Fara í innihald

Wikipedia:Grein mánaðarins/2010

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Greinar mánaðarins:

2005 · 2006 · 2007 · 2008 · 2009 · 2010 · 2011 · 2012 · 2013 · 2014 · 2015 · 2016 · 2017 · 2018 · 2019 · 2020 · 2021 · 2022 · 2023 · 2024

Janúar
John Stuart Mill.
John Stuart Mill.

John Stuart Mill var frjálslyndur breskur heimspekingur, þingmaður á breska þinginu og einn frægasti málsvari nytjastefnu. Hann ritaði Frelsið 1859 og Kúgun kvenna 1869. Hann sat á þingi frá 1865 til 1868. Hann var mun frægari talsmaður nytjastefnu en guðfaðir hans Jeremy Bentham. Skrif Mills um kúgun kvenna eru talin marka tímamót í þróun femínisma.


skoða - spjall - saga


Febrúar
Muse á tónleikum í Torontó árið 2004.
Muse á tónleikum í Torontó árið 2004.

Muse er ensk rokkhljómsveit frá Teignmouth í Devon og var stofnuð árið 1994 undir dulnefninu Rocket Baby Dolls. Síðar ákváðu þeir að kalla sig Muse, hættu í skóla og lögðu tónlistina fyrir sig. Sveitina skipa þeir Matthew Bellamy (söngvari, gítarleikari og hljómborðsleikari), Christopher Wolstenholme (bassaleikari) og Dominic Howard (trommari og slagverksleikari). Muse blandar saman öðruvísi rokki, þungarokki, framsæknu rokki, sígildri tónlist og raftónlist og mynda þannig nýframsækið rokk. Muse er best þekkt fyrir kröftuga og ægibjarta tónleika og fyrir sérvitringslegan áhuga Matthew Bellamy á alheimssamsæri, lífi úti í geimnum, ofsóknaræði, guðfræði og heimsendi.

Fyrri mánuðir: John Stuart MillSólinDavíð Oddsson


skoða - spjall - saga


Mars
Íslenskur lager frá Vífilfelli.
Íslenskur lager frá Vífilfelli.

Bjór á Íslandi er framleiddur af fimm íslenskum brugghúsum. Langstærstu framleiðendurnir eru Ölgerðin Egill Skallagrímsson og Vífilfell. Mest af þeim bjór sem framleiddur er á Íslandi er ljós lagerbjór með 4,5-5,5% áfengismagn. Sala á áfengu öli var bönnuð á Íslandi frá upphafi bannáranna 1915 til 1. mars 1989 sem var kallaður „bjórdagurinn“ eða „B-dagurinn“ og þykir sumum við hæfi að gera sér dagamun þennan dag æ síðan. Íslenska ríkið hefur einkarétt á sölu áfengis og er salan í höndum Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins (ÁTVR).

Fyrri mánuðir: MuseJohn Stuart MillSólin


skoða - spjall - saga


Apríl
Karl Raimund Popper
Karl Raimund Popper

Karl Raimund Popper (28. júlí 190217. september 1994) var austurrísk-enskur vísinda- og stjórnmálaheimspekingur, kunnur fyrir kenningu sína um rannsóknaraðferðir vísindamanna og ádeilu á alræðisstefnu nasista og kommúnista. Hann var einn áhrifamesti heimspekingur 20. aldar.
Bretadrottning sæmdi hann riddaratitli 1965, svo að hann varð Sir Karl Popper. Hann hætti kennslu 1969, en hélt áfram að birta heimspekiverk til dánardags. Popper hlaut fjölda verðlauna og nafnbóta, meðal annars Sonning-verðlaunin dönsku 1973 (en Halldór Kiljan Laxness hafði fengið þau 1969). Popper var einn af stofnendum Mont Pèlerin Society, alþjóðlegs málfundafélags frjálshyggjumanna.

