Fara í innihald

List

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Leikari í Bian Lian-óperu í Kína.

List eru verk manna, þar sem sköpunargáfan fær lausan tauminn og myndir, tónverk, styttur eða aðrir hlutir eru búnir til, í þeim megintilgangi að varpa ljósi á fegurð og mikilfengleika heimsins, að tjá tilfinningar eða skilning listamannsins, eða til að aðrir fái notið listaverksins. Orðið list getur einnig átt við um afrakstur slíkrar sköpunar.

Erfitt er að skilgreina list á altækan hátt, þótt margir hafi sterkar skoðanir á því hvað er list og hvað ekki. Ótal mælikvarðar eru til um það hvaða skilyrði hlutur eða verknaður þarf að uppfylla til að teljast list.[1] Sumir telja að list sé það sem eykur skilning okkar á umheiminum umfram einfaldan hlutlægan skilning. Oft er talað um að verknaður sé list ef afraksturinn er fagurfræðilegur.[2] Samkvæmt þessari skilgreiningu hefur list fylgt mannkyninu frá örófi alda, eins og hellamálverk sýna.

En þótt hægt sé að skilgreina list á mjög víðtækan máta eru margir sem vilja undanskilja ýmsa iðju sem þó miðar að fagurfræðilegum afrakstri, svo sem handverk og iðnhönnun. Samkvæmt þessari skilgreiningu, sem er nýrri af nálinni, er orðið list lítið meira en stytting á hugtakinu „sköpunarlist“ eða „hámenningarleg list“. Með öðrum orðum er mest áhersla lögð á nýnæmi listarinnar og að listamaðurinn ögri áhorfandanum, svo upplifun listarinnar verður virkur atburður, frekar en að listin sé í bakgrunni og geri umhverfið fallegra. Til dæmis geta handprjónuð föt sem unnin eru samkvæmt uppskrift aldrei orðið list í þessum skilningi orðsins, sama hversu vel þau eru unnin.

Til viðbótar við nýnæmið er stundum gerð krafa um að list sé unnin í göfugum tilgangi. Dæmi um það er þegar tónverk eða kvikmyndir sem framleiddar eru í þeim megintilgangi að afla tekna fyrir framleiðandann eru undanskilin frá skilgreiningunni á list, og kölluð iðnaður (sbr. kvikmyndaiðnaður og tónlistariðnaður).

Þegar list er skilgreind á þröngan máta, líkt og rætt er um hér að ofan, er sjaldgæft að menn séu sammála um hvað er list og hvað ekki. Því hafa ýmsir haldið því fram að slíkar skilgreiningar hafi meira að gera með smekk heldur en hlutlæga aðgreiningu.

Beinflautan frá Geissenklösterle.

Deilt er um það hver elstu ummerki um listræna sköpun gætu verið. Ýmsar fornleifar hafa fundist frá fornsteinöld sem virðast vitna um tilraunir til skreytinga, án sýnilegs hagnýts tilgangs.[3][4][5] Elstu gripirnir sem augljóslega eru dæmi um listaverk eru hins vegar ekki nema um 50.000 ára gamlir. Meðal þeirra eru venusstyttur, litlar útskornar kvenmyndir með ýkt brjóst og mjaðmir, sem gætu tengst frjósemisdýrkun af einhverju tagi.[6][7][8] Þekktustu dæmin um forsögulega list eru þó hellamálverk, eins og málverk í Maros-Pangkep-hellunum á Súlavesí sem eru um 45.000 ára gömul, og hellamálverkin í Lascaux sem eru um 19.000 ára (þau elstu).[9] Sum þeirra hafa verið túlkuð sem sjónræn ummerki um sagnamennsku.[10] Elstu flautur sem fundist hafa eru beinflautur frá Geissenklösterle í Suður-Þýskalandi sem eru um 45.000 ára gamlar.[11][12][13]

