Fara í innihald

Wikipedia:Grein mánaðarins/2014

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Greinar mánaðarins:

2005 · 2006 · 2007 · 2008 · 2009 · 2010 · 2011 · 2012 · 2013 · 2014 · 2015 · 2016 · 2017 · 2018 · 2019 · 2020 · 2021 · 2022 · 2023 · 2024

Janúar
Hallgrímur Pétursson.

Hallgrímur Pétursson (161427. október 1674) var prestur og mesta sálmaskáld Íslendinga. Hallgrímur var fæddur í Gröf á Höfðaströnd, sonur hjónanna Péturs Guðmundssonar og konu hans, Sólveigar Jónsdóttur. Hallgrímur kynntist Guðríði Símonardóttur, sem hafði verið rænt í Tyrkjaráninu, þegar hún kom til Kaupmannahafnar þar sem Hallgrímur var við nám. Þau giftu sig og bjuggu á Hvalnesi og í Hvalfirði. Þar orti Hallgrímur Passíusálmana og marga aðra sálma, sem frægir eru enn í dag, til dæmis sálminn „Um dauðans óvissan tíma“. Passíusálmarnir eru heimsfrægt verk og hafa verið þýddir á fjölda tungumála.


skoða - spjall - saga


Febrúar
Merki fyrir opinn aðgang var upphaflega hannað af stofnuninni Public Library of Science.

Opinn aðgangur er ókeypis aðgangur á netinu að heildartexta á niðurstöðum vísindalegra rannsókna. Aðallega er talað um opinn aðgang í tengslum við útgáfu ritrýndra vísindagreina. Efni í opnum aðgangi má því lesa, afrita og miðla áfram með litlum eða engum takmörkunum öðrum en höfundarréttarlegum.

Til eru tvær meginleiðir að opnum aðgangi: safnvistun og opin útgáfa. Helsti munurinn á opinni útgáfu og eigin safnvistun er að í opinni útgáfu eru greinarnar oftast ritrýndar. Þekktar menntastofnanir eins og Harvardháskóli og MIT hafa sett sér stefnu um opinn aðgang.


skoða - spjall - saga


Mars
Cameron Diaz árið 2010.

Cameron Michelle Diaz (fædd 30. ágúst 1972) er bandarísk leikkona og fyrrverandi fyrirsæta. Hún öðlaðist fyrst frægð sextán ára gömul seint á níunda áratug 20. aldar sem fyrirsæta eftir að hafa setið fyrir í auglýsingum margra þekktra fyrirtækja og prýtt forsíður tímarita. Diaz skaust upp á stjörnuhimininn þegar hún hlaut eitt aðalhlutverka kvikmyndarinnar The Mask árið 1994 sem varð ein vinsælasta mynd ársins og hlaut hún einnig mikið lof fyrir leik sinn í vinsælum myndum á borð við My Best Friend's Wedding og She's the One.

Við upphaf 21. aldar var Diaz ein þekktasta leikkona samtímans eftir leik sinn í stórsmellunum Það er eitthvað við Mary, Charlie's Angels, og Shrek. Hún var einnig tekjuhæsta leikkonan í Hollywood um árabil. Diaz hefur hlotið fjórar tilnefningar til Golden Globe-verðlauna fyrir leik sinn í myndunum Það er eitthvað við Mary, Being John Malkovich, Vanilla Sky og Gangs of New York.


skoða - spjall - saga


Apríl
Merki Íþróttabandalags Vestmannaeyja.

Íþróttabandalag Vestmannaeyja (ÍBV) er stærsta og elsta íþróttafélag í Vestmannaeyjum. Heimildir um starfsemi félagsins ná til sumarsins 1903. Fyrst um sinn gekk félagið undir nafninu Knattspyrnufélag Vestmannaeyja (KV). KV var eitt af fyrstu liðunum til að keppa á Íslandsmótinu í knattspyrnu 1912.

ÍBV var formlega stofnað 6. maí 1945. Eins og nafnið gefur til kynna var Íþróttabandalag Vestmannaeyja upphaflega bandalag margra íþróttafélaga. Fleira en eitt félag hafði verið starfrækt í Eyjum fyrir stofnun bandalagsins og einnig hafa nokkur félög starfað í gegnum árin samhliða ÍBV. Íþróttafélögin Þór og Týr höfðu starfað frá öðrum og þriðja áratug 20. aldarinnar og veitt hvoru öðru samkeppni. Þessi félög, ásamt öðrum sértækari, höfðu haft með sér félög þegar þau kepptu sameiginlega undir á landsmótum og ber þar helst að nefna Knattspyrnufélag Vestmannaeyja (KV). KV var sameiginlegt lið Þórs og Týs uppi á landi og þegar gesti bar að garði. Einnig kepptu frjálsíþróttamenn og aðrir undir merkjum KV á landsmótum.


skoða - spjall - saga


Maí
Evrópa í nálægt því réttum litum. Gígurinn neðarlega til hægri heitir Pwyll og dekkri svæði þýða að þar hefur ísyfirborðið meira steinefnainnihald en þau ljósari. Myndin var tekin 7. september 1996 af Galíleó-geimfarinu.

