Fara í innihald

Mannkynssaga

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Saga mannkyns)
Lógaritmískur skali sem sýnir mannfjöldaþróun á jörðinni frá upphafi nýsteinaldar.

Mannkynssaga er saga mannkyns sem hefst á fornsteinöld, en jarðsaga er saga jarðarinnar, þar á meðal saga lífs áður en maðurinn kom til. Sá tími sem engar ritheimildir eru til um er kallaður forsögulegur tími en með skrift og rituðum heimildum hefst sögulegur tími.[a] Forsögulegur tími hefst á fornsteinöld en upphaf nýsteinaldar markast af landbúnaðarbyltingunni (milli 8000 og 5000 f.o.t.) í frjósama hálfmánanum. Á bronsöld þróuðust stór menningarríki sem eru kölluð vagga siðmenningar: Mesópótamía, Egyptaland hið forna og Indusdalsmenningin.

Hefðbundin sagnaritun skiptir sögu ólíkra heimshluta í ólík tímabil. Til dæmis er algengt að notast við konungsættir til að afmarka söguleg tímabil eins og gert er í sögu Kína. Í mörgum heimshlutum eru til einhvers konar „klassísk“ tímabil, „miðtímabil“ og „nútími“, en þessi tímabil ná gjarnan yfir ólík tímaskeið. Í sögu Indlands nær til dæmis „klassíska“ tímabilið frá 230 f.o.t. til 1200 e.o.t., „miðtímabil“ frá 1200 til um 1600 og nýöld frá 1600 til okkar daga. Í sögu Ameríku nær „klassíska“ tímabilið frá 200 til 900 þegar Majar mynduðu stór menningarríki, en tímabilið frá 900 til upphafs landvinningatímans 1519 er kallað „síðklassíska“ tímabilið. Í samtímanum tvinnast saga ólíkra heimshluta saman vegna hnattvæðingarinnar.

Mannkynssagan nær yfir um 2,8 milljón ár, frá því ættkvíslin Homo kom fyrst fram á sjónarsviðið til okkar daga. Fyrir um 300.000 árum þróuðust nútímamenn og allar aðrar tegundir af ættkvíslinni dóu smám saman út. Landbúnaðarbyltingin átti sér stað fyrir um 12.000 árum og um 7.000 árum síðar tóku menn að notast við ritmál svo sögulegur tími er í raun agnarlítill hluti af mannkynssögunni í árum talið.

Fjölmargar vísindagreinar fást við rannsóknir á sögu mannsins. Meðal þeirra helstu eru sagnfræði, fornleifafræði, mannfræði, málvísindi og erfðafræði.

Forsögulegur tími

[breyta | breyta frumkóða]
Skeleton
Lucy“, fyrsta beinagrindin af Australopithecus afarensis sem fannst, var aðeins 1,06 metrar á hæð.[1]

Þróun mannsins

[breyta | breyta frumkóða]

Fyrir 7-5 milljón árum síðan greindist ættkvíslin homininae frá mannöpum í Afríku.[2][3][4][5] Eftir að tegundin greindist frá simpönsum þróaðist tvífætlingsstaða hjá fyrstu suðuröpum (Australopithecus), hugsanlega sem aðlögun að gresjulandslagi í stað skóga.[6][7] Forverar manna tóku að nota frumstæð steinverkfæri fyrir um það bil 3,3 milljónum ára.[8] Sumir steingervingafræðingar hafa stungið upp á 3,39 milljón árum, byggt á beinum frá Dikiki í Eþíópíu sem bera merki um skurði,[9] þótt aðrir dragi það í efa.[10] Það myndi þá marka upphaf fornsteinaldar, miklu fyrr en áður var talið.[11][12]

Ættkvíslin Homo þróaðist frá ættkvísl suðurapa.[13] Elstu minjar um ættkvíslina eru 2,8 milljón ára gömul bein (LD 350-1) frá Eþíópíu,[14] og elsta manntegundin sem lýst hefur verið er Homo habilis sem kom fram fyrir 2,3 milljón árum.[15] Helsti munurinn á Homo habilis og Australopithecus er að heili hinna fyrrnefndu var 50% stærri.[16] H. erectus kom fram á sjónarsviðið fyrir 2 milljón árum[17] og var fyrsta manntegundin sem ferðaðist út fyrir Afríku til Evrasíu.[18] Hugsanlega fyrir 1,5 milljón árum, en örugglega fyrir 250.000 árum, tóku menn að kveikja elda til upphitunar og matreiðslu.[19][20]

Fyrir um 500.000 árum greindist ættkvíslin Homo í margar tegundir frummanna, eins og neanderthalsmenn í Evrópu, denisovmenn í Síberíu, og hina smáu flóresmenn í Indónesíu.[21][22] Þróun mannsins var ekki einfalt línulegt eða sundurgreint ferli, og fól í sér blöndun frummanna og nútímamanna.[23][24] Erfðarannsóknir hafa sýnt fram á að blöndun tiltölulega aðgreindra manntegunda hafi verið algeng í þróunarsögu mannsins.[25] Slíkar rannsóknir benda til þess að mörg gen úr neanderthalsmönnum sé að finna hjá nær öllum hópum fólks utan Afríku sunnan Sahara. Neanderthalsmenn og aðrar manntegundir, eins og denisovmenn, gætu hafa skilið eftir allt að 6% af erfðaefni sínu í nútímamönnum.[26][27]

Elstu nútímamenn

[breyta | breyta frumkóða]

Manntegundin Homo sapiens kom fram á sjónarsviðið í Afríku fyrir 300.000 árum. Hún þróaðist út frá tegundinni Homo heidelbergensis.[28][29][30] Næstu árþúsund hélt þróunin áfram og fyrir um 100.000 árum voru menn farnir að nota skartgripi og okkur til að skreyta líkama sinn.[31] Fyrir um 50.000 árum tóku menn að grafa hina látnu, nota kastvopn og ferðast um höf og vötn.[32] Ein mikilvægasta breytingin (sem ekki er hægt að tímasetja með vissu) var þróun tungumálsins, sem bætti samskiptahæfni manna til mikilla muna.[33] Elstu merki um listræna tjáningu er að finna í hellamálverkum og útskurði í bein, stein og tennur, sem hefur verið túlkað sem merki um andatrú[34] eða sjamanisma.[35] Elstu hljóðfæri sem fundist hafa (fyrir utan mannsröddina) eru beinflautur frá Júrafjöllum í Þýskalandi og eru um 40.000 ára gamlar.[36][37] Steinaldarmenn voru veiðimenn og safnarar og lifðu flökkulífi.[38]

Útbreiðsla mannsins um jörðina miðað við tilgátuna um suðræna dreifingu.

Flutningar nútímamanna frá Afríku áttu sér stað í nokkrum bylgjum fólksflutninga, sem hófust fyrir 194.000 til 177.000 árum.[39] Viðtekin skoðun meðal fræðimanna er að fyrstu bylgjurnar hafi dáið út og að allir nútímamenn utan Afríku séu afkomendur sama hóps sem fluttist þaðan fyrir 70.000-50.000 árum síðan.[40][41][42] H. sapiens fluttist til allra meginlandanna og stærri eyja og kom til Ástralíu fyrir 65.000 árum,[43] Evrópu fyrir 45.000 árum,[44] og Ameríku fyrir 21.000 árum.[45] Þessir fólksflutningar áttu sér stað á síðustu ísöld, þegar mörg af þeim svæðum sem í dag eru hlýtempruð voru óbyggileg vegna kulda.[46][47] Undir lok ísaldarinnar, fyrir um 12.000 árum, höfðu menn náð að breiðast út til nær allra svæða jarðar sem voru laus við ís.[48] Útbreiðsla manna fór saman við fjöldaútdauðann á kvarter og útdauða neanderthalsmanna[49] sem líklega stöfuðu af loftslagsbreytingum, athöfnum manna, eða blöndu af þessu tvennu.[50][51]

Upphaf landbúnaðar

[breyta | breyta frumkóða]

Um 10.000 f.o.t. markar landbúnaðarbyltingin upphaf grundvallarbreytinga á lífsháttum manna á nýsteinöld.[52] Landbúnaður hófst á mismunandi tímum á mismunandi svæðum[53] og á sér minnst 11 upprunastaði.[54] Kornrækt og húsdýrahald hófust í Mesópótamíu að minnsta kosti um 8500 f.o.t. og fólust í ræktun hveitis, byggs, kinda og geita.[55] Menn tóku að rækta hrísgrjón við Yangtze-fljót í Kína um 8000-7000 f.o.t. og hirsi kann að hafa verið ræktað við Gulá um 7000 f.o.t.[56] Svín voru mikilvægasta húsdýrið í Kína.[57] Í Sahara í Afríku ræktaði fólk dúrru og aðrar jurtir á milli 8000 og 5000 f.o.t. og aðrar miðstöðvar landbúnaðar voru í hálendi Eþíópíu og regnskógum Vestur-Afríku.[58] Ræktun nytjaplantna hófst í Indusdal um 7000 f.o.t. og tekið var að rækta nautgripi um 6500 f.o.t.[59] Ræktun kúrbíts í Suður-Ameríku byrjaði að minnsta kosti fyrir 8500 f.o.t. og örvarrót var ræktuð í Mið-Ameríku um 7800 f.o.t.[60] Kartöflur voru fyrst ræktaðar í Andesfjöllum þar sem lamadýr voru gerð að húsdýrum.[61][62] Sumir telja líklegt að konur hafi leikið lykilhlutverk í þróun nytjaplantna.[63][64]

Útskorin súla frá Göbekli Tepe.

