Fara í innihald

Wikipedia:Grein mánaðarins/2020

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Greinar mánaðarins:

2005 · 2006 · 2007 · 2008 · 2009 · 2010 · 2011 · 2012 · 2013 · 2014 · 2015 · 2016 · 2017 · 2018 · 2019 · 2020 · 2021 · 2022 · 2023 · 2024

Janúar

Eva Perón var argentínsk leikkona, söngkona og forsetafrú sem önnur kona Juans Perón forseta frá 1946 til dauðadags. Hún var gjarnan kölluð Evita. Hún var mjög ástsæl meðal margra Argentínubúa og átti stóran þátt í stjórnmálasigrum eiginmanns síns. Fræðimönnum ber saman um að hún hafi haft meiri áhrif á ríkisstjórn Argentínu en Juan á seinna kjörtímabili hans frá 1952 og verið í reynd valdamesti stjórnmálamaður Argentínu á þeim tíma.

Með eignarhaldi sínu í ýmsum dagblöðum og útvarpsstöðvum hvatti Eva til yfirgengilegrar foringjadýrkunar á Perón og á sjálfri sér. Hún skapaði sjálfri sér ímynd nokkurs konar þjóðardýrlings eða guðsmóður hinna fátæku og var vön að útbýtta gjöfum úr góðgerðarsjóði sínum klædd dýrustu spariklæðum sem fáanleg voru. Eva réttlætti þessi fínlegheit með því móti að hún hefði tekið skartgripi sína og fínu fötin frá hinum ríku og að með áframhaldandi starfi sínu ásamt forsetanum myndu fátæklingar landsins brátt eiga kost á sams konar lystisemdum. Fjölmiðlar sem gagnrýndu forsetahjónin voru gjarnan bannaðir eða þeim neitað um pappír.

Þann 6. júlí árið 1952 lést Eva úr krabbameininu, aðeins 33 ára gömul. Lík hennar var flutt til Evrópu árið 1955 og flutt á milli grafreita á Ítalíu uns því var loks skilað aftur til Argentínu á áttunda áratugnum. Árið 1976 gaf breska söngleikjaskáldið Andrew Lloyd Webber út söngleik byggðan á ævi Evu Perón undir titlinum Evita.


skoða - spjall - saga


Febrúar

Lýðræðislega fylkjasambandið í Norður-Sýrlandi (Kúrdíska: Rojavaya Kurdistanê) betur þekkt sem Fylkjasambandið Rojava er de facto sjálfstjórnarsvæði í Norður og Austurhluta Sýrlands sem starfar útfrá hugmyndum um lýðræðislegt fylkjasamband. Fylkjasambandið Rojava skiptist í 3 kantónur: Jazira-hérað (Kúrdíska: cizîrê), Efrat-hérað (Kúrdíska: Herêma Firatê‎), áður þekkt sem Kobane-hérað í Norður-Sýrlandi og Afrín-hérað (Kúrdíska: efrîn) Í Norð-Vesturhluta landsins. Ásamt kantónunum þrem hafa fulltrúar svæðisbundinna ráða í Raqqa, Manbij, Tabqa og Deir ez-Zor tekið þátt í starfi Fylkjasambandsins.

Abdullah Öcalan, stofnandi Kúrdíska verkamannaflokksins í Tyrklandi, er fremsti kenningasmiður hugmyndarinnar um lýðræðislegt fylkjasamband Kúrda. Samkvæmt Öcalan felst lýðræðisleg sjálfstjórn í því þegar almúginn skipuleggur sig í sjálfstæðar grasrótarhreyfingar sem byggja meðal annars á hugmyndum um láréttar samfélagslegar formgerðir, frekar en stigveldi. Lýðræðislegt fylkjasamband (enska: democratic confederalism) felst í því að þessar hreyfingar mynda tengslanet þvert á landsvæði í formi fylkjasambands sem starfar út frá grasrótarlýðræði og þeirri hugmynd að samfélög stjórni sér sjálf í umboði fólksins. Markmið Rojava-verkefnisins er að stofna fylkjasamband að fyrirmynd hugmynda Abdullah Öcalan, og er því ekki um eiginlegt þjóðríki að ræða.

