Voynich-handritið

Þessi grein er gæðagrein að mati notenda Wikipediu.
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Voynich-handritið er ritað með óþekktu letri

Voynich-handritið er dularfull myndskreytt bók af óþekktum uppruna, skrifuð, að talið er, einhvern tímann á milli 14. og 17. aldar af óþekktum höfundi, með óþekktu ritkerfi og á óþekktu tungumáli.

Á þeim tíma sem vitað hefur verið um handritið hefur það orðið viðfangsefni áhugamanna sem og fagmanna á sviði dulmálsfræði, bókmenntafræði, sagnfræði og annarra vísindagreina. Meðal annarra hafa frægir dulmálsfræðingar seinni heimstyrjaldarinnar reynt að ráða í það, en engum hefur tekist að finna merkingu nokkurs einasta orðs. Þessi langa hefð fyrir árangursleysi hefur rennt stoðum undir þá skoðun að handritið sé einfaldlega mjög stórt gabb; merkingarlaus runa af handahófsvöldum táknum. Þeir sem eru mótfallnir þeirri kenningu bera á móti að bókin sé rituð á efnivið sem væri bæði dýr og ekki auðfenginn á þeim tíma sem hún er rituð, því hefði slíkt „gabb” verið mjög kostnaðarsamt.

Handritið er nefnt eftir pólsk-ameríska fornbókasalanum Wilfrid M. Voynich, sem fékk bókina í hendurnar árið 1912. Í dag er hún þó skrásett sem MS 408 í Beinecke bókasafni sjaldgæfra bóka við Yale. Fyrsta nákvæma eftirprentun var gefin út 2005.

Lýsing[breyta | breyta frumkóða]

„Jurta“-hlutinn er myndskreyttur með blómamyndum
„Líffræði“-hlutinn hefur þéttan texta og myndir af nöktum konum að baða sig.
Teikningarnar í „líffræði“-hlutanum eru tengdar saman með rörakerfi.

Gildandi viðmið gera ráð fyrir að bókin hafi upprunalega verið 272 blaðsíður að lengd, bundin inn í 17 örkum sem hver hefur 16 blaðsíður. Um 240 blaðsíðanna, sem eru úr bókfelli, eru eftir. Bilin sem eru eftir í blaðsíðunúmerum bókarinnar, sem virðast yngri en afgangur bókarinnar, gefa til kynna að þó nokkrar blaðsíður hefur vantað þegar Voynich fékk handritið í hendurnar. Fjaðurstafur var notaður til þess að skrifa texta bókarinnar, og til þess að teikna útlínur allra teikninga, en lituð málning var notuð til þess að lita teikningarnar. Litunin virðist yngri en afgangur textans, og virðist hafa verið gerð af viðvaningi.

Myndskreytingar[breyta | breyta frumkóða]

Myndskreytingar bókarinnar gefa lítið til kynna um innihald hennar, en benda þó til þess að bókin samanstandi af sex „hlutum“, sem hver hefur sinn stíl og viðfangsefni. Ef undan er skilinn síðasti hlutinn, sem hefur engar myndir, þá er næstum því hver einasta síða myndskreytt. Hlutarnir hafa fengið nöfn eftir innihaldi myndanna, en þau nöfn eru byggð á getgátum. Hlutarnir eru:

 • Jurtir: hver síða hefur teikningu af einni plöntu, stundum tveimur, og hefur fáar efnisgreinar af texta. Sniðið er dæmigert fyrir Evrópskar bækur um jurtafræði á þessum tíma. Sumar myndanna eru stærri og betri útgáfur af teikningum sem eru í „lyfjafræði“ hlutanum (neðar).
 • Stjörnufræði: samanstendur af hringlaga myndritum, sumum hverjum með sólum, tunglum og stjörnum, sem bendir til þess að verið sé að fjalla um stjörnufræði eða stjörnuspeki. Röð af 12 teikningum sýnir hefðbundin tákn dýrahringsins (tveir fiskar fyrir Fiskanna, naut fyrir Nautið, hermann með lásboga fyrir Bogamanninn, og svo framvegis). Hver teikning er umkringd af nákvæmlega 30 smágerðum konum, sem flestar hverjar eru naktar, og hver þeirra heldur á merktri stjörnu. Síðustu tvær blaðsíður þessa hluta eru glataðar, en á þeim voru Vatnsberinn og Steingeitin. Hrútnum og Nautinu er afturámóti skipt upp í fjórar paraðar teikningar með 15 stjörnum hvert. Sumar þessara teikninga eru á stærri blaðsíðum sem brotnar eru inn í bókina.
 • Líffræði: þéttur samfelldur texti með myndskreytingum af smágerðum nöktum konum að baða sig í ýmsum laugum eða pottum, sem samtengdar eru með þéttu neti röra. Sum hver taka þau á sig lögun líkamsparta. Sumar kvennanna bera kórónur.
 • Stjörnuspeki: fleiri hringlaga myndrit, en óskiljanlegri. Þessi hluti hefur einnig samanbrotnar innsíður, en ein þeirra er sex blaðsíður að stærð. Á henni er nokkurs konar kort eða myndskýring sem samanstendur af níu „eyjum“ ásamt „gangleiðum“ á milli þeirra, köstulum, og hugsanlega eldfjall.
 • Lyfjafræði: margar merktar teikningar af plöntuhlutum, svo sem rótum, laufblöðum, o. þ. h.; hlutir sem líkjast krukkum apótekara eru teiknaðar með fram spássíunni. Nokkrar efnisgreinar af texta.
 • Uppskriftir: margar stuttar efnisgreinar. Hver þeirra er merkt með lítilli stjörnu fremst, eins og í upptalningu.

Textinn[breyta | breyta frumkóða]

Textinn er greinilega ritaður frá vinstri til hægri, með lítillega ójafnri hægri spássíu. Lengri textabútar eru brotnir upp í efnisgreinar, stundum með stjörnum á vinstri spássíu, eins og til þess að gefa til kynna upptalningu. Það er engin augljós greinarmerkjasetning. Rás textans er jöfn, þ.e., textinn er ritaður með jöfnum hætti, hver stafur og hvert orð jafn vel skrifað, sem gefur til kynna að sá sem skrifaði textann hafi skilið það sem hann var að skrifa. Handritið gefur ekki neinar vísbendingar um að hvert tákn hafi verið úthugsað sérstaklega áður en að það var ritað.

