Fara í innihald

Austen Chamberlain

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Sir Austen Chamberlain
Chamberlain árið 1931
Flotamálaráðherra Bretlands
Í embætti
24. ágúst 1931 – 5. nóvember 1931
ForsætisráðherraRamsay MacDonald
ForveriA. V. Alexander
EftirmaðurSir Bolton Eyres-Monsell
Utanríkisráðherra Bretlands
Í embætti
3. nóvember 1924 – 4. júní 1929
ForsætisráðherraStanley Baldwin
ForveriRamsay MacDonald
EftirmaðurArthur Henderson
Fjármálaráðherra Bretlands
Í embætti
9. október 1903 – 4. desember 1905
ForsætisráðherraArthur Balfour
ForveriCharles Thomson Ritchie
EftirmaðurH. H. Asquith
Í embætti
10. janúar 1919 – 1. apríl 1921
ForsætisráðherraDavid Lloyd George
ForveriBonar Law
EftirmaðurSir Robert Horne
Persónulegar upplýsingar
Fæddur16. október 1863
Birmingham, Warwickshire, Englandi
Látinn16. mars 1937 (73 ára) London, Englandi
ÞjóðerniBreskur
StjórnmálaflokkurÍhaldsflokkurinn
MakiIvy Muriel Dundas (g. 1906)
Börn3
HáskóliTrinity-háskólinn í Cambridge
Sciences Po
AtvinnaStjórnmálamaður
Verðlaun Friðarverðlaun Nóbels (1925)
Undirskrift

Sir Joseph Austen Chamberlain (16. október 1863 – 16. mars 1937) var breskur stjórnmálamaður. Hann var sonur stjórnmálamannsins Josephs Chamberlain og hálfbróðir forsætisráðherrans Neville Chamberlain. Hann hlaut friðarverðlaun Nóbels árið 1925 fyrir starf sitt við að koma á Locarno-sáttmálanum.

Æska og uppvöxtur

[breyta | breyta frumkóða]

Joseph Austen Chamberlain var elsti sonur breska viðskipta- og nýlendumálaráðherrans Josephs Chamberlain. Hann gekk í Rugby-skólann og nam síðar sagnfræði við Trinity-háskólann við Cambridge. Þar á eftir gekk hann í níu mánuði í Stjórnmálafræðistofnun Parísar og varði tólf mánuðum í Berlín. Chamberlain sneri heim til Birmingham árið 1887 og fékk vinnu sem einkaritari föður síns.

Stjórnmálaferill

[breyta | breyta frumkóða]

Chamberlain hóf stjórnmálaferil sinn sem borgarstjóri í Birmingham. Árið 1892 var hann kjörinn á neðri deild breska þingsins fyrir Frjálslynda sambandssinna í kjördæminu Austur-Worcestershire. Chamberlain hélt þessu þingsæti þar til faðir hans lést árið 1914, en þá tók hann við þingsæti föður síns í Vestur-Birmingham.

Árið 1895, sama ár og faðir hans tók sæti í ríkisstjórn Salisbury lávarðar, varð Chamberlain aðstoðarráðherra í flotamálaráðuneytinu (e. Civil Lord of the Admiralty). Frá 1900 til 1902 var hann ríkisritari í fjármálaráðuneytinu, síðan póstmálaráðherra í ríkisstjórn Arthurs Balfour frá 1902 til 1903 og fjármálaráðherra í sömu stjórn frá 1903 til 1905.

Líkt og faðir sinn var Chamberlain hlynntur beitingu tollamúra til að vernda breska framleiðslu en eftir að faðir hans sagði upp sæti sínu í stjórn Balfours vegna ágreinings um tollamál í september 1903 tók Austen upp hlutlausari afstöðu til málsins. Þegar Joseph Chamberlain neyddist árið 1906 til að hætta þingmennsku vegna veikinda varð Austen einn helsti leiðtogi verndartollasinna á þinginu.

