Fara í innihald

Wikipedia:Grein mánaðarins/2012

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Greinar mánaðarins:

2005 · 2006 · 2007 · 2008 · 2009 · 2010 · 2011 · 2012 · 2013 · 2014 · 2015 · 2016 · 2017 · 2018 · 2019 · 2020 · 2021 · 2022 · 2023 · 2024

Janúar
Voynich-handritið er ritað með óþekktu letri

Voynich-handritið er dularfull myndskreytt bók af óþekktum uppruna, skrifuð, að talið er, einhvern tímann á milli 14. og 17. aldar af óþekktum höfundi, með óþekktu ritkerfi og á óþekktu tungumáli.

Á þeim tíma sem vitað hefur verið um handritið hefur það orðið viðfangsefni áhugamanna sem og fagmanna á sviði dulmálsfræði, bókmenntafræði, sagnfræði og annarra vísindagreina. Meðal annarra hafa frægir dulmálsfræðingar seinni heimstyrjaldarinnar reynt að ráða í það, en engum hefur tekist að finna merkingu nokkurs einasta orðs. Þessi langa hefð fyrir árangursleysi hefur rennt stoðum undir þá skoðun að handritið sé einfaldlega mjög stórt gabb; merkingarlaus runa af handahófsvöldum táknum.

Fyrri mánuðir: PlatonFæreyjarRíki


skoða - spjall - saga


Febrúar
Merki Knattspyrnufélagsins Fram

Knattspyrnufélagið Fram, Fram Reykjavík eða einfaldlega Fram er íslenskt íþróttafélag staðsett í Reykjavík. Félagið er eitt elsta íþróttafélag Íslands. Það var stofnað 1. maí 1908. Núverandi formaður félagsins er Kjartan Þór Ragnarsson. Fram heldur úti æfingum í knattspyrnu, handbolta, Taekwondo og skíðagreinum. Þá er starfrækt innan félagsins almenningsíþróttadeild og sérstakur hópur Framkvenna. Innan Fram hafa einnig verið starfræktar körfuknattleiksdeild og blakdeild.

Knattspyrnufélagið Fram varð til vorið 1908 í miðbæ Reykjavíkur. Stofnendurnir voru nokkrir piltar á fermingaraldri eða þar um bil, sem bjuggu á svæðinu umhverfis Tjarnargötu. Einn í hópnum, Pétur J.H. Magnússon, hafði fest kaup á knetti og var hann óspart notaður þá um sumarið. Fyrsta tæpa árið var knattspyrnufélag þetta afar óformlegur félagsskapur. Engin stjórn var skipuð, engin lög samin og félagið hafði ekki einu sinni fengið nafn.

Fyrri mánuðir: Voynich-handritiðPlatonFæreyjar


skoða - spjall - saga


Mars
Merki Kópavogsbæjar. Teiknað af Sigurveigu Magnúsdóttur og Ingva Magnússyni. Tekið í notkun 1965.

Kópavogur er sveitarfélag á höfuðborgarsvæðinu sem liggur sunnan við Reykjavík og norðan við Garðabæ og á jafnframt landsvæði á Sandskeiðum og Húsfellsbruna. Bærinn dregur nafn sitt af voginum sunnan við Kársnes. Kópavogur er fjölmennastur þeirra bæja sem liggja í kringum Reykjavík og er jafnframt næstfjölmennasta sveitarfélag á Íslandi, með 30.779 íbúa í janúar árið 2011.

Þar var Kópavogsfundurinn haldinn árið 1662, en allt fram á 20. öld voru einungis nokkrir bústaðir og býli í Kópavogi. Á 4. áratug 20. aldar var byrjað að úthluta lóðum í landi Kópavogs og ollu þjóðfélagsaðstæður því að fólksfjölgun var mikil og hröð. Kópavogshreppur klofnaði frá Seltjarnarneshreppi árið 1948 og fékk svo kaupstaðarréttindi 1955.


skoða - spjall - saga


Apríl

Fylkið (enska: The Matrix) er kvikmynd sem var fyrst sýnd í kvikmyndahúsum 31. mars 1999. Hún naut strax mikillar hylli og er í dag talin á meðal bestu vísindaskáldskaparkvikmynda sem framleiddar hafa verið. Myndin fjallar í megindráttum um efni sem lengi hefur verið kvikmyndagerðarmönnum hugleikið, þ.e. hvernig það væri ef vélarnar myndu stjórna mannkyninu. Myndina má flokka sem vísindaskáldskap, með tilvísunum í japanskar teiknimyndir, myndasögur, kung-fu-myndir, trúarlegar hugmyndir og heimspeki.

