Bernt Michael Holmboe

Þessi grein er gæðagrein að mati notenda Wikipediu.
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Bernt Michael Holmboe

Bernt Michael Holmboe (fæddur 23. mars 1795, dáinn 28. mars 1850) var norskur stærðfræðingur. Hann var stærðfræðikennari stóran hluta ævi sinnar og er þekktastur fyrir að hafa uppgötvað snillinginn Niels Henrik Abel og verið einn af þeim sem hjálpuðu honum að komast áfram í námi. Einnig lagði hann mikið af mörkum til stærðfræðikennslu og eru í dag veitt verðlaun í hans nafni til stærðfræðikennara sem þykir hafa aukið veg stærðfræðikennslu í sínum skóla.

Æviágrip[breyta | breyta frumkóða]

Bernt Michael Holmboe fæddist 23. mars árið 1795 í sveitarfélaginu Vang í Noregi og voru foreldrar hans þau Jens Holmboe og Cathrine Holst. Hann bjó ásamt átta systkinum á kirkjustaðnum Eidsberg fyrstu ár ævi sinnar. Fimmtán ára var hann sendur í menntaskóla til Kristjaníu. Hann útskrifaðist þaðan árið 1814 eftir fjögurra ára nám og eyddi næsta árinu með fjölda stúdenta í pólitískri baráttu gegn herliði Svía sem hafði ráðist inn í Noreg þetta sama ár.

Árið 1815 fékk Holmboe stöðu sem aðstoðarmaður lektorsins Christopher Hansteen við Háskólann í Kristjaníu. Hansteen var stjörnufræðingur og aðstoðaði Holmboe hann við ýmsa útreikninga. Samhliða þessu kenndi hann auk þess sem hann las sér til um stærðfræði á eigin spýtur. Það var svo árið 1818 sem Holmboe var skyndilega gerður að stærðfræðikennara menntaskólans í Kristjaníu. Hann tók við af stærðfræðikennara sem stundaði það að berja nemendur til hlýðni og endaði með að berja einn nemandann til dauða. Þar fékk hann það erfiða hlutverk að þurfa að auka virðingu stærðfræðikennslu enda voru það klassísku málin sem voru mest metin á þessum tíma. Það var hér sem Holmboe uppgötvaði Abel og ýtti honum af stað í ítarlegar stærðfræðirannsóknir en það átti merkilegt nokk eftir að verða hans merkasta framlag til stærðfræðinnar.

Í menntaskólanum kenndi Holmboe til ársins 1826 en þá var hann gerður að lektor við Háskólann í Kristjaníu. Það að hann skuli hafa þáð þessa stöðu hefur verið umdeilt sökum þess að mörgum þykir hún hafa hentað Abel betur. Aftur á móti virtist Abel ekki hafa litið þannig á málin enda kom þetta ekkert niður á vinskap þeirra tveggja. Holmboe var svo gerður að prófessor árið 1834 í hreinni stærðfræði og hafði þá lagt mikið að mörkum til stærðfræðikennslu og samið fjölda kennslubóka. Á sama tíma kenndi hann stærðfræði við háskóla norska hersins og átti eftir að kenna þar til dauðadags. Á sínum síðari árum sat hann einnig í ýmsum nefndum svo sem opinberri nefnd sem hafði eftirlit með tryggingafélögum. Hann stofnaði einnig eitt slíkt árið 1844 og sat í stjórn annars á síðustu árum ævi sinnar.

Holmboe var tvígiftur. Fyrst giftist hann Nikoline Finkenhagen árið 1834 en hún lést fimm árum síðar. Þremur árum eftir það giftist hann svo aftur. Seinni kona hans hét Ingeborg Thorp og lifði hún hann en Holmboe lést þann 28. mars árið 1850.

Samband Holmboe og Abel[breyta | breyta frumkóða]

Bernt Michael Holmboe var sá sem uppgötvaði stærðfræðinginn Niels Henrik Abel og sá sem ýtti honum út í sínar stærðfræðirannsóknir og hjálpaði honum að komast áfram í námi. Fyrst kynntust þeir þegar Holmboe kenndi Abel við menntaskólann í Kristjaníu og fór hann fljótlega að kenna Abel einkakennslu og kynna hann fyrir alþjóðlegum rannsóknum. Hann las yfir niðurstöður hans og ráðlagði honum hvernig ætti að kynna þær á alþjóðavettvangi. Þegar Abel lauk stúdentsprófi fékk Holmboe aðra norska prófessora til að styrkja háskólanám Abels og er óvíst að Abel hefði getað haldið áfram námi án þessara styrkja. Hann ritstýrði einnig safnútgáfu verka Abel sem kom út árið 1839, tíu árum eftir dauða Abel.

Samband þeirra var ekki einungis á sviði stærðfræðinnar. Synir Holmboe voru með Abel í bekk í menntaskóla og var Abel mikill vinur fjölskyldunnar. Hann var líka oft hjá þeim á jólunum á meðan hann dvaldist einn í Kristjaníu.

Stærðfræðikennsla Holmboe[breyta | breyta frumkóða]

Fyrir tíð Holmboe hafði stærðfræðikennsla í Noregi bæði verið lítilsvirt og vanrækt. Þetta breyttist þó með honum enda skrifaði hann margar kennslubækur á sviði stærðfræði auk rita um hvernig ætti að kenna hana. Hans skoðun var sú að fólki leiddist stærðfræði vegna þess að því væri ekki tamt að nota bókstafi og stærðfræðileg tákn. Því lagði hann áherslu á að þjálfa skilning á táknum og mörg hans verkefni fólust í því að umbreyta táknmáli yfir í talað mál. Dæmigert verkefni fæli til dæmis í sér breytingu á formkorninu í setninguna: 'Í stað þess að draga eina stærð frá summu tveggja er hægt að draga stærðina frá annarri tölunni í summunni og leggja svo hina við þá útkomu'.

Holmboe gaf einnig út nokkrar kennslubækur í rúmfræði og algebru á árunum 1825 til 1827. Þessar bækur bættu upp skort á norskum stærðfræðibókum og voru notaðar næstu áratugina í menntaskólanum í Kristjaníu. Bækurnar eru byggðar upp samkvæmt umræddum kennsluaðferðum hans en þykja í dag mjög hlutbundnar og fræðilegar auk þess sem þær skortir sýnidæmi ef miðað er við kennslubækur nútímans.

Framlag Holmboe til stærðfræðikennslu var það mikið að stofnaður hefur verið minningarsjóður um hann. Úr honum á að veita verðlaun til norsks stærðfræðikennara eða hóps stærðfræðikennara sem þykja hafa aukið veg stærðfræðikennslu í landinu. Verðlaunin mega renna til kennara bæði á grunn- og framhaldskólastigi og voru þau veitt í fyrsta skipti árið 2005.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • „Heimasíða Abels verðlaunanna“. Sótt 27. desember 2005.
  • „Heimasíða Holmboe verðlaunanna“. Sótt 27. desember 2005.
  • „The MacTutor History of Mathematics archive“. Sótt 27. desember 2005.