Fara í innihald

Austrómverska keisaradæmið

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Austrómverska ríkið)
Austrómverska keisaradæmið þegar það var stærst, árið 550.

Austrómverska keisaradæmið, Býsantíum, Býsansríkið eða Miklagarðsríkið (gríska: Βασιλεία Ῥωμαίων Basileia Hrómaíón, latína: Imperium Romanum) var ríki sem varð til þegar Rómaveldi var varanlega skipt í tvennt, árið 395.[1] Hitt ríkið var kallað Vestrómverska keisaradæmið. Ríkið varð til á síðfornöld og stóð fram á miðaldir. Það varð því 1000 árum eldra en Vestrómverska ríkið sem leið undir lok á 5. öld. Endalok þess urðu þegar Tyrkjaveldi lagði Konstantínópel undir sig árið 1453. Lengst af var það stærsta og öflugasta ríki Evrópu.

„Austrómverska ríkið“ eða „Býsantíum“ eru heiti sem urðu til eftir að ríkið leið undir lok. Íbúar þess kölluðu það einfaldlega „Rómaveldi“ eða „Rómaníu“ og sjálfa sig „Rómverja“. Seinni tíma sagnfræðingar hafa hins vegar viljað gera greinarmun á þessu ríki og hinu eiginlega Rómaveldi þar sem miðstöð þess var í Konstantínópel fremur en Róm, tungumál og menning ríkisins voru grísk fremur en latnesk og rétttrúnaðarkirkjan fremur en rómversk-kaþólska kirkjan var ríkiskirkja.

Skipting Rómaveldis í latneskan vesturhluta og grískan austurhluta markast af nokkrum atburðum á 4. og 5. öld. Konstantínus 1. (ríkti 327-337) flutti höfuðborg ríkisins til Konstantínópel og gerði kristni löglega. Þeódósíus 1. (ríkti 379-395) gerði kristni að ríkistrú og takmarkaði önnur trúarbrögð. Heraklíus (ríkti 610-641) endurskipulagði herinn og gerði grísku að stjórnsýslumáli í stað latínu.

Landamæri ríkisins þöndust út og drógust saman nokkrum sinnum. Á ríkisárum Jústiníanusar 1. (ríkti 527-565) náði keisaradæmið mestri stærð, eftir að hafa lagt undir sig megnið af þeim löndum við Miðjarðarhaf sem áður heyrðu undir Rómaveldi, þar á meðal Norður-Afríku, Ítalíu og Róm, sem það hélt í tvær aldir. Stríð Býsantíum og Sassanída 602-628 dró máttinn úr ríkinu og í landvinningum múslima á 7. öld missti það auðugustu lönd sín, Egyptaland og Sýrland, til Rasídúna. Úmajadar náðu svo að leggja Norður-Afríku undir sig árið 698. Á 10. og 11. öld var Makedóníuætt við völd og ríkið þandist út á ný. Við tók makedónska endurreisnin sem stóð í tvær aldir, en lauk með missi meirihluta Litlu-Asíu til Seljúkveldisins eftir orrustuna við Manzikert 1071. Eftir sigur í orrustunni lögðu Tyrkir undir sig stærri svæði í Anatólíu. Keisaradæmið var reist við í Komnenosendurreisninni og á 12. öld var Konstantínópel enn stærsta og ríkasta borg Evrópu. Fjórða krossferðin olli miklum hörmungum með ráni Konstantínópel árið 1204 og landsvæði sem Býsantíum ríkti áður yfir skiptust í grísk og frankversk yfirráðasvæði. Þrátt fyrir endurreisn Konstantínópel undir stjórn Palaiologosættar 1261 náði keisaraveldið aldrei fyrri styrk. Þau landsvæði sem það réði enn yfir féllu eitt af öðru í hendur Tyrkja í stríðum Tyrkja og Býsantíum á 14. og 15. öld. Fall Konstantínópel árið 1453 markar endalok Austrómverska ríkisins. Trebizond-keisaraveldið féll átta árum síðar í umsátrinu um Trebizond. Síðasti afkimi Austrómverska ríkisins var furstadæmið Þeódóros sem Tyrkjaveldi lagði undir sig 1475.

