Örn Clausen

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Örn Clausen (8. nóvember 192811. desember 2008) var íslenskur lögfræðingur af dönskum og íslenskum ættum og var á sínum tíma í hópi bestu frjálsíþróttamanna Evrópu ásamt Hauki bróður sínum og átti allmörg Íslandsmet í frjálsum íþróttum.

Örn og Haukur voru eineggja tvíburar. Þeir voru fæddir í Reykjavík, synir Arreboe Clausen verslunarmanns og bifreiðarstjóra og konu hans Sesselju Þorsteinsdóttur Clausen. Örn lauk stúdentsprófi frá MR 1948 og lögfræðiprófi frá Háskóla Íslands árið 1953. Hann varð forstjóri Trípolíbíós 1953 og rak það fram á haust 1957 en rak svo eigin lögfræðistofu í Reykjavík frá 1958 og sinnti lögfræðistörfum allt fram til 2007 og var þá elstur starfandi lögfræðinga á landinu. Hann gegndi ýmsum trúnaðarstörfum fyrir Lögmannafélag Íslands, Sjálfstæðisflokkinn og ýmsa aðila.

Þeir tvíburabræðurnir lögðu stund á íþróttir frá unga aldri, einkum frjálsar íþróttir, og setti Örn samtals tíu Íslandsmet, bæði í grindahlaupum og tugþraut. Hann varð í tólfta sæti í tugþraut á Ólympíuleikunum í London 1948, þá aðeins nítján ára að aldri. Árið 1949 sigraði hann í tugþraut á Norðurlandameistaramótinu í Stokkhólmi, vann silfurverðlaun á Evrópumeistaramótinu í tugþraut 1950 og setti Norðurlandamet í sömu grein 1951. Það ár átti hann næstbesta tugþrautarárangur í heimi. Miklar vonir voru bundnar við þátttöku hans í tugþrautarkeppni Ólympíuleikanna í Helsinki 1952 en hann meiddist um það leyti sem leikarnir hófust og gat ekki tekið þátt í keppninni þótt hann væri á staðnum en var dæmdur í keppnisbann vegna agabrota og hættu þeir bræður keppni upp úr því.

Örn var tvíkvæntur. Fyrri kona hans var Anna Þóra Thoroddsen og áttu þau fjóra syni. Síðari kona hans var Guðrún Erlendsdóttir hæstaréttardómari og áttu þau þrjú börn.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • „Örn Clausen hæstaréttarlögmaður látinn. Morgunblaðið, 12. desembe 2008“.

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]