Smáríki

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Smáríki eða örríki eru almennt viðurkennd sjálfstæð ríki í alþjóðakerfinu, með ýmist fáa íbúa og/eða lítið landsvæði. Alþjóðastjórnmál sem slík eru talin rekja rætur sínar til Vestfalíu-samninganna árið 1648[1], þar sem hið anarkíska stjórnskipulag, sem enn er við lýði, komst á. Með Vestfalíu-samningunum urðu sjálfstæði ríki til. Það er þó ekki fyrr en 1919 sem alþjóðastjórnmál sem fræðigrein kemst á laggirnar, en hún er alla jafna kennd við fyrri heimsstyrjöldina[1]. Eftir hremmingar styrjaldarinnar fannst mönnunum þeir vera knúnir til þess að koma í veg fyrir að álíka eyðilegging gæti nokkurn tímann endurtekið sig. M.ö.o. ástæðan fyrir tilvist (i. raison d’être) alþjóðastjórnmála er að koma í veg fyrir stríð[1]. Eðli málsins samkvæmt er lítið fjallað um smáríki í alþjóðastjórnmálum, en vert er að hafa í huga að margur er knár þótt hann sé smár.

Hvernig á að flokka ríkin sem mynda alþjóðakerfið?[breyta | breyta frumkóða]

Ekki eru allir á eitt sammála hvernig flokka eigi ríkin sem mynda alþjóðakerfið, þ.e. hvort gera eigi greinarmun á ofurveldum, stórveldum, miðlungsríkjum, og smáríkjum, og hvernig flokka eigi ríki í einn flokk umfram annan[2]. Abramo Organski er talinn vera einn sá fyrsti sem flokkaði ríki í fjóra flokka, án þess þó að skýra neitt frekar hvað einkenndi hvern og einn þeirra nákvæmlega.[3]

Smáríki[breyta | breyta frumkóða]

Hér áður fyrr voru smáríki einna helst flokkuð eftir fjórum breytum: fólksfjölda, yfirráðasvæði, vergri landsframleiðslu, og hernaðarmætti.[4] Baldur Þórhallsson flokkar smáríki aftur á móti eftir sex breytum, sem þó skarast að miklu leyti við áðurnefndar fjórar breyturnar:

  1. Stærð ríkisins, þ.e. fólksfjölda sem og landfræðileg stærð.
  2. Burðir fullveldisins, þ.e. að ríki geti bæðið staðið vörð um eigið fullveldi heimafyrir sem og að vera viðurkenndur aðili í alþjóðakerfinu.
  3. Stjórnarfarsleg stærð, þ.e. getan til að
  4. Efnahagsleg stærð, þ.e. verg landsframleiðsla og aðgangur ríkisins að mörkuðum.
  5. Vigt ríkisins, þ.e. hvernig aðrir aðilar, heimafyrir sem utan landsteinanna, sjá og skynja ríkið.
  6. Framtíðarsýn ríkisins, þ.e. markmið, stefna og forgangsröðun stjórnvaldanna, og hugmyndir þeirra um alþjóðakerfið.[4]

Misjafnt er við hvað er miðað en algengt er að miða við 1.000 ferkílómetra lands og minna en hálfa milljón íbúa. Ísland er þannig smáríki miðað við mannfjölda en ekki miðað við stærð. Stundum er þó miðað við meiri mannfjölda, t.d. 1,5 milljón íbúa. Minnsta almennt viðurkennda ríki heims er Vatíkanið sem nær yfir minna en hálfan ferkílómetra og var með 842 íbúa árið 2013. Önnur dæmi um smáríki eru Liechtenstein, Mónakó, Andorra, San Marínó, Niue og Míkrónesía.

Smáþjóðaleikarnir eru haldnir af 9 evrópskum ríkjum: Íslandi, Andorra, San Marínó, Liechtenstein, Mónakó, Lúxemborg, Möltu, Kýpur og Svartfjallalandi, en þau fjögur síðasttöldu teljast ekki til smáríkja miðað við 500.000 íbúa eða 1.000 ferkílómetra. Evrópumeistaramótið í körfuknattleik smáþjóða er í raun ekki fyrir smáríki heldur þau landslið sem eru lægst í styrkleikaröðinni.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  1. 1,0 1,1 1,2 Carvalho, Leira, and Hobson. (2011). The Big Bangs of IR: The Myths That Your Teachers Still Tell You about 1648 and 1919. Millennium – Journal of International Studies, 39(3): 745-46.
  2. Joordan. (2003). The concept of a middle power in international relations: Distinguishing between emerging and traditional middle powers. Politikon: South African Journal of Political Studies, 30(1), 165-181.
  3. Cooper, A. (2011). Challenging Contemporary Notions of Middle Power Influence: Implications of the Proliferation Security Initiative for “Middle Power Theory”. Foreign Policy Analysis, 7(3), 317-336.
  4. 4,0 4,1 Baldur Þórhallsson. (2006). The Size of States in the European Union: Theoretical and Conceptual Perspectives. European Integration, 28(1), 7–31.
  Þessi grein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.