Chola-veldið
Útlit
Chola-veldið (tamílska: சோழர்) var tamílskt ættarveldi sem ríkti yfir hlutum Suður-Indlands, fyrst á Sangamtímabilinu í fornöld sem eitt af þremur ættarveldum Tamilakam (ásamt Pandya-vedinu og Chera-veldinu), og síðan á miðöldum frá 848 til 1279. Höfuðstaður Chola á miðöldum var borgin Thanjavur. Í kringum árið 1000 lagði Chola-veldið eyjuna Lanka undir sig og gerðist sjóveldi í Indlandshafi sem stundaði viðskipti við Kína. Í upphafi 13. aldar tók þessu veldi að hnigna og Pandya-veldið náði undirtökunum í Tamilakam. Árið 1279 sigraði Pandya-konungurinn Maravarman Kulasekara Pandyan bæði Chola-veldið og Hoysala-veldið í Suður-Indlandi.