Stanley Baldwin

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Stanley Baldwin
Forsætisráðherra Bretlands
Í embætti
23. maí 1923 – 16. janúar 1924
ÞjóðhöfðingiGeorg 5.
ForveriBonar Law
EftirmaðurRamsay MacDonald
Í embætti
4. nóvember 1924 – 5. júní 1929
ÞjóðhöfðingiGeorg 5.
ForveriRamsay MacDonald
EftirmaðurRamsay MacDonald
Í embætti
7. júní 1935 – 28. maí 1937
ÞjóðhöfðingiGeorg 5.
Játvarður 8.
Georg 6.
ForveriRamsay MacDonald
EftirmaðurNeville Chamberlain
Persónulegar upplýsingar
Fæddur3. ágúst 1867
Bewdley, Worcestershire, Englandi
Látinn14. desember 1947 (80 ára) Stourport-on-Severn, Worcestershire, Englandi
ÞjóðerniBreskur
StjórnmálaflokkurÍhaldsflokkurinn
MakiLucy Baldwin
Undirskrift

Stanley Baldwin (3. ágúst 1867 – 14. desember 1947) var breskur stjórnmálamaður úr Íhaldsflokknum sem var mjög áberandi í breskum stjórnmálum á millistríðsárunum. Hann var þrisvar forsætisráðherra og er eini breski forsetisráðherrann sem gegndi embættinu á valdatíðum þriggja konunga (Georgs 5., Játvarðar 8. og Georgs 6.).

Æviágrip[breyta | breyta frumkóða]

Baldwin gekk fyrst á neðri deild breska þingsins árið 1908 fyrir Bewdley og leysti þar föður sinn, Alfred Baldwin, af hólmi. Hann gegndi embættum í þjóðstjórn Davids Lloyd George. Árið 1922 stóð Baldwin manna fremst fyrir því að Íhaldsmenn bundu enda á stjórnarsamstarf sitt við Lloyd George. Í kjölfarið varð Baldwin fjármálaráðherra í Íhaldsstjórn Bonar Law. Þegar Bonar Law sagði af sér af heilsufarsástæðum árið 1923 varð Baldwin forsætisráðherra og formaður Íhaldsflokksins. Hann kallaði til kosninga árið 1923 til að skera úr um deilumál yfir innflutningstollum og tapaði þar þingmeirihluta Íhaldsmanna. Í kjölfarið varð Ramsay MacDonald forsætisráðherra minnihlutastjórnar Verkamannaflokksins.

Baldwin varð forsætisráðherra á ný árið 1924 eftir að hafa unnið þingkosningar það ár. Í ríkisstjórn hans voru m. a. Winston Churchill (fjármálaráðherra) og Neville Chamberlain (heilbrigðisráðherra). Þeir juku vinsældir Íhaldsflokksins með ýmsum umbótum sem Frjálslyndi flokkurinn hafði þá fremur verið bendlaður við. Þar á meðal voru iðnaðarsáttargerðir, atvinnuleysisbætur, hærri ellilífeyrir, uppbygging í fátækrahverfum, bygging fleiri íbúðabygginga og aukin framlög til barnseigandi kvenna. Áframhaldandi efnahagshalli og lélegur rekstur náma og iðnaðar ollu því þó að vinsældir hans döluðu. Einnig þurfti ríkisstjórn hans að glíma við almennt verkfall árið 1926 og setti árið 1927 lög til að takmarka vald stéttarfélaga.[1]

Baldwin tapaði með naumindum þingkosningum árið 1929 og var harðlega gagnrýndur fyrir að sitja áfram sem formaður Íhaldsflokksins. Árið 1931 stofnaði Ramsay MacDonald nýja þjóðstjórn með mörgum ráðherrum úr Íhaldsflokknum og vann mikinn meirihluta í kosningum það ár. Sem einn fjögurra Íhaldsráðherra í þjóðstjórninni tók Baldwin við ýmsum skyldum forsætisráðherrans eftir því sem heilsu MacDonald hrakaði. Þessi ríkisstjórn vann að því að veita Indlandi aukna heimastjórn, en þann verknað gagnrýndu Churchill og margir aðrir Íhaldsmenn. Í lagasetningu árið 1931 voru Kanada, Ástralía, Nýja-Sjáland og Suður-Afríka gerð að sjálfsstjórnarsvæðum og skref tekin að stofnun breska samveldisins. Sem flokksformaður beitti Baldwin ýmsum nýstárlegum aðferðum í almenningssamskiptum eins og útvarpi og kvikmyndum til að vera sýnilegur alþýðunni og jók þannig vinsældir Íhaldsflokksins.

Árið 1935 tók Baldwin við af MacDonald sem forsætisráðherra þjóðstjórnarinnar og vann þingkosningarnar árið 1935 með öruggum meirihluta. Þessi kosning er enn þann dag í dag síðasta skiptið sem einn flokkur hlaut meirihluta allra atkvæða í breskum þingkosningum. Á þessu skeiði vann Baldwin að því að endurvopna breska herinn og sat auk þess yfir afar erfiðri afsögn Játvarðar 8. af konungsstól. Þriðja ríkisstjórn Baldwin háði ýmsar utanríkisdeilur og olli hneyksli almennings með fyrirhuguðu undanláti sínu gagnvart Benito Mussolini og innrás Ítala inn í Eþíópíu. Auk þess hervæddu Þjóðverjar Rínarlandið á ný og spænska borgarastyrjöldin braust út. Baldwin settist í helgan stein árið 1937 og Neville Chamberlain tók við sem forsætisráðherra. Þá var Baldwin vinsæll og almennt talinn hafa verið góður forsætisráðherra[2] en á síðasta áratug ævi hans fór fólk í auknum mæli að gagnrýna hann fyrir atvinnuleysið á fjórða áratugnum, fyrir að reyna að friðþægja Adolf Hitler og fyrir að gera ekki nóg til að búa Bretland undir seinni heimsstyrjöldina. Í dag líta fræðimenn þó almennt á Baldwin sem einn af betri forsætisráðherrum Breta.[3]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Philip Williamson, "The Conservative Party 1900 – 1939," in Chris Wrigley, ed., A Companion to Early 20th-Century Britain, (2003) pp 17-18
  2. „Unthinkable? Historically accurate films“. The Guardian. UK. 29. janúar 2011.
  3. Paul Strangio; og fleiri (2013). Understanding Prime-Ministerial Performance: Comparative Perspectives. Oxford UP. bls. 224, 226.


Fyrirrennari:
Bonar Law
Forsætisráðherra Bretlands
(23. maí 1923 – 16. janúar 1924)
Eftirmaður:
Ramsay MacDonald
Fyrirrennari:
Ramsay MacDonald
Forsætisráðherra Bretlands
(4. nóvember 1924 – 5. júní 1929)
Eftirmaður:
Ramsay MacDonald
Fyrirrennari:
Ramsay MacDonald
Forsætisráðherra Bretlands
(7. júní 1935 – 28. maí 1937)
Eftirmaður:
Neville Chamberlain