Saga
Saga getur átt við hverskyns frásögn hvort sem hún er í rituðu eða töluðu formi. Orðið merkir líka það sem gerst hefur í fortíðinni (stundum kallað Saga með stóru s-i eða sagan með ákveðnum greini) eða frásögn af einhverju sem gerst hefur í fortíðinni (stundum kallað saga með litlu s-i). Í þessum tveimur síðari merkingum er orðið yfirleitt eintöluorð en í fyrstu merkingunni getur það komið fyrir í fleirtölu.
Sagnfræði er síðan sú fræðigrein sem fæst við rannsóknir á sögunni í merkingunni atburðir fortíðar. Frásagnarfræði fæst við rannsóknir á frásögnum, gerð þeirra og byggingu, en margar aðrar fræðigreinar fást við sögur í einhverri mynd, til dæmis þjóðfræði, bókmenntafræði, textafræði, guðfræði og svo framvegis.
Orðsifjar og útskýring á orðinu
[breyta | breyta frumkóða]Orðið saga kemur úr fornnorska orðinu saga, sem sjálft kemur úr frum-germanska orðinu *sago. Orðið er samstofna fornenska orðinu sagu (en þaðan kom enska orðið saw sem merkir „málsháttur“), fornháþýska orðið „saga“ (þaðan kom þýska orðið „Sage“), forndanska „saghæ“, fornsænska „sagha“, færeyska „søga“, nýnorska „soge“, Jóska „save“ (sem þýðir „sögn“ eða „frásögn“), sænsk mállýska „sagu“. Mögulega skylt litháíska orðinu „pasanka“.
Orðið saga er í íslensku notað um ýmislegt annað en frásögn, svo sem lögsögu, en þá er átt við umráðarétt einhvers í daglegu máli. Saga er skylt orðinu að segja, sem dæmi má nefna íslenska orðið fiskisaga (samanber orðatiltækið „Fljótt flýgur fiskisagan“) sem merkir að sagt er frá fiskigöngu, hvar fisk sé að finna. Þá er hugtakið lygasaga sömuleiðis notað sem gefur til kynna að sögur hafi verið álitnar annaðhvort sannar eða ósannar.[1] Áður var talað um lögsögu sem „upplestur laga“ við Alþingi (sjá lögsögumaður) og umráðaréttur hans lögsaga. Orðið saga í þessu tilfelli á beinlínis við hverskyns orðræðu algjörlega óháða innihaldinu. Í daglegu máli, þegar orðið stendur eitt og sér, er þó oftast átt við bókmenntalega eða fræðilega sögu (frásögn).
Gríska orðið historia (könnun og frásögn af henni), latneska orðið res gestae („hlutir sem hafa gerst”) og þýska orðið Geschichte (af sögninni geschehen: gerast, sbr. dönsku sögnina ske) ná báðum þessum meiningum.[1]
Fræðileg sagnfræði
[breyta | breyta frumkóða]Sagnfræði er fræðigrein sem fæst við rannsóknir á samfélögum manna og þróun þeirra í tímans rás. Lagt er hlutlægt mat á sögulegar heimildir (ritheimildir, fornleifar o.s.frv.) og setur atburði í samhengi við tíma svo hægt sé að skoða framvindu sögunar og staðsetja atburði í tíma og rúmi. Sagnfræði afmarkar gjarnan viðfangsefni sitt eftir menningarsamfélögum, tímabilum og staðsetningu. Saga mannkyns fjallar til að mynda um upphaf siðmenningar og þróun allt til okkar daga. Saga 19. aldar er saga atburða og lýsing á samfélögum heimsins á þeim tíma, þ.e. hundrað ára tímabili eftir gregorísku tímatali. Jarðsaga er undirgrein jarðfræðinnar og greinir frá þróun jarðarinnar.
En hvatki er missagt er í fræðum þessum, þá er skylt að hafa það heldur er sannara reynist. | ||
Í sagnaritun setur sagnfræðingur fram niðurstöðu rannsókna sinna í samfelldri frásögn. Þá reynir hann að endurskapa sögulegt samhengi þeirra heimilda sem hann hefur rannsakað og setur fram tilgátu um tiltekna sögulega framvindu.
Fyrir upplýsinguna voru mörkin milli þess hvað talið var raunverulegt og óverulegt töluvert óskýr. Eftir því sem maðurinn taldi sig færan um að geta greint þar á milli varð til skáldsagan. Allt annað var bundið ófrávíkjanlegum lögmálum um hvað gæti gerst og hvað ekki, hvað hefði gerst og hvað ekki.[1]
Tengt efni
[breyta | breyta frumkóða]Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ 1,0 1,1 1,2 Gunnar Karlsson. „Hvað er saga?“. Vísindavefurinn 22.4.2002. http://visindavefur.is/?id=2326. (Skoðað 23.10.2011).
Heimildir og ítarefni
[breyta | breyta frumkóða]- Evans, Richard J. In Defence of History (New York: W.W. Norton, 2000).
- Gunnar Karlsson. „Hvað er saga?“. Vísindavefurinn 22.4.2002. http://visindavefur.is/?id=2326. (Skoðað 23.10.2011).
- Tosh, John. The Pursuit of History 5. útg. (Longman, 2010)