Saga Evrópu

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Hellamálverkin í Lascaux í Frakklandi eru talin vera 17.300 ára gömul

Saga Evrópu er saga þess fólks sem byggt hefur álfuna Evrópu frá forsögulegum tíma til okkar daga.

Forsögulegur tími[breyta | breyta frumkóða]

Talið er að Homo erectus hafi fyrst flutt til Evrópu frá Afríku fyrir um 1,8 milljón árum síðan. Neanderdalsmenn birtust í Evrópu fyrir um 600.000 árum síðan en yngstu menjar um þá eru frá því fyrir 30.000 árum síðan. Elstu merki um Homo sapiens sapiens í Evrópu eru um 45.000 ára gömul. Fyrir um 8000 árum hófst landbúnaðarbyltingin sem markar upphaf nýsteinaldar. Þekktustu menningarsamfélög evrópskrar forsögu eru Mýkenumenningin og mínóísk menning sem blómstruðu á bronsöld. Frá þeim tíma eru elstu dæmin um notkun ritmáls í Evrópu.

Fornöld[breyta | breyta frumkóða]

Alexander mikli í orrustunni við Issos.

Klassísk fornöld hófst í Evrópu á 8. öld f.Kr. þegar borgríki þróuðust í Grikklandi og saga Rómaveldis hófst með stofnun Rómar 753 f.Kr. Útbreiðsla grískrar menningar náði hátindi sínum með landvinningum Alexanders mikla á 4. öld f.Kr. Rómaveldi lagði síðan undir sig leifar gríska heimsins og stóran hluta Evrópu. Á þjóðflutningatímanum hnignaði Rómaveldi, meðal annars vegna árása húna og germanskra þjóðflokka sem að lokum bundu endi á Vestrómverska keisaradæmið árið 476. Annars einkenndist síðfornöld af útbreiðslu Kristni, fyrst innan Rómaveldis og síðan út fyrir landamæri þess.

Miðaldir[breyta | breyta frumkóða]

Við fall Rómaveldis hófust miðaldir í sögu Evrópu. Á þessum tíma náði Austrómverska keisaradæmið yfir Suðaustur-Evrópu og hluta Litlu-Asíu. Frankar lögðu undir sig stóra hluta Evrópu og Frankaveldið náði hátindi sínum undir Karlamagnúsi um 800. Engilsaxar lögðu England undir sig skömmu eftir brottför Rómverja þaðan á 5. öld. Vald páfans í Róm óx samhliða því að þessar germönsku þjóðir tóku upp kristni. Síðasta skeið ármiðalda stóð víkingaöld yfir þegar norrænir menn réðust á ríkin sunnar í álfunni og lögðu undir sig hluta þeirra. Í kjölfarið risu nokkur hertogadæmi Normanna í sunnanverðri Evrópu á hámiðöldum. Krossferðirnar hófust sem svar við uppgangi Seljúktyrkja í Litlu-Asíu og árásum þeirra á Austrómverska veldið. Krossferðirnar leiddu til þess að Feneyjar og Genúa á Ítalíu urðu öflug sjóveldi.

Málverk af Kristófer Kólumbusi frá 1519

Innrás Mongóla í Evrópu hófst á 13. öld undir stjórn Djengis Khan. Þegar veldi Mongóla í Austur-Evrópu hnignaði reis Rússaveldi upp og lagði smátt og smátt undir sig stóran hluta Norður-Asíu næstu aldirnar. Árið 1453 féll Austrómverska keisaradæmið þegar Mehmet 2. Tyrkjasoldán lagði Konstantínópel undir sig. Tyrkir lögðu næstu ár undir sig stóra hluta Suðaustur-Evrópu. Endurheimt Spánar frá múslimskum konungum lauk þegar Ferdinand og Ísabella lögðu Granada undir sig árið 1492 sama ár og Kristófer Kólumbus kom til Ameríku. Á síðmiðöldum hófst endurreisnin þegar listræn viðmið og heimspekirit klassískrar fornaldar urðu grundvöllur nýrrar evrópskrar menningar.

Nýöld[breyta | breyta frumkóða]

Lok miðalda og upphaf nýaldar í sögu Evrópu eru miðuð við ýmis ártöl á 15. og 16. öld. Prentun bóka hófst í stórum stíl eftir að Gutenberg fann upp prentvélina. Prentlistin varð ein af stoðum siðaskiptanna og útbreiðslu mótmælendatrúar í Norður-Evrópu. Á landafundatímabilinu sigldu evrópskir landkönnuðir um allan heim og lögðu grunninn að landvinningum evrópsku konungsríkjanna í Afríku, Ameríku og Asíu næstu aldirnar. Á fyrri hluta 17. aldar stóð mannskætt Þrjátíu ára stríð yfir í Mið-Evrópu sem lauk með Vestfalíufriðnum árið 1648. Bæði Þrjátíu ára stríðið og Enska borgarastyrjöldin fólu í sér uppgjör milli mótmælenda og kaþólikka í Norður-Evrópu. Í evrópskum stjórnmálum festust í sessi hugmyndir um alþjóðasamskipti milli fullvalda ríkja og mikilvægi valdajafnvægis í álfunni og hugmyndin um að konungsvald skyldi takmarkað af kjörnum þingum (þingbundin konungsstjórn). Á sama tíma hófst vísindabyltingin með nýjum rannsóknartækjum og auknum áhuga á raunvísindum; stjörnufræði, líffræði og efnafræði.