Fyrri mánuðir: Eva PerónFjallkonanYork


skoða - spjall - saga


Mars

Íslensk matargerð er sú hefð sem einkennir hráefnisnotkun, aðferðir og venjur í matreiðslu á Íslandi. Íslensk matarhefð einkennist af fábreyttu hráefni, mikilli áherslu á dýraafurðir og fisk ásamt því bragði sem fylgir varðveisluaðferðum matvæla. Framreiðsla er yfirleitt fremur einföld. Innflutt hráefni og hefðir taka helst mið af samskiptum við Danmörku. Meðal helsta hráefnis íslenskrar matargerðar er lambakjöt, mjólkurafurðir og fiskur. Vegna einangrunar og skorts á fersku hráefni á veturna hefur sögulega verið þörf á að geyma matvæli með því að leggja þau í mysu eða lögur, salta, þurrka eða reykja. Til vinsæls íslensks fæðis má telja skyr, hangikjöt, kleinur, laufabrauð og bollur. Þorramatur samstendur af hlaðborði með kjöti, fiski, rúgbrauði og brennivíni og er helst borðaður á Þorrablóti.

Við aukinn innflutning matvæla hefur íslensk matargerð færst nær evrópskum venjum. Matreiðslunám var lengst af við Hótel- og veitingaskólann sem er nú hluti af Menntaskólanum í Kópavogi. Áherslur í kennslu þar hafa tekið mið af franskri matseld. Neysla grænmetis og ávaxta hefur aukist meðal almennings á síðustu áratugum en dregið hefur úr neyslu fisks. Samt borða Íslendingar ennþá meiri fisk en aðrar vestrænar þjóðir.

Síðustu árin hefur enn meiri áhersla verið lögð á gæði og rekjanleika hráefnis. Nýíslensk matargerð sækir innblástur í nýnorrænni matargerð, þar sem tengingu við staðhætti og árstíðir er gert hátt undir höfði. Helstu hráefnin eru sjávarfang, sjófuglar og egg þeirra, lax og urriði, krækiber, bláber, rabarbari, mosi, villisveppir, blóðberg, skessujurt, ætihvönn og þang.

Fyrri mánuðir: RojavaEva PerónFjallkonan


skoða - spjall - saga


Apríl

Vladímír Pútín er annar forseti Rússlands.

Hann útskrifaðist frá lögfræðideild Ríkisháskólans í Leníngrad árið 1975 og hóf störf hjá KGB. Á árunum 1985-1990 starfaði hann í Austur-Þýskalandi. Frá árinu 1990 gegndi hann ýmsum embættum, meðal annars í Ríkisháskólanum í Leníngrad, borgarstjórn Sankti-Pétursborgar og frá 1996 hjá stjórnvöldum í Kreml. Í júlí 1998 var hann skipaður yfirmaður FSB (arftaka KGB) og frá mars 1999 var hann samtímis ritari Öryggisráðs rússneska sambandslýðveldisins. Frá 31. desember 1999 var hann settur forseti rússneska sambandslýðveldisins en 26. mars 2000 var hann kosinn forseti. Hann var endurkjörinn 14. mars 2004. Hann varð forsætisráðherra Rússlands frá 2008 til 2012 og var síðan aftur kjörinn forseti árin 2012 og 2018.

Vladímír Pútín talar auk rússnesku, þýsku og ensku. Hann var giftur Ljúdmílu Aleksandrovnu Pútínu til ársins 2014. Þau eiga saman tvær dætur, Maríu (f. 1985) og Katerínu (f. 1986).

Fyrri mánuðir: Íslensk matargerðRojavaEva Perón


skoða - spjall - saga


Maí

Hnúfubakur (fræðiheiti: Megaptera novaeangliae), einnig kallaður hnúðurbakur og skeljungur, er skíðishvalur af ætt reyðarhvala.

Hnúfubakur er frekar kubbslega vaxinn, sverastur um miðjuna en mjókkar til beggja enda. Fullorðinn er hann 13 til 17 metra langur og 25 til 40 tonn á þyngd. Kýrnar eru heldur stærri en tarfarnir eins og er um alla skíðishvali. Hausinn er um þriðjungur af heildarlengd hvalsins. Skíðin eru svört á lit og öllu styttri en skíði annarra skíðishvala af svipaðri stærð. Hnúfubakurinn hefur 330 pör af skíðum og eru þau um 60 cm á lengd og 30 cm á breidd þar sem þau eru breiðust, sú hlið skíðanna sem snýr inn að munnholi er alsett hárum.