Textinn samanstendur af yfir 170.000 einstökum stafbrigðum sem almennt eru aðskilin hvert frá öðru með bilum. Flest stafbrigðin eru rituð með einu eða tveimur pennastrikum, þ. e. samfelldum línum án þess að lyfta pennanum. Það eru deilur um það hvort að sum tákn séu aðskilin eða ekki, en ljóst er að stafrófið samanstendur af 20-30 einstökum stafbrigðum sem ná yfir nær allan textann; undantekningarnar eru nokkur „undarleg“ tákn, sem koma aðeins einu sinni eða tvisvar fyrir.

Stærri bil aðgreina textann í um 35.000 „orð“ af misjafnri lengd. Þau virðast fylgja hljóðfræðilegum eða ritfræðilegum reglum af einhverju tagi, til dæmis eru ákveðin tákn sem verða að birtast í öllum orðum (líkt og sérhljóðar í íslensku). Að sama skapi koma sum tákn aldrei á eftir öðrum, sum eru gjarnan tvítekin en önnur ekki.

Tölfræðileg greining textans leiðir í ljós svipuð mynstur og finnast í náttúrlegum tungumálum. Til dæmis fylgir tíðni orða Zipf dreifingu, og orðaóreiðan (um 10 bitar/orð) er mjög svipuð óreiðunni í ensku eða latínu. Sum orð koma aðeins fyrir í vissum hlutum, eða jafnvel aðeins á örfáum síðum, en önnur koma fyrir alls staðar í handritinu. Það eru mjög fáar endurtekningar meðal þeirra c. a. 1.000 merkinga sem fylgja teikningunum. Í jurtakaflanum kemur fyrsta orðið á hverri síðu aðeins fyrir á þeirri síðu, og það kann að vera nafn plöntunnar sem rætt er um.

Að þessu frátöldu er mál Voynich handritsins mjög ólíkt evrópskum tungumálum að ýmsu leyti. Til dæmis eru nánast engin orð með fleiri en tíu stöfum, og eins- og tveggja stafa orð eru líka fátíð. Dreifing stafa um orðin er líka fremur sérkennileg: sumir stafir koma aðeins fyrir í upphafi orðs (líkt og þ), sum aðeins í enda orðs, og önnur aðeins á miðsvæði orðs; en þetta er mun algengara í arabískum málum heldur en rómönsku, grísku eða kýrillísku.

Endurtekningar virðast algengari en í evrópskum málum. Það eru tilvik þar sem að sama algenga orðið kemur fyrir þrisvar í röð. Orð sem eru eins nema að einum staf endurtakast gjarnan líka.

Það eru aðeins nokkur orð í handritinu skrifuð á að því er virðist latnesku letri. Á síðustu síðunni eru fjórar línur sem eru skrifaðar í (fremur bjöguðum) latneskum stöfum, en í þeim koma tvö orð fyrir í óþekkta ritkerfinu. Letrunin líkist evrópskum 15. aldar stafrófum, en orðin sem koma fyrir í línunum fjórum eru merkingarlaus í öllum þekktum tungumálum. Einnig er röð af teikningum í stjörnufræði hlutanum þar sem að nöfn tíu mánaða (mars til desember) eru rituð í latnesku letri. Stafsetning nafnanna er svipuð og í miðaldatungumálum Frakklands og Íberíuskaga. Hins vegar er ekki vitað hvort að þessi stöku latnesku orð eru hluti upprunalega handritsins eða hvort að þeim hafi verið bætt við síðar.

Saga[breyta | breyta frumkóða]

Athanasius Kircher, þýskur fræðimaður.

Saga handritsins er enn að hluta óþekkt, sérstaklega elsti hluti hennar. Þar sem að stafróf handritsins líkist ekki neinu þekktu ritkerfi og texti þess enn ekki afkóðaður eru einu nytsamlegu upplýsingarnar um aldur bókarinnar og uppruni teikningarnar, þá sérstaklega klæðaburður og hárstíll mannanna í teikningunum, og byggingarstíll kastalanna sem sjást. Öll þessi einkenni eru evrópsk, og byggt á þeim rökum hafa sérfræðingar ályktað að bókin hafi verið skrifuð milli 1420 og 1520. Þessi ályktun er styrkt með mörgum öðrum vísbendingum.

Fyrsti þekkti eigandi handritsins var Georg Baresch, lítið þekktur gullgerðarmaður sem bjó í Prag snemma á 17. öld. Baresch virðist hafa vitað jafn lítið eða minna en við vitum um þetta „finngálkn“ sem „tók upp pláss að óþörfu í bókasafninu“. Þegar hann frétti að Athanasius Kircher, Jesúíti frá Collegio Romano, hafði gefið út koptíska (eþíópíska) orðabók og „ráðið“ egypsk hýróglýfur, þá sendi hann sýni af ritkerfinu til Kirchers í Róm tvívegis, þar sem að hann bað um vísbendingar. Í bréfi sínu til Kirchers árið 1639, sem Rene Zandbergen hafði upp á nýlega, kemur fram elsta þekkta tilvísun í handritið.

Það er óvitað hvort að Kircher hafi svarað beiðninni, en hann virðist hafa verið nægilega áhugasamur til þess að reyna að kaupa bókina, sem Baresch neitaði að selja. Þegar að Baresch dó féll bókin í hendur vinar hans, Jan Marek Marci (Johannes Marcus Marci), sem þá var rektor í Univerzita Karlova í Prag. Hann sendi bókina rakleiðis til Kircher, sem var gamall vinur hans. Bréf sem Marci skrifaði og festi við kápuna frá árinu 1666 er enn fast við handritið.

Engar heimildir eru til um bókina næstu 200 árin, en að öllum líkindum var hún geymd ásamt bréfasafni Kirchers í bókasafni Collegio Romano. Það var líklega þar þar til að hermenn Victors Emmanuels II Ítalíukonungs hertóku borgina árið 1870 og lögðu undir sig ríki páfans. Nýja ítalska ríkisstjórnin ákvað að leggja hald á ýmsar eigur kirkjunnar, þar með talið bókasafn Collegiosins. Niðurstöður rannsókna Xavier Ceccaldi og annarra hafa leitt í ljós að rétt áður en að þetta gerðist voru margar bækur úr bókasafni háskólans flutt í persónuleg söfn kennaranna, en þau söfn voru undanskilin hernáminu. Bréfasafn Kirchers var meðal þessa, og þar með Voynich handritið líka. Það sést á því að það er enn þá merkt ex libris Petrus Beckx, sem var æðsti maður Jesúítareglunnar og rektor háskólans á þeim tíma.