Árið 1913 varð Chamberlain formaður nefndar um fjármál Indlands og síðan Indlandsmálaráðherra árið 1915 í samsteypustjórn H. H. Asquiths. Í fyrri heimsstyrjöldinni studdi Chamberlain innrás Breta á áhrifasvæði Tyrkjaveldis í Mesópótamíu í því skyni að auka völd Breta í Mið-Austrinu og draga úr hættunni á að Þjóðverjar kyntu undir uppreisn múslima í Indlandi.[1] Mesópótamíuherferðin misheppnaðist hrapalega og Chamberlain ákvað árið 1917 að segja af sér sem Indlandsmálaráðherra til að axla ábyrgð.[2]

Í apríl árið 1918 tók Chamberlain sæti í stríðsstjórn Davids Lloyd George. Í janúar 1919 tók Chamberlain við af Bonar Law sem fjármálaráðherra og gegndi hann því embætti til ársins 1921. Frá 1921 til 1922 var hann innsiglisstjóri og þingflokksleiðtogi í neðri málstofunni. Á sama tímabili var Chamberlain leiðtogi Íhaldsflokksins ásamt Curzon lávarði. Þeir voru síðustu leiðtogar Íhaldsflokksins sem urðu aldrei forsætisráðherrar Bretlands þar til William Hague lauk formannstíð sinni árið 2001.

Chamberlain varð einnig utanríkisráðherra Bretlands frá 1924 til 1929. Í því embætti skipaði hann hernaðarinngrip í Egyptalandi eftir að breski hershöfðinginn Lee Stack var myrtur í Kaíró árið 1924. Hann var jafnframt áhugasamur um málefni Kína og hagsmuni Breta þar í landi.

Chamberlain fundaði ásamt Aristide Briand og Gustav Stresemann, utanríkisráðherrum Frakklands og Þýskalands, í Locarno á Ítalíu í október árið 1925 til að ræða um landamæri Þýskalands og skilyrði fyrir inngöngu Þjóðverja í Þjóðabandalagið. Hann vonaðist til þess að koma á sáttum milli Frakka og Þjóðverja en gefa í staðinn nokkuð eftir landamærakröfum Þjóðverja í Austur-Evrópu.[3] Niðurstaða ráðstefnunnar var Locarno-sáttmálinn, sem fól í sér skuldbindingu ríkjanna til að virða landamærin á milli Frakklands, Þýskalands og Belgíu í þáverandi mynd og beita ekki hervaldi til að fá þeim breytt.[4][5] Sáttmálarnir tryggðu hins vegar ekki landamæri Þýskalands í Austur-Evrópu, sem olli mikilli óánægju Pólverja og annarra Austur-Evrópuþjóða.[6] Chamberlain hlaut friðarverðlaun Nóbels árið 1925 fyrir að vinna að Locarno-sáttmálunum.

Chamberlain sagði af sér og settist í helgan stein árið 1929. Hann var í stuttan tíma flotamálaráðherra í þjóðstjórn Ramsay MacDonald á kreppuárunum. Á fjórða áratuginum var Chamberlain meðal þeirra sem hvöttu til þess að Bretar vígbyggjust til að vera betur undirbúnir gegn þeirri hernaðarógn sem stafaði af Þýskalandi nasismans.[7]

  • The League of Nations. – Glasgow : Jackson, Wiley, 1926
  • Peace in Our Time : Addresses on Europe and the Empire. – London : Allen, 1928
  • Speeches on Germany. – London : Friends of Europe Publications, 1933
  • Down the Years. – London : Cassell, 1935
  • Politics from Inside : An Epistolary Chronicle, 1906-1914. – London : Cassell, 1936

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Woodward, David R, "Field Marshal Sir William Robertson", Westport Connecticut & London: Praeger, 1998, ISBN 0-275-95422-6, bls. 113, 118-9
  2. „Chamberlain out of India Office“ (PDF). The New York Times. 13. júlí 1917. Sótt 16. apríl 2020.
  3. Stephen Schuker, "The End of Versailles" in The Origins of the Second World War Reconsidered: A.J.P. Taylor and the Historians edited by Gordon Martel (Routledge: 1999) p. 48-49.
  4. Friðarsamningarnir í Locarno. 17. júní. 1. nóvember 1925.
  5. Einar Olgeirsson (1. febrúar 1925). Locarno og friðurinn. Réttur.
  6. Michael Brecher (2016). The World of Protracted Conflicts. Lexington Books. bls. 204.
  7. Alfred F. Havighurst (1985). Britain in Transition: The Twentieth Century. University of Chicago Press. bls. 252. ISBN 9780226319704. Afrit af uppruna á 4. maí 2016. Sótt 16. apríl 2020.