Fyrir daga sprengiskutulsins voru hnúfubakar miklu meira veiddir en aðrar tegundir reyðarhvala. Bæði var að þeir héldu sig oft nálægt ströndum og einnig synda þær hægar en frændur þeirra. Hnúfubakur var án efa meðal þeirra tegunda sem voru skutlaðar við Ísland fyrr á öldum. Með nýrri tækni í lok 19. aldar, gufuknúnum skipum og sprengiskutlum, gekk hratt á hnúfubaksstofna heimsins. Talið er að 2800 húfubakar hafi verið veiddir við Vestfirði og Austfirði á árunum 1889 til 1915 en fyrir þann tíma var hvalurinn mjög algengur við strendur landsins.


skoða - spjall - saga


Júní

Kontraskæruliðar eða einfaldlega kontrar voru vopnuð andspyrnuhreyfing sem börðust gegn ríkisstjórn sandínista í Níkaragva á níunda og tíunda áratugnum með stuðningi Bandaríkjanna. Stuðningur Bandaríkjanna við hreyfinguna var ein af orsökum Íran-Kontrahneykslisins á forsetatíð Ronalds Reagan. Nafnið „kontra“ var stytting á la contrarrevolución, sem merkir „gagnbyltingin“.

Kontraskæruliðarnir voru stofnaðar með stuðningi einræðisstjórnar Jorge Rafael Videla í Argentínu og bandarísku leyniþjónustunnar. Kontrarnir háðu skæruhernað og gerðu árásir á ríkisstofnanir sandínista í Níkaragva, sér í lagi í norðurhluta landsins þar sem þeir gátu flúið yfir landamærin til Hondúras í bækistöðvar sínar. Kontrarnir gerðu sér ekki miklar vonir um að steypa af stóli stjórn sandínistanna en vonuðust til þess að koma af stað samfélagsóeirðum með því að vinna skemmdarverk á efnahags- og velferðarverkefnum stjórnarinnar. Kontraskæruliðar réðust meðal annars á skóla og heilbrigðisstofnanir, eyðilögðu uppskeru bænda og brenndu niður verksmiðjur.

Kontrahreyfingin varð til með samruna ýmissa andófshreyfinga eignarbænda og frumbyggja sem mótmæltu meðal annars samyrkjuvæðingu sandínistastjórnarinnar, vinahótum hennar við Sovétríkin og herskyldunni sem stjórnin kom á. Hreyfingarnar sameinuðust með stuðningi bandarísku leyniþjónustunnar í júní árið 1985 og töldu árið 1990 til sín um 13.800 til 22.400 meðlimi.


skoða - spjall - saga


Júlí

Sjóræningjar frá Barbaríinu, stundum kallaðir Ottómanaræningjar (Corsairs), voru sjóræningjar og strandhöggsmenn sem höfðu bækistöðvar í Norður-Afríku, en þó aðallega í hafnarbæjum í Túnis, Trípólí og Alsír. Þetta svæði var þekkt í Evrópu sem Sjóræningjaströndin eða Barbaríið, en íbúar svæðisins voru Berbar.

Sjórán sjóræningja frá Barbaríinu náðu allt til Miðjarðarhafsins, suður meðfram Atlantshafsströnd Vestur-Afríku, um Atlantshafið allt að Suður-Ameríku og norður til Íslands. Athafnasvæði þeirra var þó fyrst og fremst í vesturhluta Miðjarðarhafsins. Þeir réðust þar á og hertóku skip og gerðu einnig strandhögg í þorpum og bæjum við strendur Evrópu, aðallega á Ítalíu, í Frakklandi, Spáni og Portúgal en þó líka í Englandi, Skotlandi, Hollandi, Írlandi og allt til Íslands. Aðaltilgangur ránsferðanna var að útvega kristna þræla fyrir íslamska markaði í Norður-Afríku og Miðausturlöndum.

Á seinni hluta sautjándu aldarinnar dró úr sjóránum, þar sem öflug evrópsk sjóveldi beittu í auknum mæli flota sínum til að halda frið og þvinga sjóræningjana til að að hætta að ráðast á kaupskip. Samt sem áður héldu skip og strendur kristinna ríkja sem ekki nutu slíkrar verndar áfram að verða fyrir sjóránum þar til snemma á 19. öldinni.


skoða - spjall - saga


Ágúst

Hundrað ára stríðið var stríð á milli Frakka og Englendinga sem stóð með hléum í 116 ár, eða frá 1337 til 1453. Meginástæða stríðsins var að Englandskonungar gerðu tilkall til frönsku krúnunnar eftir að hin gamla ætt Kapetinga dó út með Karli 4. árið 1328. Valois-ætt tók þá við í Frakklandi en Játvarður 3. Englandskonungur, systursonur Karls, taldi sig réttborinn til arfs. Stríðið var háð að langmestu leyti í Frakklandi og lauk með því að Englendingar misstu öll lönd sín í Frakklandi fyrir utan Calais og nánasta umhverfi.