Einkasafn Beckx var flutt síðar til Villa Mondragone í Frascati, stórrar hallar nærri Róm sem að Jesúítareglan keypti árið 1866 og hýsti höfuðstöðvar Collegio Ghisleri.

Um 1912 leið Collegio Romano mikinn fjárskort og ákvað að selja hluta eigna sinna. Wilfrid Voynich keypti þrjátíu handrit af þeim, þar með talið handritið sem nú ber nafn hans. Eftir dauða hans 1930 erfði ekkja hans, Ethel Lilian Voynich, handritið — en Ethel er þekkt fyrir að hafa skrifað söguna The Gadfly. Hún lést árið 1960 og lét vinkonu sinni, Anne Nill, handritið eftir. Árið 1961 seldi Nill svo bókina til fornbókasala að nafni Hans P. Kraus. Kraus gat ekki fundið neinn kaupanda, og gaf Yale háskóla bókina árið 1969.

Tilgátur um höfund[breyta | breyta frumkóða]

Mörg nöfn hafa komið upp í sambandi við vangaveltur um höfund handritsins. Hér verða vinsælustu tilgáturnar skoðaðar.

Roger Bacon[breyta | breyta frumkóða]

Roger Bacon

Í bréfi sínu til Kircher skrifaði Marci að Raphael Mnishovsky hafi sagt bókina einu sinni hafa verið keypta af Rúdolfi II Bæheimskeisara fyrir 600 dúkata. Rudolf trúði því, samkvæmt bréfinu, að höfundur ritsins hafi verið fransiskanamunkurinn Roger Bacon.

Þrátt fyrir að Marci hafi sagst vera að fara umfram sína þekkingu með þessari staðhæfingu, þá tók Wilfrid Voynich þessu mjög alvarlega, og gerði sitt besta til þess að sanna þessa tilgátu. Staðfesta hans í málinu hafði mikil áhrif á allar tilraunir til afkóðunar næstu 80 árin. Afturámóti hafa fræðimenn sem hafa skoðað Voynich handritið í samanburði við önnur verk Roger Bacons algjörlega hafnað þessari tilgátu.

Þess má jafnframt geta að Raphael Mnishovsky lést árið 1644, og Rudolf hlýtur að hafa keypt ritið áður en að honum var steypt af stóli árið 1611, um 55 árum áður en að Marci skrifaði bréfið sitt.

John Dee[breyta | breyta frumkóða]

John Dee

Voynich trúði því að sá sem að hafði selt Rudolfi keisara ritið hafi einungis getað verið John Dee, stærðfræðingur og stjörnuspekingur við hirð Elísabetar I Bretadrottningar. Hann var þekktur fyrir að eiga stórt safn rita eftir Roger Bacon. Dee og aðstoðarmaður hans Edward Kelley bjuggu í Bæheimi í nokkur ár, þar sem að þeir vonuðust eftir því að geta selt þjónustu sína keisaranum. Hins vegar er hvergi minnst á sölu ritsins í dagbókum Dees, sem eru mjög nákvæmar, þannig að það er talið ólíklegt að salan hafi nokkru sinni farið fram. Ef að höfundur handritsins er ekki Roger Bacon þá hverfur tengingin við Dee algjörlega, en Dee sjálfur kann að hafa skrifað ritið og sagt að Bacon hafi verið höfundurinn, í von um að ná að selja það síðar.

Edward Kelley[breyta | breyta frumkóða]

Edward Kelley

Edward Kelley, sem var samferðamaður Dees til Prag, var sjálftitlaður alkemisti sem kvaðst gata breytt kopar í gull með því að nota dularfullt duft sem hann gróf út úr grafhýsi biskups í Wales. Sem aðstoðarmaður Dees, og sjáari, kvaðst hann geta kallað fram engla í kristalskúlu, og hafði langar samræður við þá, sem Dee skrifaði niður. Tungumál englanna var kallað enochíska, nefnt eftir Enoch, föður Methúsalems í Biblíunni. Samkvæmt goðsögninni var Enoch „tekinn“ til Guðs af englum, og fékk hann leiðsögn um himnaríki, sem hann skrifaði bók um eftir endurkomu sína til jarðar. Bókin kallast ýmist Enochsbók eða Fyrsta bók Enochs.

Sumir hafa haldið því fram að Kelley hafi skapað enochíska málið til þess að gabba John Dee, og hafi jafnframt skáldað upp Voynich handritið til þess að gabba keisarann (sem var þá þegar að greiða Kelley fyrir alkemísk störf sín). En á sama hátt og áður eru allar tengingar við Edward Kelley jafn fjarstæðukenndar ef að Roger Bacon er ekki höfundur ritsins.

Wilfrid Voynich[breyta | breyta frumkóða]

Sumir héldu því fram að Voynich kynni sjálfur að hafa skáldað Voynich handritið. Sem reyndur fornbókasali hafði hann bæði þekkinguna og aðstöðuna; og glötuð og endurheimt bók eftir Roger Bacon væri mjög verðmæt. Hins vegar hefur aldursgreining á handritinu, sem og fundur bréfs Bareschs til Kircher, útilokað þennan möguleika.

Jacobus Sinapius[breyta | breyta frumkóða]

Jacobus Sinapius

Stöðuljósmynd af fyrstu síðu Voynich handritsins sem Voynich tók einhvern tímann fyrir 1921 sýnir óljósa skrift sem búið er að þurrka út. Með ýmsum efnum er hægt að ná fram textann „Jacobj `a Tepenece“. Það er álitið að hér sé átt við Jakub Horcicky frá Tepenec, sem var betur þekktur undir latneska nafni sínu, Jacobus Sinapius. Hann var sérfræðingur í grasalækningum og jafnframt einkalæknir Rúdolfs II og umsjónarmaður grasagarða hans. Voynich og margir á eftir honum hafa komist að þeirri niðurstöðu að þessi áletrun gefi til kynna að Jacobus hafi átt Voynich handritið á undan Baresch. Hann leit á þetta sem staðfestingu á sögu Raphaels. Aðrir hafa stungið upp á því að Jacobus hafi sjálfur skrifað ritið.

