Sumarólympíuleikarnir 1976

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Ólympíuleikvangurinn í Montréal.

Sumarólympíuleikarnir 1976 voru haldnir í Montréal í Quebec í Kanada frá 17. júlí til 1. ágúst. Ákvörðunin um staðsetninguna var tekin vorið 1970, en Los Angeles og Moskva sóttust einnig eftir að halda leikana. Fjöldi Afríkuríkja sniðgekk Ólympíuleikana af pólitískum ástæðum.

Aðdragandi og skipulagning[breyta | breyta frumkóða]

Montréal gat ekki státað af miklum mannvirkjum sem sæma þóttu Ólympíuleikum og þurfti því að reisa nýja velli og íþróttahús fyrir flestar greinar. Undirbúningurinn fór hægt af stað og framkvæmdir töfðust af ýmsum sökum, meðal annars vegna verkfalla. Íhugaði Alþjóðaólympíunefndin á árinu 1975 að flytja leikana annað.

Ólympíuþorpið sem hýsti íþróttamennina meðan á leikunum stóð.

Tímahrakið og vanáætlaður byggingarkostnaður varð til þess að stórtap varð á leikunum, sem reyndust borginni þung byrði. Tókst ekki að ljúka við skuldabaggann fyrr en árið 2006. Dýrastur var Ólympíuleikvangurinn eftir franska arkitektinn Roger Taillibert. Átti að vera hægt að draga þak yfir leikvöllinn í slæmu veðri, en ekki tókst að koma því við fyrir leikana. Þá tókst ekki að ljúka við aðaleinkennistákn leikvangsins, gríðarháan turn, fyrr en mörgum árum síðar.

Keppendum fækkaði nokkuð frá því sem verið hafði í München fjórum árum fyrr. Aðalástæðan var sú að 28 ríki, nær öll frá Afríku, ákváðu að sniðganga leikana. Með því vildu þau mótmæla að Nýja Sjálandi væri heimiluð þátttaka á Ólympíuleikum, en Nýsjálendingar höfðu keppt landsleik í rúgbý við Suður-Afríku og brotið þannig gegn alþjóðlegu banni við íþróttasamskiptum við stjórn hvíta minnihlutans í landinu.

Keppnisgreinar[breyta | breyta frumkóða]

Keppt var í 198 greinum. Fjöldi keppna í einstökum íþróttaflokkum er gefinn upp í sviga.

Einstakir afreksmenn[breyta | breyta frumkóða]

Bärbel Wöckel (fædd Eckel) var í hópi austur-þýsku hlaupadrottninganna á leikunum 1976 og sigraði í 200 metra hlaupi og 4*100 metrum.
Lasse Virén bættist í stóran hóp sigursælla finnskra hlaupara á Ólympíuleikum.

Kanadamönnum tókst ekki að vinna til gullverðlauna á leikunum. Er það í eina skiptið sem gestgjöfum á Ólympíuleikum mistekst að eignast sigurvegara. Sovétmenn hlutu flest gullverðlaun en athygli vakti að Austur-Þjóðverjar skutu Bandaríkjamönnum aftur fyrir sig og hlutu næstflest Ólympíugull.

Kúbverjinn Alberto Juantorena vann gullverðlaunin í 400 og 800 metra hlaupi. Hann hóf íþróttaferil sinn sem körfuknattleiksmaður og byrjaði ekki að æfa frjálsar íþróttir fyrr en hann var kominn á þrítugsaldur. Hann keppti í fyrsta skipti í 800 metra hlaupi skömmu fyrir leikana.

Líkt og á leikunum 1972, fór Finninn Lasse Virén með sigur af hólmi í 5.000 og 10.000 metra hlaupinu. Daginn eftir úrslitin í 5.000 metrunum keppti Virén í Maraþonhlaupi, en hafnaði þar í fimmta sæti.

Sovétmaðurinn Viktor Saneyev hlaut gullverðlaun í þrístökki þriðju leikana í röð. Hann átti kost á að bæta við fjórða gullinu á Ólympíuleikunum í Moskvu 1980, en hafnaði þá í öðru sæti.

Miklós Németh frá Ungverjalandi sigraði með yfirburðum í spjótkastkeppni karla. Hann setti heimsmet í fyrsta kasti sínu, 94,58 metrar. Næsti maður kastaði nærri sjö metrum styttra.

Austur-Þýskaland, Vestur-Þýskaland og Sovétríkin skiptu á milli sín 31 af 39 verðlaunum frjálsíþróttakeppni kvenna.

"Sugar" Ray Leonard vann til gullverðlauna í hnefaleikum og gerðist síðar atvinnumaður.

