Fara í innihald

Guðleysi

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Guðleysi er sú afstaða að trúa ekki á eða tilbiðja guði né æðri máttarvöld eða sú afstaða að hafna tilvist þeirra.[1] Orðið „guðleysi“ getur einnig verið samheiti orðsins „trúleysi“ en stundum er sá greinarmunur gerður á trúleysi og guðleysi að guðleysi sé eingöngu skortur á trú á guð eða guði (eða sú skoðun að guð sé ekki til) en trúleysi sé skortur á trú á bæði guði og alla aðra yfirnáttúru (eða sú skoðun að guð og öll önnur yfirnáttúra sé ekki til).

Þegar talað eru um guðleysi sem skort á trú á guð eða guði er það stundum nefnt veikt guðleysi en þegar það felur í sér þá skoðun að guð eða guðir séu hreinlega ekki til er það stundum nefnt sterkt guðleysi.

Veikt og sterkt guðleysi[breyta | breyta frumkóða]

Munurinn á veiku og sterku guðleysi er mikilvægur. Sterkt guðleysi felur í sér veikt guðleysi en ekki öfugt. Þennan mun má skýra með hliðstæðu dæmi af ótrúarlegum toga: Maður nokkur er ekki þeirrar skoðunar að Eiffel-turninn sé 400 m hár; en þótt hann hafi ekki þá skoðun að Eiffel-turninn sé 400 m hár er þó ekki þar með sagt að hann hljóti að vera þeirrar skoðunar að Eiffel-turninn sé ekki 400 m hár. Það er nefnilega ekki nauðsynlegt að sérhver maður hljóti að vera annaðhvort þeirrar skoðunar að Eiffel-turninn sé 400 m hár eða þeirrar skoðunar að hann sé ekki 400 m hár; sumir hafa aldrei heyrt á Eiffel-turninn minnst og hafa enga skoðun á málinu. Veikir guðleysingjar eru eins og þeir sem hafa hvorki þá skoðun að Eiffel-turninn sé 400 m hár né þá skoðun að hann sé ekki 400 m hár, nema hvað skoðanir veikra guðleysingja snúa að tilvist guðs: Þeir hafa ekki þá skoðun að guð sé til en ekki heldur þá skoðun að guð sé ekki til. Ef einhver er á hinn bóginn á þeirri skoðun að Eiffel-turninn sé ekki 400 m hár, heldur sé hann annaðhvort hærri eða lægri, þá má segja að sá hinn sami eigi það sameiginlegt með þeim fyrrnefnda að hann hefur ekki þá skoðun að turninn sé 400 m hár; báðir eiga það sameiginlegt að hafa ekki þá skoðun að turnin sé 400 m hár en sá síðarnefndi er beinlínis þeirrar skoðunar að turninn sé ekki 400 m hár. Síðarnefndi maðurinn er eins og sterkur guðleysingi, sem eins og veiki guðleysinginn hefur ekki þá skoðun að guð sé til en hefur á hinn bóginn þá skoðun ólíkt veika guðleysingjanum að guð sé ekki til.

Rétt eins og þeir sem ekki hafa heyrt minnst á Eiffel-turninn hafa enga skoðun á því hvað hann er hár hafa þeir sem aldrei hafa heyrt minnst á guði enga skoðun á því hvort guð eða guðir eru til eða ekki til. Í þessum skilningi er stundum sagt að allir fæðist guðlausir, því að ungabörn teljast til veikra guðleysingja þar sem þau hafa ekki heyrt minnst á guði og skortir hugtakið.[2]

Neðanmálsgreinar[breyta | breyta frumkóða]

 1. Eyja Margrét Brynjarsdóttir. „Hver er skilgreiningin á trúleysingja?“. Vísindavefurinn 11.5.2001. http://visindavefur.hi.is/?id=1589[óvirkur tengill]. (Skoðað 24.4.2007). Í svarinu kemur fram að orðin „guðleysi“ og „trúleysi“ geti verið samheiti og að það geti verið sú afstaða (í greininni nefnd „sterkt trúleysi“) að guð eða æðri máttarvöld séu beinlínis ekki til.
 2. Eyja Margrét Brynjarsdóttir. „Hver er skilgreiningin á trúleysingja?“. Vísindavefurinn 11.5.2001. http://visindavefur.is/?id=1589. (Skoðað 23.3.2010).

Frekari fróðleikur[breyta | breyta frumkóða]

 • Baggini, Julian. Atheism: A Very Short Introduction (Oxford: Oxford University Press, 2003). ISBN 0-19-280424-3
 • Dawkins, Richard. The GOD Delusion (New York: Houghton Mifflin, 2006). ISBN 0-618-68000-4
 • Harris, Sam. Letter to a Christian Nation (Alfred A Knopf, 2006). ISBN 0-307-26577-3
 • Harris, Sam. The End of Faith: Religion, Terror, and the Future of Reason (New York: W.W. Norton, 2004). ISBN 0-393-32765-5
 • Hitchins, Cristopher. God is not Great: How Religion Poisons Everything (New York: Twelve, 2007). ISBN 0-446-57980-7
 • Martin, Michael (ritstj.). The Cambridge Companion to Atheism (Cambridge: Cambridge University Press, 2006 [2007]). ISBN 0-521-60367-6
 • Martin, Michael. The Case Against Christianity (Philadelphia: Temple University Press, 1991). ISBN 1-56639-081-8
 • Mills, David. Atheist Universe: The Thinking Person's Answer to Christian Fundamentalism (Berkeley, CA: Ulysses Press, 2006). ISBN 1-56975-567-1
 • Nielsen, Kai. Atheism & Philosophy (Amherst, NY: Prometheus Books, 2005). ISBN 1-59102-298-3
 • Stenger, Victor J. God: the Failed Hypothesis. How Science Shows That God Does Not Exist (Amherst, NY: Prometheus Books, 2007). ISBN 978-1-59102-481-1
 • Walters, Kerry. Atheism: A Guide for the Perplexed (New York: Continuum, 2010). ISBN 0-8264-2493-7

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]

 • „Hver er skilgreiningin á trúleysingja?“. Vísindavefurinn.
 • Samfélag trúlausra Geymt 4 október 2017 í Wayback Machine
 • Vantrú.is