Wikipedia:Grein mánaðarins/2009

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Greinar mánaðarins:

2005 · 2006 · 2007 · 2008 · 2009 · 2010 · 2011 · 2012 · 2013 · 2014 · 2015 · 2016 · 2017 · 2018 · 2019 · 2020 · 2021 · 2022 · 2023 · 2024

Janúar
Ísbirnir skoða kafbát nálægt norðurpólnum.

Norðurslóðir eru heimshlutinn í kringum Norðurheimskautið. Innan norðurslóða eru hlutar af Rússlandi, Alaska (BNA), Kanada, Grænland (Danmörk), Ísland, og norðurhéruð Noregs, Svíþjóðar og Finnlands, en stærsti hluti svæðisins er hið ísi lagða haf Norður-Íshafið. Ekki er til nein algild skilgreining á norðurslóðum en oftast er ýmist miðað við Norðurheimskautsbaug (66° 33’N), skógarmörk í norðri (trjálínu), 10°C meðalhita í júlí eða skilin milli kalda Íshafssjávarins og hlýrri sjávarstrauma í Norður-Atlantshafi. Vistfræðilega er Ísland á mörkum þess svæðis sem talið er til norðurslóða. Þau ríki sem eiga lönd innan norðurslóða vinna saman innan Norðurskautsráðsins.


skoða - spjall - saga


Febrúar
Óskar (Astronotus ocellatus) er vinsæll skrautfiskur upprunninn í Suður-Ameríku.

Fiskar eru hryggdýr sem dvelja í vatni og anda með tálknum. Flestir fiskar eru með kalt blóð, en sumar tegundir háfiska og túnfiska eru með heitt blóð. Af fiskum finnast yfir 29.000 tegundir, svo þeir eru fjölbreyttasti hópur hryggdýra. Algengt er að skipta fiskum í vankjálka (Agnatha, t.d. steinsugur), brjóskfiska (Chondrichthyes - háfiskar og skötur) og beinfiska (Osteichthyes). Flokkunarfræðilega eru helstu hópar fiska af samhliða þróunarlínum og innbyrðis tengsl milli tegunda eru mjög umdeild.


skoða - spjall - saga


Mars
Forsíða Helgarpóstsins 6. júní 1985.

Hafskip hf. var íslenskt skipafélag, stofnað 1958, sem varð gjaldþrota á níunda áratugnum. Oft komu upp erfiðleikar í rekstri fyrirtækisins. Lengst af þurfti Hafskip á miklum lánum að halda hjá viðskiptabanka sínum, Útvegsbanka Íslands. Vendipunktur varð árið 1984 þegar mikið tap varð á rekstri fyrirtækisins, að miklu leyti sökum „óviðráðanlegra orsaka”. Sumarið 1985 er fyrirtækið barðist í bökkum, og reynt var að ná samningum um sölu þess, hófst mikil og neikvæð umfjöllun fjölmiðla um Hafskip sem sumir líktu við ofsóknir.

Fyrri mánuðir: FiskurNorðurslóðirKárahnjúkavirkjun


skoða - spjall - saga


Apríl
Línurit sem sýnir fylgi flokkanna í aðdraganda kosninganna.

Alþingiskosningarnar 2007 voru haldnar laugardaginn 12. maí 2007. Á kjörskrá voru 221.368 og kjörsókn var 83,6%. Stjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks hélt eins sætis þingmeirihluta en hafði áður þriggja sæta meirihluta eftir kosningarnar 2003. Framsóknarflokkur fékk lægsta fylgið í sögu flokksins en Samfylkingin tapaði einnig fylgi. Sjálfstæðisflokkurinn bætti við sig þremur mönnum en Vinstri græn unnu stærsta sigurinn og bættu við sig fjórum mönnum. Frjálslyndi flokkurinn fékk ríflega 7% fylgi og hélt fjórum þingmönnum. Tvö ný flokksframboð voru tilkynnt fyrir kosningarnar, Baráttusamtök eldri borgara og öryrkja og Íslandshreyfingin.