Skipting Rómaveldis í austur og vestur átti rætur sínar að rekja til ársins 285 þegar Díókletíanus og Maximíanus skiptu með sér völdum. Ríkið var sameinað á ný undir einn keisara árið 324 þegar Konstantínus mikli stóð uppi sem sigurvegari í baráttu við Licinius. Árið 330 gerði Konstantínus Konstantínópel (sem áður hét Býsantíon) að nýrri höfuðborg Rómaveldis og varð borgin síðan höfuðborg Austrómverska ríkisins. Eftir dag Konstantínusar stýrðu Rómaveldi ýmist einn, tveir eða þrír keisarar í senn. Árið 394 tryggði Þeódósíus 1. stöðu sína sem keisari yfir öllu heimsveldinu en þegar hann lést árið 395 var ríkinu skipt í austur og vestur á milli sona hans Arkadíusar og Honoríusar. Þessi skipting Rómaveldis reyndist varanleg og stjórnaði hvor keisarinn sínum helmingi allt þar til vestrómverska keisaradæmið leið undir lok árið 476 og það austrómverska stóð eitt eftir.

Ríkið var víðfeðmast á valdatíma Jústiníanusar 1., sem var keisari á árunum 527 – 565, en hann stefndi að því að vinna á sitt vald öll þau landsvæði sem áður höfðu tilheyrt Rómaveldi. Þessu markmiði sínu náði Jústiníanus ekki, en honum tókst þó, með hjálp Belisaríusar, helsta hershöfðingja síns, að vinna Norður-Afríku úr höndum Vandala og Ítalíu af Austgotum. Fljótlega eftir dauða Jústiníanusar fór ríkið þó að dragast saman aftur því árið 568 réðust Langbarðar inn á Ítalíuskaga og hertóku stóran hluta hans.

Á 7. öld misstu Austrómverjar allt sitt land fyrir botni Miðjarðarhafs og í Norður-Afríku í hendur Araba. Auk þess hirtu Búlgarar af þeim stór landsvæði á Balkanskaganum.

Ríkið fór aftur að stækka undir stjórn Leó 3. (717 – 741) og á næstu öldum styrkti það stöðu sína á Balkanskaga og í Anatólíu. Veldi þess náði nýjum hæðum á stjórnarárum Basileiosar 2. (976 – 1025) og náði á þeim tíma frá Suður-Ítalíu í vestri til Armeníu í austri.

Eitt stærsta áfallið sem Austrómverska keisaradæmið varð fyrir í sögu sinni var þegar krossfarar fjórðu krossferðarinnar, sem voru á leið til Egyptalands, flæktust inn í deilur á milli Feneyinga og Austrómverja. Afleiðing þessa varð sú að krossfararnir réðust inn í Austrómverska ríkið og hertóku Konstantínópel árið 1204. Krossfararnir stofnuðu þá ríki með höfuðborg í Konstantínópel sem kallað hefur verið Latneska keisaradæmið og stóð til ársins 1261. Þrjú önnur ríki urðu til á þeim svæðum sem áður tilheyrðu Austrómverska ríkinu. Voldugast þeirra var Keisaradæmið í Níkeu sem náði Konstantínópel aftur á sitt vald árið 1261 og endurreisti þar með Austrómverska keisaradæmið.

Fall Býsantíum

[breyta | breyta frumkóða]
Fall Konstantínópel í frönsku handriti frá miðri 15. öld.