Ýmsar kenningar hafa verið settar fram um orsakir landbúnaðarbyltingarinnar.[65] Sumar þeirra telja að fólksfjölgun hafi fengið fólk til að leita nýrra leiða til að afla matar. Samkvæmt öðrum kenningum var fólksfjölgun afleiðing fremur en orsök betri aðferða við öflun matvæla.[66] Aðrir orsakaþættir sem hafa verið nefndir eru loftslagsbreytingar, skortur á úrræðum, og hugmyndafræði.[67] Umbreytingin skapaði umframmagn matvæla sem hægt var að nota til að halda uppi fólki sem tók ekki beinan þátt í að afla þeirra.[68] Þar með skapaðist grundvöllur fyrir þéttari byggð og fyrstu borgir og ríki urðu til.[69]

Borgirnar urðu miðstöðvar fyrir viðskipti, iðnað og stjórnmál.[70] Þær mynduðu gagnkvæm tengsl við sveitirnar í kring, þaðan sem þær fengu matvæli, en gáfu í staðinn afurðir iðnframleiðslu og stjórnsýslu.[71][72] Elstu borgir sem fundist hafa eru Çatalhöyük og Jeríkó, sem gætu hafa orðið til á 10. eða 9. árþúsundinu f.o.t.[73][74][75] Hirðingjasamfélög sem flökkuðu með hjarðir húsdýra þróuðust á þurrkastöðum sem hentuðu illa til jarðræktar, eins og á Evrasíusteppunni og Sahelsvæðinu í Norður-Afríku.[76] Átök milli hirðingja og bænda með fasta búsetu hafa blossað upp með reglulegu millibili í mannkynssögunni.[77] Nýsteinaldarmenn dýrkuðu forfeður, helgistaði eða goðmögn sem líktust mönnum.[78] Hofbyggingarnar í Göbekli Tepe í Tyrklandi, frá 9500–8000 f.o.t.,[79] eru dæmi um trúarlega byggingarlist frá nýsteinöld.[80]

Málmvinnsla kom fyrst fram með gerð verkfæra og skrautmuna úr kopar um 6400 f.o.t.[81] Gull- og silfurvinnsla fylgdu í kjölfarið, aðallega sem efni í skartgripi.[82] Elstu minjar um gerð brons, sem er málmblanda kopars og tins, eru frá því um 4500 f.o.t.[83] Bronsvinnsla varð þó ekki algeng fyrr en á þriðja árþúsundinu f.o.t.[84]

Vöggur siðmenningar

[breyta | breyta frumkóða]
Píramídarnir í Gísa, Egyptalandi.

Á bronsöld þróuðust borgir og flókin siðmenningarsamfélög.[85][86] Þau fyrstu risu í kringum stórfljót, fyrst í Mesópótamíu um 3300 f.o.t., milli ánna Tígris og Efrat.[87][88] Þar á eftir kom Egyptaland hið forna við Níl um 3200 f.o.t.[89][90] Caral-Supe-menningin í Perú kom fram um 3100 f.o.t.[91] Indusdalsmenningin í Pakistan og Norður-Indlandi um 2500 f.o.t.,[92][93][94] og Kína til forna við Jangtse og Gulá um 2200 f.o.t.[95]

Þessi samfélög áttu nokkur einkenni sameiginleg, eins og miðstýrt stjórnkerfi, flókið hagkerfi og félagslega lagskiptingu, og aðferðir til að halda skrár.[96] Í þessum samfélögum þróaðist ný tækni eins og hjólið,[97] stærðfræði,[98] bronsvinnsla,[99] seglskip,[100] leirkerahjólið,[99] ofin klæði,[101] gerð stórbygginga,[101] og ritmálið.[102] Fjölgyðistrú þróaðist í kringum hofbyggingar, þar sem prestar framkvæmdu fórnarathafnir.[103]

Áletrun með fleygrúnum frá Tyrklandi.

Skrift auðveldaði stjórnsýslu borga, tjáningu hugmynda, og varðveislu upplýsinga.[104] Hún gæti hafa þróast með sjálfstæðum hætti að minnsta kosti á fjórum stöðum: í Mesópótamíu um 3300 f.o.t.,[105] Egyptalandi um 3250 f.o.t.,[106][107] Kína um 1200 f.o.t.,[108] og Mið-Ameríku um 650 f.o.t.[109] Til eru eldri ummerki um frumskrift, en elsta þekkta ritkerfið eru fleygrúnir frá Mesópótamíu. Þær þróuðust út frá myndletri sem smám saman varð óhlutbundnara.[110][111] Önnur útbreidd ritkerfi voru helgirúnir Egypta og indusskrift.[112] Í Kína var fyrst tekið að nota ritmál á tímum Shang-veldisins, 1766-1045 f.o.t.[113][114]

Árnar og höfin auðvelduðu flutninga, sem ýtti undir viðskipti með vörur, hugmyndir og nýja tækni.[115][116] Ný hernaðartækni sem kom fram á bronsöld, eins og riddaralið á tömdum hestum, og stríðsvagnar, gerðu herjum kleift að færa sig milli staða hraðar en áður.[117][118] Verslun varð sífellt mikilvægari og borgarsamfélög þróuðu iðnað sem reiddi sig á hráefni frá fjarlægum löndum. Til varð net verslunarleiða og hnattvæðing fornaldar hófst.[119] Sem dæmi, þá notaðist bronsframleiðsla í Suðvestur-Asíu við innflutt tin sem gat borist þangað alla leið frá Englandi.[120]

Vexti borga fylgdi oft stofnun ríkja og stórvelda.[121] Egyptaland skiptist upphaflega í Efra- og Neðra-Egyptaland, en löndin tvö voru sameinuð í eitt ríki í öllum Nílardalnum um 3100 f.o.t.[122] Um 2600 f.o.t. voru borgirnar Harappa og Mohenjo-daro reistar í árdal Indusfljótsins.[123][124] Saga Mesópótamíu einkenndist af stríðum milli borgríkja, sem skiptust á að fara með forræði yfir landinu.[125] Frá 25. til 21. aldar f.o.t. risu stórveldi Akkadíu og Súmer á þessu svæði.[126] Mínóíska menningin kom fram á eynni Krít um 2000 f.o.t. og er sögð vera fyrsta siðmenningarsamfélagið í Evrópu.[127]

Næstu árþúsundin risu samfélög af þessu tagi um allan heim.[128] Um 1600 f.o.t. hóf Mýkenumenningin að þróast á Grikklandi.[129] Hún blómstraði fram að Bronsaldarhruninu sem reið yfir mörg samfélög við Miðjarðarhaf milli 1300 og 1000 f.o.t.[130] Undirstöður indverskrar menningar (meðal annars hindúasiður) voru lagðar á Vedatímabilinu, 1750-600 f.o.t.[131] Frá um 550 f.o.t. urðu til mörg sjálfstæð konungsríki og lýðveldi á Indlandsskaga sem eru þekkt sem Mahajanapada-ríkin.[132]

Risahöfuð frá tímum Olmeka.

Þjóðir sem töluðu bantúmál hófu að breiðast út um miðja og sunnanverða Afríku frá 3000 f.o.t.[133] Þessi útþensla og samskipti þeirra við aðrar þjóðir urðu til þess að breiða út blandaðan búskap og járnvinnslu í Afríku sunnan Sahara, og leiddu til þróunar samfélaga eins og Nok-menningarinnar þar sem Nígería er nú um 500 f.o.t.[134] Lapita-menningin varð til á Bismarck-eyjum nærri Nýju-Gíneu um 1500 f.o.t. og nam land á mörgum fjarlægum eyjum Eyjaálfu, allt að Samóa, fyrir 700 f.o.t.[135]

Í Ameríku kom Norte Chico-menningin fram í Perú um 3100 f.o.t.[91] sem reisti stórbyggingar í borginni Caral, frá 2627-1977 f.o.t.[136][137] Chavín-menningin er stundum talin vera fyrsta Andesríkið,[138] með miðstöð við hofbyggingarnar í Chavín de Huantar.[139] Önnur mikilvæg ríki sem urðu til á þessum slóðum eru Moche-menningin sem lýsti athöfnum daglegs lífs með leirmyndum, og Nazca-menningin, sem gerði risavaxnar dýramyndir á yfirborð Nazca-eyðimerkurinnar (Nazca-línurnar).[140] Um 1200 f.o.t. kom ríki Olmeka fram í Mið-Ameríku.[141] Það er þekkt fyrir stór steinhöfuð sem Olmekar hjuggu út í basalt.[142] Olmekar þróuðu líka fyrsta miðameríska dagatalið sem seinni tíma menningarríki, eins og Majar og Astekar, tóku upp.[143] Í Norður-Ameríku þróuðust samfélög veiðimanna og safnara þar sem ríkti meiri jöfnuður. Þessi samfélög ræktuðu líka nytjajurtir eins og sólblóm í smáum stíl.[144] Þau reistu stóra moldarhauga, eins og Watson Brake (4000 f.o.t.) og Poverty Point (3600 f.o.t.) í Louisiana.[145]

Standandi Búdda frá Gandhara, 2. öld.

Tímabilið frá 800 til 200 f.o.t. var nefnt öxulöld af þýska heimspekingnum Karl Jaspers[146] með vísun í það hversu margar mikilvægar heimspekilegar og trúarlegar hugmyndir komu fram á þeim tíma, á ólíkum stöðum að mestu óháð hver annarri.[147] Konfúsíusismi í Kína,[148] búddatrú og jainismi á Indlandi,[149] og eingyðistrú gyðinga, hófust allar á þessu tímabili.[150] Sóróismi hófst fyrr í Persíu (hugsanlega um 1000 f.o.t.), en varð að formlegum trúarbrögðum í ríki Akkamenída á öxulöld.[151] Ný heimspeki kom fram á Grikklandi á 5. öld f.o.t. með hugsuðum á borð við Platon og Aristóteles.[152] Fyrstu Ólympíuleikarnir voru haldnir árið 776 f.o.t. og marka upphaf klassískrar fornaldar.[153] Árið 508 f.o.t. var lýðræðisleg stjórnskipun tekin upp í fyrsta sinn, í Aþenu.[154]

Þær hugmyndir sem komu fram á öxulöld mótuðu hugmynda- og trúarbragðasögu heimsins. Konfúsíusismi var einn af þremur skólum sem urðu ríkjandi í kínverskri hugmyndasögu, ásamt daóisma og löghyggju.[155] Konfúsíska hefðin leitaðist við að þróa stjórnvisku byggða á hefðum fremur en ströngum lögum.[156] Konfúsíusismi breiddist síðar út til Kóreu og Japans.[157] Búddatrú náði til Kína á 1. öld[158] og breiddist hratt út. Á 7. öld voru 30.000 búddahof í Norður-Kína.[159] Búddatrú varð ríkjandi trúarbrögð í stórum hluta Suður-, Suðaustur- og Austur-Asíu.[160] Gríska heimspekin[161] breiddist út um Miðjarðarhafið, og náði allt til Indlands, frá 4. öld f.o.t., eftir landvinninga Alexanders mikla frá Makedóníu.[162] Bæði kristni og íslam þróuðust síðar út frá gyðingdómi.[163]

Staðbundin stórveldi

[breyta | breyta frumkóða]

Á þúsund ára tímabili milli 500 f.o.t. og 500 e.o.t. risu nokkur ríki sem náðu meiri stærð en áður þekktist. Þjálfaðir atvinnuhermenn, hugmyndafræði og þróuð stjórnsýsla gerðu keisurum kleift að stýra stórum ríkjum þar sem fjöldi íbúa gat náð tugum milljóna.[164] Á sama tíma þróuðust langar verslunarleiðir, sérstaklega siglingaleiðir í Miðjarðarhafi, Indlandshafi og Silkivegurinn um Asíu.[165]

Lágmynd af persneskum og medískum hermönnum í Persepólis, Akkamenídaríkinu, á 5. öld f.o.t.

