnar stökk Vilhjálmur 16,37 metra. Það var lengra en sigurstökkið á leikunum fjórum árum fyrr, en gaf að þessu sinni fimmta sætið.
Íslenska knattspyrnulandslíðið tók þátt í forkeppni Ólympíuleikanna og var í riðli með Danmörku og Noregi. Liðið komst ekki áfram en gerði jafntefli á útivelli gegn Dönum, þar sem litlu mátti muna að Íslendingar ynnu sinn fyrsta sigur á gömlu herraþjóðinni.
Verðlaunaskipting eftir löndum
[breyta | breyta frumkóða]Nr. | Land | Gull | Silfur | Brons | Samtals |
---|---|---|---|---|---|
1 | Sovétríkin | 43 | 29 | 31 | 103 |
2 | Bandaríkin | 34 | 21 | 16 | 71 |
3 | Ítalía | 13 | 10 | 13 | 36 |
4 | Þýskaland | 12 | 19 | 11 | 42 |
5 | Ástralía | 8 | 8 | 6 | 22 |
6 | Tyrkland | 7 | 2 | 0 | 9 |
7 | Ungverjaland | 6 | 8 | 7 | 21 |
8 | Japan | 4 | 7 | 7 | 18 |
9 | Pólland | 4 | 6 | 11 | 21 |
10 | Tékkóslóvakía | 3 | 2 | 3 | 8 |
11 | Rúmenía | 3 | 1 | 6 | 10 |
12 | Bretland | 2 | 6 | 12 | 20 |
13 | Danmörk | 2 | 3 | 1 | 6 |
14 | Nýja Sjáland | 2 | 0 | 1 | 3 |
15 | Búlgaría | 1 | 3 | 3 | 7 |
16 | Svíþjóð | 1 | 2 | 3 | 6 |
17 | Finnland | 1 | 1 | 3 | 5 |
18 | Austurríki | 1 | 1 | 0 | 2 |
Júgóslavía | 1 | 1 | 0 | 2 | |
20 | Pakistan | 1 | 0 | 1 | 2 |
21 | Eþíópía | 1 | 0 | 0 | 1 |
Grikkland | 1 | 0 | 0 | 1 | |
Noregur | 1 | 0 | 0 | 1 | |
24 | Sviss | 0 | 3 | 3 | 6 |
25 | Frakkland | 0 | 2 | 3 | 5 |
26 | Belgía | 0 | 2 | 2 | 4 |
27 | Íran | 0 | 1 | 3 | 4 |
28 | Holland | 0 | 1 | 2 | 3 |
Suður-Afríka | 0 | 1 | 2 | 3 | |
30 | Argentína | 0 | 1 | 1 | 2 |
Sameinaða arabalýðveldið | 0 | 1 | 1 | 2 | |
32 | Kanada | 0 | 1 | 0 | 1 |
Tævan | 0 | 1 | 0 | 1 | |
Ghana | 0 | 1 | 0 | 1 | |
Indland | 0 | 1 | 0 | 1 | |
Marokkó | 0 | 1 | 0 | 1 | |
Portúgal | 0 | 1 | 0 | 1 | |
Singapúr | 0 | 1 | 0 | 1 | |
39 | Brasilía | 0 | 0 | 2 | 2 |
Bresku Vestur-Indíur | 0 | 0 | 2 | 2 | |
41 | Írak | 0 | 0 | 1 | 1 |
Mexíkó | 0 | 0 | 1 | 1 | |
Spánn | 0 | 0 | 1 | 1 | |
Venesúela | 0 | 0 | 1 | 1 | |
Alls | 152 | 149 | 160 | 461 |