Fara í innihald

Li Bai

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Mynd af Li Bai frá 13. öld.

Li Bai (李白 Lǐ Bái, 701–762), líka þekktur sem Li Bo, kurteisisnafn Taibai (太白), listamannsnafn Qinglian Jushi (青蓮居士) var kínverskt skáld sem hefur verið hylltur frá upphafi til okkar daga sem snillingur og rómantískt skáld sem hóf hefðbundinn kveðskap í nýjar hæðir. Hann og vinur hans Du Fu (712-770) voru mest áberandi þátttakendur í blómaskeiði kínverskrar ljóðlistar á tímum Tangveldisins, sem er oft kallað „gullöld kínverskrar ljóðlistar“. Hugtakið „undrin þrjú“ vísar í ljóð Li Bai, sverðalist Pei Min og skrautskrift Zhang Xu.[1]

Honum eru eignuð um þúsund ljóð sem vitað er um. Þekktasta safnritið með ljóðum hans er bók með helstu ljóðum Tangveldisins, Heyaue yingling ji,[2] tekið saman af Yin Fan árið 753, og 34 ljóð eftir hann eru í safnritinu Þrjúhundruð Tangljóð sem kom fyrst út á 18. öld. Á svipuðum tíma tóku fyrstu þýðingarnar á Evrópumálum að birtast. Ljóðin fjalla um gleði vináttunnar, náttúruna, einveru og drykkju. Meðal þeirra frægustu er „Vaknað eftir drykkjuskap á vordegi“, „Vegurinn til Shu“ og „Hljóðlát næturhugsun“, sem enn eru birtar í námsbókum í Kína. Á Vesturlöndum er enn verið að gefa út þýðingar af ljóðum Lis. Ævi hans hefur fengið á sig goðsagnakenndan blæ, með sögum af drykkjuskap, riddaramennsku og þjóðsögunni um það að hann hafi drukknað við að teygja sig drukkinn úr bát sínum í spegilmynd tunglsins.

Ljóð Lis endurspegla ævi hans, staðina sem hann heimsótti, vini sem hann kvaddi fyrir ferðalög til fjarlægra staða, draumkenndar ímyndanir hans sjálfs, samtímaatburði sem hann frétti af, tímalausar lýsingar á náttúrunni og svo framvegis. Á ævi hans urðu mikilvægar breytingar sem skipta máli fyrir túlkun verka hans. Fyrstu ljóðin hans eru samin á „gullöld“ þar sem ríkti friður og velsæld í Kína, undir stjórn keisara sem studdi listirnar og tók þátt í þeim. Þetta breyttist allt skyndilega, fyrst með An Lushan-uppreisninni, þegar stríð og hungursneyð lögðu Norður-Kína í rúst. Á þeim tíma fá ljóð Li Bai annað yfirbragð. Ólíkt yngri félaga sínum, Du Fu, lifði Li Bai ekki þegar endir var bundinn á þessa rósturtíma, en mikið af ljóðum hans hefur lifað og notið stöðugra vinsælda í Kína og annars staðar.

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. 文宗時,詔以白歌詩、裴旻劍舞、張旭草書為「三絕」
  2. 河岳英靈集
  Þetta æviágrip er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.