Medar áttu þátt í falli Assýríu ásamt Skýþum og Babýlónum.[166] Höfuðborg Assýríu, Níneve, var rænd af herjum Meda árið 612 f.o.t.[167] Í kjölfar Medaveldisins fylgdu nokkur írönsk ríki, þar á meðal ríki Akkamenída (550-330 f.o.t.),[168] Parþaveldið (247 f.o.t.-224 e.o.t.),[169][170] og ríki Sassanída (224–651).[171]

Tvö stórveldi risu þar sem nú er Grikkland. Seint á 5. öld f.o.t. stöðvuðu nokkur grísk borgríki framrás Akkamenída inn í Evrópu í Persastríðunum. Gullöld Aþenu fylgdi í kjölfarið þar sem lagðar voru margar af undirstöðum vestrænnar siðmenningar. Meðal þess var gríska leikhúsið.[172][173][174] Stríðin leiddu til stofnunar Delosbandalagsins árið 477 f.o.t.[175] Aþena varð stórveldi 454-404 f.o.t. en beið ósigur fyrir bandalagi annarra ríkja undir forystu Spörtu í Pelópsskagastríðinu.[176] Filippus Makedóníukonungur sameinaði grísku borgríkin í Kórintubandalaginu og sonur hans, Alexander mikli (356-323 f.o.t.), stofnaði heimsveldi sem náði allt til Indlands.[177][178] Veldi Alexanders klofnaði í nokkur ríki undir stjórn díadóka eftir lát hans. Í þessum ríkjum breiddist hellensk menning út.[179] Hellenska tímabilið stóð frá 323 f.o.t. til ársins 31 f.o.t. þegar Egyptaland Ptólemaja féll í hendur Rómverja.[180]

Rómverska lýðveldið var stofnað í Evrópu á 6. öld f.o.t.[181] og hóf útþenslu sína á 3. öld f.o.t.[182] Lýðveldið breyttist í rómverska keisaradæmið undir stjórn Ágústusar keisara. Á þeim tíma höfðu Rómverjar náð yfirráðum yfir nær öllu Miðjarðarhafi.[183] Rómaveldi hélt útþenslu sinni áfram og náði hátindi sínum í valdatíð Trajanusar (53-117) þegar ríkið náði frá Englandi til Mesópótamíu.[184] Á eftir fylgdu tvær aldir sem kenndar eru við Rómarfrið þar sem þær einkenndust af friði, velmegun og stöðugleika í stórum hluta Evrópu.[185] Kristni varð lögleg í valdatíð Konstantínusar 1. árið 313, eftir þriggja alda ofsóknir gegn kristnum mönnum í Rómaveldi. Árið 380 varð kristni einu löglegu trúarbrögðin í keisaradæminu. Þeódósíus 1. bannaði heiðin trúarbrögð 391-392.[186]

Chandragupta Maurya stofnaði Maurya-veldið í Suður-Asíu (320–185 f.o.t.) sem blómstraði undir stjórn Ashoka mikla.[187][188] Frá 4. öld til 6. aldar var Guptaveldið við lýði á tíma sem nefndur hefur verið gullöld Indlands til forna.[189] Á þeim tíma ríkti stöðugleiki þar sem menning hindúa og búddatrúarmanna blómstraði. Á sama tíma urðu framfarir í vísindum og stærðfræði.[190] Þrjú Dravíðaríki komu fram á Suður-Indlandi: Chera-veldið, Chola-veldið og Pandya-veldið.[191]

Súlur Ashoka reistar af keisara Maurya-veldisins á Indlandi.

Í Kína batt Qin Shi Huang enda á öld hinna stríðandi ríkja með því að sameina Kína í Qin-veldið (221-206 f.o.t.).[192][193] Qin Shi Huang aðhylltist löghyggjuskólann og kom á áhrifaríku stjórnkerfi með hæfum embættismönnum í stað aðalsins.[194] Harka Qin-veldisins leiddi til uppreisna og falls keisaradæmisins.[195] Á eftir því kom Hanveldið (202 f.o.t.-220 e.o.t.) sem sameinaði löghyggjuna og konfúsíusisma.[196][197] Hanveldið var sambærilegt að stærð og áhrifum við Rómaveldi á hinum enda Silkivegarins.[198] Efnahagsuppgangur leiddi til landvinninga í Mongólíu, Mið-Asíu, Mansjúríu, Kóreu og Norður-Víetnam.[199] Líkt og hjá öðrum stórveldum fornaldar urðu miklar framfarir í stjórnsýslu, menntun, vísindum og tækni í Kína Hanveldisins.[200][201] Á þeim tíma tók fólk að nota leiðarsteina (forvera áttavitans) og pappír (tvær af kínversku uppfinningunum fjórum).[202][203]

Axúmóbeliskan í Eþíópíu.

Konungsríkið Kús blómstraði í Norðaustur-Afríku vegna viðskipta við Egypta og þjóðir sunnan Sahara.[204] Það ríkti yfir Egyptalandi sem tuttugasta og fimmta konungsættin frá 712 til 650 f.o.t. og hélt svo velli sem verslunarveldi í kringum borgina Meróe fram á fjórðu öld.[205] Á 1. öld var konungsríkið Aksúm stofnað þar sem Eþíópía er nú og myndaði stórt verslunarveldi við Rauðahaf sem náði yfir bæði Suður-Arabíu og Kús.[206] Konungar Aksúm slógu peninga og reistu gríðarstóra einsteinunga yfir grafir keisara.[207]

Í Ameríku urðu líka til staðbundin stórveldi allt frá 2500 f.o.t.[208] Í Mið-Ameríku þróuðust stór þjóðfélög eins og ríki Sapóteka (700 f.o.t.-1521 e.o.t.)[209][210] og Maja, sem náði hátindi sínum á klassíska tímabilinu (um 250-900),[211] og hélt velli út allt síðklassíska tímabilið.[212] Borgríki Maja urðu smám saman fleiri og stærri og menning þeirra breiddist út um Júkatanskaga og til nærliggjandi svæða.[213] Majar þróuðu ritmál og notuðust við núll í útreikningum.[214] Vestan við Maja, í miðhluta Mexíkó, blómstraði stórborgin Teotihuacan sem stýrði verslun með hrafntinnu.[215] Veldi hennar var mest um 450 e.o.t. þegar íbúar voru milli 125 og 150.000 og borgin því ein sú stærsta í heimi.[216]

Þróun tækni í fornöld gekk í bylgjum.[217] Oft komu tímabil þar sem tækniþróun var mjög hröð, eins og grísk-rómverska tímabilið við Miðjarðarhafið.[218] Talið er að grísk vísindi, tækni og stærðfræði hafi náð hátindi sínum á helleníska tímabilinu. Frá þeim tíma eru tæki eins og Antikyþera-sólkerfislíkanið.[219] Á milli komu tímabil hnignunar, eins og þegar Rómaveldi tók að hnigna.[220] Tvær mikilvægustu tækninýjungar þessa tíma voru pappír (Kína á 1. og 2. öld)[221] og ístaðið (Indland á 2. öld f.o.t. og Mið-Asía á 1. öld).[222] Báðar þessar nýjungar breiddust hratt um heiminn. Í Kína tók fólk að gera silki og Kínverjar réðust í stórar byggingaframkvæmdir eins og Kínamúrinn og Kínaskurðinn.[223] Rómverjar voru líka mikilhæfir steinsmiðir. Þeir fundu upp steinsteypu, fullkomnuðu aðferðir við gerð boga og reistu kerfi áveita til að flytja vatn til borga sinna.[224][225]

Í flestum fornaldarsamfélögum var þrælahald stundað.[226] Þetta var sérstaklega áberandi í Aþenu og Rómaveldi þar sem þrælar voru stórt hlutfall íbúa og undirstaða efnahagslífsins.[227] Algengt var að samfélagsskipanin byggðist á feðraveldi þar sem karlar höfðu meiri völd en konur.[228]

Hnignun, fall og endurreisn

[breyta | breyta frumkóða]
Stjörnuskoðunarstöð frá tímum Maja í Chichen Itza, Mexíkó.

