Áttatíu ára stríðið
Áttatíu ára stríðið eða Hollenska uppreisnin 1568 til 1648 var uppreisn sautján sýslna í Niðurlöndum gegn yfirráðum Spánarkonungs af ætt Habsborgara sem leiddi til klofnings þeirra í tvö ríki: Spænsku Niðurlönd (hluti þeirra varð síðar Belgía en hluti gekk til Frakklands) og Lýðveldið Holland (sem síðar varð Konungsríkið Holland).
Uppreisnin blossaði upp vegna óánægju með aukna skattlagningu og ofsókna á hendur mótmælendum sem einkenndi fyrstu ríkisár Filippusar 2. Spánarkonungs, en hann tók við völdum eftir lát hins flæmskfædda Karls 5. árið 1558. Vandræðin hófust fyrir alvöru þegar hópur kalvínista réðist inn í kirkju í Hondschoote og eyðilagði helgimyndir. Þetta breiddist út um landið og bæjarstjórnirnar létu yfirleitt undir höfuð leggjast að refsa fyrir myndbrotin. Hópur aðalsmanna undirritaði bænaskjal sem þeir afhentu landstjóranum, Margréti af Parma þar sem þeir óskuðu eftir að konungur virti það frelsi sem Niðurlönd höfðu notið í valdatíð Karls.
Járnhertoginn
[breyta | breyta frumkóða]Til að takast á við ástandið sendi Filippus inn herlið undir stjórn Fernando Álvarez de Toledo hertoga sem kom til Brussel 22. ágúst 1567. Hertoginn leit á sig sem fulltrúa Filippusar og gekk þannig alveg framhjá landstjóranum sem leiddi til afsagnar hennar. Hann lét meðal annars taka greifanna Philip de Montmorency og Lamoral af lífi fyrir að hafa sýnt mótmælendum linkind. Fyrir þetta hlaut hann viðurnefnið „járnhertoginn“. Þessar aðgerðir ollu almennri hneykslan og virkuðu eins og olía á eld.
Vilhjálmur þögli af Óraníu var þá staðarhaldari í sýslunum Hollandi, Sjálandi og Utrecht og áhrifamestur þeirra sem höfðu undirritað bænaskjalið. Hann hafði flúið til landa föður eiginkonu sinnar í Saxlandi til að komast hjá handtöku. Allar eigur hans í Niðurlöndum voru gerðar upptækar.
Innrás Vilhjálms
[breyta | breyta frumkóða]1568 sneri hann aftur til Niðurlanda ásamt bræðrum sínum með málaliðaher til að reyna að hrekja Fernando hertoga burt frá Brussel. Hann leit ekki á þetta sem uppreisn gegn konungi, heldur fremur sem leið til að ná aftur sáttum, þar sem hertoginn var gríðarlega óvinsæll. Fyrsta orrustan var orrustan við Rínardal 23. apríl 1568. Þar unnu Spánverjar sigur. Brátt var Vilhjálmur orðinn uppiskroppa með fé til að halda herförinni áfram og hún rann því út í sandinn. Hann var þó orðinn leiðtogi uppreisnarinnar, sem sá eini af niðurlenska aðlinum sem gat með góðu móti athafnað sig. Eitt af því sem hann gerði var að gefa út sjóræningjaleyfi til skipa sem réðust á spænsk skip á Norðursjó. Hópur niðurlenskra skipstjóra sem kölluðu sig Sjóbetlara, tóku því upp sjórán og notuðu enskar hafnir sem bækistöðvar. Þeir nutu þess meðal annars að spænski flotinn átti þá í átökum við Tyrkjaveldi í Miðjarðarhafinu og gat lítið beitt sér á Norðursjó.
Uppreisnin blossar upp aftur
[breyta | breyta frumkóða]Um 1570 hafði Spánverjum tekist að brjóta uppreisnina á bak aftur nánast um öll Niðurlönd. 1571 ákvað hertoginn að leggja á nýjan 10% söluskatt (tíunda hvern pening), og 1572 ákvað Elísabet 1. að reka Sjóbetlarana úr enskum höfnum til að friða Spánarkonung. Betlararnir hertóku þá, öllum að óvörum, bæinn Brielle, 1. apríl. Þessu var tekið sem táknrænum sigri og varð til þess að uppreisnin hófst aftur. Flestar borgir í Hollandi og Sjálandi lýstu nú yfir stuðningi við uppreisnina. Undantekningar frá þessu voru borgirnar Amsterdam og Middelburg sem voru áfram trúar konungi til 1578. Nú komu líka upp deilur milli hinna róttæku kalvínista, sem vildu berjast gegn hinum kaþólska konungi og gera öll Niðurlönd mótmælendatrúar og þeirra sem vildu halda tryggð við konung en tryggja hefðbundin réttindi Niðurlanda. Vilhjálmur neyddist smátt og smátt til að taka undir hin róttækari sjónarmið kalvínista. Hann tók sjálfur kalvínstrú 1573.