Heiti þessara stríðsátaka, hundrað ára stríðið, er seinni tíma hugtak sem sagnfræðingar nota yfir tímabilið. Stríðinu hefur einnig verið skipt niður í þrjú til fjögur styttri tímabil: Játvarðsstríðið (1337-1360), Karlsstríðið (1369-1389), Lankastrastríðið (1415-1429) og svo síðasta tímabilið, þar sem Jóhanna af Örk kom fram á sjónarsviðið og síga fór smátt og smátt á ógæfuhliðina hjá Englendingum.

Stríðið er merkilegt fyrir margra hluta sakir. Þótt það væri fyrst og fremst átök á milli konungsætta varð það til þess að þjóðerniskennd mótaðist bæði með Englendingum og Frökkum, ný vopn komu fram á sjónarsviðið (til dæmis langboginn) og ný herkænskubrögð drógu úr mikilvægi gömlu lénsherjanna, sem einkennst höfðu af þungvopnuðum riddaraliðssveitum. Í stríðinu komu stríðsaðilar sér upp fastaherjum, þeim fyrstu í Evrópu síðan á tímum Rómverja, og þurftu því ekki lengur að treysta á liðstyrk bænda í sama mæli og áður. Vegna alls þessa og vegna þess hve lengi stríðið stóð er það með mikilvægustu átökum miðalda.


skoða - spjall - saga


September

Saloth Sar, betur þekktur sem Pol Pot, var fæddur 19. maí 1925 og dó 15. apríl 1998. Hann var leiðtogi Rauðu khmeranna í Kambódíu frá 1963 til 1979 og er þekktastur fyrir dauða óhemjumargs fólks í stjórnartíð sinni, sem var frá 1975 til 1979. Rauðu khmerarnir reyndu að framfylgja sýn sinni um eins konar samyrkjuvæðingu, en meðal þess sem hún átti að fela í sér var að borgarbúar flyttu út í sveitir og ynnu þar við landbúnað eða í betrunarvinnu. Þeir töldu sig geta byrjað siðmenninguna upp á nýtt og tóku því upp tímatal sem átti að hefjast með valdatíð þeirra. Sú valdatíð var ekki löng, en því mannskæðari. Þrælkunarvinna, vannæring, hrun í heilbrigðiskerfinu og beinar aftökur kostuðu á bilinu 750.000 - 1.700.000 manns lífið (sumir segja á bilinu 300.000 til 3.000.000) -- í landi sem hafði 14 milljónir íbúa árið 2006. Meðal þeirra sem voru ofsóttir voru menntamenn og aðrir „borgaralegir óvinir“, sem taldir voru hættulegir og andsnúnir umbreytingunum.

Árið 1979 réðust Víetnamar inn í Kambódíu og komu Rauðu khmerunum frá völdum. Pol Pot slapp undan réttvísinni og flúði inn í frumskóg, þar sem hann bjó, í haldi annarra rauðra khmera sem höfðu steypt honum frá völdum innan hreyfingarinnar, þar til hann bar beinin 72 ára að aldri, af náttúrlegum ástæðum að því er sagt var.


skoða - spjall - saga


Október

The Chicks, áður kallaðar Dixie Chicks, eru bandarísk kántrí-sveit sem samanstendur af Martie Maguire, Emily Robison og aðalsöngkonunni Natalie Maines. Sveitin hefur selt 30,5 milljónir breiðskífa í Bandaríkjunum fram að ágúst 2009 sem gerir hana að mest seldu kvennasveit í landinu.

Hljómsveitin var stofnuð í Dallas árið 1989 og samanstóð upphaflega af fjórum konum sem spiluðu bluegrass og kántrítónlist og unnu fyrir sér með því að spila á götum úti. Fyrstu 6 árin ferðuðust þær stöllur um og spiluðu á sveitasönghátíðum og á litlum tónlistarstöðum án þess að ná athygli stóru útgáfufyrirtækjanna. Eftir meðlimaskipti og örlitla breytingu á efnisskránni hlaut hljómsveitin athygli bæði á kántrí- og popptónlistarsviðinu með lögum á borð við „Wide Open Spaces“, „Cowboy Take Me Away“ og „Long Time Gone“. Konurnar urðu þekktar fyrir sjálfstæðan anda og umdeild ummæli um stjórnmál og stríðsrekstur.