Í kjölfar landafundanna lögðu sum Evrópuveldin undir sig stór svæði um allan heim og gerðust heimsveldi. Árið 1775 gerði ein af nýlendum enska heimsveldisins í Ameríku uppreisn og Bandaríki Norður-Ameríku voru stofnuð undir áhrifum upplýsingarinnar og nýrra hugmynda um stjórnarfar. Franska byltingin hófst 1789. Í kjölfarið fylgdu miklir umbrotatímar í Evrópu sem lyktaði með því að stærstur hluti meginlandsins varð hluti af Frakkaveldi undir stjórn Napoléons Bonaparte. Undir lok 18. aldar hófst iðnbyltingin í Englandi með þróun nýrra gufuvéla. Iðnbyltingin hafði gríðarleg áhrif á fólksfjöldaþróun og borgarmyndun í Evrópu næstu ár. Mikil fólksfjölgun og fátækt gat af sér fólksflótta til nýlendnanna.

Nútíminn[breyta | breyta frumkóða]

Breskir hermenn í Krímstríðinu

Hugmyndir um stjórnarskrárbundið konungsvald og lýðræði lifðu áfram eftir að veldi Napóleons var hnekkt í upphafi 19. aldar. Á sama tíma varð til hugmyndin um sjálfsákvörðunarrétt þjóða. 19. öldin í Evrópu einkenndist því ekki síst af byltingum og sjálfstæðisbaráttu. Þýskaland og Ítalía urðu á þessum tíma sjálfstæð ríki. Á sama tíma var bændaánauð var afnumin víðast hvar, síðast í Rússlandi 1861. Á Balkanskaga hófst aftur sjálfstæðisbarátta gegn Tyrkjaveldi sem hafði hnignað smám saman aldirnar á undan. Barátta hinna risaveldanna um leifar Evrópuhluta Tyrkjaveldis leiddu til Krímstríðsins 1853 og einnig óbeint til Fyrri heimsstyrjaldarinnar 1914. Undir lok heimsstyrjaldarinnar hófst Rússneska byltingin sem kom kommúnistum til valda í Rússlandi og leiddi til stofnunar Sovétríkjanna.

Á millistríðsárunum áttu róttækar stjórnmálastefnur, kommúnismi og fasismi, miklu fylgi að fagna víða á meginlandi Evrópu. Kreppan mikla og afarkostirnir sem Þjóðverjum voru settir með Versalasamningunum 1919 urðu til þess að nasistar náðu völdum í Þýskalandi og komu þar á flokksræði líkt og á Ítalíu og í Rússlandi. Útþenslustefna Þjóðverja leiddi til Síðari heimsstyrjaldarinnar, mannskæðustu átaka mannkynssögunnar. Á endanum biðu Þjóðverjar ósigur og herir Bandaríkjanna, Bretlands og Sovétríkjanna lögðu lönd þeirra undir sig. Þessi stórveldi skiptu Evrópu síðan í áhrifasvæði eftir styrjöldina og talað var um járntjaldið sem skildi að áhrifasvæði Vesturlanda og Sovétríkjanna á tímum Kalda stríðsins.

Árið 1989 voru gerðar byltingar sem tókst að fella ríkisstjórnir margra kommúnistaríkja í Austurblokkinni og Sovétríkin sjálf liðuðust í sundur skömmu síðar. Evrópusambandið fékk í kjölfarið stóraukið vægi sem samstarfsvettvangur Evrópuríkja. Árið 1993 var Maastricht-sáttmálinn gerður sem kvað á um þrjár stoðir Evrópusambandsins og upptöku sameiginlegrar myntar, evrunnar. Evrópusambandið hefur síðan smám saman stækkað til austurs. Aðildarríki þess eru nú 27 talsins en voru aðeins 6 þegar Evrópubandalagið var stofnað árið 1957. Oft hefur þó reynt á þetta samstarf, eins og í skuldakreppunni sem reið yfir Evrópu í upphafi árs 2010.

Árið 2015 stóðu Evrópuríki frammi fyrir miklum flóttamannavanda.

Tímabil í sögu Evrópu[breyta | breyta frumkóða]

Aðferðir við að skipta sögu Evrópu í tímabil eru margar og umdeildar. Jafnvel þótt ólíkir höfundar noti sömu hugtökin yfir svipuð tímabil getur eins verið að þeir skilgreini þau á ólíkan hátt.

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]