Þegar kemur að upphafi nýsteinaldar fyrir um 12.000 árum fjölgar bergristum sem sýna fjölbreyttari myndir, eins og dansandi mannamyndir. Hellamálverk af manni með dýrshöfuð sem hefur verið túlkað sem mynd af galdramanni,[14] fannst í Trois-Fréres-hellinum í Frakklandi á 3. áratug 20. aldar og er talin vera um 13.000 ára gömul, líkt og myndir af dansandi fólki á hellamálverkum frá Borneó.[15] Steingrímur sem mögulega tengjast helgiathöfunum hafa fundist við uppgrefti í Ísrael og Tyrklandi.[16] Frá sama tíma eru elstu minjar um notkun jötunsteina í byggingarlist í Göbekli Tepe[17] og lágmyndir sem skreyttu veggi í borginni Çatalhöyük.[18] Forsöguleg list hefur oft verið túlkuð sem listræn tjáning trúarlegra hugmynda eða sem galdur (til að auka frjósemi eða laða að veiðidýr til dæmis) og tengd við sjamanisma.[19] Slíkar túlkanir geta þó verið umdeildar.[20]

Veggmyndir sem sýna danshreyfingar úr „dansaragröfinni“, frá Egyptalandi um 1550 f.o.t.

Þegar maðurinn tók að notast við ritmál varðveittust kvæði og sögur á borð við Gilgameskviðu í rituðum textum á fleygrúnum frá Súmer og helgirúnum Forn-Egypta. Þessi stóru menningarríki skildu eftir sig mörg stór minnismerki og byggingar úr steini og gljáðum múrsteinum með fáguðum lágmyndum og bronsgripi sem bera vitni um þróaða málmsmíði.[21] Bæði Egyptar og Súmerar reistu þrepapýramída sem hjá Egyptum þróaðist út í pýramída með sléttum hliðum um 2500 f.o.t. Forn-Egyptar gerðu nákvæmar höggmyndir af fólki, en í veggmyndum og lágmyndum er sjónarhorn á andlit oftast á hlið, bæði í Egyptalandi og Persíu.[22][23] Á Amarna-tímabilinu um 1350 f.o.t. fylgdi breytt myndmál breytingum í opinberum trúarbrögðum Egypta um stutt skeið.[24] Egyptar fundu upp bæði línið úr hörtrefjum og papýrusinn með því að merja saman krosslögð blöð papýrusreyrsins. Papýrus var helsta undirstaða skriftar við Miðjarðarhafið í þúsundir ára eftir það. Papýrusarkir voru bundnar saman í langa renninga sem voru undnir upp á kefli (rollur). Fjölbreyttar bókmenntagreinar komu fram mjög snemma, eins og ástarljóð, sálmar, hetjukvæði, ferðasögur, sagnaritun, vísindarit og trúarbókmenntir.[25] Ríkulegar myndskreytingar í gröfum Forn-Egypta lýsa daglegu lífi, meðal annars loftfimleikum, stríðsdönsum og khener-hópum kvenkyns tónlistarmanna og dansara.[26][27] Á þessum myndum sjást líka þróuð hljóðfæri eins og sveigðar hörpur, lútur með langan háls, tréblásturshljóðfæri með reyrblaði og alls kyns ásláttarhljóðfæri og hristur.[28] Elstu dæmi um skráningu tónlistar eru leirtöflur með fleygrúnum frá borginni Urartu um 1300 f.o.t.[29]

Stórar trommur úr bronsi frá því fyrir 600 f.o.t. einkenna Dong son-menninguna í Víetnam. Leikhús á sanskrít er stundum rakið til Vedatímabilsins (þótt það sé líka umdeilt) þar sem löng hefð er fyrir uppsetningu helgileikja með sögum úr Rigveda.[30] Vestrænt leikhús rekur uppruna sinn til Forn-Grikkja. Elstu varðveittu grísku leikritin sem ekki eru helgiathafnir eru harmleikir frá 5. öld f.o.t.[31] Forngríska leikhúsið notaði kór til að draga saman söguþráðinn fyrir áhorfendum.[32] Um skáldskaparlistina eftir Aristóteles (um 335 f.o.t.) og Natyashastra eftir Bharata (eftir 200 f.o.t.) eru tvö fræðirit frá fornöld sem fjalla um leiklist.[33]

Glímumaðurinn, höggmynd frá tímum Olmeka í Mið-Ameríku, 1200-400 f.o.t.

