Fara í innihald

Pelópsskagastríðið

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Pelópsskagastríðið (431 f.Kr.404 f.Kr.) var stríð í Grikklandi hinu forna milli Aþenu og bandamanna hennar annars vegar og Spörtu og bandamanna hennar hins vegar.[1] Elsta og frægasta heimildin um Pelópsskagastríðið er Saga Pelópsskagastríðsins eftir forngríska sagnfræðinginn Þúkýdídes.

Sagnfræðingar hafa venjulega skipt stríðinu í þrjú skeið. Á fyrsta skeiðinu, arkídamíska stríðinu, gerði Sparta ítrekaðar innrásir á Attískuskaga en Aþena nýtti sér yfirburði sína á sjó til að gera strandhögg á Pelópsskaga og reyndi að halda niðri ólgu meðal bandamanna sinna. Þessu skeiði stríðsins lauk árið 421 f.Kr. með friði Níkíasar. En áður en langt um leið brutust átök út að nýju á Pelópsskaganum. Árið 415 f.Kr. sendi Aþena her til Sikileyjar í von um að hertaka Syrakúsu. Árásin misheppnaðist illa og Aþeningar töpuðu öllu herliðinu sem þeir sendu árið 413 f.Kr. Við þessi tímamót hófst síðasta skeið stríðsins, sem er venjulega nefnt jóníska stríðið. Sparta, sem naut nú stuðnings Persaveldis, studdi byltingu í bandalagsríkjum Aþenu á Eyjahafi og í Jóníu og gróf þannig undan veldi Aþenu og yfirráðum hennar á sjó. Eyðilegging aþenska flotans í orrustunni við Ægospotami réð úrslitum í stríðinu og Aþena gafst upp ári síðar.

Pelópsskagastríðið breytti ásjón Grikklands. Aþena hafði verið sterkasta borgríkið fyrir stríðið en var nú máttvana. Á hinn bóginn varð Sparta leiðandi afl í grískum stjórnmálum. Stríðsreksturinn hafði efnahagsleg áhrif á allt Grikkland og fátækt varð almenn á Pelópsskaga. Aþena var í sárum og náði aldrei aftur fyrri stöðu sinni.[2][3] Stríðið olli einnig smærri breytingum á grísku samfélagi. Átökin milli aþenska lýðræðisins og spartversku fámennisstjórnarinnar, sem hvor um sig studdi stjórnmálafylkingar í öðrum ríkjum, gerðu borgarastríð algeng í Grikklandi. Grískur hernaður, sem hafði upphaflega verið takmarkaður og formlegur, umbreyttist í ótakmarkað stríð, með tilheyrandi hamförum sem höfðu ekki áður sést að slíku marki. Heilu sveitirnar lögðust í eyði, borgríki voru lögð í rúst og viðhorfsbreyting varð í trúarlegum og siðferðilegum málum. Pelópsskagastríðið markaði endann á 5. öld f.Kr., gullöld Grikklands.[4]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

 1. Um Pelópsskagastríðið, sjá Bagnall (2004), Kagan (2003) og Janus (1969). Einnig Skúli Sæland, „Hvað voru Pelópsskagastríðin?“ Geymt 3 september 2005 í Wayback Machine. Vísindavefurinn 27.10.2004. (Skoðað 10.12.2006).
 2. Kagan (2003), 488
 3. Fine (1983), 528–533
 4. Kagan (2003),XXIII–XXIV.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

 • Fyrirmynd greinarinnar var „Peloponnesian War“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 10. desember 2006.
 • Bagnall, Nigel, The Peloponnesian War: Athens, Sparta, and the Struggle for Greece (Thomas Dunne Books, 2004).
 • Fine, John V.A., The Ancient Greeks (Belknap Press, 1983).
 • Forrest, W.G., A History of Sparta 950-192 B.B. (Norton, 1968).
 • Janus, Eric S., The Outbreak of the Peloponnesian War (Cornell University Press, 1969).
 • Kagan, Donald, The Peloponnesian War (Viking, 2003).

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]

 • „Hvað voru Pelópsskagastríðin?“. Vísindavefurinn.
  Þessi fornfræðigrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.