Aðalleikarar eru Keanu Reeves, sem Neo; Laurence Fishburne sem Morpheus; Carrie-Ann Moss sem Trinity; Joe Pantoliano sem Cypher og Hugo Weaving sem Smith fulltrúi (e. Agent Smith). Leikstjórar myndarinnar eru bræðurnir Larry og Andy Wachowski.


skoða - spjall - saga


Maí
Teikning af John Hanning Speke

John Hanning Speke (4. maí 182715. september 1864) var breskur landkönnuður sem fór í þrjá fræga könnunarleiðangra til Austur-Afríku og varð fyrstur til að setja fram þá kenningu að upptök Hvítu Nílar væru í Viktoríuvatni.

Fyrstu tveir leiðangrar Spekes voru undir forystu Richards Francis Burtons. Hann hafði verið liðsforingi í breska hernum á Indlandi, líkt og Burton, en var laus úr herþjónustu, og hugsaði sér að leggja landkönnun fyrir sig. Fyrsti leiðangurinn var farinn til Sómalíu árið 1854. Þar særðust þeir í bardaga við innfædda og voru teknir höndum, en síðan sleppt.


skoða - spjall - saga


Júní
Hringleikahúsið Colosseum í Róm.

Saga Ítalíu er saga þess fólks sem byggt hefur Appennínaskagann sunnan Alpafjalla frá örófi alda, þótt nútímaríkið Ítalía hafi fyrst orðið til þegar flestöll ríkin á skaganum sameinuðust í eitt konungsríki árið 1861. Saga Ítalíu er því saga þess svæðis sem kallað hefur verið Ítalía frá því í fornöld og sem byggt hefur verið ýmsum þjóðum með ólíka menningu og tungumál, þótt saga þeirra sé að meira eða minna leyti samtvinnuð. Lengst af skiptist þetta svæði milli nokkurra ríkja sem ýmist voru sjálfstæð eða undir yfirráðum stærri ríkja.

Á ýmsum tímum hefur saga Ítalíu haft mikil áhrif á sögu Evrópu og heimsins alls. Þar var miðja Rómaveldis sem þandist langt út fyrir Appennínaskagann á síðustu öldunum fyrir Krists burð, allt þar til Vestrómverska ríkið leystist upp vegna árása Germana á 5. öld, og þar hefur miðstöð kristinnar kirkju og síðar kaþólskrar trúar verið frá því á 2. öld til dagsins í dag. Á Ítalíu kom ítalska endurreisnin upp á 14. öld sem markar skil milli miðalda og nýaldar í sögu Evrópu.

Fyrri mánuðir: John Hanning SpekeFylkiðKópavogur


skoða - spjall - saga


Júlí
Eldingar

Orka er grundvallarstærð sem hvert eðlisfræðilegt kerfi hefur að geyma. Orka er skilgreind sem magn vinnu sem þarf til að breyta ástandi eðlisfræðilegs kerfis. Til dæmis þarf K = ½mv² vinnu til að hraða byssukúlu frá núll hraða í hraða v — og kallast því stærðin ½mv² hreyfiorka byssukúlunnar. Önnur dæmi eru raforkan sem geymd er í rafhlöðu, efnaorkan sem er í matarbita eða bensíni, varmaorka vatnshitara, stöðuorka upphækkaðs vatns á bak við stíflu og hreyfiorka bíls á ákveðnum hraða.

Það er auðveldlega hægt að breyta orku úr einni mynd yfir í aðra. Sem dæmi, ef rafhlaða er notuð til að knýja rafmagnshitara, breytist efnaorka í raforku, sem svo aftur breytist í varmaorku. Eða, með því að láta upphækkað vatn renna niður á við, breytist stöðuorka þess í hreyfiorku hreyfils, sem svo breytist í raforku með hjálp rafals.

Fyrri mánuðir: Saga ÍtalíuJohn Hanning SpekeFylkið


skoða - spjall - saga


Ágúst

Samráð olíufélaganna var ólöglegt verðsamráð olíufélaga á Íslandi. Þrjú olíufélög: Ker hf., Olís og Skeljungur stunduðu verðsamráð sem hófst ekki seinna en í mars 1993 og fram að lokum þess tímabils sem rannsókn Samkeppnisstofnunar náði til, í desember 2001. Samkeppnisstofnun (nú Samkeppniseftirlitið) úrskurðaði fyrirtækin fjögur til hárrar sektar þann 28. október 2004. Öll áfrýjuðu þau sektinni.

Fjölmargir lögaðilar hafa höfðað mál gegn olíufélögunum í þeim tilgangi að fá skaðabætur. Í febrúar 2008 voru olíufélögin dæmd til þess að greiða Reykjavíkurborg 73 milljónir í skaðabætur, í maí 2010 til þess að greiða Vestmannaeyjabæ 14 milljónir og í júní 2011 var greint frá því að olíufélögin hefðu greitt Stoðum 110 milljónir í skaðabætur og bandaríska fyrirtækinu Alcoa sem rekur álverið í Straumsvík nokkuð lægri bætur.

