Fara í innihald

Maximilian 1. keisari

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Maximilían 1. keisari)
Skjaldarmerki Habsborgarar Keisari Heilaga rómverska ríkisins
Habsborgarar
Maximilian 1. keisari
Maximilian 1.
Ríkisár 4. febrúar 1508 – 12. janúar 1519 (sem keisari)
16. febrúar 1486 – 12. janúar 1519 (sem konungur Rómverja og konungur í Þýskalandi)
SkírnarnafnMaximilian von Habsburg
Fæddur22. mars 1459
 Wiener Neustadt, Innra Austurríki
Dáinn12. janúar 1519 (59 ára)
 Wels, Efra Austurríki
GröfWiener Neustadt
Undirskrift
Konungsfjölskyldan
Faðir Friðrik 3.
Móðir Elinóra af Portúgal
DrottningMaría af Búrgúnd (g. 1477; d. 1482)
Anna af Bretagne (g. 1490; sk. 1492)
Bianca Maria Sforza (g. 1494; d. 1510)
BörnFilippus 1. Kastilíukonungur, Margrét af Austurríki, Frans af Austurríki (fleiri óskilgetin)

Maximilian I (22. mars 1459 í Wiener Neustadt12. janúar 1519 í Wels) var konungur þýska ríkisins (frá 1486), erkihertogi Austurríkis (frá 1493) og keisari þýska ríkisins (frá 1508). Maximilian erfði Búrgúnd og Niðurlönd í gegnum hjónaband sitt við Maríu, dóttur Karls djarfa. Með viturlegum hjónböndum barna sinna eignaðist Habsborgarættin einnig krúnu Spánar (þar með talin Ameríku) og síðar meir Ungverjalands og Bæheims.

Erkihertogi af Austurríki

[breyta | breyta frumkóða]

Maximilian fæddist í Wiener Neustadt 1459. Foreldrar hans voru Friðrik III keisari og eiginkona hans Eleonora frá Portúgal. Strax við fæðingu hlaut Maximilian titilinn erkihertogi af Austurríki. Hann ólst hins vegar upp í Vín. Hann var enn aðeins fjögurra ára drengur þegar sló í brýnu milli föður hans, Friðriks III keisara, og föðurbróður hans Albrechts VI hertoga Austurríkis. Íbúar Vínar opnuðu hliðin fyrir Albrecht og aðstoðuðu hann í að einangra og skjóta á kastalahöllina þar sem Friðrik hafði byrgt sig inni. Friðrik hrökklaðist að endingu frá, en hinn ungi Maximilian fyrirgaf Vínarbúum aldrei þennan gjörning. Mestan hluta ævinnar sat hann því í Wiener Neustadt eða Innsbruck, en kom sjaldan til Vínar. Móðir hans veitti honum hlýtt uppeldi og kenndi honum að sitja á hestbak og skjóta úr ör og boga. Hún lést er hann var einungis átta ára.

Hertogi af Búrgúnd

[breyta | breyta frumkóða]
Maximilian og María af Búrgúnd

Maximilian kvæntist Maríu af Búrgúnd 19. ágúst 1477 í belgísku borginni Gent. Hún var dóttir Karls djarfa, síðasta hertoga Búrgúnds. Karl lést á sama ári og erfði María öll lönd Búrgúnds, þar með talin Niðurlönd. María sjálf lést 1482 í veiðislysi og erfði Maximilian þá Búrgúnd og Niðurlönd. Þetta var upphafið að stjórn Habsborgar á Niðurlöndum. Frakkar hrifsuðu til sín kjarnaland Búrgúnd og reyndu að taka til sín fleiri aðliggjandi héruð. Í orrustunni við Guinegate í Norður-Frakklandi sigraði Maximilian Frakka og kom í veg fyrir frekara yfirgang Frakka á lendum Búrgúnds.

Konungur þýska ríkisins

[breyta | breyta frumkóða]
Maximilian í herklæðum. Málverk eftir Peter Paul Rubens.