Hins vegar er skriftin ósamstæð við undirskrift Jacobusar, sem Jan Hurich fann nýlega í gömlu skjali. Það er enn mögulegt að skriftin á fyrstu síðunni (f1r) sé frá síðari eiganda eða bókaverði, og sé ágiskun viðkomandi á því hver skrifaði ritið. Í sögubókum jesúíta sem Kircher hafði aðgang að er Jacobus eini alkemistinn úr hirð Rúdolfs II sem fær heilsíðuumfjöllun, meðan vart er minnst á ýmsa aðra, til dæmis Tycho Brahe.

Efnin sem Voynich notaði hafa skemmt bókfellið svo mikið að varla er hægt að sjá skriftina í dag. Af þessum sökum eru sumir sem halda að Voynich hafi falsað skriftina til þess að styrkja tilgátuna um Roger Bacon.

Jan Marci[breyta | breyta frumkóða]

Jan Marci kynntist Kircher þegar hann fór fyrir sendinefnd frá Univerzita Karlova til Rómar árið 1638. Á næstu 27 árum skrifuðust fræðimennirnir tveir á um ýmisleg vísindaleg málefni. Ferð Marcis var hluti af baráttu aðskilnaðarsinna innan háskólans fyrir sjálfstæði frá jesúítum, sem ráku Clementiunum háskólann í Prag. Þrátt fyrir þessa viðleitni voru háskólarnir tveir sameinaðir árið 1654 undir stjórn jesúíta. Þetta hefur leitt suma til þess að halda að pólitísk biturð gagnvart jesúítum hafi leitt Marci til þess að falsa Baresch bréfin, og síðar Voynich handritið, í tilraun til þess að eyðileggja mannorð Kirchers.

Persónuleiki Marcis og þekking virðast passa við þessa tilgátu, og Kircher var mjög sjálfsöruggur, víðlesinn, og talinn alvitur, þó svo að hann sé þekktur í nútímanum meira fyrir sín stóru mistök heldur en raunveruleg afrek. Hann var mjög auðvelt skotmark. Baresch bréfin líkjast að vissu leyti gabbi sem Andreas Mueller notaði eitt sinn gegn Kircher. Hann skáldaði upp ólæsilegt handrit og sendi til Kircher ásamt bréfi sem sagði það vera frá Egyptalandi. Hann bað Kircher um þýðingu, sem Kircher gat gefið honum undir eins.

Þess má geta að einu sannanirnar sem til eru um tilvist Georgs Baresch eru bréfin þrjú sem eru send til Kircher, eitt frá honum sjálfum (1639) og tvö frá Marci (um ári síðar). Það er einnig sérkennilegt að bréfaskipti Marci og Kirchers enduðu skyndilega árið 1665, með viðhengda bréfinu á Voynich handritinu. Mótlæti Marcis gagnvart jesúítum er hins vegar algjörlega byggt á getgátum. Hann var Kaþólskur og stundaði nám til þess að verða jesúíti, og var gerður að heiðursmeðlim í jesúítareglunni rétt fyrir dauða sinn 1667.

Raphael Mnishovsky[breyta | breyta frumkóða]

Raphael Mnishovsky

Raphael Mnishovsky, vinur Jan Marci sem var uppruni sögunnar um Roger Bacon, var sjálfur dulmálsfræðingur (meðal annars), og fann upp dulmál sem hann sagði að væri óbrjótanlegt (ca. 1618). Þetta hefur ýtt undir þá kenningu að hann hafi búið til Voynich handritið sem dæmi um sitt fullkomna dulmál, og gert Baresch þar með óaðvitandi að tilraunadýri. Eftir að Kircher gaf út bók sína um koptísku segir kenningin að Raphael hafi ákveðið að það yrði enn meiri sigur ef að Kircher gæti ekki ráðið dulmálið, og hafi sannfært Baresch um að leita hjálpar hjá honum. Hann hefur þá spunnið upp söguna um Roger Bacon til þess að hvetja Baresch áfram. Vissulega gefur áfast bréf Marcis til kynna að hann hafi grunað að það væri lygi á ferðinni. Þó eru engar haldbærar sannanir fyrir þessari kenningu.

Anthony Ascham[breyta | breyta frumkóða]

Dr. Leonell Strong, vísindamaður sem starfar við krabbameinsrannsóknir og fæst við dulmálsfræði í hjáverkum, gerði tilraun til þess að afkóða Voynich handritið. Strong sagði lausnina á Voynich handritinu felast í sérkennilegu tvöföldu kerfi jafnmunaruna og margföldu stafrófi. Hann hélt því fram að Voynich handritið hafi verið skrifað af enska 16. aldar rithöfundinum Anthony Ascham, sem skrifaði meðal annars A Little Herbal (1550). Þó svo að Voynich handritið innihaldi vissulega hluta sem tengjast fræðasviði Aschams, þá eru margir sem spyrja sig hvaðan Anthony Ascham kann að hafa fengið slíka þekkingu á dulmálsfræði.

Margir höfundar[breyta | breyta frumkóða]

Prescott Currier, dulmálsfræðingur hjá bandaríska sjóhernum, fékkst við handritið á 7. áratug 20. aldar, og sá hann að hægt væri að aðgreina blaðsíðurnar í „jurta“ hlutanum í tvennt, A og B, sem hafa mjög ólíka tölfræðilega eiginleika og smávægilega ólíka handskrift. Hann komst að þeirri niðurstöðu að Voynich handritið hljóti að vera verk tveggja eða fleiri höfunda, sem notuðu mismunandi mállýskur eða réttritunarreglur, en þekktu báðir ritkerfið. Nýlegar rannsóknir hafa þó vakið spurningar um þessa niðurstöðu. Sérfræðingur í greiningu rithanda sá aðeins eina rithönd í öllu handritinu. Einnig, þegar að aðrir hlutar handritsins eru skoðaðir kemur í ljós að A og B skriftirnar eru á sitthvorum endanum á skriftarstílnum, sem gefur til kynna að þeir hlutar hafi verið skrifaðir með mjög löngu millibili.