Forngrísk myndlist birtist meðal annars á leirkerjum þar sem myndin er dregin með svörtum leirgljáa á rauðan leirinn, ýmist með rauðan eða svartan forgrunn. Myndirnar sýna atriði úr grískri goðafræði og daglegu lífi þar sem sjónarhornið er á hlið. Freskur þar sem myndin er máluð í blautt lag af kalki, komu fram í Vestur-Asíu og bárust þaðan til Grikklands og síðan um allan hinn helleníska heim eftir 4. öld f.o.t.[34] Myndmálið þróaðist út í að sýna flæðandi hreyfingar og fleiri sjónarhorn. Höggmyndir úr marmara, eins og Laokoón og synir hans, sýndu mannslíkamann af meiri nákvæmni og í flóknari stöðum en áður þekktust. Í austri þróaðist Gandhara-list undir áhrifum frá hellenískri list og stúpan fylgdi útbreiðslu búddatrúar í Asíu. Í Kína voru mörg einkenni kínverskrar nytjalistar komin fram á tímum Qin-veldisins og Hanveldisins um 200 f.o.t., eins og skreyttir munir úr jaði, bronsi og lökkuðum viði; leirhermenn og postulín.[35][36] Olmekar voru fyrsta stóra menningarríkið í Mið-Ameríku um 1000 f.o.t. Olmekar eru þekktir fyrir bæði stór steinhöfuð og höggmyndir af fólki í opnum stellingum.[37]

Rómverjar tóku upp tækni og myndmál grískra myndlistarmanna og gerðu stórar mósaíkmyndir, höggmyndir og veggmyndir í sama stíl. Rómverskir arkitektar þróuðu bogann og notuðu óspart í byggingum, auk þverbita á súlum sem einkenna forngríska byggingarlist. Líkt og Grikkir reistu Rómverjar hálfhringlaga leikhús, skeiðvelli og hringleikahús. Þar fóru fram íþróttakeppnir, dýraat, aftökur og sviðsetningar leikrita og látbragðsleiks á upphækkuðu leiksviði . Útbreiðsla þessara bygginga sýna hvað sviðslistir voru mikilvægur hluti af opinberu lífi í Rómaveldi.[38] Einkenni á grískum og latneskum klassískum bókmenntum eru nafnkunnir rithöfundar, skáld og heimspekingar, á borð við Evrípídes, Saffó, Platon, Aristóteles, Heródótos, Cíceró, Óvidíus og Livíus. Þar með kemur fram hugmyndin um að nafn höfundarins ljái verkinu tiltekna merkingu. Klassískar kínverskar bókmenntir, meðal annars verk Konfúsíusar, eru frá því fyrir tíma Qin-veldisins um 200 f.o.t. Kínverjar skrifuðu bækur sínar aðallega á bambusrenninga, en líka á silki. Renningarnir voru saumaðir saman í arkir sem ýmist var rúllað upp eða bundnar þannig að þær lögðust saman í harmónikku.[39] Pappír var fundinn upp í Kína á tímum Hanveldisins, gerður úr berki mórberjarunnans, en var í fyrstu notaður í flest annað en ritstörf.[40]

Bæði Rómverjar og Keltar notuðu stór horn úr bronsi fyrir boðskipti í daglegu lífi og í hernaði. Í kringum 3. öld f.o.t. fundu Grikkir upp vatnspípuorgelið, fyrsta hljóðfærið með lyklaborði og forvera pípuorgelsins.[41] Um sama leyti hófu Kínverjar að leika tónlist á strengjahljóðfærið guzheng, láréttan sítar með silkistrengjum.[42] Á 4. öld e.o.t. varð algengara í Evrópu að skrifa á pergament (skinn) en papýrus.[43] Elstu varðveittu handrit Gamla testamentisins eru bæði rituð á papýrus og pergament.[44] Í Evrópu var pergamentið bundið í kjöl þannig að það myndaði bók. Á síðfornöld tók bókin smám saman við af rollunni í Evrópu.[45]

