Gyðingdómur

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Davíðsstjarnan, trúartákn Gyðingdóms

Gyðingdómur er trúarbrögð Gyðinga (sem er þó hugtak sem nær yfir meira en einungis fylgjendur gyðingdóms). Þau eru eingyðistrúarbrögð af abrahamískum stofni, eins og kristni og íslam, en Gyðingdómur er eitt elsta dæmið í sögunni um eingyðistrú og einnig eitt af elstu lifandi trúarbrögðum heims með yfir 4000 ára sögu.

Síðustu tvöþúsund árin hefur gyðingdómur ekki haft neina heildarstjórn eða sameiginlegar trúarreglur. Þrátt fyrir þetta hafa allar mismunandi flokkanir og hefðir gyðingdóms haft sameiginlega grundvallarsýn á meginatriði trúarinnar. Það fyrsta og mikilvægasta er trúin á einn almáttugan Guð sem skapaði alheim og heldur áfram að stjórna honum, öll tilbeiðsla annarra guða er bönnuð eins og gerð mynda af honum og að segja nafn hans upphátt. Annað er sannfæring um að Guð hafi valið Gyðinga sem sitt eigið fólk og afhjúpað lögmál sín og reglur gegnum Torah (lögmálið) og gert sáttmála við þá með boðorðunum tíu. Mikilvægur þáttur í gyðingdómi er að stunda fræðimennsku í þessum lögmálum og túlkunum á þeim í Tanakh og öðrum trúarritum og hefðum. Til forna voru gyðingar kallaðir Hebrear. Það búa flestir gyðingar í Bandaríkjunum en í Ísrael er meirihluti íbúanna gyðingar. Maður telst vera gyðingur ef móðir manns er gyðingur.

Trúarathafnir[breyta | breyta frumkóða]

Trúarlíf í gyðingdómi stjórnast af sérstöku almanaki. Fyrir utan sabbat (hvíludaginn) og tunglkomuna er haldið upp á fjölda hátíða, páska, Sukkot og Jom Kippur svo nokkrar séu nefndar. Miðstöð trúarathafna er sýnagógan en guðsþjónustu er hægt að halda hvar sem er, ekki síst í heimahúsum. Hvar sem tíu gyðingar koma saman er hægt að halda svo kallað minjan sem er fullgild guðsþjónusta. Sá sem stjórnar guðsþjónustunni kallast rabbínn.

Allt lífið stjórnast af trúarlegum reglum með rætur í Tanakh og ritsöfnum sem Mishna og Talmúd. Drengir eru venjulega umskornir (mila) á áttunda degi og er þá gefið nafn, stúlkum er venjulega gefið nafn í sýnagógunni. Á þrettánda ári verður drengur bar mitzvah og er eftir það skuldbundinn að fylgja öllum trúarreglum, stúlkan verður bat mitzvah á tólfta ári.

Margir gyðingar fylgja ströngum matarreglum sem nefndar eru kosher (að hvorki snæða svínskeldýr til dæmis, eða blanda blóði og mjólkurmat) og öðrum trúarlegum hreinlætisreglum.

Guðþjónustuhús[breyta | breyta frumkóða]

Bæna- og guðþjónustuhús í gyðingdómi er kallað sýnagóga.

Zíonismi[breyta | breyta frumkóða]

Stjórnmálastefnan zíonismi hefur djúpar rætur í gyðingdómi og grundvallast á trúnni á Fyrirheitna landinu, sem guð gaf afkomendum Abrahams, samkvæmt hebresku bibíunni.

Kristni[breyta | breyta frumkóða]

Kristni er sprottin úr gyðingdómi, en iðkendur beggja tilbiðja guðinn Jahve og deila helgiritinu Gamla testamentinu.

Gyðingahatur[breyta | breyta frumkóða]

Gyðingahatur á við andúð, fordóma, mismunun og ofsóknir á hendur Gyðingum í samfélögum, þar sem þeir eru í minnihluta.[1] Nasismi var stjórnmálastefna, sem grundvallaðist á gyðingahatri og stefndi að útrýmingu gyðinga. Helförin var skipulögð tilraun til þess að hrinda þeirri stefnu í framkvæmd.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Jewish Virtual Library