Wikipedia:Grein mánaðarins/2018

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Greinar mánaðarins:

2005 · 2006 · 2007 · 2008 · 2009 · 2010 · 2011 · 2012 · 2013 · 2014 · 2015 · 2016 · 2017 · 2018 · 2019 · 2020 · 2021 · 2022 · 2023 · 2024

Janúar

Skonnorta (úr ensku: schooner; stundum líka góletta úr frönsku: goélette) er seglskip með tveimur eða fleiri möstrum með gaffalseglum, þar sem fremsta mastrið (framsiglan eða fokkusiglan) er styttra en hin, og stagsegl. Flestar skonnortur eru með bugspjót og þríhyrnda gaffaltoppa. Fullbúin skonnorta er með þrjú til fjögur framsegl (fokku, innri- og ytriklýfi og stundum jagar). Þær voru fyrst notaðar af Hollendingum á 17. öld. Skonnortur geta verið mjög mismunandi að stærð. Stærsta skonnorta sem smíðuð hefur verið var Thomas W. Lawson, smíðuð 1902, sem var 120 metrar að lengd, með sjö möstur og 25 segl.

Afbrigði af skonnortum eru toppseglsskonnorta, sem er með tvö rásegl á fokkumastrinu (yfirtoppsegl og undirtoppsegl) og bramseglsskonnorta sem er með þrjú (bramsegl, yfirtoppsegl og undirtoppsegl).


skoða - spjall - saga


Febrúar

François-Dominique Toussaint Louverture (20. maí 1743 – 7. apríl 1803), einnig kallaður Toussaint L’Ouverture eða Toussaint Bréda, var þekktasti leiðtogi haítísku byltingarinnar. Hernaðar- og stjórnmálakænska hans tryggði sigur svartra uppreisnarmanna í nóvember árið 1791. Hann barðist með Spánverjum gegn Frökkum; með Frökkum gegn Spánverjum og Bretum og loks fyrir nýlenduna Saint-Domingue gegn franska keisaradæminu. Hann hjálpaði síðan til við að umbreyta uppreisninni í allsherjar byltingu sem hafði árið 1800 breytt Saint-Domingue, arðsælustu þrælanýlendu síns tíma, í fyrsta frjálsa nýlendusamfélagið sem hafnaði stéttskiptingu á grundvelli kynþáttar.

Fyrri mánuðir: SkonnortaKatrín JakobsdóttirAlbert 1.


skoða - spjall - saga


Mars

Búddismi er trúarstefna og heimspekikenning sem er byggð á kenningum Siddhārtha Gátama (sanskrít), sem lifði fyrir 2500 árum síðan. Siddharta Gátama hlaut síðar tignarheitið Búdda, sem þýðir „hinn upplýsti“. Búddisminn náði mikilli útbreiðslu á Indlandi og þaðan til margra landa í Asíu. Á síðari áratugum hefur búddismi fengið talsvert fylgi meðal vesturlandabúa, meðal annars á Íslandi. Óvíst er hversu marga má telja sem búddista í heiminum. Oft er talað um að um 380 milljónir fylgi kenningum Búdda og gerir það búddisma að fjórðu stærstu trúarbrögðum heimsins. Búddistar á austurlöndum hafa ekki notað þetta nafn heldur kallað sig fylgjendur dhamma/dharma. Þeir tala oft um kjarna trúarinnar sem gimsteinana þrjá: Búdda, dhamma/dharma og sangha, það er læriföðurinn, kenningin og söfnuðurinn.