Evrópa (Júpíter II), er sjötta innsta fylgitungl Júpíters og hið minnsta af hinum fjórum Galíleótunglum. Þó er það eitt af stærri tunglum sólkerfisins. Galíleó Galílei fann Evrópu fyrstur manna árið 1610 svo að vitað sé en mögulega fann Simon Marius tunglið einnig um svipað leyti. Miklar athuganir á tunglinu hafa farið fram síðan þá í gegnum sjónauka á jörðinni en frá og með áttunda áratug 20. aldar hafa jafnframt farið fram athuganir með ómönnuðum geimförum.

Evrópa er aðeins minni að þvermáli en tungl jarðarinnar (máninn) og er að uppistöðu til úr silíkat bergi, sennilega með járnkjarna. Hún hefur þunnan lofthjúp sem samanstendur aðallega af súrefni. Yfirborð Evrópu er úr vatnsís og er eitt það sléttasta sem þekkist í sólkerfinu. Yfirborðið er þó þakið sprungum og rákum en tiltölulega lítið er um gíga eftir árekstra loftsteina sem gefur til kynna að yfirborð tunglsins sé ungt.


skoða - spjall - saga


Júní
Þinganes í Þórshöfn.

Færeyjar eru klasi 18 eyja í Atlantshafinu á milli Skotlands og Íslands. Þær eru allar í byggð nema tvær, Koltur og Lítla Dímun, en mjög fámennt er á sumum þeirra. Nafnið þýðir fjáreyjar og eru þær kenndar við sauðfé. Þær byggðust á svipuðum tíma og Ísland og með sama hætti, þar eð norskir víkingar og sæfarar settust þar að, auk fólks frá Skotlandi og Írlandi, sem margt var af norrænum stofni.

Höfuðstaður Færeyja er Þórshöfn á Straumey en í sveitarfélaginu eru alls um 20 þúsund íbúar. Heildaríbúafjöldi eyjanna er um 48.500 (árið 2011). Færeyjar tilheyra Danmörku og njóta umtalsverðra fjárstyrkja þaðan en Færeyingar hafa haft sjálfstjórn frá 1948. Æðsti maður færeysku stjórnarinnar er titlaður lögmaður. Þjóðþing Færeyinga er kallað Lögtingið og er með aðsetur í Þórshöfn en þar sitja 33 þingmenn.


skoða - spjall - saga


Júlí
Jørgen Jørgensen

Jørgen Jørgensen (fæddur 1780 í Kaupmannahöfn í Danmörku – látinn 20. janúar 1841 í Hobart í Tasmaníu), sem í daglegu tali er kallaður Jörundur hundadagakonungur, var danskur að uppruna og ólst upp í Danmörku. Hann var mikill ævintýramaður og ógæfumaður. Hann bjó í Bretlandi framan af og dáðist að öllu, sem enskt var. Síðar þvældist hann inn í Íslandsævintýri sitt og varð þar „hæstráðandi til sjós og lands“ (nk. ígildi konungs) um nokkurra vikna skeið og er viðurnefni hans á Íslandi dregið af því að þetta bar til um hundadagana. Eftir að hann var fluttur aftur til Bretlands var hann meira og minna fangi, vegna þess að hann var forfallinn spilafíkill og greiddi sjaldan skuldir sínar. Að lokum var hann fluttur sem fangi til Ástralíu. Hann fékk frelsi nokkrum árum áður en hann dó.


skoða - spjall - saga


Ágúst
Tölvugerð mynd af frummynd eins kílógramms

Massi er eitt af grunnhugtökum eðlisfræðinnar og gefur til kynna hve mikið efnismagn tiltekið fyrirbæri hefur að geyma. Í sígildri eðlisfræði er massi efniseginleiki óháður tregðukerfum (ólíkt þyngd) og byggist massahugtakið aðallega á verkum Isaac Newtons. Í nútímaeðlisfræði veitir afstæðiskenningin aðra sýn á massa og er mikilvæg viðbót við lögmál Newtons. SI-grunnmælieining massa er kílógramm.


skoða - spjall - saga


September
Machu Picchu, sem Hiram Bingham ranglega kallaði „Hina týndu borg Inkanna“.