Algeng vandamál sem stórveldi fornaldar stóðu frammi fyrir voru viðhald stórra herja og miðlægrar stjórnsýslu.[229] Í Róm og Kína Hanveldisins tók ríkinu að hnigna og árásir barbara við landamærin flýttu fyrir upplausn innanlands.[229] Borgarastyrjöld braust út í Hanveldinu árið 220 og leiddi til þriggja ríkja tímabilsins, meðan Rómaveldi skiptist um sama leyti í þriðju aldar kreppunni.[230] Evrasískir hirðingjar á hestum ríktu yfir stórum hlutum evrasíska meginlandsins.[231] Ístaðið og bogaskyttur á hestbaki gerðu þeim kleift að ógna samfélögum sem byggðust á fastri búsetu.[232]

Á 4. öld klofnaði Rómaveldi til frambúðar í vestur- og austurhluta undir sitt hvorum keisaranum.[233] Vestrómverska keisaradæmið féll í hendur Germana undir forystu Ódóakers árið 476.[233] Austrómverska keisaradæmið, þekkt sem Býsantíum, stóð miklu lengur.[234] Keisaraveldin í Kína risu og hnigu með reglulegu millibili, en ólíkt stórveldunum við Miðjarðarhafið, var landið alltaf sameinað á ný.[235] Eftir fall Austur-Hanveldisins og hrun ríkjanna þriggja, gerðu hirðingjar innrás úr norðri og hröktu marga kínverska þjóðflokka á flótta til suðurs.[236]

Síðklassíska tímabilið

[breyta | breyta frumkóða]
Ægisif í Istanbúl er tákn fyrir menningu Austrómverska ríkisins.

Frá því seint á 20. öld hefur verið vaxandi tilhneiging til að notast við hugtök á borð við „síðklassíska tímabilið“ yfir tímabilið frá um 500 til um 1500, til að forðast hugtakið „miðaldir“, sem tengist fyrst og fremst sögu Evrópu.[b] Áður hefur síðfornöld verið notað um tímabil í sögu Evrópu sem nær frá um 250 til 600.[c][d] Upphaf tímabilsins markast af hruni nokkurra stórvelda fornaldar, eins og Hanveldisins í Kína (220), Vestrómverska keisaradæmisins í Evrópu (476), Guptaveldisins á Indlandi (543) og Sassanída í Íran (651).

Frá 10. öld til 13. aldar stóð hlýskeið miðalda á norðurhveli jarðar, sem leiddi til fólksfjölgunar í Evrópu og Asíu.[237] Litla ísöldin fylgdi í kjölfarið og svarti dauði sem olli mikilli fólksfækkun. Á þessum tíma var byssupúður fundið upp í Kína og prentun breiddist út í Asíu.[238][239]

Síðklassíska tímabilið nær yfir landvinninga múslima, gullöld íslam og upphaf og útbreiðslu þrælaverslunar Araba. Á eftir fylgdu innrásir Mongóla og stofnun Tyrkjaveldis í Vestur-Asíu.[240] Þetta er tímabil indversku miðríkjanna fyrir stofnun íslömsku ríkjanna í Suður-Asíu.[241]

Í Vestur-Afríku risu Malíveldið og Songhaíveldið og auðguðust á Saharaversluninni.[242] Arabar stofnuðu borgir meðfram strönd Austur-Afríku þar sem verslun blómstraði með gull, perlur, krydd og þræla. Svahílí þróaðist vegna tengsla Afríku við verslun á Indlandshafi.[243]

Í Kína komu á þessum tíma upp Suiveldið, Tangveldið, Songveldið, Júanveldið og Mingveldið.[244] Verslunarleiðir um Indlandshaf og Silkivegurinn um Góbíeyðimörkina viðhéldu tengslum Austur- og Suðaustur-Asíu við Evrópu.[217] Á sama tíma náðu menningarríki í Norður-Ameríku, eins og Mississippimenningin,[245] Astekar,[246] Majar[247] og Inkar, hátindi sínum.[248]

Vestur- og Mið-Asía

[breyta | breyta frumkóða]
Ajloun-kastali, Jórdaníu.

Fyrir útbreiðslu íslam á 7. öld ríktu Austrómverska keisaradæmið og Sassanídar yfir Mið-Austurlöndum og tókust þar á um yfirráð yfir umdeildum landsvæðum.[249] Átökin voru jafnframt menningarleg, þar sem kristin menning Býsantíum, tókst á við sóríska menningu Persa.[250] Með uppgangi íslam kom nýr samkeppnisaðili til sögunnar, sem brátt varð voldugri en bæði keisaraveldin.[251]

Múhameð, stofnandi íslam, hóf landvinninga múslima á 7. öld.[252] Hann stofnaði nýtt sameinað ríki á Arabíuskaga sem stækkaði hratt undir stjórn Rasídúna og Úmajada. Þessir landvinningar náðu hámarki þegar yfirráð múslima náðu yfir þrjár heimsálfur (Asíu, Afríku og Evrópu) árið 750.[253] Á tímum Abbasída stóð gullöld íslam sem einkenndist af menntun, vísindum og tækniframförum, þar sem íslömsk heimspeki, íslömsk myndlist og íslamskar bókmenntir blómstruðu.[254][255] Íslamskir menntamenn varðveittu og þróuðu áfram þekkingu og tækni Grikkja og Persa,[256] lærðu pappírsframleiðslu af Kínverjum[257] og tóku upp tugakerfið frá Indlandi.[258] Á sama tíma gerðu þeir nýjar uppgötvanir á mörgum sviðum, eins og með algebru Al-Khwarizmis og heimspeki Avicenna.[259] Íslömsk siðmenning breiddist út með landvinningum og verslun.[260] Kaupmenn áttu þátt í að breiða út íslam í Kína, Indlandi, Suðaustur-Asíu og Afríku.[261]

Yfirráð Araba í Mið-Austurlöndum tóku enda um miðja 11. öld þegar Seljúkar, tyrkísk þjóð sem fluttist suður á bóginn frá Mið-Asíu, kom til skjalanna.[262] Vegna landvinninga Seljúka í Litlu-Asíu og Botnalöndum hófu Evrópubúar krossferðir gegn þeim. Krossferðirnar voru nokkrar skipulegar herfarir gerðar í þeim tilgangi að endurheimta landsvæði úr höndum múslima, sérstaklega Landið helga.[263] Á endanum mistókst ætlunarverkið, en krossferðirnar veiktu Austrómverska ríkið verulega, sérstaklega rán Konstantínópel árið 1204.[264] Snemma á 13. öld gerði nýr innrásarher, Mongólar, árásir á Mið-Austurlönd. Árásirnar bundu enda á gullöld íslam, en að lokum tóku Tyrkir við og stofnuðu Tyrkjaveldi þar sem Tyrkland er nú, um 1299.[265][266]

Stórmoskan í Kairouan, Túnis, stofnuð árið 670.

Steppuhirðingjar frá Mið-Asíu ógnuðu enn kyrrsetusamfélögum á síðklassíska tímabilinu, en stóðu líka frammi fyrir innrásum Araba og Kínverja.[267] Á tímum Sui-veldisins (581–618) stækkaði Kína og náði inn í Mið-Asíu.[268] Kínverjar mættu þar tyrkískum þjóðum sem voru þá orðnar ríkjandi í þeim heimshluta.[269][270] Í byrjun einkenndust samskiptin af samvinnu, en árið 630 hóf Tangveldið hernað gegn Tyrkjum með því að leggja undir sig hluta Ordoseyðimerkurinnar.[271] Á 8. öld barst íslam til svæðisins og varð brátt eina trú flestra íbúa, þótt búddatrú héldi enn stöðu sinni í austri.[272] Frá 9. öld til 13. aldar skiptist Mið-Asía milli nokkurra öflugra ríkja eins og Samanída,[273] Seljúka,[274] og Khwarazm-veldisins. Öll þessi ríki féllu undir stjórn Mongóla á 13. öld.[275] Árið 1370 náði tyrkísk-mongólski herforinginn Tímúr að leggja svæðið undir sig og stofna Tímúrveldið.[276] Þetta heimsveldi hrundi skömmu eftir lát Tímúrs,[277] en afkomendur hans héldu völdum á litlu kjarnasvæði í Mið-Asíu og Íran.[278] Þar átti Tímúrendurreisnin í myndlist og byggingarlist sér stað.[279]

Gotneska dómkirkjan Notre-Dame de Paris í Frakklandi.

Allt frá því á 4. öld hefur kristni leikið stórt hlutverk við að móta menningu, gildi og stofnanir vestrænnar siðmenningar.[280] Ármiðaldir í Evrópu einkenndust af fólksfækkun, dreifbýlisvæðingu og árásum barbara, sem allt hófst í síðfornöld.[281] Barbarar stofnuðu ný ríki þar sem Vestrómverska ríkið stóð áður.[282] Þrátt fyrir miklar samfélagslegar og stjórnarfarslegar breytingar, nýttu flest nýju konungsríkin sér stofnanir frá tímum Rómaveldis.[283] Kristni breiddist út um Vestur-Evrópu, og klausturlífi voru stofnuð.[284] Á 7. og 8. öld stofnuðu Frankar Karlungaveldið sem náði yfir megnið af Vestur-Evrópu.[285] Karlungaveldið stóð til 9. aldar þegar nýir innrásarherir Víkinga, Magýara og Araba, tóku að herja á það.[286] Á Karlungatímabilinu þróaðist nótnaskrift (neume) í kirkjum og varð grundvöllur nútímanótnaskriftar.[287] Garðaríki stækkaði frá höfuðstaðnum Kænugarði og varð stærsta Evrópuríkið seint á 10. öld. Árið 988 tók Valdimar gamli upp kristinn rétttrúnað sem ríkistrú.[288][289]

Lýstur upphafsstafur úr frönsku handriti frá 13. öld sem sýnir þrjár stéttir miðalda: klerka, riddara og bændur.