Menning Maja blómstraði í Mið-Ameríku frá um 200 e.o.t. Þá voru þeir farnir að nota majaletur og reisa þrepapýramída og stóra íþróttaleikvanga í borgríkjum, eins og Teotihuacan, þar sem nú eru Mexíkó og Gvatemala. Majar gerðu málaðar veggmyndir, lágmyndir úr gifsi og höggmyndir sem einkennast af fíngerðum smáatriðum, meðal annars leturtáknum, myndum af blöndu manna og dýra, fljúgandi slöngum og drekum. Tiltölulega lítið af málningunni hefur varðveist vegna rakans. Þeir fundu upp aðferð til að gera pappír úr berki villifíkjutrésins (Ficus insipida) sem þeir bundu saman í bækur, en aðeins fjögur handrit frá því fyrir komu Spánverja til Nýja heimsins hafa varðveist.[46]

Ægisif í Istanbúl var reist á 6. öld sem dómkirkja í býsönskum stíl, en var síðar breytt í mosku.

Með útbreiðslu kristni á ármiðöldum breiddist messusöngur út sem hluti af messuhaldi. Langkirkjur miðalda voru hannaðar þannig að söngur barst úr kórnum við enda kirkjunnar út í kirkjuskipið.[47] Gregorískur söngur var sunginn í gotneskum dómkirkjum á hámiðöldum.[48] Lögin voru skrifuð í söngbækur með naumum, forvera nútíma nótnaskriftar.[49] Margt bendir til þess að fjölradda söngur hafi tíðkast um aldir í Afríku sunnan Sahara,[50] en fjölradda kirkjusöngur varð fyrst vinsæll í Evrópu í kringum páfasundrungina á 14. öld.[51] Í Evrópu þróaðist trúarleg myndist sem kennd er við Býsantíon (Austrómverska ríkið)[52] og skreytti kirkjur og kirkjugripi með lituðum steinum, mósaík og íkonum gerðum með eggtemperalitum á undirlag lagt blaðgulli.[53] Hvolfþakið sem einkennir kirkjur frá þeim tíma var skreytt með myndum af dýrlingum.

Með framrás íslam í Vestur-Asíu, Norður-Afríku og Evrópu á 7. og 8. öld breiddist þar út íslömsk list byggð á skrautskrift og flóknum mynstrum þar sem helgimyndir voru bannaðar.[54] Hindúasiður hafði á svipuðum tíma mikil áhrif í Suðaustur-Asíu þar sem skuggaleikhús (wayang kulit) og dansleikhús (wayang wong) urðu til byggð á sagnakvæðunum Ramayana og Mahabharata með undirleik gamelansveita.[55] Í Kína hófst prentun með prentmótum úr tré á tímum Tangveldisins á 7. öld. Prentunin fylgdi útbreiðslu búddismans um Austur-Asíu. Dharani-sútran mikla frá fyrri hluta 8. aldar er talin elsta varðveitta prentaða rit heims.[56]

Listgreinar

[breyta | breyta frumkóða]
Joseph Beuys fremur gjörning árið 1978.

Til er mikill fjöldi listgreina sem eru flokkaðar ýmist eftir miðli, tilgangi, búnaði, staðsetningu og fleiri þáttum. Ólík flokkunarkerfi byggjast svo á ólíkum viðhorfum til listar og eru menningarbundin. Í Kína til forna var til dæmis talað um þrjár listgreinar: skrautskrift, málun og ljóðlist. Eftir 17. öld varð algengt að greina nytjalist og skreytilist frá fagurlist á vesturlöndum, og um leið alþýðulist frá hámenningarlist. Síðan þá hefur verið deilt um hvort tilteknar listgreinar eigi að teljast með sem slíkar eða ekki. Dæmi um þetta eru greinar eins og ljósmyndun, kvikmyndagerð, myndasögur, fatahönnun og tölvuleikir.

Samkvæmt vestrænni hefð er algengt að flokka listgreinar í þrjá eða fjóra yfirflokka:

Listgreinar sem hafa verið stundaðar um langt skeið byggjast á tilteknum hefðum, skólum og fjármögnunarleiðum, sem greina þær frá öðrum listgreinum. Þær geta líka haft ólíka lagalega stöðu, til dæmis gagnvart hugverkarétti. Margar tegundir listsköpunar hafa orðið til á mörkum ólíkra listgreina. Dæmi um það eru myndljóð, gjörningalist, innsetningar, kvikmyndagerð, ballett og ópera.

