Blakdeild Fram
Blakdeild Fram var íþróttadeild sem stofnuð var innan í Knattspyrnufélagsins Fram árið 1978. Hún starfaði af krafti um nokkurra ára skeið, en tók í síðasta sinn þátt í Íslandsmóti árið 1991.
Sagan
[breyta | breyta frumkóða]Fyrstu hugmyndir um að hefja æfingar í blaki á vettvangi Knattspyrnufélagsins Fram voru kynntar til sögunnar árið 1974. Þá um vorið hampaði Ungmennafélag Biskupstungna Íslandsmeistarartitlinum í blaki. Liðsmenn þess voru allir útskriftarnemar við Íþróttakennaraskólann, sem ákváðu að halda hópinn í höfuðborginni.
Í hópnum voru Framararnir Pálmi Pálmason og Ásgeir Elíasson og lá því beint við að knýja að dyrum hjá Fram. Svörin voru hins vegar á þá leið að Fram ætti nóg með að sjá öðrum boltagreinum fyrir æfingatímum. Niðurstaða hópsins varð því sú að stofna deildina innan Þróttar, sem varð í kjölfarið sigursælasta blakfélag landsins.
Undirtektirnar urðu aðrar og betri árið 1978 þegar hópur unglinga á menntaskólaaldri bönkuðu upp á og báðu um að fá að stofna blakdeild. Um var að ræða vinahóp úr Menntaskólanum við Hamrahlíð sem verið hafði saman í Álftamýrarskóla. Flestir í hópnum voru virkir félagar í Fram og æfðu aðrar greinar innan félagsins. Meðal stofnfélaga voru fréttamaðurinn Kristján Már Unnarsson og handknattleiksmaðurinn Atli Hilmarsson.
Framarar skráðu sig til leiks á Íslandsmóti meistaraflokks haustið 1978. Næstu árin rokkaði liðið á milli þess að berjast við topp annarrar deildar og botn fyrstu deildar.
Veturinn 1986-87 var sá besti í sögu blakdeildarinnar. Leikmenn voru á besta aldri og með mikla reynslu. Fram komst í úrslitaeinvígi um Íslandsmeistaratitilinn gegn Þrótti. Báðar viðureignir einvígisins töpuðust 3:1 eftir harða baráttu og silfurverðlaunin voru Framara. Sama vetur bar það til tíðinda að leikmönnum Fram tókst að vinna hrinu gegn Íþróttafélagi stúdenta 15:0.
Þessi góði árangur reyndist hins vegar svanasöngur frekar en fyrirboði frekari afreka. Næstu fjögur árin höfnuðu Framarar í neðsta sæti Íslandsmótsins og náðu sjaldnast að vinna hrinu í keppni við sterkari liðin. Smátt og smátt varð rekstur blakdeildarinnar þyngri. Upphaflegu stofnendurnir sneru sér að öðrum verkefnum, en erfiðlega gekk að fá nýja menn í staðinn.
Kvennaflokkur og yngri flokka starf deildarinnar lognaðist sömuleiðis útaf, ekki hvað síst vegna aðstöðuleysis. Fram átti ekki eigið þróttahús og íþróttahús Álftamýrarskóla var ásetið. Fyrir vikið voru æfingar haldnar út um allar trissur og yngri flokkarnir þurftu til að mynda að sækja æfingar vestur í Melaskóla þótt iðkendurnir væru flestir úr Breiðholtinu.
Fram tók í síðasta sinn þátt í Íslandsmóti í blaki vorið 1991. Deildin var þó aldrei formlega lögð niður og hafa Framarar keppt undir eigin merkjum á öldungamótum til þessa dags. Ekki er því útilokað að Framarar eigi síðar eftir að láta til sín taka í blakinu á ný.