skoða - spjall - saga


Apríl

Rúnir eru fornt stafróf sem notað var í mörgum germönskum málum frá 2. öld þar til þær smám saman viku fyrir latnesku letri. Rúnir voru fyrst og fremst höggnar í stein eða ristar í tré. Elstu rúnir sem fundist hafa eru frá seinni hluta 2. aldar og voru þær algengar næstu þúsund árin um norðanverða Evrópu, einkum á Norðurlöndum. Með útbreiðslu kristni fylgdi latneska stafrófið inn í þjóðfélög germana og notkun rúnaletursins stórminnkaði allt frá 12. öld. Þó var það talsvert notað á Norðurlöndum allt fram á 14. öld og voru rúnir í notkun (einkum til skrauts) á einstaka stað allt fram um lok 19. aldar. Allra elsta rúnaristan, sem þekkt er, er frá því um 150 e.Kr. á greiðu úr horni sem fannst í Vimose á Fjóni. Næst elstu rúnaristurnar eru frá seinni hluta 2. aldar og virðist rúnastafrófið hafa þá þegar verið komið í fastar skorður. Allar ristur frá 2. og 3. öld eru mjög stuttar, eitt eða tvö orð. Flestar þeirra hafa fundist í Suður-Skandinavíu, á Jótlandi, Sjálandi, Fjóni og á Skáni og bendir það til þess að rúnir séu upprunnar þaðan. Fræðimönnum ber ekki saman um hver fyrirmynd rúnanna sé. Þó er talið að fyrirmyndina gæti verið að finna annaðhvort í latneska eða gríska stafrófinu eða í fornum norðurítölskum starfrófum. Hins vegar er ljóst að rúnirnar eru mótaðar af einhverjum sem var kunnugur stafrófum menningarheims Miðjarðarhafsins.

Fyrri mánuðir: BúddismiToussaint LouvertureSkonnorta


skoða - spjall - saga


Maí

Anna Nzinga (f. í kring um 158317. desember 1663), einnig þekkt sem Nzinga Mbandi eða Ana de Sousa Nzinga Mbande var drottning („muchino a muhatu“) Ndongo- og Matamba-konungsríkjanna sem Mbundu-þjóðirnar byggðu í Angóla á 17. öld. Hún komst til valda sem erindreki eftir að henni tókst með háttvísi sinni að kveða niður milliríkjadeilur og endurheimta frá Portúgölum yfirráð yfir virkinu Ambaca. Sem systir konungsins Ngola Mbande var Nzinga þá þegar í kjörstöðu til að hafa áhrif á stjórnmálaákvarðanir, sérstaklega þegar konungurinn fól henni að birtast í sínu umboði við friðarumræður við nágrannaríkin. Eftir dauða bróður síns gerðist Nzinga ríkisstjóri fyrir son hans og erfingja, Kaza, og síðan drottning.

Fyrri mánuðir: RúnirBúddismiToussaint Louverture


skoða - spjall - saga


Júní

Deng Xiaoping hlusta (22. ágúst 190419. febrúar 1997) (eða Teng Hsiao-p'ing) var kínverskur leiðtogi og stjórnmálamaður, kenningasmiður og stjórnarerindreki. Sem leiðtogi Kommúnistaflokksins í Alþýðulýðveldinu Kína var Deng siðbótarmaður sem leiddi Kína í átt að markaðshagkerfi. Þrátt fyrir að hafa aldrei gegnt formlegu embætti sem þjóðhöfðingi eða leiðtogi ríkisstjórnar Kína þá var hann engu að síður talinn meginleiðtogi „annarrar valdakynslóðar“ Alþýðulýðveldisins Kína frá 1978 til 1990.

Fyrri mánuðir: Nzinga MbandiRúnirBúddismi


skoða - spjall - saga


Júlí

Paul Emil von Lettow-Vorbeck (20. mars 18709. mars 1964), kallaður „Afríkuljónið“, var hershöfðingi í her Þýskalands og foringi þýska heraflans á vígstöðvunum í þýsku Austur-Afríku í fyrri heimsstyrjöldinni. Í fjögur ár tókst honum að hafa hemil á mun stærri herafla um 300.000 breskra, belgískra og portúgalska hermanna með herliði sem var aldrei fjölmennara en um 14,000 menn (þar af 3.000 Þjóðverjar og 11.000 Afríkumenn). Lettow-Vorbeck var svo til ósigraður á vígvellinum og var eini þýski herforinginn sem tókst að ráðast inn á landsvæði breska heimsveldisins í fyrri heimsstyrjöldinni. Sagnfræðingurinn Edwin Palmer Hoyt hefur lýst afrekum hans á Afríkuvígstöðvunum sem „besta skæruhernaði allra tíma.“