Aðrar tegundir flokkunar eru til dæmis greinarmunurinn á hefðbundinni list og nútímalist;[57] munurinn á óhlutbundinni list og hlutbundinni list, eða munurinn á konseptlist og efnislegri list.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. „Hvernig er hægt að útskýra hvað list er?“. Vísindavefurinn.
  2. Evelyn Hatcher, ritstjóri (1999). Art as Culture: An Introduction to the Anthropology of Art. Praeger.
  3. Henshilwood, Christopher; og fleiri (2002). „Emergence of Modern Human Behavior: Middle Stone Age Engravings from South Africa“. Science. 295 (5558): 1278–1280. Bibcode:2002Sci...295.1278H. doi:10.1126/science.1067575. PMID 11786608. S2CID 31169551.
  4. Henshilwood, Christopher S.; d'Errico, Francesco; Watts, Ian (2009). „Engraved ochres from the Middle Stone Age levels at Blombos Cave, South Africa“. Journal of Human Evolution. 57 (1): 27–47. doi:10.1016/j.jhevol.2009.01.005. PMID 19487016.
  5. Texier, P. J.; Porraz, G.; Parkington, J.; Rigaud, J. P.; Poggenpoel, C.; Miller, C.; Tribolo, C.; Cartwright, C.; Coudenneau, A.; Klein, R.; Steele, T.; Verna, C. (2010). „A Howiesons Poort tradition of engraving ostrich eggshell containers dated to 60,000 years ago at Diepkloof Rock Shelter, South Africa“. Proceedings of the National Academy of Sciences. 107 (14): 6180–6185. Bibcode:2010PNAS..107.6180T. doi:10.1073/pnas.0913047107. PMC 2851956. PMID 20194764.
  6. „Place Stanislas, Place de la Carrière and Place d'Alliance in Nancy“. UNESCO World Heritage Centre. United Nations Educational, Scientific, and Cultural Organization. Sótt 17. október 2021.
  7. „World's Oldest Figurative Art is Now an Official World Treasure“.
  8. „Earliest music instruments found“. BBC News. 24. maí 2012.
  9. „Lascaux“. Encyclopedia Britannica. 28. júní 2024.
  10. Michael Gross (2020). „Cave art reveals human nature“. Current Biology. 30 (3): R95–R98. doi:10.1016/j.cub.2020.01.042.
  11. Higham, Thomas; Laura Basell; Roger Jacobic; Rachel Wood; Christopher Bronk Ramsey; Nicholas J. Conard (8. maí 2012). „Τesting models for the beginnings of the Aurignacian and the advent of figurative art and music: The radiocarbon chronology of Geißenklösterle“. Journal of Human Evolution. Elsevier. 62 (6): 664–76. doi:10.1016/j.jhevol.2012.03.003. PMID 22575323.
  12. „Earliest music instruments found“. BBC News. 25. maí 2012. Sótt 26. maí 2012.
  13. „Earliest musical instrument discovered“. International Business Times. 25. maí 2012. Sótt 26. maí 2012.
  14. Hutton, Ronald (2003). Witches, Druids, and King Arthur. London: Hambledon and London. bls. 33–35. ISBN 1-85285-397-2.
  15. Aubert, M., Setiawan, P., Oktaviana, A.A.; og fleiri (2018). „Palaeolithic cave art in Borneo“. Nature. 564: 254–257. doi:10.1038/s41586-018-0679-9.
  16. Dietrich, O., Notroff, J., & Dietrich, L. (2018). „Masks and masquerade in the Early Neolithic: a view from Upper Mesopotamia“. Time and Mind. 11 (1): 3–21. doi:10.1080/1751696X.2018.1433354.
  17. Marta Tobolczyk (2016). „The World's Oldest Temples in Göbekli Tepe and Nevali Çori, Turkey in the Light of Studies in Ontogenesis of Architecture“. Procedia Engineering. 161: 1398–1404. doi:10.1016/j.proeng.2016.08.600. ISSN 1877-7058.
  18. Hodder, I. (2012). „Çatalhöyük. A summary of recent work concerning architecture“. Í B. Söğüt (ritstjóri). From Straonikeia to Lagina: Festschrift in honour of Ahmet Adil Tırpan. İstanbul. bls. 303–314.