16. febrúar 1486 var Maximilian kjörinn til konungs þýska ríkisins í Frankfurt þrátt fyrir að Friðrik faðir hans væri enn á lífi. Friðrik stjórnaði þó enn sem keisari, en konungskjör Maximilians var eingöngu framkvæmt til að tryggja konungdóm hans eftir fráfall Friðriks. 9. apríl á sama ári var Maximilian svo vígður til keisara í borginni Aachen. Eftir þetta reið Maximilian ekki feitum hesti í útistöðum sínum við Frakka. Oft tapaði hann orrustum og náði að flýja á síðustu stundu. Íbúar Niðurlanda voru óánægðir með þetta og létu handtaka Maximilian. Hann sat í dýflissu í Bruges (Brügge) í Flandri frá janúar til maí 1488, þar til Friðrik faðir hans kom aðvífandi með her og frelsaði hann. Saman tókst þeim að ná stjórn á Niðurlöndum og halda Frökkum í skefjun. 1490 kvæntist Maximilian Önnu frá Bretagne án þess að vera viðstaddur. Hjónabandið var hins vegar leyst upp ári síðar. Friðrik keisari lést 1493 og tók Maximilian þá formlega við konungdóminum í þýska ríkinu. Ári síðar kvæntist Maximilian Biöncu Mariu Sforza frá Mílanó. Karl VIII Frakklandskonungur gerði tilkall til konungdómsins í Napólí og hertók borgina í einu vettvangi 1495. Í kjölfarið mynduðu Maximilian, hertoginn af Milano, lýðveldið Feneyjar, Alexander VI páfa og Ferdinand II af Aragóníu heilaga bandalagið gegn Frakklandi. Á sama tíma stóð Maximilian í að mynda hjónabönd tveggja barna sinna við erfingja spænsku krúnunnar, sem eftir það varð eign Habsborgar. Þetta var upphafið af aldalöngum erjum milli Frakklands og Habsborgar. Á ríkisþingingu í Worms 1495 kom Maxilian ýmsum mikilvægum málefnum í gegn. Það mikilvægasta var skattanýjung, sem Þjóðverjar kalla gjarnan Gemeiner Pfennig (merkir bæði venjulegur Pfennig og óréttlátur Pfennig).

Þrátt fyrir að erkibiskupinn í Aachen hafi þegar smurt Maximilian til keisara árið 1486, var ákveðið að leyfa Júlíusi II páfa að endurtaka vígsluna. Maximilian og Júlíus hittust í Trient þar sem páfi veitti Maximilian keisaratignina í dómkirkjunni 4. febrúar 1508. Gjörning þennan var ekki hægt að framkvæma í Róm (Vatíkaninu) þar sem Maximilian hafði fjandskapast við lýðveldið Feneyjar og gat því ekki ferðast um lönd þess. En Maximilian átti vinaleg samskipti við ríkin í austri. Hann hitti þjóðhöfðingja Póllands, Rússlands Ungverjalands og Bæheims. Með klókum hjónaböndum hlutu Habsborgarar krúnur Ungverjalands og Bæheims áratug seinna. Lönd þessi héldust í austurríska keisaradæminu allt til 1918. Áður hafði Maximilian erft Búrgúnd og Niðurlönd. Hann lagði því grunninn að hinu mikla Habsborgarveldi, þar með talda Ameríku, sem eftirmaður hans stjórnaði og skipti upp. Á leið sinni til ríkisþingsins í Linz veiktist keisari hastarlega og lagðist í rúm í kastalavirkinu í Wels í Efra Austurríki. Þar lést hann 12. janúar 1519 úr þarmakrabba að talið er. Hann var lagður í steinkistu og hvílir í Wiener Neustadt. Við ríkinu tók barnabarn hans, Karl V keisari, en á hans tíma náði Habsborgarveldið mestu útbreiðslu sinni.

Fjölskylda

[breyta | breyta frumkóða]

Maximilian keisari kvæntist þrisvar og átti nokkur börn:

  • Fyrsta eiginkona: María af Búrgúnd (1457-1482). Þeirra börn:
    • 1. Filippus I Spánarkonungur (kvæntist Jóhönnu hinni vitskertu af Kastilíu)
    • 2. Margrét af Austurríki, giftist Jóhanni af Aragóníu og Kastilíu
    • 3. Frans, lést ungur
  • Þriðja eiginkona: Bianca Maria Sforza frá Mílanó (1472-1510). Litlir kærleikar voru milli þeirra og var þeim ekki barna auðið.


Fyrirrennari:
Friðrik III
Konungur og keisari þýska ríkisins
(14931519)
Eftirmaður:
Karl V