Antonio Averlino[breyta | breyta frumkóða]

Árið 2006 lagði Nicholas Pelling til í bók sinni, The Curse of the Voynich, að hugsanlegur höfundur handritsins sé Antonio Averlino, arkitekt frá Flórens sem starfaði í hirð erkihertogans í Mílanó, Fransesco Sforza. Röksemdafærslan er sú að Averlino skrifaði fjölmargar bækur fyrir Sforza og í þeim vísaði hann gjarnan á önnur rit sem hann kvaðst hafa skrifað en hafa aldrei fundist. Þau rit voru sögð innihalda teikningar og lýsingar á uppfinningum Averlinos. Þá telur Pelling að blómateikningarnar séu dulkóðaðar myndir af gangverki véla, og þar sé meðal annars að finna teikningu af mjög einföldum sprengihreyfli.

Þessi kenning er af mörgum talin afar góð, enda rökstudd með mjög ítarlegri greinargerð og ótrúlega mörgum tilvísunum. En þó er afkóðunartilraunin sem er sett fram í bókinni álitin frekar vafasöm — hún byggir lítið á þekktum staðreyndum og styðst mest við hugmyndir sem birtust Bandaríska úrsmiðinum Steve Eckwall í sýn.

Tilgátur um innihald og merkingu[breyta | breyta frumkóða]

Almennt virðist handritið eiga að vera handbók um lyfjafræði og lækningar, eða fræðirit um miðaldalækningaraðferðir. Hins vegar eru fjölmargir eiginleikar teikninganna sem hafa ýtt undir kenningar um uppruna bókarinnar, efni texta þess og tilgangs ritsins. Hér eru nokkur nefnd:

Jurtir[breyta | breyta frumkóða]

Fyrsti hluti bókarinnar er án nokkurs vafa um jurtir eða grös, en flestar tilraunir til þess að greina plönturnar, ýmist með raunverulegum sýnum eða stílgerðum teikningum úr öðrum samtíma grasafræðibókum hafa mistekist. Aðeins örfáar plöntur (meðal annars þrenningarfjóla og meyjarhár) hafa verið greindar með nokkurri vissu. Þær myndir úr „jurta“-hlutanum sem passa við myndir úr „lyfjafræði“-hlutanum virðast vera betur teiknuð afrit, nema hvað það er búið að bæta við ýmsum hlutum sem upp á vantaði með ýktum smáatriðum. Sumar plantanna virðast vera samsettar — rætur einnar tegundar ásamt laufblöðum og stika annarrar, með blómum hinnar þriðju.

Sólblóm[breyta | breyta frumkóða]

Sólblóm

Brumbaugh trúði að ein teikninganna sýndi sólblóm frá nýja heiminum, sem myndi aðstoða við að dagsetja handritið og vekja áhugaverða möguleika varðandi uppruna þess. Þó er líkingin ekki mikil, sérstaklega ef að hún er borin saman við upprunalegu villtu sólblómin. Þar sem að skali teikninganna er óþekkt gæti hún vel verið af öðrum blómum úr sömu fjölskyldu, þar með talið baldursbrá, rómversk kamilla (gæsajurt), og margar aðrar tegundir alls staðar að úr heiminum.

Alkemía[breyta | breyta frumkóða]

Laugarnar og rörin í „líffræði“-hlutanum kunna að gefa til kynna tengsl við efnaspeki eða gullgerðarlist, sem myndi einnig vera mikilvægt ef að bókin innihéldi leiðbeiningar um gerð lækningajurta. Hins vegar deila samtíma alkemíubækur myndmáli þar sem að ferlum og efnum er lýst með sérstökum myndum (fálki, froskur, maður í grafhýsi, o. þ. a.), og stöðluðum táknum í textanum (hringur með krossi, o. þ. h.), og engin þeirra hefur verið fundin í Voynich handritinu.

Efnaspeki og grasafræði[breyta | breyta frumkóða]

Sergio Toresella, sérfræðingur í fornum grasalækningaritum, benti á að Voynich handritið gæti verið efnaspekirit um grasalækningar — sem hefur svo til ekkert við efnaspeki að gera, heldur er einfaldlega uppskáldað grasalækningarit með skálduðum myndum, sem falslæknar myndu bera með sér til þess að heilla viðskiptavini sína. Það var lítil stofa sem fjöldaframleiddi slíkar bækur í norðurhluta Ítalíu, rétt um það skeið sem að Voynich handritið kom til sögunnar. Hins vegar eru þær bækur mjög frábrugðnar Voynich handritinu, bæði í stíl og uppsetningu. Auk þess voru þær alltaf skrifaðar á skiljanlegu máli.

Stjörnuspeki og grasafræði[breyta | breyta frumkóða]

Stjörnuspekilegar athuganir voru oft mikilvægar í söfnun grasa, blóðgun og öðrum læknisfræðilegum aðgerðum á því tímabili sem talið er að handritið hafi verið skrifað, eins og sjá má til dæmis í ritum Nicholasar Culpeper. Hins vegar, ef að þekktu dýrahringstáknin eru undanskilin, og ein teikning sem sýnir kannski pláneturnar sem þekktar voru á þessum tíma, þá hefur engum tekist að leggja neina merkingu í teikningarnar með þekktum stjörnuspekiaðferðum, hvorki evrópskum né af öðrum toga.

Smásjár og stjörnukíkjar[breyta | breyta frumkóða]

Hringlaga teikning í „stjörnuspeki“-hlutanum sýnir óreglulega lagaðan hlut með fjórum sveigðum örmum sem hafa verið túlkaðir sem mynd af stjörnuþoku sem gæti aðeins verið fengin með stjörnukíki. Aðrar teikningar hafa verið túlkaðar sem myndir af frumum, séðar í gegnum smásjá. Þetta myndi gefa til kynna að um væri að ræða ungt nútímarit frekar en miðaldarit. Hins vegar eru efasemdir um túlkanirnar. Við nánari athugun virðist miðja „stjörnuþokunar“ vera vatnspollur.

Borgarkort[breyta | breyta frumkóða]

Nicholas Pelling tengdi í bók sinni The Curse of the Voynich hringlaga myndir sem koma fyrir á svokallaðri rósettusíðu í ritinu við 15. aldar kort af borginni Mílan á Ítalíu. Með því að vinna út frá því að um huglæg landakort sé að ræða, sem sýna þó mjög lítið um raunverulega legu landsins heldur frekar bara hvar ákveðin landamerki eru afstæð við hvert annað, náði hann að mynda tengingar við borgirnar Feneyjar og Pavia. Þó eru sex myndir í viðbót á rósettusíðunni sem hafa ekki enn þá verið staðgreindir með þessum hætti.

