Kassagerð Reykjavíkur
Kassagerð Reykjavíkur var reykvískt iðnfyrirtæki sem stofnað var árið 1932 en er nú hluti fyrirtækjasamsteypunnar Odda.
Kassagerðin var um áratuga skeið stærsti umbúðaframleiðandi á Íslandi. Fyrirtækið var stofnað um framleiðslu á trékössum, aðallega undir fisk, smjörlíki og niðursoðna mjólk. Síðar var hafin framleiðsla á bylgjupappa, pappakössum, öskjum undir hraðfrystan fisk og fleira. Í tengslum við áprentun á umbúðir kom Kassagerðin sér snemma upp fullkominni prentsmiðju og stóð lengi í hvers kyns prentframleiðslu, svo sem á dagatölum, stílabókum og reikningsbókum.
Hinn 1. janúar 2001 sameinuðust Kassagerðin og Umbúðamiðstöðin undir heiti Kassagerðarinnar. Haustið 2008 rann fyrirtækið svo ásamt prentsmiðjunni Gutenberg og Odda inn í sameinað prentfyrirtæki sem ber heiti síðastnefnda fyrirtækisins.
Kunnir starfsmenn
[breyta | breyta frumkóða]Ýmsir þjóðkunnir Íslendingar hafa starfað í Kassagerðinni. Jóhanna Sigurðardóttir starfaði þar sem skrifstofumaður frá 1971 til 1978, þegar hún tók sæti á Alþingi.
Tónlistarmaðurinn Bubbi Morthens og bræðurnir Danny og Mike Pollock kynntust þegar þeir störfuðu saman í Kassagerðinni árið 1979. Þeir stofnuðu síðar saman hljómsveitina Utangarðsmenn.