Fyrri mánuðir: Deng XiaopingNzinga MbandiRúnir


skoða - spjall - saga


Ágúst

Stríð Prússa og Austurríkismanna, einnig kallað sjö vikna stríðið, sameiningarstríðið, þýska bræðrastríðið eða þýska stríðið, var stríð milli Prússlands og austurríska keisaradæmisins og bandamanna þeirra innan þýska ríkjasambandsins sem háð var árið 1866. Prússar voru einnig í bandalagi við Ítalíu og því var stríðið háð samhliða þriðja sjálfstæðisstríðinu í sameiningu Ítalíu.

Stríðið endaði með afgerandi ósigri Austurríkismanna og bandamanna þeirra. Afleiðing stríðsins var sú að Austurríkismenn glötuðu áhrifastöðu sinni meðal þýsku þjóðanna og ljóst varð að Prússar yrðu forystuþjóðin í stofnun nýs ríkis fyrir þýsku þjóðina. Þýska ríkjasambandið, sem hafði lotið forystu Austurríkismanna, var leyst upp í kjölfar stríðsins og þess í stað stofnað norður-þýskt ríkjasamband undir stjórn Prússa, þar sem Austurríkismenn og bandamann þeirra fengu ekki aðild. Einnig neyddust Austurríkismenn til að láta af hendi héraðið Veneto til Ítala.


skoða - spjall - saga


September

Bonnie og Clyde voru bandarískir glæpamenn sem ferðuðust um miðhluta Bandaríkjanna ásamt glæpaflokk sínum á tíma kreppunnar miklu, rændu fólk og drápu það þegar þau voru króuð af. Glæpir þeirra gerðu parið alræmt meðal bandarísks almennings á árunum 1931 til 1935. Nú til dags er þeirra minnst fyrir bankarán þeirra en parið rændi aðallega litlar verslanir og afskekktar bensínstöðvar. Talið er að glæpagengið hafi drepið a.m.k. níu lögreglumenn og nokkra almenna borgara. Að lokum leiddu lögreglumenn parið í gildru og skutu það til bana í Sailes, Bienville Parish í Louisiana. Orðspor þeirra fór á flug í bandarískri dægurmenningu eftir að kvikmynd um þau kom út í leikstjórn Arthur Penn árið 1967. Í dag er algengt að elskendum sem lifa glæpalífi saman sé líkt við Bonnie og Clyde.


skoða - spjall - saga


Október

Florence Nightingale (12. maí 1820–13. ágúst 1910), einnig þekkt sem „konan með lampann“, var bresk hjúkrunarkona, rithöfundur og tölfræðingur. Hún linaði þjáningar sjúkra og særðra hermanna í Krímstríðinu og hlaut sitt fræga viðurnefni „konan með lampann“ þá vegna venju sinnar að ganga á milli manna að næturlagi með lampa í hönd til að hjúkra þeim. Framlag hennar til heilbrigðismála markaði tímamót í sögunni. Hún jók virðingu hjúkrunarkvenna og kom á fót fullnægjandi menntunarkerfi fyrir þær. Hún stofnaði árið 1860 fyrsta eiginlega hjúkrunarskóla í heimi við St. Thomas-sjúkrahúsið í London. Hún kom þess að auki til leiðar að á sjúkrahúsum stórbatnaði allur aðbúnaður, skipulag þeirra varð skilvirkara og hreinlæti jókst til muna. Hún var brautryðjandi í nútíma hjúkrun og notkun tölfræðilegra aðferða við úrvinnslu gagna varðandi meðferð og bata sjúklinga. Það var fyrir hennar tilstuðlan að farið var að senda flokk hjúkrunarkvenna með Breska hernum í styrjaldir. Alþjóðlegi hjúkrunarfræðidagurinn er haldinn á afmælisdegi hennar ár hvert. Árið 2010 var Florence Nightingale minnst með alþjóðlegu ári og Sameinuðu þjóðirnar helguðu áratuginn 2011 til 2020 heilbrigði um allan heim.


