Evrópudómstóllinn

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Athugið að ruglast ekki á þessum dómstól og Mannréttindadómstól Evrópu, hann er stofnun á vegum Evrópuráðsins.

Evrópudómstóllinn (ECJ) er dómstóll Evrópusambandsins, hann hefur aðsetur í Lúxemborg ólíkt flestum stofnunum ESB sem hafa aðsetur í Brussel. Evrópudómstóllinn dæmir í málum sem varða túlkun á Evrópurétti en hann hefur einkarétt á slíkri túlkun og dómstólar í aðildarríkjunum eru bundnir af túlkun hans. Fordæmi Evrópudómstólsins er því mjög mikilvæg réttarheimild í ESB-rétti.

Lögsaga[breyta | breyta frumkóða]

Evrópudómstóllinn er ekki áfrýjunardómstóll sem hægt er að skjóta málum til frá dómstólum aðildarríkja heldur er lögsaga ECJ annars vegar og dómsstóla í aðildarríkjum hinsvegar skýrt afmörkuð þannig að hún skarist ekki. Aðild að málum fyrir ECJ geta átt: stofnanir ESB, aðildarríki ESB og einkaaðilar innan ESB. Lögsaga dómstólanna í málum er varða ESB-rétt skiptist þannig:

aðilar dómstóll með lögsögu
ESB-stofnun gegn ESB-stofnun ECJ
ESB-stofnun gegn aðildarríki ECJ
aðildarríki gegn aðildarríki ECJ
einkaaðili gegn ESB-stofnun ECJ
einkaaðili gegn aðildarríki dómstóll í aðildarríki
einkaaðili gegn einkaaðila dómstóll í aðildarríki

Í tveimur síðastnefndu tilfellunum geta landsdómstólarnir óskað eftir bindandi forúrskurði (sjá neðar) frá ECJ um þann þátt málsins sem snertir túlkun á lögum ESB. Landsdómstólum ber skylda til að fara eftir túlkun ECJ á ESB-rétti, þeir mega ekki sniðganga ESB-réttinn né lýsa einstök ákvæði hans ógild og þeim ber að túlka innlendan rétt í samræmi við ESB-rétt.

Evrópudómstóllinn fjallar eingöngu um löggjöf ESB, hann hefur ekki lögsögu til að taka afstöðu landsréttar í einstökum ríkjum. Túlkun dómstólsins á ESB-rétti getur þó lent í mótstöðu við lagaákvæði í aðildarríkjum og í þeim tilvikum víkja landslögin fyrir ESB-rétti án þess að dómstóllinn orði það sérstaklega.

Helstu tegundir mála sem ECJ dæmir[breyta | breyta frumkóða]

Forúrskurðir[breyta | breyta frumkóða]

Dómstólar í aðildarríkjum geta kallað eftir forúrskurði frá ECJ ef vafi leikur á einhverju atriði tengdu lögum ESB í málum sem þeir hafa til meðferðar. Það er dómarinn í málinu en ekki málsaðilar sem ákveður hvort að kalla eigi eftir forúrskurði og hvernig spurningin eigi þá að vera. Í vissum tilvikum er það skylda landsdómstólsins að leita eftir forúrskurði, sérstaklega ef um er að ræða æðsta dómstig í aðildarríkinu.

Evrópudómstóllinn tekur í forúrskurði sínum eingöngu afstöðu til þess hvernig eigi að túlka það ákvæði ESB-réttarins sem málið snýst um, hann tekur ekki afstöðu til sjálfs málsins heldur lætur dómstólnum sem leitaði eftir forúrskurðinum það eftir að dæma í málinu. Landsdómstóllinn er hinsvegar bundinn af forúrskurði ECJ um það hvernig skuli túlka hið umdeilda ESB-lagaákvæði og það sama á við um alla aðra dómstóla í aðildarríkjunum þegar þeir lenda í því síðar að nota þetta sama ákvæði.

Samningsbrotamál[breyta | breyta frumkóða]

Ógildingarmál[breyta | breyta frumkóða]

Aðildarríki, stofnanir ESB og einkaaðilar í ESB ríkjum geta farið fram á það að einstakar ákvarðanir og lagareglur sem stofnanir ESB hafa sent frá sér séu dæmdar ógildar, einkaaðilar geta þó einungis sótt slíkt mál ef þeir eiga beina hagsmuni í því. Ástæður sem geta réttlætt ógildingu eru: að stofnunin sem um ræðir hafi farið út fyrir valdsvið sitt, að umrædd löggjöf hafi ekki verið sett með formlega réttum hætti, ef efni löggjafar brýtur í bága við stofnsáttmála og þegar löggjöfin felur í sér misbeitingu á valdi.

Skaðabótamál[breyta | breyta frumkóða]

Tengill[breyta | breyta frumkóða]