Hámiðaldir hófust eftir árþúsundaskiptin 1000. Á þeim tíma jókst íbúafjöldi Evrópu þar sem framfarir í samgöngutækni og landbúnaðarframleiðslu leiddu til aukinnar verslunar og uppskeru.[290] Komið var á lénskerfi sem hafði mikil áhrif á samfélagið. Landeigendur reistu herragarða, en bændur urðu leiguliðar sem bjuggu í þorpum og greiddu leigu og inntu af hendi vinnu fyrir landeigendur. Riddarar og annar lágaðall voru bundnir hærra settum aðalsmönnum með lénsskyldu þar sem þeir inntu af hendi herskyldu fyrir réttinn til að innheimta leigu af tilteknu landi.[291] Konungsríki urðu stærri og miðstýring jókst á ný, eftir valddreifingu sem fylgdi upplausn Karlungaveldisins.[292] Árið 1054 átti kirkjusundrungin sér stað, þar sem kristin kirkja klofnaði í vestræna kaþólska kirkju og austræna rétttrúnaðarkirkju, sem jafnframt fól í sér menningarlegan klofning í Vestur- og Austur-Evrópu.[293] Krossferðirnar, herfarir kristinna manna til að vinna Landið helga af múslimum, leiddu til stofnunar nokkurra Krossfararíkja í Mið-Austurlöndum.[294] Ítalskir kaupmenn fluttu inn þræla til að starfa við heimilisstörf eða við sykurvinnslu.[295] Skólaspeki var ríkjandi stefna í heimspeki og háskólar voru stofnaðir. Bygging dómkirkja í gotneskum stíl er eitt af því sem helst einkennir byggingarlist þessa tímabils í Evrópu.[296] Á miðöldum hófst þéttbýlisvæðing í Norður- og Vestur-Evrópu, sem hélt áfram til upphafs árnýaldar á 16. öld.[297]

Innrásir Mongóla í Evrópu hófust árið 1236. Mongólar lögðu Garðaríki undir sig og réðust stuttlega inn í Pólland og Ungverjaland.[298] Stórhertogadæmið Litáen gerðist bandamaður Mongóla, en hélt sjálfstæði sínu og myndaði konungssamband við Pólland seint á 14. öld.[299] Síðmiðaldir einkenndust af erfiðleikum og áföllum.[300] Farsóttir og stríð urðu til þess að íbúafjöldi Vestur-Evrópu hrundi.[301] Talið er að svartidauði einn og sér hafi leitt til dauða 75 til 200 milljóna á aðeins þremur árum, frá 1347 til 1350.[302][303] Svartidauði var ein af mannskæðustu farsóttum mannkynssögunnar. Hann hófst í Asíu og náði Miðjarðarhafi og Vestur-Evrópu seint á 5. áratug 14. aldar.[304] Þar olli hann dauða tugmilljóna á sex árum. Talið er að fjórðungur til þriðjungur íbúafjöldans hafi dáið úr farsóttinni.[305]

Á 7. öld hvarf Austrómverska veldið frá Norður-Afríku og Berbaríkin féllu í hendur múslima.[306] Frá 10. öld féllu lönd Araba í Afríku undir kalífadæmi Fatímída sem ríktu frá Egyptalandi. Á 12. öld tóku Ajúbídar við og enn síðar Mamlúkaveldið á 13. öld.[307] Í Magreb og Vestur-Sahara ríktu Almoravídar frá 11. öld[308] þar til Almóhadar lögðu svæðið undir sig á 12. öld.[309] Þegar veldi Almóhada hrundi tóku Marínídar við í Marokkó, konungsríkið Tlemcen í Alsír og Hafsídar í Túnis.[310] Í Núbíu tóku kristnu ríkin Makúría, Alodía og Nobatía við af fornaldarríkinu Kús. Á 7. öld lagði Makúría Nobatíu undir sig og varð ríkjandi á svæðinu. Ríkið stóð af sér innrás múslima.[311] Síðar tók ríkinu að hnigna og við tók borgarastríð og fólksflutningar Araba til Súdan. Á 15. öld hafði ríkið leyst upp, en Soldánsdæmið Funj tók við.[312]

Ein af ellefu klettakirkjum sem gerðar voru í tíð Zagwe-ættar í Eþíópíu.

Við Horn Afríku breiddist íslam út meðal Sómala, meðan konungsríkinu Aksúm hnignaði frá 7. öld eftir að múslimar lögðu verslun á Rauðahafi undir sig. Aksúm féll á 10. öld.[313] Á 12. öld komst Zagwe-ætt til valda og tókst á við Soldánsdæmið Shewa og Konungsríkið Damot.[314]: 423, 431  Á 13. öld varpaði Salómonsætt Zagwe-ætt af stóli og Shewa vék fyrir Walashma-ætt og Soldánsdæminu Ifat.[315]: 123–134, 140  Eþíópía sigraði Ifat og lagði múslimaríkin undir sig.[316]: 143  Soldánsdæmið Ajuran kom upp á austurströnd Horns Afríku og lagði undir sig verslun á Indlandshafi.[317] Soldánsdæmið Adal tók við af Ifat og lagði undir sig mikið af löndum múslima.[316]: 149 

Í Vestur-Afríku myndaðist Ganaveldið á 3. öld, en frá 7. öld ríkti Gaóveldið austan við það.[318][319] Eftir að Almóravídar lögðu undir sig höfuðborgina Aoudaghost snerist Gana til íslam á 11. öld.[320] Innrásir Almóravída og loftslagsbreytingar leiddu til þess að Sosso-veldið lagði Ganaveldið undir sig á 13. öld.[321] Skömmu síðar lagði Malíveldið Sosso undir sig og auðgaðist á Saharaversluninni.[322] Mossi-ríkin voru stofnuð sunnan við það.[323] Í austri ríkti Kanem-Bornúveldið frá 6. öld og teygði áhrif sín yfir Hausa-ríkin.[324][325] Á 15. öld hrundi Malíveldið og Songhaíveldið með höfuðborg í Gao varð ráðandi á svæðinu.[326]

Bronsmynd frá Benín í Nígeríu.

Mörg konungsríki og keisaradæmi blómstruðu við strönd Vestur-Afríku, eins og ríki Jórúba, Ife-veldið og Oyo-veldið,[327] ríki Igbóa Konungsríkið Nri,[328] ríki Edóa Benínveldið (þekkt fyrir fagrar bronsmyndir),[329] ríki Dagomba konungsríkið Dagbon,[330] og ríki Akana Bonoman.[331] Þessi ríki komust í samband við Portúgala á 15. öld sem markar upphaf þríhyrningsverslunarinnar með þræla á Atlantshafi.

Í árdal Kongófljóts voru þrjú stór ríkjabandalög ráðandi á 13. öld: Sjö ríki Kongo dia Nlaza, Mpemba og eitt undir forræði Vungu.[332]: 24–25  Á 14. öld varð Konungsríkið Kongó ríkjandi á svæðinu.[332] Austan við það var Lubaveldið stofnað í Upembalægðinni á 15. öld.[333] Norðan við Stóru vötnin kom Kitaraveldið upp á 11. öld. Það er þekkt fyrir algjöran skort á ritheimildum. Það hrundi á 15. öld eftir að Lúóar hófu að flytjast til svæðisins.[334]

Á Svahílíströndinni blómstruðu borgríki sem lifðu af Indlandshafsversluninni. Þau tóku smám saman upp íslamstrú og þar kom Soldánsdæmið Kilwa upp á 10. öld.[335][336] Ástrónesar settust að á Madagaskar frá 5. öld til 7. aldar og byggðu samfélög sín á hugmyndinni um hasina.[337]: 43, 52–53  Í árdal Sambesífljóts var Konungsríkið Mapungubwe stofnað á 11. öld. Konungsríkið Simbabve tók við af því á 13. öld og síðan Mútapaveldið á 15. öld.[338]

Suður-Asía

[breyta | breyta frumkóða]
Chennakeshava-hofið, Belur í Karnataka.

Eftir fall Guptaveldisins árið 550, skiptist Norður-Indland milli nokkurra minni ríkja.[339] Fyrstu innrásir múslima á Indlandsskaga enduðu með því að Umayya-kalífadæmið lagði undir sig mest af því svæði sem í dag er Pakistan.[253] Framsókn Araba stöðvaðist þar, en íslam breiddist út með arabískum kaupmönnum meðfram vesturströnd Indlands.[243] Á 9. öld hófust átök um stjórn Norður-Indlands milli Gurjara-Pratihara-ættar, Palaveldisins og Rashtrakuta-ættar.[340]

Síðklassísk konungsveldi á Suður-Indlandi töldu meðal annars Chalukya-ætt, Hoysala-veldið og Chola-veldið.[341] Bókmenntir, byggingarlist, höggmyndalist og málaralist blómstruðu við hirðir konunganna.[342] Meðal annarra ríkja sem komu fram á Suður-Indlandi á þessum tíma voru Bahmani-soldánsdæmið og Vijayanagara-veldið.[343]

Afkomendur Lapítamenningarinnar, Pólýnesar, námu land á stórum hluta Fjarlægu Eyjaálfu frá um 1000.[344] Þeir sigldu á tvíbytnum sem voru allt að 37 metrar á lengd og báru allt að 50 manns auk búsmala.[345] Þeir settust að á hundruðum eyja, eins og Markgreifaeyjum, Hawaii, Páskaeyju og Nýja-Sjálandi.[346]

Tu'i Tonga-veldið var stofnað á 10. öld og hóf útþenslu eftir 1250.[347] Tongversk menning, tungumál og yfirráð breiddust út um austurhluta Melanesíu, Míkrónesíu og miðhluta Pólýnesíu á þessum tíma.[348] Hún hafði áhrif á 'Uvea, Rotuma, Fútúna, Samóaeyjar, og Niue, auk einstakra eyja og hluta af Míkrónesíu, Vanúatú og Nýju-Kaledóníu.[349] Vísbendingar eru um verslun milli Makassara og frumbyggja í Norður-Ástralíu fyrir komu Evrópubúa.[350] Samfélög frumbyggja Ástralíu byggðust á áunnum stöðum, meðan samfélög Pólýnesa voru höfðingjadæmi sem gengu í arf.[351]

Austur-Asía

[breyta | breyta frumkóða]

Eftir sundrungartímabil var Kína sameinað á ný undir Sui-veldinu árið 589.[352] Þegar Tangveldið (618–907) tók við hófst gullöld sem einkenndist af pólitískum stöðugleika og efnahagsuppgangi, þar sem bókmenntir og listir blómstruðu. Frá þeim tíma eru Tangljóðin eftir Li Bai og Du Fu.[353][354] Sui-veldið og Tangveldið komu á keisaralegum prófum þar sem stjórnunarstöður voru veittar mönnum sem stóðust erfitt próf í konfúsískri hugsun og klassískum kínverskum bókmenntum.[355][356] Kína átti í samkeppni við Tíbetveldið (618-842) um yfirráð yfir svæðum í Innri-Asíu.[357] Tangveldið klofnaði að lokum og við tók tími fimm konungsætta og tíu konungsríkja sem stóð í hálfa öld þar til Songveldið sameinaði stóran hluta landsins á ný.[358] Þrýstingur frá hirðingjum í norðri fór vaxandi.[359] Um 1127 var Norður-Kína undir stjórn Jurchena eftir Jin-Song-stríðin og Mongólar lögðu síðan allt Kína undir sig árið 1279.[360] Eftir um eina öld af yfirráðum Mongóla tóku Kínverjar aftur völdin þegar Mingveldið var stofnað árið 1368.[359]

Orrusta í innrás Mongóla í Japan árið 1281.