Eftir lát Andróníkosar 3. um miðja 14. öld hófst sex ára borgarastyrjöld. Hún gerði það að verkum að Serbar, undir stjórn Stefan Dušan gátu lagt undir sig megnið af því landi sem enn heyrði undir ríkið og stofnað serbneska keisaradæmið. Árið 1354 lagði jarðskjálfti virkið í Gallípólí í rúst sem gaf Tyrkjaveldi tækifæri til að koma sér upp bækistöð Evrópumegin við sundin.[2][3] Tyrkir voru stundum ráðnir sem málaliðar gegn Serbum í þessum borgarastyrjöldum, en þegar þeim lauk, sérstaklega eftir orrustuna um Kosóvó 1389, var stór hluti Balkanskagans á þeirra valdi.[4]

Keisarinn bað þá um aðstoð úr vestri, en páfinn vildi aðeins hjálpa ef kirkjan yrði aftur sameinuð undir hans stjórn. Mikil andstaða var við slíka sameiningu meðal klerka og almennings í landinu.[5] Nokkrar vesturevrópskar hersveitir komu Býsantíum til bjargar, en flestir ráðamenn annars staðar í Evrópu voru of uppteknir af eigin málum til að vilja sinna hjálparbeiðnum þaðan.[6] Þegar kom að umsátri Tyrkja um Konstantínópel var varnarlið borgarinnar aðeins skipað 7000 mönnum, þar af um 2000 útlendingum, gegn 80.000 manna herliði Mehmeds 2.[7] Á þessu stigi voru svo margir íbúar borgarinnar flúnir að byggðin minnti meira á húsaþyrpingar innan um tún, en borg. Konstantínópel féll 29. maí 1453 eftir tveggja vikna umsátur. Keisarinn, Konstantínus 11. Palaiologos, sást síðast kasta af sér keisaraklæðunum og taka þátt í bardögum eftir að Tyrkir brutust inn fyrir múrana.

Eftirleikurinn

[breyta | breyta frumkóða]
Fall Trebizond eftir Apollonio di Giovanni di Tommaso.

Þegar Konstantínópel féll hafði keisaraveldið í reynd aðeins verið til að nafninu til eftir áfallið í fjórðu krossferðinni. Landið sem heyrði undir það skiptist milli þriggja lénsríkja, Mystra, Trebizond og furstadæmisins Theódóros. Bræður keisarans, Tómas Palaiologos og Demetríos Palaiologos, ríktu yfir Mystru sem hélt sjálfstæði sínu með því að greiða skatt til Tyrkjaveldis. Óstjórn innanlands og uppreisn gegn Tyrkjum urðu til þess að Mehmed 2. lagði það undir sig árið 1460.[8]

Nokkur lítil héruð veittu enn mótspyrnu um tíma. Eyjan Monemvasía neitaði að gefast upp og var fyrst um sinn undir stjórn spænsks sjóræningja. Íbúar steyptu honum af stóli og fengu leyfi Tómasar til að óska eftir vernd páfa fyrir árslok 1460. Maneskagi, syðst í Mystru, var undir stjórn bandalags höfðingja og komst síðan undir stjórn Feneyja. Síðasta vígið var Salmeniko í norðvesturhluta Mystru. Þar var Graitzas Palaiologos herstjóri og ríkti yfir Salmenikokastala. Bærinn gafst að lokum upp, en Graitzas og setuliðið héldu kastalanum fram í júlí 1461 þegar þeir flúðu og sluppu inn á yfirráðasvæði Feneyja.[9]

Trebizond hafði klofnað frá Býsantíum nokkrum vikum áður en krossfararnir lögðu Konstantínópel undir sig 1204. Það varð í reynd arftaki keisaraveldisins. Davíð keisari reyndi að stofna til bandalags gegn Tyrkjaveldi meðal vesturevrópskra ríkja og hélt í krossferð gegn þeim sumarið 1461. Eftir mánaðarlangt umsátur lét hann þeim borgina eftir 14. ágúst 1461. Furstadæmið Theódóros hélt velli í 14 ár eftir það og féll í hendur Tyrkja í desember 1475. Þar með hurfu síðustu leifar Rómaveldis eftir 2228 ára sögu ef miðað er við stofnun Rómar 753 f.Kr.