Fjórtán ára gömul rúmensk fimleikastúlka, Nadia Comaneci, vann til þriggja gullverðlauna og fékk sjö sinnum hæstu einkunn, 10,0. Stjarna leikanna í München, Olga Korbut, var meidd og náði sér ekki á strik í keppninni.

Sovétmaðurinn Nikolai Andrianov vann fern gullverðlaun í fimleikakeppninni. Á ferli sínum vann hann til 15 verðlauna á Ólympíuleikum.

Hnefaleikakappinn Sugar Ray Leonard vann til gullverðlauna í sínum þyngdarflokki fyrir Bandaríkin. Sama gerðu bræðurnir Michael og Leon Spinks. Allir urðu þeir síðar kunnir atvinnumenn í greininni.

Bandarísku sundmennirnir unnu öll gullverðlaun nema ein í karlaflokki og austur-þýsku stúlkurnar öll nema þrenn í kvennaflokki. Kornelia Ender hlaut fern gullverðlaun og setti heimsmet í hverju sundi, þótt tvö þeirra færu fram með hálftíma millibili. Síðar hafa komið fram sterkar vísbendingar um að austur-þýskir læknar hafi gefið mörgum íþróttamönnum stera án vitundar þeirra og varpar það nokkurri rýrð á afrekin.

Boris Onishcenko, sovéskur keppandi í nútímafimmtarþraut, varð uppvís að því að eiga við rafbúnað í skylmingarsverði sínu svo að það gæfi honum fleiri stig en honum bar. Sovésku sveitinni var vísað úr keppni vegna þessa sérstæða svindlmáls.

Þátttaka Íslendinga á leikunum[breyta | breyta frumkóða]

Íslendingar sendu fjórtán íþróttamenn til keppni á Ólympíuleikunum í Montréal. Flestir voru keppendur í frjálsum íþróttum, átta talsins. Þrír Íslendingar kepptu í sundi, tveir í júdó og einn í Ólympískum Lyftingum Þá höfðu karlalandslið Íslands í blaki, knattspyrnu, körfuknattleik og handbolta öll tekið þátt í forkeppni Ólympíuleikanna án þess að komast í úrslitakeppnina.

Hreinn Halldórsson náði bestum árangri frjálsíþróttamanna. Hann varð fimmtándi í kúluvarpskeppninni, en fyrirfram var Hreinn talinn líklegastur til afreka á leikunum.

Íslenska sundfólkið náði best þrítugasta sæti, en árangurinn þótti góður þar sem sett voru Íslandsmet í sjö af þeim átta greinum sem keppt var í.

Júdómennirnir tveir töpuðu báðir í fyrstu viðureign sinni.

Guðmundur Sigurðsson tók þátt í ólympískum lyftingum og varð í áttunda sæti af nítján keppendum í sínum þyngdarflokki.

Verðlaunaskipting eftir löndum[breyta | breyta frumkóða]

Kyndillinn sem notaður var við setningu Ólympíuleikanna 1976.
 Nr.  Land  Gull Silfur Brons Alls
1 Sovétríkin 49 41 35 125
2 Austur-Þýskaland 40 25 25 90
3  Bandaríkin 34 35 25 94
4 Vestur-Þýskaland 10 12 17 39
5  Japan 9 6 10 25
6 Pólland 7 6 13 26
7 Búlgaría 6 9 7 22
8 Kúba 6 4 3 13
9 Rúmenía 4 9 14 27
10 Fáni Ungverjalands Ungverjaland 4 5 13 22
11  Finnland 4 2 0 6
12  Svíþjóð 4 1 0 5
13  Bretland 3 5 5 13
14  Ítalía 2 7 4 13
15  Frakkland 2 3 4 9
16 Júgóslavía 2 3 3 8
17 Tékkóslóvakía 2 2 4 8
18 Nýja Sjáland 2 1 1 4
19 Suður-Kórea 1 1 4 6
20  Sviss 1 1 2 4
21 Jamaíka 1 1 0 2
Norður-Kórea 1 1 0 2
 Noregur 1 1 0 2
24  Danmörk 1 0 2 3
25 Mexíkó 1 0 1 2
26 Trínidad og Tóbagó 1 0 0 1
27 Kanada 0 5 6 11
28  Belgía 0 3 3 6
29 Holland 0 2 3 5
30 Portúgal 0 2 0 2
Spánn 0 2 0 2
32 Fáni Ástralíu Ástralía 0 1 4 5
33 Íran 0 1 1 2
34 Mongólía 0 1 0 1
Venesúela 0 1 0 1
36  Brasilía 0 0 2 2
37  Austurríki 0 0 1 1
Bermúda 0 0 1 1
Pakistan 0 0 1 1
Púertó Ríkó 0 0 1 1
Tæland 0 0 1 1
Alls 198 199 216 613