Tilgátur um tungumálið[breyta | breyta frumkóða]

Margar kenningar hafa komið fram um eðli Voynich „tungumálsins“. Þær eru þessar helstar:

Stafadulmál[breyta | breyta frumkóða]

Samkvæmt þessari kenningu inniheldur Voynich handritið texta á evrópsku tungumáli, og að það hafi verið gert ólæsilegt með því að rita hvern staf í „stafrófi“ Voynich handritsins.

Þetta hefur verið tilgátan að baki flestum afkóðunartilraunum 20. aldar, meðal annars óformlegs hóps dulmálsfræðinga hjá NSA sem William F. Friedman leiddi í upphafi 5. áratugarins. Einföld stafavíxldulmál (á borð við Dulmál Sesars) er hægt að útiloka, þar sem að þau eru mjög auðbrjótanleg með tíðniárás, þannig að afkóðunartilraunir hafa aðallega miðast við fjölstafrófsdulmál, sem Leone Battista Alberti fann upp í kringum 1460. Til þessa flokks dulmála er fræga Vigenere-dulmálið, sem má styrkja með notkun núlltákna (merkingarlaus tákn) og/eða sambærileg tákn, umröðun stafa, fölsk orðabil, og þaðan af. Sumir gerðu ráð fyrir því að sérhljóðum hafði verið eytt áður en að dulkóðun hófst. Það hafa margir kvaðst hafa afkóðað handritið með þessum hætti, en engin þeirra er almennt viðurkennd, aðallega sökum þess að afkóðunarkerfi þeirra hafa byggst á svo mörgum getgátum að það væri hægt að finna merkingarbæran texta í hvaða handahófskennda textastreng sem er.

Stærstu rökin fyrir þessari kenningu eru þau að notkun sérkennilegs stafrófs getur varla haft aðra útskýringu en þá að það sé tilraun til þess að fela upplýsingar. Roger Bacon þekkti dulmál, og dulmálsfræði varð fyrst að rannsakaðri fræðigrein um þetta leyti. Hins vegar eru rökin gegn þessu þau að stafadulmál myndu eyðileggja náttúrlegu tölfræðilegu eiginleika handritsins, svo sem lögmál Zipfs. Auk þess komust fjölstafrófsdulmál ekki í almenna notkun fyrr en á 16. öld, sem er frekar seint miðað við hvenær talið er að Voynich handritið hafi verið skrifað.

Kóðabókardulmál[breyta | breyta frumkóða]

Samkvæmt þessari kenningu eru „orðin“ í Voynich handritinu raunverulega kóðar sem þarf að fletta upp í þar til gerðri orðaskrá eða kóðabók. Helstu rökin fyrir þessari kenningu eru að innri gerð og lengd orða eru svipuð lengdum rómverskra talna, sem á þeim tíma hefðu verið eðlilegt val fyrir kóða. Hins vegar eru kóðabókardulmál aðeins nytsamleg fyrir stutt skilaboð, þar sem að þau eru mjög tímafrek í notkun — bæði til lestrar og til skrifta. Við þetta bætist að ef að slíkt dulmál hefði verið notað er líklegt að skriftin væri ekki jafn samfelld og raun ber vitni.

Myndrænt dulmál[breyta | breyta frumkóða]

James Finn lagði til í bók sinni Pandora's Hope (2004) að Voynich handritið væri í rauninni myndrænt dulkóðuð hebreska. Þegar að orðin í Voynich handritinu hafa verið skráð, með hjálp EVA, er hægt að lesa mörg orðanna sem hebresk orð sem endurtaka sig með mismunandi afmyndunum, til þess gerðar að rugla lesandann. Til dæmis er orðið AIN í handritinu hebreska orðið fyrir auga. Það kemur einnig fram í forminu aiin og aiiin. Önnur afbrigði myndrænna dulmála hafa verið lögð til.

Helstu rökin fyrir þessari skoðun eru að þau myndu útskýra það hvað gengi illa að afkóða dulmálið, sökum þess að stærðfræðilegar aðferðir hafa verið notaðar fyrst og fremst. Helstu rökin gegn þessari tilgátu eru þó að slík dulkóðun gerir ráð fyrir mikilli hæfni afkóðarans, þar sem að allan texta mætti sjá út á fjölmarga vegu. Það væri erfitt að vita hve mikilli túlkun þyrfti að beita á textann, og allt umfram það yrði háð smekk afkóðarans.

Örskrift[breyta | breyta frumkóða]

Eftir uppgötvun þess árið 1912 var ein fyrsta tilraunin til þess að aflæsa ráðgátu handritsins, og jafnframt sú fyrsta af mörgum fölskum fullyrðingum um rétta afkóðun þess, gerð af William Newbold hjá Pennsylvaníuháskóla árið 1921. Tilgátan hans var að sýnilegi textinn væri merkingarlaus, en að hver stafur sé samsettur af runu örsmárra tákna sem eingöngu er hægt að sjá með stækkunargleri. Þessi tákn, sem byggð væru á forngrískri hraðskrift áttu að mynda annað stig skriftar sem innihéldi raunverulegu upplýsingar textans. Byggt á þessari þekkingu hélt Newbold því fram að hann hafði afkóðað heilu efnisgreinarnar sem sönnuðu að Roger Bacon hafi skrifað ritið með notkun samsettrar smásjár um fjögur hundruð árum á undan Leeuwenhoek. Á hinn boginn fann John Manly hjá Chicagoháskóla marga alvarlega galla við kenninguna. Hvert tákn átti að hafa margar merkingar, með engri áreiðanlegri leið til þess að greina á milli þeirra. Aðferð Newbolds fólst einnig í því að endurraða stöfum eftir hentisemi uns skiljanleg latína kæmi fram. Þessir eiginleikar gerðu það að verkum að það væri hægt að lesa hvað sem er út úr táknunum. Þó svo að hefð sé fyrir hebreskri örskrift er hún hvergi nærri jafn þjöppuð og flókin og táknin sem Newbold greindi. Við nánari athugun kemur í ljós að þetta eru ummerki þess að blekið hafi brotnað þegar það þornaði á bókfellinu, eins og gerist oft. Þökk sé nákvæmu athugunum Manlys er örskriftarkenningunni í dag hafnað.