  19. Wallis, R.J. (2019). „Art and Shamanism: From Cave Painting to the White Cube“. Religions. 10 (54). doi:10.3390/rel10010054.
  20. Herva, V. P., & Ikäheimo, J. (2002). „Defusing Dualism: Mind, Materiality and Prehistoric Art“. Norwegian Archaeological Review. 35 (2): 95–108. doi:10.1080/002936502762389729.
  21. Bragi Ásgeirsson (2002). „List í 7000 ár“. Lesbók Morgunblaðsins. 77 (5): 10.
  22. Davis, W. (1982). „Canonical representation in Egyptian art“. RES: Anthropology and Aesthetics. 4 (1): 20–46.
  23. Sonik, K. (2013). „The monster's gaze: vision as mediator between time and space in the art of Mesopotamia“. Time and History in the Ancient Near East: Proceedings of the 56th Rencontre Assyriologique Internationale at Barcelona, 26–30 July 2010. bls. 285–300. doi:10.1515/9781575068565-027.
  24. Elsie McLaughlin (22.9.2017). „The Art of the Amarna Period“. World History Encyclopedia.
  25. Loprieno, A. (1996). „Defining Egyptian literature: Ancient texts and modern theories“. Ancient Egyptian Literature. Brill. bls. 39–58.
  26. Lexová, I. (2000). Ancient Egyptian Dances. Courier Corporation.
  27. Köpp-Junk, H. (2023). „Dance and clothing in ancient Egypt‒the earliest evidence“. Í Audrey Gouy (ritstjóri). Textiles in Motion. Dress for Dance in the Ancient World. Ancient Textiles Series 41. Oxbow Books. bls. 71–92.
  28. Duchesne‐Guillemin, M. (1981). „Music in ancient Mesopotamia and Egypt“. World Archaeology. 12 (3): 287–297. doi:10.1080/00438243.1981.9979803.
  29. Rahn, J. (2011). „The Hurrian Pieces, ca. 1350 BCE: Part One—Notation and Analysis“. Analytical Approaches to World Music. 1 (1): 93–151.
  30. Shivaprakash, H. S., & Murthy, J. S. (2023). „Migration and Ancient Indian Theatre“. The Palgrave Handbook of Theatre and Migration. Cham: Springer International Publishing. bls. 183–194.
  31. Morgan, W., & Brask, P. (1988). „Towards a conceptual understanding of the transformation from ritual to theatre“. Anthropologica: 175–202. doi:10.2307/25605509.
  32. Foley, H. (2003). „Choral identity in Greek tragedy“. Classical Philology. 98 (1): 1–30. doi:10.1086/378725.
  33. Das, S. (2015). „Ancient Indian dramaturgy: A historical overview of Bharata's natyashastra“. Research Scholar. 3 (3): 133–140.
  34. von Rüden, C. (2013). „Beyond the East-West dichotomy in Syrian and Levantine wall paintings“. Í Brian A. Brown and Marian H. Feldman (ritstjóri). Critical Approaches to Ancient Near Eastern Art. De Gruyter. bls. 55–78. doi:10.1515/9781614510352.55.
  35. Bao, D. (2023). „The Evolution, Characteristics, and Aesthetic Expression of Han Dynasty Sculptures: Exploring the Artistic Achievements of Ancient China“. Advances in Education, Humanities and Social Science Research. 6 (1): 299–305. doi:10.56028/aehssr.6.1.299.2023.
  36. Krupa, M., Yang, D., Tovbych, V., & Gnatiuk, L. (2020). „Sacrality, mythologism and realism of mural painting of the Han Dynasty and its influence on the further development of Chinese art and architecture“. Wiadomości Konserwatorskie. 63: 116–124.
  37. Mollenhauer, J. (2014). „Sculpting the past in preclassic Mesoamerica: Olmec stone monuments and the production of social memory“. Ancient Mesoamerica. 25 (1): 11–27. doi:10.1017/S0956536114000042.