Líklega mynd af Andreas Palaiologos á veggmynd frá 1491 eftir Pinturicchio.

Frændi síðasta keisarans, Andreas Palaiologos, hélt því fram að hann hefði erft keisaratignina. Hann bjó í Mystru þar til hún féll 1460 og síðan í Róm þar sem hann naut verndar páfa það sem hann átti eftir ólifað. Þar sem keisaratignin erfðist aldrei formlega milli kynslóða hefði tilkall hans enga lagalega þýðingu haft í Býsantíum, en keisaradæmið var fallið og í Vestur-Evrópu gengu tignarheiti oftast í arf. Andreas titlaði sig Imperator Constantinopolitanus og seldi réttinn til að erfa titilinn bæði til Karls 8. Frakkakonungs og Ferdinands og Ísabellu af Spáni.

Konstantínus 11. lést barnlaus. Hefði keisaradæmið haldið áfram hefðu bræðrasynir hans hugsanlega tekið við, en þeir voru teknir í þjónustu Mehmeds 2. Eldri bróðirinn sem fékk nýja nafnið Has Murad, varð eftirlæti soldánsins og landstjóri á Balkanskaga. Sá yngri, Mesih Pasha, varð flotaforingi yfir tyrkneska flotanum og landstjóri í Gallípólí. Hann varð stórvesír í valdatíð Bajesíds 2. soldáns.[10]

Mehmed 2. og eftirmenn hans litu á sig sem eiginlega arftaka Rómaveldis, allt þar til Tyrkjaveldi leystist upp eftir fyrri heimsstyrjöld. Þeir litu svo á að trúarleg undirstaða keisaradæmisins hefði einfaldlega breyst, líkt og hún hafði gert í valdatíð Konstantínusar mikla, og notuðu orðið Rûm („Rómverjar“) yfir kristna þegna sína. Á sama tíma litu Dónárfurstadæmin á sig sem arftaka Býsantíum og þar leituðu margir kristnir íbúar og aðalsmenn skjóls.[11]

Ívan 3., stórfursti af Moskvu, gerði tilkall til þess að teljast verndari rétttrúnaðarkirkjunnar og arftaki keisarans. Hann hafði gifst systur Andreasar, Soffíu Palaiologinu, og barnabarn hennar, Ívan 4., varð fyrsti tsar Rússlands, en titillinn er dreginn af Caesar. Afkomendur þeirra litu því svo á að rússneska keisaradæmið væri hinn eini sanni arftaki Rómaveldis og þriðja Róm, þar til það hrundi í rússnesku byltingunni.[12]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. stundum er miðað við stofnun Konstantínópel eða Miklagarðs árið 330 og stundum er miðað við árið 476 þegar Vestrómverska ríkið féll og einungis austrómverska ríkið stóð eftir
  2. Reinert 2002, bls. 268.
  3. Vasilʹev, Aleksandr Aleksandrovich (1964). History of the Byzantine Empire, 324–1453 (enska). Univ of Wisconsin Press. ISBN 978-0-299-80925-6. Afrit af uppruna á 8. ágúst 2021. Sótt 19. júlí 2021.
  4. Reinert 2002, bls. 270.
  5. Runciman 1990, bls. 71–72.
  6. Runciman 1990, bls. 84–85.
  7. Runciman 1990, bls. 84–86.
  8. Russell, Eugenia (28. mars 2013). Literature and Culture in Late Byzantine Thessalonica (enska). A&C Black. ISBN 978-1-4411-5584-9. Afrit af uppruna á 28. júní 2018. Sótt 2. október 2020.
  9. Miller 1907, p. 236
  10. Lowry 2003, bls. 115–116.
  11. Clark 2000, bls. 213.
  12. Seton-Watson 1967, bls. 31.
  Þessi sögugrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.