Dulritun[breyta | breyta frumkóða]

Þessi tilgáta segir að texti handritsins sé að mestu merkingarlaus, en inniheldur mikilvægar upplýsingar faldar í smáatriðum, til dæmis annar stafur hvers orðs, eða fjöldi orða í hverri línu. Þessi aðferð, sem kölluð er dulritun (e. steganography, úr grísku: falin skrift), er mjög gömul, og er henni fyrst lýst af Jóhannesi Trithemiusi árið 1499. Sumir hafa stungið upp á því að rétti textinn sé fenginn með notkun gataspjalds af einhverri tegund. Það er erfitt að sanna eða afsanna þessa kenningu, þar sem að dulrituð skjöl eru mjög misjafnlega vandleyst. Helstu mótrökin fyrir því að þetta sé dulritað er sú að dulkóðaður texti stríðir gegn helsta tilgang dulritunar, sem er að fela tilvist leynda textans.

Sumir hafa lagt það til að merkingarbæri textinn sé kóðaður í lengd og lögun mismunandi stafa. Það eru til dæmi um dulritun frá þessum tíma sem nota lögun stafa (t. d. skáletrun á móti venjulegum stöfum) til þess að fela upplýsingar. Hins vegar, þegar að skjalið er rannsakað náið virðast stafir Voynich handritsins vera mjög náttúruleg, og undir miklum áhrifum frá ójöfnu yfirborði bókfellsins.

Óþekkt náttúrlegt mál[breyta | breyta frumkóða]

Málvísindamaðurinn Jacques Guy lagði það til að Voynich handritið gæti verið á einhverju óþekktu náttúrlegu tungumáli, skrifað án dulkóðunnar í einhverju uppfundnu ritkerfi. Orðauppbyggingin er vissulega lík þeirri sem er mörg tungumálum austur- og miðasíu, þá sérstaklega Sínó-Tíbetísk mál (kínverska, tíbetíska og búrmíska), Austurasíumál (vítetnamíska, kambódíska, o. s. frv.) og hugsanlega Tai mál (taílenska, laoska, o. s. frv.). Í mörgum þessara mála hafa „orðin“ aðeins eitt atkvæði, og atkvæðin eru afar fjölbreytt, til dæmis hafa þau mismunandi tónun.

Þessi kenning hefur töluverðan sögulegan trúverðugleika. Þó svo að þessi tungumál höfðu að öllu jöfnu sín eigin ritkerfi voru þau oft óhugnanlega flókin fyrir vesturlandabúa, sem varð til þess að mörg atkvæðaritkerfi voru fundin upp, flest öll með latnesku letri, en stundum með uppfundnum stafrófum. Þó svo að þekktu dæmin eru mun yngri en Voynich handritið eru sögulega þekktir hundraðir landkönnuða og trúboða sem gætu hafa gert það — jafnvel fyrir för Marco Polo á þrettándu öld, en sérstaklega eftir að Vasco da Gama fann sjóleiðina að austurlöndum árið 1499. Höfundur Voynich handritsins gæti jafnframt verið austurasískur en búsettur í Evrópu, eða menntaður í evrópsku trúboði.

Helstu rökin með þessari kenningu er að það samræmist öllum tölfræðilegum eiginleikum handritsins sem búið er að prófa fyrir, þar með talið tvöföldun og þreföldun orða (sem finnast í kínverskum og víetnömskum textum með mjög svipaðri tíðni og það í Voynich handritinu). Það útskýrir einnig skort á tölum og vestrænum málfræðieiginleikum á borð við greini og tengisagnir, og almennt hvað myndskreytingarnar eru furðulegar. Aðrar hugsanlegar vísbendingar eru tvö stór rauð tákn á fyrstu síðunni, sem hafa verið borin saman verið kínverska bókatitla, á hvolfi og illa afrituð. Einnig virðist árinu vera skipt í 360 gráður frekar en 365 daga, og í 15 gráðu hópa sem byrja á fiskunum, sem eru dæmi um kínverskt landbúnaðardagatal. Helstu mótrökin fyrir þessu eru að enginn (þar með talið fræðimenn við vísindaakademíuna í Beijing) hefur getað fundið skýr dæmi um asíska táknfræði eða asísk vísindi í myndskreytingunum.

Síðla árs 2003 lagði pólski fræðimaðurinn Zbigniew Banasik fram þá tillögu að handritið væri ritað í Manchu málinu (talað í Manchúríu, leppríki Japans fyrir upphaf seinni heimstyrjaldarinnar, nú skipt milli Kína og Mongólíu) og gaf hann ófullkomna þýðingu á fyrstu síðu handritsins.

Helstu verkfæri afkóðara[breyta | breyta frumkóða]

Þeir sem að eru að leitast eftir hinni sönnu merkingu Voynich handritsins hafa komið sér upp ýmsum tólum til þess verks.

Síðutilvísanakerfi[breyta | breyta frumkóða]

Vísað er í síður bæði í EVA skrám og í samskiptum á póstlistanum með kerfisbundnum hætti. Þetta er að mestu leyti sambærilegt við síðutilvísannakerfi fyrir önnur handrit. Þá eru helstu stikkorðin:

 • Quire — kver; samanbundið sett arka; í handritinu eru 20 kver, það stærsta verandi síðasta, en það hljóðar upp á 7 arkir (14 blaðsíður), en innsta örkin er týnd;
 • Folio — blaðsíða; hver blaðsía er í rauninni helmingur einnar arkar (bifolio) sem bundin er inn í kverið;
 • Recto — framhlið; úr latínu;
 • Verso — bakhlið; úr latínu.

Þá er vísað í tiltekna blaðsíðu, til dæmis bakhlið blaðsíðu 14, þá er ritað f14v. Sumar síður eru samanbrotnar inní bókinni og er þá hvert brot kallað útflétting. Þá fær hver útflétting sitt eigið númer sem bætist við aftan við. Til dæmis hefur f73 þrjár útfléttingar, og er vísað í framhlið þriðju útfléttingar með f72r3.