Inkaveldið var keisaraveldi indíána í Andesfjöllum, þar sem nú er Perú, og stofnað af Manco Capac. Veldi Inka stóð frá tólftu öld og fram á þá sextándu. Íbúar keisaraveldisins kölluðu land sitt Tawantinsuyu (sem þýðir „land fjórðunganna“), og var það orðið meira en milljón ferkílómetrar að stærð á 15. öld og þá bjuggu þar meira en tíu milljónir íbúa. Veldinu var skipt í fernt; Chinchaysuyu (NV), Antisuyu (NA), Qontisuyu (SV), og Qollasuyu (SA), en í miðjunni var höfuðborgin Cusco, þaðan sem veldinu var stjórnað. Til að tengja saman landið byggðu þeir vegi og brýr, en Inkar áttu afbragðs verkfræðinga. Um vegina fóru hraðboðar sem ferðuðust allt að 250 km á dag með skilaboð. Þannig gat inkinn, sem var æðsti leiðtoginn og jafnframt dýrkaður sem guð, komið mikilvægum boðum sínum til íbúanna og þannig hjálpuðu hraðboðarnir við stjórnun landsins.

Fyrri mánuðir: Jørgen JørgensenFæreyjar Evrópa


skoða - spjall - saga


Október
Fall Gustavs Adolfs við Lützen 1632.

Þrjátíu ára stríðið var röð styrjalda sem áttu sér stað í Þýskalandi á árunum 1618 til 1648. Öll helstu stórveldi Evrópu drógust inn í átökin. Stríðsins var lengi minnst sem einnar skæðustu styrjaldar í Evrópu fram að Napóleonsstyrjöldunum og herfarir stríðsaðila og plágur sem þeim fylgdu lögðu mörg héruð Þýskalands því sem næst í auðn.

Augsborgarfriðurinn (1555) staðfesti að þýsku furstarnir (225 að tölu) gætu valið héruðum sínum trú (lútherstrú eða kaþólska trú) samkvæmt skilyrðinu cuius regio, eius religio í Hinu heilaga rómverska keisaradæmi sem náði á þeim tíma yfir Þýskaland, Austurríki, Ungverjaland og Bæheim.


skoða - spjall - saga


Nóvember
Fáni Portúgals

Portúgal er land í Suðvestur-Evrópu á vesturströnd Íberíuskagans. Portúgal á landamæriSpáni og strönd þess liggur að Atlantshafi. Nokkrir eyjaklasar á Atlantshafi tilheyra einnig Portúgal, þeirra stærstir eru Azoreyjar og Madeira. Á 15. og 16. öld var Portúgal efnahagslegt, stjórnmálalegt og menningarlegt stórveldi þegar yfirráðasvæði þess teygði sig um allan heiminn. Veldi þessu hnignaði hins vegar nokkuð hratt eftir að önnur nýlenduveldi komu til sögunnar.

Portúgal dagsins í dag á rætur sínar að rekja til byltingar árið 1974, þegar einræðisstjórn landsins var steypt af stóli. Frá því landið gekk í Evrópubandalagið (nú Evrópusambandið) árið 1986 hafa framfarir í landinu verið miklar, þrátt fyrir að það sé enn annað tveggja fátækustu landa í Vestur-Evrópu.



skoða - spjall - saga


Desember
Fátæklegur timburkofi framan við háhýsi í Taílandi. Hagfræðin fæst meðal annars við þróun lífsgæða og ráðstöfun takmarkaðra auðlinda og gæða.

Hagfræði er félagsvísindagrein sem fæst við það hvernig einstaklingar, fyrirtæki og samfélög stjórna og ráðstafa takmörkuðum aðföngum og gæðum með það að markmiði að auka velsæld sína. Hagfræðingar rannsaka meðal annars hvernig framleiðendur og neytendur skiptast á gæðum og framleiðsluþáttum, hvernig hagrænir hvatar hafa áhrif á ákvarðanatöku, hvernig starfsemi í samfélögum þróast yfir tíma og hvernig yfirvald getur haft áhrif á ráðstöfun aðfanga og gæða.

Helsta forsenda flestra hagfræðilíkana er að einstaklingar hugsi rökrétt og að fyrirtæki hafi það eina markmið að hámarka hagnað. Að þessum forsendum gefnum komast ríkjandi hagfræðikenningar að þeirri niðurstöðu að markaðir séu venjulega hagkvæmasta leiðin til að stýra efnahagsstarfsemi en að inngrip af hálfu ríkisvalds geti stundum bætt niðurstöðu markaða.


skoða - spjall - saga


Greinar mánaðarins:

2005 · 2006 · 2007 · 2008 · 2009 · 2010 · 2011 · 2012 · 2013 · 2014 · 2015 · 2016 · 2017 · 2018 · 2019 · 2020 · 2021 · 2022 · 2023 · 2024