Keisaraveldi Japan var komið á á 3. öld og miðstýrt ríki þróaðist á Yamato-tímabilinu (um 300-710).[361] Búddatrú barst til landsins þar sem áherslan var á að taka upp kínverska menningu og konfúsíusisma.[362] Á Naratímabilinu (710-794) komu fram sérstakar japanskar bókmenntir auk myndlistar og byggingarlistar sem kennd eru við Nara.[363][364] Á Heian-tímabilinu (794–1185) náði keisaraveldið hátindi sínum, en í kjölfarið risu aðalsættir sem héldu einkaheri og samúræja.[365] Á Heian-tímabilinu skrifaði Murasaki Shikibu Sögu Genji sem er stundum talin fyrsta skáldsaga heims.[366] Frá 1185 til 1868 ríktu öflugir héraðshöfðingjar (daimyo) og herstjórar (sjógun) eins og Ashikaga-veldið og Tokugawa-veldið.[367][368] Á þessum tíma voru raunveruleg völd keisarans nær engin.[369] Kaupmenn efldust á sama tíma.[370] Á þessum tíma kom fram listastefnan ukiyo-e með prentmyndum úr viði sem upphaflega voru af frægum hirðmeyjum.[371]

Saga Kóreu á síðklassíska tímabilinu einkennist af endalokum þriggja konungsríkja Kóreu, þar sem ríkin Goguryeo, Baekje og Silla börðust um yfirráð.[372] Þessu tímabili lauk þegar Silla lagði Baekje undir sig árið 660 og sigraði Goguryeo árið 668.[373] Þetta markar upphaf tímabils norðurríkja og suðurríkja, með sameinað Silla í suðri og Balhae (arftaka Goguryeo) í norðri.[374] Árið 892 hófst tími síðari konungsríkjanna þriggja þar sem Goryeo kom fram sem öflugasta ríkið og sameinaði allan skagann undir sinni stjórn árið 936.[375] Konungsættin Goryeo ríkti til 1392, en þar á eftir tók við Jóseonætt[376] sem ríkti yfir skaganum næstu 500 ár.[377]