skoða - spjall - saga


Nóvember

Georges Clemenceau (28. september 184124. nóvember 1929) var franskur stjórnmálamaður, læknir og blaðamaður. Hann var forsætisráðherra Frakklands 1906-1909 og 1917-1920. Hann hafði lengi verið virkur í frönskum stjórnmálum og þjóðfélagsmálum, fyrst sem andófsmaður gegn stjórn Napóleons III keisara og síðar sem leiðtogi Róttækra lýðveldissinna eftir stofnun þriðja franska lýðveldisins. Hann tók jafnframt þátt í málsvörn Alfreds Dreyfusar í Dreyfus-málinu alræmda. Clemenceau var helsti leiðtogi Frakka á lokakafla fyrri heimsstyrjaldarinnar. Eftir uppgjöf Þjóðverja fór Clemenceau fyrir friðarráðstefnunni í París og var óbilgjarnastur leiðtoga Bandamanna í garð Þjóðverja við gerð Versalasamninganna. Clemenceau gekk undir viðurnefninu „tígrisdýrið“ (le tigre) vegna óbilgirni sinnar og var einnig kallaður „sigurfaðirinn“ (Père la Victoire) eftir sigur Frakka í styrjöldinni.


skoða - spjall - saga


Desember

Svartidauði var einn skæðasti heimsfaraldur sögunnar og náði hámarki í Evrópu um miðja 14. öld. Almennt er talið að sýkillinn hafi verið bakterían Yersinia pestis sem veldur Kýlapest. Margir telja að sjúkdómurinn hafi borist frá Asíu og breiðst út með rottum. Áætlað hefur verið að um 75 milljónir manna alls hafi látist úr farsóttinni, þar af í Evrópu 25–30 milljónir, eða þriðjungur til helmingur íbúa álfunnar á þeim tíma.

Pestin gekk um alla Evrópu á árunum 13481350 en barst þó ekki til Íslands þá, sennilega einfaldlega vegna þess að engin skip komu til Íslands þau tvö ár sem pestin geisaði á Norðurlöndum og í Englandi. Ýmist tókst ekki að manna skipin vegna fólksfæðar eða þá að skipverjar dóu á leiðinni og skipin komust aldrei alla leið. Töluverður vöruskortur var í landinu vegna siglingaleysis og er meðal annars sagt að leggja hafi þurft niður altarisgöngur um tíma af því að prestar höfðu ekki messuvín.

Pestin kom aftur upp rétt eftir aldamótin 1400 á Ítalíu og breiddist út til ýmissa landa en varð þó líklega hvergi viðlíka faraldur og á Íslandi, þar sem hún gekk 1402-1404. Sóttin gaus aftur upp í Evrópu hvað eftir annað fram á 18. öld en varð þó aldrei eins skæð og þegar hún gekk fyrst yfir.

Á síðari tímum hafa komið fram efasemdir um að plágubakterían hafi valdið svartadauða á Íslandi. Ástæðurnar eru meðal annars þær að svartidauði fór um Ísland eins og eldur í sinu þó að landið væri laust við rottur, að útbreiðsla sjúkdómsins var einum mánuði of snemma.


skoða - spjall - saga


Greinar mánaðarins:

2005 · 2006 · 2007 · 2008 · 2009 · 2010 · 2011 · 2012 · 2013 · 2014 · 2015 · 2016 · 2017 · 2018 · 2019 · 2020 · 2021 · 2022 · 2023 · 2024