Fyrri mánuðir: OrkaSaga ÍtalíuJohn Hanning Speke


skoða - spjall - saga


September
Fáni Ástralíu

Ástralía (eða Samveldið Ástralía) (ensku: Commonwealth of Australia eða Australia) er land í heimsálfunni Eyjaálfu, sem einnig heitir Ástralía. Ástralía er eina ríki heims sem nær yfir heilt meginland. Landið er í Breska samveldinu og er drottning Bretlands, jafnframt drottning Ástralíu. Ástralía skiptist í sex fylki og tvö svæði, hvert með sína höfuðborg. Stærsta borg Ástralíu er Sydney.

Alþjóðlega nafnið Ástralía er komið úr latneska orðinu australis sem þýðir suðrænt og hefur verið notað síðan að minnsta kosti á 2. öld yfir óþekkta heimsálfu í suðri (terra australis incognita). Breski landkönnuðurinn Matthew Flinders gaf meginlandinu nafnið Terra Australis en fyrir höfðu Hollendingar nefnt það Nova Hollandicus eða Nýja-Holland.


skoða - spjall - saga


Október
Bernt Michael Holmboe

Bernt Michael Holmboe (fæddur 23. mars 1795, dáinn 28. mars 1850) var norskur stærðfræðingur. Hann var stærðfræðikennari stóran hluta ævi sinnar og er þekktastur fyrir að hafa uppgötvað snillinginn Niels Henrik Abel og verið einn af þeim sem hjálpuðu honum að komast áfram í námi. Einnig lagði hann mikið af mörkum til stærðfræðikennslu og eru í dag veitt verðlaun í hans nafni til stærðfræðikennara sem þykir hafa aukið veg stærðfræðikennslu í sínum skóla.

Bernt Michael Holmboe fæddist 23. mars árið 1795 í sveitarfélaginu Vang í Noregi og voru foreldrar hans þau Jens Holmboe og Cathrine Holst. Hann bjó ásamt átta systkinum á kirkjustaðnum Eidsberg fyrstu ár ævi sinnar. Fimmtán ára var hann sendur í menntaskóla til Kristjaníu. Hann útskrifaðist þaðan árið 1814 eftir fjögurra ára nám og eyddi næsta árinu með fjölda stúdenta í pólítískri baráttu gegn herliði Svía sem hafði ráðist inn í Noreg þetta sama ár.

Fyrri mánuðir: ÁstralíaSamráð olíufélagannaOrka


skoða - spjall - saga


Nóvember
Hamar og sigð, merki Sovétríkjanna.

Kommúnismi (úr frönsku: communisme og upphaflega úr latínu: communis, „það sem er sameiginlegt“) er hugtak sem notað er um ýmsar náskyldar hugmyndir sem eiga það sameiginlegt að álíta að öll framleiðslutæki eigi að vera í sameign samfélagsins eða a.m.k. jafnt skipt. Orðið „kommúnismi“ hefur stundum verið íslenskað sem „sameignarstefna“, en sú nafngjöf hefur aldrei náð festu.

Innan lenínismans á hugtakið kommúnismi sérlega við lokastig stéttabaráttunnar, þegar stéttir og ríkisvald eru horfin úr samfélagsskipaninni, og hver og einn leggur af mörkum eftir getu og ber úr býtum eftir þörfum. Kommúnisminn er hluti af miklu víðtækari hugmyndahefð og framkvæmd sósíalisma, þrátt fyrir að merking þessara tveggja hugtaka hafi verið nokkuð á reiki í gegnum tíðina.


skoða - spjall - saga


Desember
Adam Smith

Adam Smith (skírður 16. júní 172317. júlí 1790) var skoskur heimspekingur og er meðal áhrifamestu hagfræðinga allra tíma. Smith er einnig einn helsti hugsuður frjálshyggjunnar og mikilvægur boðberi upplýsingarinnar. Rit hans Auðlegð þjóðanna, sem kom út 1776, var ein fyrsta tilraunin til að rannsaka þróun viðskipta og iðnaðar í Evrópu. Óumdeilt er að ritið hefur haft mikil áhrif á alla kenningasmíð um efnið allar götur síðan. Smith greiddi þannig veginn fyrir tilurð hagfræðinnar en auk þess er rit hans enn þá eitt helstu rita um kapítalisma.

Adam Smith fæddist í smábænum Kirkcaldy í Skotlandi, faðir hans var tollgæslumaður en hann lést um hálfu ári fyrir fæðingu Adams. Ekki er vituð dagsetning fæðingu Adams en vitað er að hann hlaut skírn þann 16. júní 1723. Þegar Adam var aðeins fjögurra ára gamall rændi hópur sígauna honum en maður nokkur sem átti leið hjá lét vita af staðsetningu barnsins og því tókst að endurheimta hann heilu og höldnu


skoða - spjall - saga


Greinar mánaðarins:

2005 · 2006 · 2007 · 2008 · 2009 · 2010 · 2011 · 2012 · 2013 · 2014 · 2015 · 2016 · 2017 · 2018 · 2019 · 2020 · 2021 · 2022 · 2023 · 2024