Ítalska endurreisnin

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Dómkirkjan í Flórens var reist á árunum frá 1296 til 1469. Vinstra megin er klukkuturn Giottos og hægra megin er hvolfþak Brunelleschis.

Ítalska endurreisnin var fyrsta skeið endurreisnartímans þegar miklar breytingar urðu á menningu íbúa Evrópu. Endurreisnin hófst með nýjungum í bókmenntum, byggingarlist og málaralist í borgríkjunum Flórens og Siena í Toskana á Ítalíu á síðari hluta 14. aldar. Húmanistinn Petrarca er oft nefndur sem fyrsta endurreisnarskáldið, Giotto di Bondone er gjarnan talinn vera fyrsti endurreisnarmálarinn og Filippo Brunelleschi fyrsti endurreisnararkitektinn. Húmanisminn sótti sér innblástur í heimspeki og bókmenntir fornaldar sem rómversk-kaþólska kirkjan hafði ýmist hunsað eða afbakað í þágu kristilegrar heimsmyndar sem byggði á erfðasyndinni og dulrænni ódauðlegri sál. Húmanisminn hélt hins vegar fram einstaklingshyggju og skynsemishyggju sem byggði á því að maðurinn væri góður í eðli sínu. Í myndlist varð ríkjandi myndbygging sem byggði á raunsæjum hlutföllum og fjarvídd, og tilfinningaríkum stellingum og svip persóna. Í byggingarlist var ríkjandi afturhvarf til einfaldleika klassískrar rómverskrar og grískrar byggingarlistar með áherslu á boga, súlnagöng og hvolfþök, og notkun marmara sem byggingarefnis.

Endalok ítölsku endurreisnarinnar eru ýmist miðuð við upphaf Ítalíustríðanna 1494, ferð Leonardo da Vinci til Frakklands 1516 eða upphaf gagnsiðbótarinnar 1545. Norræna endurreisnin stóð hins vegar frá miðri 15. öld til loka 16. aldar.

  Þessi sögugrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.