Í Mongólíu sameinaði Genghis Khan hina ýmsu mongólsku og tyrkísku ættflokka undir einu merki árið 1206.[378][379] Mongólaveldið stækkaði þar til það náði yfir allt Kína og Mið-Asíu, auk stórra hluta Rússlands og Mið-Austurlanda. Það varð stærsta samfellda heimsveldi sögunnar.[380] Eftir lát Möngke Khan árið 1259[381] skiptist Mongólaveldið í fjögur ríki: Júanveldið í Kína, Chagatai-kanatið í Mið-Asíu, Gullnu horduna í Austur-Evrópu og Rússlandi, og Ilkanatið í Íran.[382][383]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Jungers 1988, bls. 227–231
  2. Bulliet et al. 2015a, bls. 1
  3. Christian 2011, bls. 150
  4. Dunbar 2016, bls. 8
  5. Wragg-Sykes 2016, bls. 183–184
  6. Dunbar 2016, bls. 8, 10
  7. Lewton 2017, bls. 117
  8. Harmand 2015, bls. 310–315
  9. McPherron et al. 2010, bls. 857–860
  10. Domínguez-Rodrigo & Alcalá 2016, bls. 46–53
  11. de la Torre 2019, bls. 11567–11569
  12. Stutz 2018, bls. 1–9
  13. Strait 2010, bls. 341
  14. Villmoare et al. 2015, bls. 1352–1355
  15. Spoor et al. 2015, bls. 83–86
  16. Bulliet et al. 2015a, bls. 5
  17. Herries et al. 2020
  18. Dunbar 2016, bls. 10
  19. Gowlett 2016, bls. 20150164
  20. Christian 2015, bls. 11
  21. Christian 2015, bls. 400n
  22. Dunbar 2016, bls. 11
  23. Hammer 2013, bls. 66–71
  24. Yong 2011, bls. 34–38
  25. Ackermann, Mackay & Arnold 2015, bls. 1–11
  26. Reich et al. 2010, bls. 1053–1060
  27. Abi-Rached et al. 2011, bls. 89–94
  28. Hublin et al. 2017, bls. 289–292
  29. Fagan & Durrani 2021, 3. Enter Homo Sapiens (c. 300,000 Years Ago and Later)
  30. Coolidge & Wynn 2018, bls. 5
  31. Christian 2015, bls. 319
  32. Christian 2015, bls. 319–320, 330, 354
  33. Christian 2015, bls. 344–346
  34. McNeill & McNeill 2003, bls. 17–18
  35. Christian 2015, bls. 357–358, 409
  36. Morley 2013, bls. 42–43
  37. Svard 2023, bls. 23
  38. Christian 2015, bls. 22
  39. Weber et al. 2020, bls. 29–39
  40. Christian 2015, bls. 283
  41. O'Connell et al. 2018, bls. 8482–8490
  42. Posth et al. 2016, bls. 827–833
  43. Clarkson et al. 2017, bls. 306–310
  44. Christian 2015, bls. 283
  45. Bennett 2021, bls. 1528–1531
  46. Christian 2015, bls. 316
  47. Pollack 2010, bls. 93
  48. Christian 2015, bls. 400
  49. Christian 2015, bls. 321, 406, 440–441
  50. Koch & Barnosky 2006, bls. 215–250
  51. Christian 2015, bls. 406
  52. Lewin 2009, bls. 247
  53. Stephens et al. 2019, bls. 897–902
  54. Larson et al. 2014, bls. 6139–6146
  55. McNeill 1999, bls. 11
  56. Barker & Goucher 2015, bls. 325, 336
  57. Barker & Goucher 2015, bls. 323
  58. Bulliet et al. 2015a, bls. 21
  59. Barker & Goucher 2015, bls. 265
  60. Barker & Goucher 2015, bls. 518
  61. Barker & Goucher 2015, bls. 85
  62. Bulliet et al. 2015a, bls. 202
  63. Adovasio, Soffer & Page 2007, bls. 243, 257
  64. Graeber & Wengrow 2021
  65. Barker & Goucher 2015, bls. 218
  66. Barker & Goucher 2015, bls. 95
  67. Barker & Goucher 2015, bls. 216–218
  68. Roberts & Westad 2013, bls. 34–35
  69. Lewin 2009, bls. 247
  70. Yoffee 2015, bls. 313, 391
  71. Barker & Goucher 2015, bls. 193
  72. Yoffee 2015, bls. 313–316
  73. McNeill 1999, bls. 13
  74. Rael 2009, bls. 113
  75. Ganivet 2019, bls. 25
  76. Barker & Goucher 2015, bls. 161–162, 172–173
  77. Bulliet et al. 2015a, bls. 99
  78. Bulliet et al. 2015a, bls. 19
  79. Kinzel & Clare 2020, bls. 32–33
  80. Barker & Goucher 2015, bls. 224
  81. Bulliet et al. 2015a, bls. 21
  82. Bulliet et al. 2015a, bls. 21
  83. Radivojevic et al. 2013, bls. 1030–1045
  84. Headrick 2009, bls. 30–31
  85. McClellan & Dorn 2006, bls. 41
  86. Roberts & Westad 2013, bls. 46
  87. Stearns & Langer 2001, bls. 21
  88. Roberts & Westad 2013, bls. 53
  89. Bard 2000, bls. 63
  90. Roberts & Westad 2013, bls. 70
  91. 91,0 91,1 Benjamin 2015, bls. 563
  92. Graeber & Wengrow 2021, bls. 314
  93. Chakrabarti 2004, bls. 10–13
  94. Allchin & Allchin 1997, bls. 153–168
  95. Ropp 2010, bls. 2
  96. Bulliet et al. 2015a, bls. 23
  97. Headrick 2009, bls. 32
  98. Roberts & Westad 2013, bls. 59
  99. 99,0 99,1 Bulliet et al. 2015a, bls. 35
  100. Roberts & Westad 2013, bls. 91
  101. 101,0 101,1 McNeill 1999, bls. 16
  102. McNeill 1999, bls. 18
  103. Johnston 2004, bls. 13, 19
  104. Roberts & Westad 2013, bls. 43–46
  105. Yoffee 2015, bls. 118
  106. Regulski 2016
  107. Wengrow 2011, bls. 99–103, The Invention of Writing in Egypt
  108. Boltz 1996, bls. 191, Early Chinese Writing
  109. Fagan & Beck 1996, bls. 762
  110. Roberts & Westad 2013, bls. 53–54
  111. Tignor et al. 2014, bls. 49, 52
  112. Robinson 2009, bls. 38
  113. Bulliet et al. 2015a, bls. 80
  114. Yoffee 2015, bls. 136
  115. Abulafia 2011, bls. xvii, passim
  116. Benjamin 2015, bls. 89
  117. Bulliet et al. 2015a, bls. 35
  118. Christian 2011, bls. 256
  119. Tignor et al. 2014, bls. 48–49
  120. Headrick 2009, bls. 31
  121. Graeber & Wengrow 2021, bls. 362
  122. Bard 2000, bls. 57–64
  123. Yoffee 2015, bls. 320
  124. Bulliet et al. 2015a, bls. 46
  125. Yoffee 2015, bls. 257
  126. McNeill 1999, bls. 36–37
  127. Bulliet et al. 2015a, bls. 56
  128. McNeill 1999, bls. 46–47
  129. Price & Thonemann 2010, bls. 25
  130. Benjamin 2015, bls. 331
  131. Roberts & Westad 2013, bls. 116–122
  132. Singh 2008, bls. 260–264
  133. Benjamin 2015, bls. 646–647
  134. Benjamin 2015, bls. 648
  135. Benjamin 2015, bls. 617
  136. Benjamin 2015, bls. 562
  137. Shady Solis, Haas & Creamer 2001, bls. 723–726
  138. Benjamin 2015, bls. 564
  139. Graeber & Wengrow 2021, bls. 389
  140. Benjamin 2015, bls. 565
  141. Nichols & Pool 2012, bls. 118
  142. Brown 2007, bls. 150
  143. Brown 2007, bls. 150–153
  144. Benjamin 2015, bls. 539–540
  145. Benjamin 2015, bls. 540–541
  146. Benjamin 2015, bls. 101
  147. Baumard, Hyafil & Boyer 2015, bls. e1046657
  148. McNeill & McNeill 2003, bls. 67
  149. Kedar & Wiesner-Hanks 2015, bls. 665
  150. Benjamin 2015, bls. 115
  151. Benjamin 2015, bls. 304
  152. McNeill & McNeill 2003, bls. 73–74
  153. Short 1987, bls. 10
  154. Dunn 1994
  155. Benjamin 2015, bls. 9
  156. Benjamin 2015, bls. 439
  157. Bulliet et al. 2015a, bls. 314
  158. Paine 2011, bls. 273
  159. Kedar & Wiesner-Hanks 2015, bls. 453, 456
  160. Kedar & Wiesner-Hanks 2015, bls. 467–475
  161. Stearns & Langer 2001, bls. 63
  162. Stearns & Langer 2001, bls. 70–71
  163. Bulliet et al. 2015a, bls. 63
  164. Burbank 2010, bls. 56
  165. Bulliet et al. 2015a, bls. 229, 233
  166. Benjamin 2015, bls. 238, 276–277
  167. Roberts & Westad 2013, bls. 110
  168. Benjamin 2015, bls. 279
  169. Benjamin 2015, bls. 286
  170. Bulliet et al. 2015a, bls. 248
  171. Bulliet et al. 2015a, bls. 248
  172. Strauss 2005, bls. 1–11
  173. Dynneson 2008, bls. 54
  174. Goldhill 1997, bls. 54
  175. Martin 2000, bls. 106–107
  176. Benjamin 2015, bls. 353
  177. Tignor et al. 2014, bls. 203
  178. Burstein 2017, bls. 57–58
  179. Benjamin 2015, bls. 283–284
  180. Hemingway & Hemingway 2007
  181. Benjamin 2015, bls. 337–338
  182. Kelly 2007, bls. 4–6
  183. Bulliet et al. 2015a, bls. 149, 152–153
  184. Beard 2015, bls. 483
  185. McEvedy 1961
  186. Williams & Friell 2005, bls. 105
  187. Kulke & Rothermund 1990, bls. 61, 71
  188. Benjamin 2015, bls. 488–489
  189. Benjamin 2015, bls. 502–505
  190. Benjamin 2015, bls. 503–505
  191. Bulliet et al. 2015a, bls. 187
  192. Benjamin 2015, bls. 416
  193. Bulliet et al. 2015a, bls. 160
  194. Benjamin 2015, bls. 415
  195. Benjamin 2015, bls. 417
  196. Benjamin 2015, bls. 417
  197. Bulliet et al. 2015a, bls. 160
  198. Bulliet et al. 2015a, bls. 143
  199. Gernet 1996, bls. 119, 121, 126, 130
  200. Bulliet et al. 2015a, bls. 165, 169
  201. Gernet 1996, bls. 138
  202. Merrill & McElhinny 1983, bls. 1
  203. Seow 2022, bls. 351
  204. Bulliet et al. 2015a, bls. 92
  205. Bulliet et al. 2015a, bls. 94–95
  206. Benjamin 2015, bls. 651–652
  207. Iliffe 2007, bls. 41
  208. Fagan 2005, bls. 390, 396
  209. Flannery & Marcus 1996, bls. 146
  210. Whitecotton 1977, bls. 26, LI.1–3
  211. Coe 2011, bls. 91
  212. Benjamin 2015, bls. 560
  213. Benjamin 2015, bls. 557–558
  214. Bulliet et al. 2015a, bls. 208
  215. Benjamin 2015, bls. 555
  216. Bulliet et al. 2015a, bls. 204
  217. 217,0 217,1 Benjamin 2015, bls. 122
  218. Benjamin 2015, bls. 134
  219. Kosso & Scott 2009, bls. 51
  220. Benjamin 2015, bls. 133
  221. Benjamin 2015, bls. 142–143
  222. Headrick 2009, bls. 59
  223. Benjamin 2015, bls. 145
  224. Benjamin 2015, bls. 136
  225. Deming 2014, bls. 174
  226. Benjamin 2015, bls. 80
  227. Benjamin 2015, bls. 79–80
  228. Kent 2020, bls. 6
  229. 229,0 229,1 Bulliet et al. 2015a, bls. 170–172
  230. Bulliet et al. 2015a, bls. 158, 170
  231. Benjamin 2015, bls. 10
  232. Benjamin 2015, bls. 248, 264
  233. 233,0 233,1 Benjamin 2015, bls. 14
  234. Kedar & Wiesner-Hanks 2015, bls. 562, 583
  235. Kedar & Wiesner-Hanks 2015, bls. 513
  236. Bulliet et al. 2015a, bls. 165
  237. Kedar & Wiesner-Hanks 2015, bls. 334
  238. Kedar & Wiesner-Hanks 2015, bls. 317
  239. Ackermann et al. 2008b, bls. xxiv
  240. Shaw 1976, bls. 13
  241. Kedar & Wiesner-Hanks 2015, bls. 215
  242. Bulliet et al. 2015a, bls. 379, 393
  243. 243,0 243,1 Kedar & Wiesner-Hanks 2015, bls. 393
  244. Bulliet et al. 2015a, bls. 297, 336, 339
  245. Bulliet et al. 2015a, bls. 214
  246. Bulliet et al. 2015a, bls. 395
  247. Bulliet et al. 2015a, bls. 205
  248. Bulliet et al. 2015a, bls. 397
  249. Hourani 1991, bls. 5, 11
  250. Bulliet et al. 2015a, bls. 249–250
  251. Kedar & Wiesner-Hanks 2015, bls. 385
  252. Kedar & Wiesner-Hanks 2015, bls. 387–389
  253. 253,0 253,1 Bulliet et al. 2015a, bls. 255
  254. Benjamin 2015, bls. 295
  255. Mirsepassi & Fernée 2014, bls. 182
  256. Benjamin 2015, bls. 295
  257. Kedar & Wiesner-Hanks 2015, bls. 26
  258. Benjamin 2015, bls. 149
  259. Tiliouine, Renima & Estes 2016, bls. 37, 41
  260. Kedar & Wiesner-Hanks 2015, bls. 156–157, 393
  261. Kedar & Wiesner-Hanks 2015, bls. 393–394