Fyrri mánuðir: Bjór á ÍslandiMuseJohn Stuart Mill


skoða - spjall - saga


Maí
Jörðin séð frá geimfarinu Apollo 17
Jörðin séð frá geimfarinu Apollo 17

Jörðin er þriðja reikistjarnan frá sólu, sú stærsta af innri reikistjörnum og sú fimmta stærsta af þeim öllum. Jörðin, sem talin er hafa myndast fyrir um 4,55 milljörðum ára, er eini hnötturinn sem vitað er til að líf þrífist á. Tunglið er eini fylgihnöttur jarðar og hefur fylgt henni í að minnsta kosti 4,5 milljarða ára. Úthöf jarðarinnar þekja um 70% af yfirborði hennar, en hin 30% yfirborðsins samanstanda af eyjum og stærri landmössum. Umhverfis jörðina liggur þunnt lag lofttegunda, svokallaður lofthjúpur, sem samanstendur að mestu leyti af köfnunarefni og súrefni. Lofthjúpurinn verndar jörðina fyrir áhrifum geislunar, temprar hitastig hennar, og dýr og plöntur nýta ýmis efni úr lofthjúpnum.

Fyrri mánuðir: Karl PopperBjór á ÍslandiMuse


skoða - spjall - saga


Júní
Merki Knattspyrnufélags Reykjavíkur
Merki Knattspyrnufélags Reykjavíkur

Knattspyrnufélag Reykjavíkur (skammstafað sem KR) er íþróttafélag í Vesturbænum í Reykjavík. Félagið var stofnað 16. febrúar árið 1899 og er elsta félag sinnar tegundar á Íslandi. Félagið var stofnað fyrst sem knattspyrnufélag en í dag eru starfræktar margar deildir innan félagsins. KR hefur unnið úrvalsdeildina í knattspyrnu 24 sinnum, oftast allra félaga. KR er eitt sigursælasta lið landsins í þremur vinsælustu íþróttagreinum landsins, handbolta, körfubolta og fótbolta þar sem það hefur unnið fleiri en 90 Íslands- og bikarmeistaratitla í karla- og kvennaflokki. KR á fjölda stuðningsmanna og samkvæmt mörgum könnunum á ekkert annað lið fleiri stuðningsmenn á landinu en KR.
skoða - spjall - saga


Júlí
Álpappír
Álpappír

Ál er frumefni með efnatáknið Al úr bórhópi lotukerfisins með sætistöluna 13. Ál er silfurlitaður og sveigjanlegur tregur málmur. Það leysist almennt ekki í vatni. Það myndar 8% massa jarðskorpunnar og er þar með algengasti málmurinn og þriðja algengasta frumefni hennar á eftir súrefni og kísli. Ál er svo hvarfgjarnt að það kemur ekki fyrir hreint í náttúrunni en finnst í meira en 270 mismunandi efnasamböndum. Ál er jafnan unnið úr súráli með álbræðslu.

Efnið er þekkt fyrir léttleika og viðnám sitt gegn tæringu (vegna fyrirbæris er nefnist hlutleysing). Ál og álblöndur eru aðalsmíðaefni flugvéla og íhluta í margvísleg önnur flutningatæki og byggingar þar sem not eru fyrir léttleika, varanleika og styrk. Ál er einnig mikið notað í drykkjardósir. Vegna hvarfgirni þess er það gagnlegt sem hvati eða bætiefni í ýmsar efnablöndur og er þannig til dæmis notað í ammoníumnítrat-sprengiefni til að auka sprengikraft.
skoða - spjall - saga


Ágúst
Áskell EA 48 (nú Birtingur NK) á Seyðisfirði
Áskell EA 48 (nú Birtingur NK) á Seyðisfirði

Sjávarútvegur á Íslandi er atvinnuvegur sem snýst um nýtingu sjávarfangs allt frá rannsóknum á hafinu og þar til afurðin er komin á disk neytenda. Meðal viðfangsefna íslensks sjávarútvegs má því telja haffræðilegar og fiskifræðilegar rannsóknir, veiðar, matvælavinnslu og markaðssetningu sjávarafurða. Sjávarútvegur snýst því um margt fleira en eingöngu að veiða fisk, en segja má að lokamarkmið hans sé að selja fiskafurðir. Sjávarútvegsmálum á Íslandi er stýrt af sjávarútvegsráðherra sem er nú einnig ráðherra landbúnaðar. Sjávarútvegur hefur verið mikilvæg atvinnugrein á Íslandi frá upphafi Íslandsbyggðar, en einhverjar gjöfulustu veiðislóðir í Norður-Atlantshafi eru í íslenskri lögsögu. Sjávarútvegur átti þátt í að breyta Íslandi frá því að vera ein fátækasta þjóð Evrópu í byrjun 19. aldar í eina af efnuðustu þjóðum heims um aldamótin 2000.