Fyrri mánuðir: Hafskip hf.FiskurNorðurslóðir


skoða - spjall - saga


Maí
Hugsuðurinn eftir Auguste Rodin

Sálfræði er gjarnan skilgreind sem vísindagrein um hugarstarf og hegðun. Þeir sem leggja stund á sálfræði eru líka í auknum mæli farnir að kanna heilastarf. Sálin (sem óefnislegt fyrirbæri aðskilið líkamanum) er ekki viðfangsefni greinarinnar og því er nafn hennar ef til vill villandi.

Seinni hluti 19. aldar markar upphaf sálfræðinnar sem vísindagreinar. Gjarnan er miðað við árið 1879 en þá stofnaði Wilhelm Wundt fyrstu rannsóknarstofuna í sálfræði. Aðrir mikilvægir frumkvöðlar voru Hermann Ebbinghaus sem rannsakaði minni, Ivan Pavlov sem uppgötvaði klassíska skilyrðingu og sálgreinandinn Sigmund Freud sem gerði fræga hugmyndina um dulvitund.


skoða - spjall - saga


Júní

Massi er eitt af grunnhugtökum eðlisfræðinnar og gefur til kynna hve mikið efnismagn hluturinn hefur að geyma. Í sígildri eðlisfræði er massi efniseginleiki óháður tregðukerfum (ólíkt þyngd) og byggist massahugtakið aðallega á verkum Isaac Newtons. Í nútímaeðlisfræði veitir afstæðiskenningin aðra sýn á massa og er mikilvæg viðbót við lögmál Newtons. SI-grunnmælieining massa er kílógramm.


skoða - spjall - saga


Júlí

Vilmundur Gylfason (fæddur 7. ágúst 1948, látinn 19. júní 1983) var íslenskur stjórnmálamaður, bókmennta- og sagnfræðingur, og skáld. Hann var sonur Gylfa Þ. Gíslasonar og Guðrúnar Vilmundardóttur. Kona Vilmundar var Valgerður Bjarnadóttir og áttu þau fimm börn. Vilmundur var umdeildur í íslenskri þjóðmálaumræðu enda var hann stóryrtur um það sem hann taldi vera úrelt og spillt flokkakerfi á Íslandi og bitlausa gagnrýni fjölmiðla.

Fyrri mánuðir: MassiAlþingiskosningar 2007Sálfræði


skoða - spjall - saga


Ágúst
Jónsmessubál við eyna Seurasaari nálægt Helsinki.
Jónsmessubál við eyna Seurasaari nálægt Helsinki.

Finnland er eitt Norðurlandanna í norðanverðri Evrópu. Landið liggur að tveimur flóum úr Eystrasalti, Helsingjabotni í vestri og Kirjálabotni í suðri. Það á einnig landamæri að Svíþjóð í vestri, Noregi í norðri og Rússlandi í austri. Álandseyjar eru undir finnskri stjórn en njóta víðtækrar sjálfstjórnar. Finnland er stundum nefnt Þúsundvatnalandið. Finnland er í Evrópusambandinu og er eina Norðurlandaþjóðin sem hefur tekið upp evruna sem gjaldmiðil.


skoða - spjall - saga


September
Robert Koch á rannsóknarstofu sinni í kringum 1885.
Robert Koch á rannsóknarstofu sinni í kringum 1885.

Robert Koch var þýskur læknir og örverufræðingur. Hann þróaði margar þeirra grunnaðferða sem enn eru notaðar við ræktun baktería og er því oft sagður „faðir bakteríufræðanna“. Hann er þekktastur fyrir uppgötvanir sínar í sýklafræði, einkum fyrir að hafa fundið orsakavalda miltisbrands, berkla og kóleru og fyrir skilgreiningu sína á þeim skilyrðum sem uppfylla þarf til að tiltekin örvera geti óyggjandi talist orsök ákveðins sjúkdóms. Hann hlaut Nóbelsverðlaunin í læknisfræði árið 1905 fyrir að uppgötva berklabakteríuna. Hann hafði mótandi áhrif á störf Paul Ehrlichs og Gerhard Domagks.