Á tónleikum í London 10 dögum fyrir innrásina í Írak árið 2003 lét aðalsöngkonan Maines þau orð falla að þær „vildu ekkert með þetta stríð hafa, þetta ofbeldi, og við skömmumst okkar fyrir að forseti Bandaríkjanna sé frá Texas“ (sem er heimafylki Dixie Chicks). Ummælin þóttu dónaleg og óþjóðrækin. Almenningur var það óánægður að hljómsveitinn missti helming af tónleikagestum í Bandaríkjunum, fengu send hótunarbréf og breiðskífur þeirra voru eyðilagðar í mótmælaskyni.-

Dixie Chicks hafa unnið 13 Grammy-verðlaun, þar af 5 árið 2007 - meðal annars breiðskífa ársins fyrir Taking The Long Way.


skoða - spjall - saga


Nóvember

Katrín af Medici (13. apríl 15195. janúar 1589) eða Caterina Maria Romula di Lorenzo de' Medici var drottning Frakklands á 16. öld, kona Hinriks 2. Frakkakonungs og móðir Frakkakonunganna Frans 2., Karls 9. og Hinriks 3., tengdamóðir Hinriks 4. og einnig tengdamóðir Filippusar 2. Spánarkonungs. Hún hélt í raun um stjórnartaumana í Frakklandi í nærri 30 ár og hafði mjög mikil áhrif á stjórnmál og listir í Frakklandi.

Katrín af Medici hefur fengið misjöfn eftirmæli. Óumdeilt er að í tæp þrjátíu ár hélt hún í raun um stjórnartaumana í Frakklandi að því marki sem hægt er að stjórna landi þar sem skiptast á blóðugar borgarastyrjaldir og mikil spenna og hatur milli trúarhreyfinga og aðalsætta. Hún sveifst einskis til að reyna að halda sonum sínum á konungsstóli og er talið ólíklegt að þeir hefðu enst lengi án hennar.

Katrín var mikill listunnandi. Hún safnaði málverkum og öðrum listaverkum, styrkti listamenn úr ýmsum greinum og eyddi háum fjárhæðum í listir. Mestan áhuga hafði hún þó á byggingarlist og lét reisa ýmsar hallir og önnur mannvirki, þar á meðal Tuileries-höll í París. Mörgum þeirra var þó aldrei lokið og fátt stendur eftir í dag.


skoða - spjall - saga


Desember

Rússlandsherför Napóleons var innrás í Rússland sem Napóleon Bónaparte Frakkakeisari hélt í árið 1812. Aðalástæða hennar var sú að Rússland hafði dregið sig úr meginlandskerfi Napóleons; viðskiptabanni gegn Bretlandi sem átti að knésetja þennan helsta keppinaut franska keisaraveldisins.

Í upphafi innrásarinnar stóðu Frakkar betur að vígi en Rússar og bjuggu yfir mun fjölmennari herafla. Frakkar hertóku Moskvu þann 7. september 1812 en eftir það snerist gæfan Rússum í vil. Frakkar neyddust til að hörfa frá gagnáhlaupi Rússa þar sem Rússar eyddu eigin mat og birgðum frekar en að leyfa Frökkum að komast yfir þær og því gat Napóleon ekki haldið uppi her sínum með rússneskum afurðum líkt og hann hafði ætlað sér. Frekar en að takast á við her Napóleons á hans forsendum beittu Rússar skæruhernaði gegn Frakkaher á meðan hann neyddist til að hörfa. Síðan leiddu sjúkdómar, kaldur vetur auk hörku rússneskra hermanna og borgara til þess að Napóleon beið ósigur. Þessi afgerandi ósigur Napóleons markaði þáttaskil í Napóleonsstyrjöldunum og dró svo úr hernaðaryfirburðum Frakka að Napóleon neyddist til að segja af sér árið 1814.

Napóleonsstyrjaldirnar settu mark sitt á rússneska menningu. Lev Tolstoj skrifaði um Rússlandsherförina í skáldsögu sinni, Stríð og friði. Pjotr Iljitsj Tsjaíkovskíj var einnig fyrir innblæstri frá henni þegar hann samdi 1812-forleikinn. Í seinni heimsstyrjöldinni fór innrás Þjóðverja í Sovétríkin á svipaðan hátt.


skoða - spjall - saga


Greinar mánaðarins:

2005 · 2006 · 2007 · 2008 · 2009 · 2010 · 2011 · 2012 · 2013 · 2014 · 2015 · 2016 · 2017 · 2018 · 2019 · 2020 · 2021 · 2022 · 2023 · 2024