skoða - spjall - saga


September
Brjóstmynd af Hómer
Brjóstmynd af Hómer

Fornfræði eða klassísk fræði er fræðigrein sem fjallar um sögu, menningu og arfleifð klassískrar menningar Grikkja og Rómverja. Viðfangsefni fornfræðinga eru margvísleg og vinnubrögð þeirra einnig. Innan fornfræðinnar vinna fræðimenn ýmist að sagnfræði, heimspeki, bókmenntasögu eða málvísindum að svo miklu leyti sem þessar greinar fást við fornöldina. Einkum er það málakunnátta í forngrísku og latínu, sameiginleg þekking á bókmenntum og öðrum heimildum fornaldar og þjálfun í klassískri textafræði sem sameinar ólíka fornfræðinga.


skoða - spjall - saga


Október
Búddastytta frá 1. öld.
Búddastytta frá 1. öld.

Búddismi er trúarbrögð og heimspekikenningar sem eru byggð á kenningum Siddhārtha Gátamasanskrít, á palí heitir hann Siddhattha Gotama), sem lifði fyrir 2500 árum síðan. Siddharta Gátama hlaut síðar tignarheitið Búdda, sem þýðir „hinn upplýsti“. Búddisminn náði mikilli útbreiðslu á Indlandi og þaðan til Mið-Asíu, Srí Lanka og Suðaustur-Asíu og einnig til Austur-Asíu, Kína, Mongólíu, Kóreu og Japan. Á síðari áratugum hefur búddismi fengið talsvert fylgi meðal vesturlandabúa, meðal annars á Íslandi.


skoða - spjall - saga


Nóvember
Íslenski fáninn við Þingvelli
Íslenski fáninn við Þingvelli

Saga Íslands er saga byggðar og menningar á Íslandi, sem er stutt miðað við sögu landa á meginlandi Evrópu. Landnám hófst seint á 9. öld eftir Krist og byggðist landið fljótt, einkum frá Noregi (en einnig Bretlandseyjum). Landið var sjálfstætt ríki þar til Íslendingar gengu Noregskonungi á hönd með undirritun Gamla sáttmála árið 1262/64. Noregur og Ísland urðu svo hluti af Danaveldi 1380. Samhliða þjóðernisvakningu víða um Evrópu ágerðist þjóðhyggja og sjálfstæðisbarátta Íslendinga eftir því sem leið á 19. öldina og lauk með því að Ísland hlaut fullveldi 1. desember 1918. Danski konungurinn hélt þó áfram að vera konungur Íslands þar til Lýðveldið Ísland var stofnað 17. júní 1944 og varð þá að fullu sjálfstætt.


skoða - spjall - saga


Desember
Röksteinninn frá Svíþjóð frá 9. öld. Á hann eru ristar rúnir úr eldri og yngri rúnaröðinni og einnig dulrúnir
Röksteinninn frá Svíþjóð frá 9. öld. Á hann eru ristar rúnir úr eldri og yngri rúnaröðinni og einnig dulrúnir

Lofsöngur er sálmur eftir Matthías Jochumsson við lag Sveinbjörns Sveinbjörnssonar samið fyrir þjóðhátíð í tilefni af þúsund ára afmæli Íslandsbyggðar árið 1874. Lag og ljóð voru frumflutt af blönduðum kór við hátíðarguðsþjónustu sem hófst klukkan 10:30 í Dómkirkjunni í Reykjavík sunnudaginn 2. ágúst 1874 sem Lofsöngur í minningu Íslands þúsund ára og var konungur Danmerkur og Íslands, Kristján IX, viðstaddur þá athöfn. Ljóðið öðlaðist í kjölfar þess vinsældir meðal almennings sem þjóðsöngur og var flutt sem slíkt við fullveldistökuna 1918, sú staða ljóðs og lags var svo fest í lög um þjóðsöng Íslendinga árið 1983. Áður var vísan Eldgamla Ísafold eftir Bjarna Thorarensen við lagið God Save the Queen oft sungin sem einhvers konar þjóðsöngur, en það þótti ekki hæfa að notast við sama lag og aðrar þjóðir nota við þjóðsöng sinn.


skoða - spjall - saga


Greinar mánaðarins:

2005 · 2006 · 2007 · 2008 · 2009 · 2010 · 2011 · 2012 · 2013 · 2014 · 2015 · 2016 · 2017 · 2018 · 2019 · 2020 · 2021 · 2022 · 2023 · 2024