  262. Kedar & Wiesner-Hanks 2015, bls. 373–374
  263. Bulliet et al. 2015a, bls. 292–93
  264. Kedar & Wiesner-Hanks 2015, bls. 162, 579
  265. Shaw 1976, bls. 13
  266. Kuran 2023, bls. 11
  267. Kedar & Wiesner-Hanks 2015, bls. 365–366, 401, 516
  268. Bulliet et al. 2015a, bls. 297–298
  269. Ebrey, Walthall & Palais 2006, bls. 113
  270. Xue 1992, bls. 149–152, 257–264
  271. Xue 1992, bls. 226–227
  272. Pillalamarri 2017
  273. Tor 2009, bls. 279–299
  274. Ṭabīb et al. 2001, bls. 3–4
  275. Kedar & Wiesner-Hanks 2015, bls. 371
  276. Kedar & Wiesner-Hanks 2015, bls. 247–248
  277. Kedar & Wiesner-Hanks 2015, bls. 248
  278. Bentley, Subrahmanyam & Wiesner-Hanks 2015a, bls. 354
  279. Bentley, Subrahmanyam & Wiesner-Hanks 2015a, bls. 355
  280. McNeill 2010, bls. 204
  281. Brown 2007, bls. 128, 136
  282. Benjamin 2015, bls. 384–385
  283. Kedar & Wiesner-Hanks 2015, bls. 158
  284. Bulliet et al. 2015a, bls. 282, 285
  285. Deanesly 2019, bls. 339–355, The Carolingian Conquests
  286. Kedar & Wiesner-Hanks 2015, bls. 159
  287. McNeill & Pomeranz 2015b, bls. 205
  288. Bulliet et al. 2011, bls. 250
  289. Brown, Anatolios & Palmer 2009, bls. 66
  290. Bulliet et al. 2015a, bls. 289
  291. Bulliet et al. 2015a, bls. 280–281
  292. Kedar & Wiesner-Hanks 2015, bls. 496–497
  293. Bideleux & Jeffries 1998, bls. 48
  294. Bulliet et al. 2015a, bls. 293
  295. Phillips 2017, bls. 665–698
  296. McNeill & McNeill 2003, bls. 146
  297. Bentley & Ziegler 2008, bls. 595
  298. Bulliet et al. 2015a, bls. 324
  299. Bulliet et al. 2015a, bls. 335
  300. Kedar & Wiesner-Hanks 2015, bls. 246–248
  301. Aberth 2001
  302. Dunham 2008
  303. BBC 2001
  304. Bentley, Subrahmanyam & Wiesner-Hanks 2015a, bls. 60
  305. McNeill & McNeill 2003, bls. 120
  306. Mones, H. (1988). „The conquest of North Africa and the Berber resistance“. General History of Africa: Volume 3. UNESCO Publishing.
  307. Hrbek, Ivan (1988). „The emergence of the Fatimids“. General History of Africa: Volume 3. UNESCO Publishing.
  308. Hrbek, Ivan; Devisse, Jean (1988). „The Almovarids“. General History of Africa: Volume 3. UNESCO Publishing.
  309. Saidi, O. (1984). „The unification of the Maghreb under the Alhomads“. General History of Africa: Volume 4. UNESCO Publishing.
  310. Hrbek, Ivan (1984). „The disintegration of the political unity of the Maghreb“. General History of Africa: Volume 4. UNESCO Publishing.
  311. Jakobielski, Stefan (1988). „Christian Nubia at the height of its civilization“. General History of Africa: Volume 3. UNESCO Publishing.
  312. Kropacek, Lubos (1984). „Nubia from the late 12th century to the Funj conquest in the early 15th century“. General History of Africa: Volume 4. UNESCO Publishing.
  313. Mekouria, Tekle-Tsadik (1988). „The Horn of Africa“. General History of Africa: Volume 3. UNESCO Publishing.
  314. Tadesse, Tamrat (1984). „The Horn of Africa: The Solomonids in Ethiopia and the states of the Horn of Africa“. General History of Africa: Volume 4. UNESCO Publishing.
  315. Tamrat, Taddesse (1977), Oliver, Roland (ritstjóri), „Ethiopia, the Red Sea and the Horn“, The Cambridge History of Africa: Volume 3: From c.1050 to c.1600, The Cambridge History of Africa, Cambridge: Cambridge University Press, 3. árgangur, bls. 98–182, ISBN 978-0-521-20981-6, sótt 3. september 2024
  316. 316,0 316,1 Tamrat, Taddesse (1977), Oliver, Roland (ritstjóri), „Ethiopia, the Red Sea and the Horn“, The Cambridge History of Africa: Volume 3: From c.1050 to c.1600, The Cambridge History of Africa, Cambridge: Cambridge University Press, 3. árgangur, bls. 98–182, ISBN 978-0-521-20981-6, sótt 3. september 2024
  317. Dalziel, Nigel; MacKenzie, John M, ritstjórar (11. janúar 2016). The Encyclopedia of Empire (enska) (1. útgáfa). Wiley. doi:10.1002/9781118455074.wbeoe146. ISBN 978-1-118-44064-3.
  318. Gestrich, Nikolas (26. mars 2019), „The Empire of Ghana“, Oxford Research Encyclopedia of African History (enska), doi:10.1093/acrefore/9780190277734.013.396, ISBN 978-0-19-027773-4, sótt 6. október 2024
  319. Dalziel, Nigel; MacKenzie, John M, ritstjórar (11. janúar 2016). „Gao Empire“. The Encyclopedia of Empire (enska) (1. útgáfa). Wiley. bls. 1–3. doi:10.1002/9781118455074.wbeoe312. ISBN 978-1-118-44064-3.
  320. Conrad, David; Fisher, Humphrey (1983). „The Conquest That Never Was: Ghana and the Almoravids, 1076. I. The External Arabic Sources“. History in Africa. 10. doi:10.2307/3171690. JSTOR 3171690.
  321. McIntosh, Susan (2008). „Reconceptualizing Early Ghana“. Canadian Journal of African Studies. Taylor and Francis. 43 (2): 347–373. JSTOR 40380172.
  322. Niane, Djibril (1984). „Mali and the second Mandingo expansion“. General History of Africa. UNESCO Publishing.
  323. Dalziel, Nigel; MacKenzie, John M, ritstjórar (11. janúar 2016). „Mossi Empire“. The Encyclopedia of Empire (enska) (1. útgáfa). Wiley. bls. 1–2. doi:10.1002/9781118455074.wbeoe127. ISBN 978-1-118-44064-3.
  324. Dalziel, Nigel; MacKenzie, John M, ritstjórar (11. janúar 2016). „Kanem-Bornu Empire“. The Encyclopedia of Empire (enska) (1. útgáfa). Wiley. bls. 1–6. doi:10.1002/9781118455074.wbeoe014. ISBN 978-1-118-44064-3.
  325. Mahdi, Adamu (1984). „The Hausa and their neighbours in central Sudan“. General History of Africa: Volume 4. UNESCO Publishing.
  326. Ly-Tall, Madina (1984). „The decline of the Mali empire“. General History of Africa: Volume 4. UNESCO Publishing.
  327. Akintoye, Stephen Adebanji (1. janúar 2010). A History of the Yoruba People (enska). Amalion Publishing. ISBN 978-2-35926-027-4.
  328. M. Angulu Onwuejeogwu (1980). An Igbo Civilization: Nri Kingdom and Hegemony.
  329. Dalziel, Nigel; MacKenzie, John M, ritstjórar (11. janúar 2016). „Benin (Edo city-state)“. The Encyclopedia of Empire (enska) (1. útgáfa). Wiley. bls. 1–6. doi:10.1002/9781118455074.wbeoe124. ISBN 978-1-118-44064-3.
  330. „Dagbon History: Kings, Towns, and Cultural Legacy“ (bandarísk enska). 25. mars 2024. Sótt 6. október 2024.
  331. Hargrove, Jarvis (17. júlí 2024), „Early Asante, Akan, and Mossi States“, Oxford Research Encyclopedia of African History (enska), doi:10.1093/acrefore/9780190277734.001.0001/acrefore-9780190277734-e-1354#acrefore-9780190277734-e-1354-div1-2 (óvirkt 5 November 2024), ISBN 978-0-19-027773-4, sótt 6. október 2024
  332. 332,0 332,1 Thornton, John K., ritstjóri (2020), „The Development of States in West Central Africa to 1540“, A History of West Central Africa to 1850, New Approaches to African History, Cambridge: Cambridge University Press, bls. 16–55, ISBN 978-1-107-56593-7, sótt 21. september 2024
  333. Vansina, Jan (1984). „Equatorial Africa and Angola: Migrations and the emergence of the first states“. General History of Africa: Volume 4. UNESCO Publishing.
  334. Buchanan, Carole Ann (1974). The Kitara Complex: The Historical Tradition of Western Uganda to the 16th Century (enska). Indiana University.
  335. Masao, Fidelis (1988). „The East African coast and the Comoro Islands“. General History of Africa: Volume 3. UNESCO Publishing.
  336. Matveiev, Victor (1984). „The development of Swahili civilization“. General History of Africa: Volume 4. UNESCO Publishing.
  337. Randrianja, Solofo (2009). „Transforming the island (1100-1599)“. Madagascar: A short history. University of Chicago Press.
  338. Fagan, Brian (1984). „The Zambezi and Limpopo basins: 1100–1500“. General History of Africa: Volume 4. UNESCO Publishing.
  339. Bulliet et al. 2015a, bls. 189–90
  340. Keay 2000, bls. 192
  341. Keay 2000, bls. 168, 214–15, 251
  342. Keay 2000, bls. 169, 213, 215
  343. Kedar & Wiesner-Hanks 2015, bls. 169
  344. Benjamin 2015, bls. 621–22
  345. Bulliet et al. 2015a, bls. 406–07
  346. Benjamin 2015, bls. 622
  347. Burley 1998, bls. 368–9, 375
  348. Kirch & Green 2001, bls. 87
  349. Geraghty 1994, bls. 236–239, Linguistic Evidence for the Tongan Empire
  350. MacKnight 1986, bls. 69–75
  351. McNiven 2017, bls. 603–604, 629
  352. Benjamin 2015, bls. 426
  353. Ning 2023, bls. 203–204
  354. Lewis 2009, bls. 1
  355. Benjamin 2015, bls. 453
  356. Kedar & Wiesner-Hanks 2015, bls. 118
  357. Whitfield 2004, bls. 193
  358. Lorge 2015, bls. 4–5
  359. 359,0 359,1 Kedar & Wiesner-Hanks 2015, bls. 532
  360. Kedar & Wiesner-Hanks 2015, bls. 528, 534
  361. Henshall 1999, bls. 11–12
  362. Benjamin 2015, bls. 426, 428–430, 454–5
  363. Totman 2002, bls. 64–79
  364. Henshall 2012, bls. 24–52
  365. Bulliet et al. 2015a, bls. 316–317
  366. Huffman 2010, bls. 29, 35
  367. Bulliet et al. 2015a, bls. 346–347
  368. Kedar & Wiesner-Hanks 2015, bls. 485
  369. Bulliet et al. 2015b, bls. 720
  370. Kedar & Wiesner-Hanks 2015, bls. 222
  371. Huffman 2010, bls. 67
  372. Kedar & Wiesner-Hanks 2015, bls. 517–518
  373. Ackermann et al. 2008e, bls. 464
  374. Naver
  375. The Association of Korean History Teachers 2005, bls. 113
  376. Bulliet et al. 2015a, bls. 345
  377. Bulliet et al. 2015b, bls. 550
  378. McNeill & McNeill 2003, bls. 120
  379. Butt 2005, bls. 128
  380. Kedar & Wiesner-Hanks 2015, bls. 534–5
  381. Stearns & Langer 2001, bls. 153
  382. Kedar & Wiesner-Hanks 2015, bls. 535
  383. O'Brien 2002, bls. 99}}
  1. Guðmundur Hálfdanarson (9.3.2000). „Hvað nær mannkynssagan langt aftur í tímann?“. Vísindavefurinn.
  2. Stearns, Peter N. (2017). „Periodization in World History: Challenges and Opportunities“. Í R. Charles Weller (ritstjóri). 21st-Century Narratives of World History: Global and Multidisciplinary Perspectives. Palgrave. doi:10.1007/978-3-319-62078-7_3. ISBN 978-3-319-62077-0.
  3. Bowersock, G.W.; Brown, Peter; Grabar, Oleg, ritstjóri (1999). Late Antiquity: A Guide to the Postclassical World. Harvard University Press.
  4. Rapp, Claudia; Drake, H.A. (ritstjórar), The City in the Classical and Post-Classical World, Cambridge University Press, bls. xv–xvi, doi:10.1017/cbo9781139507042.016 (óvirkt 27 May 2024)
  Þessi sögugrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.