Fara í innihald

Saarland

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Fáni Saarlands Skjaldarmerki Saarlands
Flagge von Hessen
Flagge von Hessen
Landeswappen Hessens
Upplýsingar
Höfuðstaður: Saarbrücken
Stofnun: 1. janúar 1957
Flatarmál: 2.569,69 km²
Mannfjöldi: 980.000 (2021)
Þéttleiki byggðar: 385/km²
Vefsíða: saarland.de
Stjórnarfar
Forsætisráðherra: Tobias Hans (CDU)
Lega

Saarland er minnsta sambandsland Þýskalands utan borgríkjanna Berlín, Hamborg og Bremen, aðeins 2.569 km² að flatarmáli. Íbúarnir eru aðeins tæp ein milljón (2021), sem gerir Saarland að næstfámennasta sambandslandi Þýskalands. Aðeins Bremen er fámennari. Saarland hefur lengi verið bitbein milli Þýskalands og Frakklands, rétt eins og Elsass (Alsace) og Lothringen (Lorraine).

Saarland liggur suðvestarlega í Þýskalandi og á löng landamæri að Frakklandi í vestri. Vestasti oddinn tengist einnig Lúxemborg. Að öðru leyti er Saarland umlukið af sambandslandinu Rínarlandi-Pfalz.

Fáni og skjaldarmerki

[breyta | breyta frumkóða]

Fáni Saarlands er eins og þýski fáninn, nema hvað skjaldarmerki sambandslandsins er í miðjunni. Fáni þessi var tekinn upp 1957, þegar Saarland var stofnað sem sambandsland, gagngert til að sýna fram á að landið væri þýskt. Skjaldarmerki Saarlands er fjórskipt. Efst til vinstri er hvítt ljón á bláum grunni, en það var merki greifanna frá Saarbrücken. Efst til hægri er rauður kross á hvítum grunni, sem var merki kjörbiskupanna frá Trier. Neðst til vinstri eru þrír hvítir ernir í rauðum borða á gulum grunni, en það var merki hertogadæmisins Lothringen (Lorraine), sem í dag er franskt. Neðst til hægri er gyllt ljón á svörtum grunni, sem var merki hertogadæmisins Pfalz-Zweibrücken. Skjaldarmerki þetta var tekið upp 1. janúar 1957, daginn sem Saarland varð að sambandslandi.

Saarland er nefnt eftir ánni Saar sem rennur í gegnum landið og er þverá Mósel. Áin hét Saravus á 3. öld og er heitið dregið af indógermanska orðinu ser, sem merkir að fljóta. Áin Saar á upptök sín í Frakklandi og heitir Sarre á frönsku.[1]

Söguágrip

[breyta | breyta frumkóða]
Saarfrankar frá 1955
 • 925 varð landið hluti af hinu heilaga rómverska ríki. Mörg greifadæmi myndast. Þeirra helst er greifadæmið Saarbrücken.
 • Næstu aldir tilheyrði landið ýmsum greifadæmum, s.s. hertogadæminu Lothringen, kjörfurstadæminu Trier og hertogadæmunum Pfalz-Zweibrücken og Nassau-Saarbrücken.
 • 1680 réðst Loðvík XIV. inn í þýska ríkið í 9 ára stríðinu. Landsvæðið var allt innlimað í Frakkland (Reunion) og myndaði í fyrsta sinn eina heild, Saarsvæðið.
 • 1697 varð Frakkland að skila Saarsvæðinu aftur í friðarsamningunum í Rijswijk.
 • 1793 innlimuðu Frakkar Saarsvæðið aftur í byltingarútrásinni.
 • 1814 úrskurðaði Vínarfundurinn að Frakkar skyldu skila Saarsvæðinu og skyldi því skipt milli Prússlands og Bæjaralands og nokkurra smærri furstadæma.
 • Síðla á 19. öld hófst kola- og stáliðnaðurinn í héraðinu.
 • 1871 sigraði Bismarck Frakka í orrustunni við Spichern, nálægt Saarbrücken, og innlimaði Elsass og Lothringen. Prússland varð keisaradæmi og Saarsvæðið hluti af því.
 • 1918 beið Þýskaland ósigur í heimstyrjöldinni fyrri. Frakkar hernámu Saarhéraðið.
 • 1920 úrskurðaði þjóðabandalagið að Saarhéraðið skyldi vera undir stjórn Frakklands í 15 ár.
 • 1935 fór fram þjóðaratkvæðagreiðsla í Saarhéraðinu og kusu rúmlega 90% íbúanna sameiningu við Þýskaland. Það varð formlega sérstakt hérað og fékk í fyrsta sinn heitið Saarland.
 • 1945 biðu Þjóðverjar ósigur í heimstyrjöldinni síðari. Frakkar áformuðu að innlima Saarland endanlega, en Þjóðabandalagið meinaði þeim það.
 • 1946 var Saarland klofið frá franska hernámssvæðinu og breytt í franskt verndarsvæði með eigin stjórn, stjórnarskrá og mynt (Saarmark og síðar Saarfranka 1947).
 • 1955 fór fram þjóðaratkvæðagreiðsla í Saarland og kusu 67% íbúanna sameiningu við Þýskaland.
 • 1957 varð Saarland að yngsta sambandslandi Þýskalands (utan Austur-Þýskalands).

Stærstu borgir Saarlands eftir íbúafjölda:

Röð Borg Íbúar Ath.
1 Saarbrücken 176 þúsund Höfuðborg sambandslandsins
2 Neunkirchen 48 þúsund
3 Homburg 43 þúsund

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
 1. Geographische Namen in Deutschland. Duden. 1993. Bls. 230.