Fara í innihald

Locarno

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Locarno
Skjaldarmerki Locarno
Staðsetning Locarno
KantónaTicino
Flatarmál
 • Samtals19,4 km2
Hæð yfir sjávarmáli
200 m
Mannfjöldi
 • Samtals15.824 (31 des 2.018)
Vefsíðawww.locarno.ch

Locarno er þriðja stærsta borgin í kantónunni Ticino í Sviss með 16 þúsund íbúa (2018). Hún er hlýjasta borgin í Sviss og sú nyrsta þar sem Miðjarðarhafsloftslags gætir. Borgin er þekkt fyrir alþjóðlega kvikmyndahátíð, sem og Locarno-samningana.

Lega og lýsing[breyta | breyta frumkóða]

Locarno liggur nyrst við stöðuvatnið stóra Lago Maggiore um miðbik kantónunnar, en suðurhluti vatnsins tilheyrir Ítalíu. Heilsubærinn Ascona og Locarno eru samvaxnir við strendur Lago Maggiore. Næstu borgir eru Bellinzona til austurs (20 km), Lugano til suðausturs (30 km) og Como á Ítalíu til suðausturs (60 km). Mílanó á Ítalíu er 110 km til suðurs. Sökum milds loftslags og fagurs umhverfis er Locarno mikill ferðamannabær. Þar vex ýmis suðrænn gróður, svo sem pálmatré. Frá Locarno ganga reglulegar skipasiglingar um Lago Maggiore alla leið til Ítalíu.

Skjaldarmerki[breyta | breyta frumkóða]

Skjaldarmerki Locarno er hvítt ljón á bláum grunni. Ljónið er nafngefandi fyrir borgina.

Orðsifjar[breyta | breyta frumkóða]

Locarno heitir Leocarnum á latínu en það merkir hold ljónsins.

Söguágrip[breyta | breyta frumkóða]

Mættir á Locarno-ráðstefnunni: Gustav Stresemann frá Þýskalandi, Austen Chamberlain frá Bretlandi og Aristide Briand frá Frakklandi
  • 807 kemur Locarno fyrst fyrir í skjölum.
  • 1002/04 setur Hinrik II keisari Locarno undir yfirráð biskupsins í Como, til að hindra að biskupinn í Mílanó, sem reyndi að seilast til meiri áhrifa, næði ekki völdum þar.
  • 1342 hertók Visconti-ættin borgina og varð hún þá eign markgreifadæmisins Mílanó.
  • 1503 hertóku Svisslendingar borgina í fransk-ítalska stríðinu um Mílanó en náðu ekki að hertaka kastalavirkið.
  • 1513 tapaði Loðvík XII orrustunni við Novara og yfirgaf Ítalíu. Frakkar yfirgáfu því kastalavirkið í Locarno. Borgin öll var þá í höndum Svissara.
  • 1535 náðu siðaskiptin til Locarno, en aðeins hluti af borgarbúum gekk til liðs við nýju trúna. 1554 var þeim veittur úrslitakostur: Að leggja niður nýju trúna eða fara í útlegð. Ári síðar yfirgáfu 100 manns borgina og fluttu til Zürich. Meirihluti borgarbúa hélst kaþólskur og er það enn.
  • 1803 var kantónan Ticino mynduð. Engin höfuðborg var kosin en þingið hittist í borgunum Locarno, Lugano og Bellinzona til skiptis á sex ára fresti. Locarno var því höfuðborg Ticino á árunum 1821-27, 1839-45, 1857-63 og 1875-81. Eftir það var það endanlega flutt til Bellinzona.
  • 1925 var haldin alþjóðleg ráðstefna í Locarno um framtíð Þýskalands, kölluð Locarno-samningarnir. Þeir kváðu svo á um að Þýskaland mætti verða meðlimur í þjóðabandalaginu en enn fremur voru vesturlandamæri Þýskalands fastlögð. Meðal þátttakenda voru meðal annars: Gustav Stresemann frá Þýskalandi, Austen Chamberlain frá Bretlandi og Aristide Briand frá Frakklandi. Einn fulltrúa Ítala var til skamms tíma Benito Mussolini (áður en hann varð einvaldur).

Viðburðir[breyta | breyta frumkóða]

Alþjóðlega kvikmyndahátíðin í Locarno var hleypt af stokkunum árið 1946 og fer fram árlega í ágúst. Hátíðin fer fram á aðaltorgi borgarinnar en þar rúmast 8 þús manns í sæti. Hátíðin er því tiltölulega lítil miðað við sambærilegar hátíðir í Cannes og Berlín. Sigurmyndin hlýtur verðlaun sem kallast Gullni hlébarðinn (Pardo d'Oro).

Moon and Stars er popptónlistarhátíð sem haldin er árlega. Þar troða aðallega upp þekktar hljómsveitir. Árið 2011 spiluðu þar meðal annars Sting, Santana, Joe Cocker, Gianna Nannini, Roxette, Bryan Adams og ýmsir fleiri.

Frægustu börn borgarinnar[breyta | breyta frumkóða]

Byggingar og kennileiti[breyta | breyta frumkóða]

  • Madonna del Sasso er pílagrímskirkja í Locarno. Hún stendur á klettahæð yfir borginni og þarf fólk að fara upp bratta stiga, Via Crucis (Krossleiðina), til að komast þangað. Sagan segir að María mey hafi birst munknum Bartolomeo d‘Ivrea í ágúst 1480. 1485 var byrjað að reisa kirkjuna henni til heiðurs. Á Krossleiðinni eru 12 smáar kapellur sem fara þarf í gegn, en í þeim eru myndir af píslargöngu Jesú.
  • Castello Visconteo er gamalt kastalavirki sem reist var á 12. öld. 1342 réðist Visconti-ættin frá Mílanó á virkið. Árið 1503 eignuðust Svisslendingar virkið en í dag stendur aðeins um fimmtungur þess uppi. Árið 2004 varpaði ítalski sagnfræðingurinn Marino Vigano upp þeirri hugmynd að kastalinn hafið verið hannaður af Leonardo da Vinci.

Gallerí[breyta | breyta frumkóða]

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]