Friðarsamkomulagið í Ghent
[breyta | breyta frumkóða]Þar sem honum hafði mistekist að berja uppreisnina niður var járnhertoginn kallaður heim 1573 og Luis de Requesens sendur til að reyna hófsamari aðferðir gegn uppreisnarmönnum. Honum tókst þó ekki að gera friðarsamkomulag fyrir dauða sinn 1576. Spánn hafði neyðst til að lýsa yfir gjaldþroti árið áður og nú tóku spænsku atvinnuhermennirnir að gera uppþot þar sem þeim hafði ekki verið greitt. Í nóvember 1576 réðust uppreisnarhermenn á Antwerpen, drápu 8.000 íbúa og rændu borgina. Þetta atvik herti uppreisnarmennina enn í afstöðu sinni. Sýslurnar sautján gerðu með sér Friðarsamkomulagið í Ghent þar sem þær bundust sáttum um trúarlegt umburðarlyndi og að berjast sameinaðar gegn uppreisnarhermönnum en héldu áfram trúnaði við Filippus að nafninu til.
Atrechtsambandið og Utrechtsambandið
[breyta | breyta frumkóða]Filippus sendi nýjan landstjóra, Alessandro Farnese, hertoga af Parma og Piacenza, 1578. Hertoganum tókst að fá syðri sýslurnar í Vallóníu, til að undirrita Atrechtsambandið í janúar 1579 þar sem þær lýstu yfir trúnaði við Filippus. Þetta þýddi endalok samstarfs sýslnanna og skömmu síðar fékk Vilhjálmur því til leiðar að sýslurnar Holland, Sjáland, Utrecht, Guelders og Groningen gerðu með sér Utrechtsambandið 23. janúar. Niðurlönd voru því klofin í tvennt.
Höfnunareiðurinn
[breyta | breyta frumkóða]Norðursýslurnar hófu nú að leita að öðrum konungi í stað Filippusar. Fyrst buðu þær Elísabetu Englandsdrottningu titilinn en hún hafnaði. Sýslurnar gerðu þá franska aðalsmanninum François af Anjou sama tilboð og hann tók því með því skilyrði að sýslurnar segðu sig úr lögum við Filippus fyrst. Þær gáfu þá út Höfnunareiðinn 1581 þar sem því var lýst yfir að Filippus hefði ekki haldið trúnað við Niðurlönd og gæti því ekki lengur talist réttmætur konungur. Anjou kom til norðursýslnanna sem konungur en fékk lítil völd frá stéttaþinginu sem vantreysti honum. Hann reyndi án árangurs að styrkja stöðu sína með hervaldi og sneri eftir það aftur heim 1583. Elísabetu var nú aftur boðin konungstign en hún hafnaði og stéttaþingið ákvað því að stjórna sem lýðveldi þess í stað.
Fall Antwerpen
[breyta | breyta frumkóða]Strax eftir höfnunareiðinn sendi Filippus herlið til að taka norðursýslurnar aftur. Undir stjórn Farneses tókst þessu liði að leggja undir sig stærstan hluta sýslnanna Flandurs og Brabant og 1585 féll stærsta borg Niðurlanda, Antwerpen, í hendur honum eftir langt umsátur. Stór hluti íbúa borgarinnar flúði þá til norðurs. Í reynd voru þá orðin til tvö ríki: kalvínskt lýðveldi í norðri og kaþólskt konungsríki í suðri.
Vilhjálmur þögli, sem Filippus hafði lýst útlægan í mars 1580, var myrtur af konungssinnanum Balthasar Gérard 10. júlí 1584. Sonur hans Mórits af Óraníu tók þá við hlutverki uppreisnarleiðtoga. Herfarir hans næstu árin afmörkuðu landamærin milli ríkjanna tveggja.