  38. Häussler, R. (1998). „Architecture, performance and ritual: the role of state architecture in the Roman Empire“. Theoretical Roman Archaeology Journal. doi:10.16995/TRAC1998_1_13.
  39. Staack, T. „Bindings of Ancient Chinese Bamboo and Wood Scrolls“. Í Alessandro Bausi and Michael Friedrich (ritstjóri). Tied and Bound: A Comparative View on Manuscript Binding. Studies in Manuscript Cultures 33. De Gruyter. bls. 39–68. doi:10.1515/9783111292069-003.
  40. Yi, X. (2023). „Development and Evolution of Papermaking in Ancient China based on the Uses and Forms of Paper“. Paper and Biomaterials. 8 (3). doi:10.26599/pbm.2023.9260016.
  41. McKinnon, James W. (2016). „Hydraulis“. Groves Dictionary of Music and Musicians. Oxford: Oxford University Press – gegnum Online Portal to Oxford Music Online.
  42. Kang, Y., & Sh, A. (2024). „An Initial Exploration of the Historical Development and Origin of the Guzheng“. Highlights in Art and Design. 6 (1): 25–31. doi:10.54097/gqgpm010.
  43. Elliott, J. K. (2004). „Early Christian book-production: papyri and manuscripts“. The Collected Biblical Writings of TC Skeat. Brill. bls. 33–59.
  44. Tigchelaar, E. (2016). „The material variance of the Dead Sea Scrolls: On texts and artefacts“. HTS: Theological Studies. 72 (4): 1–6. doi:10.4102/hts.v72i4.3281.
  45. Resnick, I. M. (1992). „The Codex in Early Jewish and Christian Communities“. The Journal of Religious History. 17 (1): 1–17. doi:10.1111/j.1467-9809.1992.tb00699.x.
  46. Tuszyńska, B. (2019). „On preserved and lost Ancient Maya books“. Z Badań nad Książką i Księgozbiorami Historycznymi (13): 21–39. doi:10.33077/uw.25448730.zbkh.2019.156.
  47. Suárez, R., Sendra, J. J., & Alonso, A. (2013). „Acoustics, Liturgy and Architecture in the Early Christian Church. From the domus ecclesiae to the basilica“. Acta Acustica united with Acustica. 99 (2): 292–301. doi:10.3813/aaa.918611.
  48. Blachly, Alexander (1990). „Some Observations on the "Germanic" Plainchant Tradition“. Current Musicology. 45–47: 85–117. doi:10.7916/D8QR4VZJ.
  49. Hucke, H. (1980). „Toward a new historical view of Gregorian chant“. Journal of the American Musicological Society. 33 (3): 437–467. doi:10.2307/831302.
  50. Blench, R. (2013). „Methods and results in the reconstruction of music history in Africa and a case study of instrumental polyphony“. Azania: Archaeological Research in Africa. 48 (1): 31–64. doi:10.1080/0067270X.2013.771016.
  51. Thöne, J. P. (2024). Papal Polyphony during the Great Western Schism (1378–1417): How Music Dedicated to Popes Absorbed and Reflected a Time of Crisis (PDF) (PhD thesis). Oslo Universitet.
  52. Cormack, R. (2018). Byzantine art. Oxford History of Art. Oxford University Press.
  53. Koo Schadler (2021). „History of egg tempera painting“ (PDF). http://www.kooschadler.com.
  54. Shaw, Wendy (2021). „Islam and Art: An Overview“. Oxford Research Encyclopedia of Religion. doi:10.1093/acrefore/9780199340378.013.783.
  55. Hill, D. (2001). „The practice and social evolution of the Javanese Gamelan: Evolution and continuity“. Contemporary Theatre Review. 11 (1): 19–27. doi:10.1080/10486800108568607.
  56. Pan, J. (1997). „On the origin of printing in the light of new archaeological discoveries“. Chinese Science Bulletin. 42: 976–981. doi:10.1007/BF02882611.
  57. Matthías Johannessen (1973, 1. apríl). „Upphaf nútímalistar“. Lesbók Morgunblaðsins. 48 (13): 1–8.