Fyrri mánuðir: FinnlandVilmundur GylfasonMassi


skoða - spjall - saga


Október

Falklandseyjastríðið voru vopnuð átök milli Breta og Argentínumanna um yfirráð yfir Falklandseyjum og Suður-Georgíu og Suður-Sandvíkureyjum í Suður-Atlantshafinu á vormánuðum 1982. Deilur um yfirráð yfir eyjunum höfðu staðið lengi og herforingjastjórnin í Argentínu hugsaði sér að draga athygli almennings frá bágu efnahagsástandi og mannréttindabrotum með því að leggja eyjarnar undir sig með skjótum hætti og nýta sér þannig þjóðernishyggju til að þjappa þjóðinni saman við bakið á stjórninni. Stríðið hófst með innrás hers Argentínumanna á eyjunni Suður-Georgíu 19. mars 1982 og hernámi Falklandseyja og lauk með uppgjöf Argentínu 14. júní 1982. Hvorugur aðili gaf út formlega stríðsyfirlýsingu. Argentínumenn litu á aðgerðir sínar sem endurtöku eigin lands og Bretar litu á þetta sem innrás á breskt yfirráðasvæði. Styrjöldin hafði víðtæk áhrif í löndunum tveimur. Í Argentínu jók það enn á vandræði herforingjastjórnarinnar og flýtti fyrir falli hennar, og í Bretlandi átti það þátt í að styrkja stjórn Thatchers.

Fyrri mánuðir: Robert KochFinnlandVilmundur Gylfason


skoða - spjall - saga


Nóvember
Davíð Oddsson á fundi með George W. Bush í Hvíta húsinu árið 2004.
Davíð Oddsson á fundi með George W. Bush í Hvíta húsinu árið 2004.

Davíð Oddsson (fæddur 17. janúar 1948) er íslenskur lögfræðingur og ritstjóri Morgunblaðsins. Davíð er einn sigursælasti og vinsælasti, en um leið umdeildasti, stjórnmálamaður Íslandssögunnar. Hann var forsætisráðherra Íslands frá árinu 1991 til ársins 2004 lengst allra, en var einnig borgarstjóri í Reykjavík frá árinu 1982 til 1991, utanríkisráðherra frá 2004 til 2005 og formaður Sjálfstæðisflokksins frá árinu 1991 til 2005. Davíð gegndi stöðu aðalbankastjóra Seðlabankans 2005 til 2009. Forystuhæfileikum hans hefur oft verið líkt við hæfileika fyrrum formanna Sjálfstæðisflokksins, Jóns Þorlákssonar, Ólafs Thors og Bjarna Benediktssonar. Davíð hefur einnig vakið athygli sem smásagnahöfundur, leikskáld og textahöfundur.

Fyrri mánuðir: FalklandseyjastríðiðRobert KochFinnland


skoða - spjall - saga


Desember
Sólgos.
Sólgos.

Sólin er eina sólstjarna sólkerfisins og massamesta geimfyrirbæri þess. Reikistjörnurnar, þ.á m. jörðin, ganga á sporbaugum kringum sólina, ásamt smástirnum, loftsteinum, halastjörnum og geimryki. Varmi og ljós, sem frá henni stafar viðheldur lífi á jörðu. Sólin er úr rafgasi sem hefur massa í kringum 2×1030 kg og er því nokkuð stærri en meðalstjarna. Um 74% af massa hennar er vetni, 25% helín og afgangurinn skiptist á milli örlítils magns af þyngri frumefnum. Sólin er talin vera um 4,5 milljarða ára gömul og er um það bil komin hálfa leið í gegnum meginraðarferli sitt þar sem kjarnasamruni í kjarna hennar bræðir saman vetni og myndar helín. Eftir um 5,5 milljarða ára mun sólin breytast í hringþoku.


skoða - spjall - saga


Greinar mánaðarins:

2005 · 2006 · 2007 · 2008 · 2009 · 2010 · 2011 · 2012 · 2013 · 2014 · 2015 · 2016 · 2017 · 2018 · 2019 · 2020 · 2021 · 2022 · 2023 · 2024