EVA[breyta | breyta frumkóða]

EVA er nafn sem gefið er safni allra umritanna Voynich handritsins yfir í latneskt letur, sem gert er til þess að hægt sé að geyma orð handritsins á tölvutæku formi. Allar umritanirnar hafa verið gefnar út á stöðluðu formi, og eru skrárnar þeirra byggðar upp þannig:

<f1r.P3.15;N>   daiin.shckhey.ck!!!!eor.chor.shey.kol.chol.chol.kor.chal-
<f1r.P3.15;U>   daiin.shckhey.ck!!!!hor.chor.shey.kol.chol.chol.kor.chol-
#
<f1r.P3.16;H>   sho.chol.sh!odan.kshy.kchy.dor.chodaiin.sho.kchom-
<f1r.P3.16;C>   sho.chol.sh.odan.kshy.kchy.dor.chodaiin.sho.keeam-
<f1r.P3.16;F>   sho.chol.sh!odan.kshy.kchy.dor.chodaiin.sho.koeam-
<f1r.P3.16;N>   sho.chol.sh!odan.kshy.kchy.dor.chodaiin.sho.kchom-
<f1r.P3.16;U>   sho.chol.sh!odan.kshy.kchy.dor.chodaiin.sho.keeam-
#
<f1r.P3.17;H>   ycho.tchey.chokain.sheo.pshol.dydyd.cthy.daicthy-
<f1r.P3.17;C>   ycho.tchey.chekain.sheo!pshol.dodyd.cthy.da!cthy-

Þar sem að f1r þýðir að þetta sé úr folio 1, recto; P3 merkir þriðja efnisgrein blaðsíðunnar, 16 er hér línunúmerið á blaðsíðunni, og síðasti bókstafurinn segir til um hvaða umritun er verið að nota. Hér eru sýndar fimm mismunandi umritanir á línu 16, vegna þess að mönnum ber ekki saman um hvernig eigi að umrita síðasta orðið.

Alls eru til 18 umritanir, sem kallaðar eru H, C, F, N, U, D, X, J, G, V, Z, R, K, Q, L, P, I og T. Umritanirnar eru misjafnlega yfirgripsmiklar, enda hafa sumir umritað allt handritið, en aðrir umritað aðeins hluta þess til þess að koma með nýja tillögu að réttri umritun. Helstu umritannirnar eru:

 • C — Upprunaleg umritun, höfundur óþekktur;
 • F — Upprunaleg umritun, höfundur óþekktur;
 • X — Denis Mardle;
 • N — G. Landini;
 • U — Jorge Stolfi;
 • V — John Grove.

Tilvísanir í alþýðumenningu[breyta | breyta frumkóða]

 • Hættulegt rit að nafni Necronomicon kemur fyrir í Cthulu Mythos sögum H. P. Lovecraft. Þó svo að Lovecraft hafi líklega ekki vitað um Voynich handritið gaf Colin Wilson út smásögu árið 1969 sem hét The Return of the Lloigor í sögusafni um Cthulu Mythos, þar sem að aðalsögupersónan áttar sig á því að Voynich handritið er ófullkomið afrit af Necronomicon. Síðan þá hafa margir aðrir höfundar tengt hið uppspunna Necronomicon við raunverulegu gátuna.
 • Voynich handritið er kjarni föflunnar í sögu Brad Stricklands, The Wrath of the Grinning Ghost, sem er hluti af Johnny Dixon sögunum sem John Bellairs skapaði.
 • Codex Seraphinianus er nútímalistaverk í anda Voynich handritsins.
 • Tónskáldið Hanspeter Kyburz skrifaði tónverk byggt á Voynich handritinu með því að lesa það sem nótur.
 • Fafla sögunnar Il Romanzo di Nostradamus eftir Valerio Evangelisti notast við Voynich handritið sem svartagaldur sem franski stjörnuspekingurinn Nostradamus barðist við alla ævi.
 • Í tölvuleiknum Broken Sword: The Sleeping Dragon er Voynich handritið mikilvægur hluti af framvindu sögu sem tengist Neo-Templörum. Handritið er þá spádómur um slæmar náttúruhamfarir sem munu gerast í framtíðinni, svo sem flóð og afar snarpa jarðskjálfta.
 • Í tölvuleiknum Radiata Stories er Voynich handritið eitt bókanna í Vereth stofnuninni.
 • Í bókum sínum Ilium og Olympos lýsir Dan Simmons hauslausum vélmennum sem kallast voynix.
 • Í skáldsögunni Popco skýrir höfundurinn Scarlett Thomas út einfalda dulmálsfræði í tengslum við tilraunir aðalsögupersónunnar til þess að afkóða Voynich handritið.
 • Japanski hraðkjarnatónlistarmaðurinn m1dy kallaði nýlega breiðskífu sína Voynich Tracks.

Tengt efni[breyta | breyta frumkóða]

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

Aðrar heimildir[breyta | breyta frumkóða]

 • Voynich, Wilfrid Michael (1921). „A Preliminary Sketch of the History of the Roger Bacon Cipher Manuscript“. Transactions of the College of Physicians of Philadelphia. 3 (43): 415–430.
 • Manly, John Mathews (1921), "The Most Mysterious Manuscript in the World: Did Roger Bacon Write It and Has the Key Been Found?", Harper's Monthly Magazine 143, pp.186-197.
 • Manly, John Matthews (1931). „Roger Bacon and the Voynich MS“. Speculum. 6 (3): 345–391.
 • McKenna, Terence, "The Voynich Manuscript", in his The Archaic Revival (HarperSanFrancisco, 1991), pp.172-184.
 • William Romaine Newbold (1928). The Cipher of Roger Bacon. Philadelphia, Pennsylvania: University of Pennsylvania Press.
 • M. E. D'Imperio (1978). The Voynich Manuscript: An Elegant Enigma. Laguna Hills, California: Aegean Park Press. ISBN Kerfissíða:Bókaheimildir/0-89412-038-7.
 • Robert S. Brumbaugh (1978). The Most Mysterious Manuscript: The Voynich 'Roger Bacon' Cipher Manuscript. Carbondale, Illinois: Southern Illinois University Press. ISBN Kerfissíða:Bókaheimildir/0-8093-0808-8.
 • John Stojko (1978). Letters to God's Eye. New York: Vantage Press. ISBN Kerfissíða:Bókaheimildir/0-533-04181-3.
 • Leo Levitov (1987). Solution of the Voynich Manuscript: A liturgical Manual for the Endura Rite of the Cathari Heresy, the Cult of Isis. Aegean Park Press. ISBN Kerfissíða:Bókaheimildir/0-89412-148-0.
 • Mario M. Pérez-Ruiz (2003). El Manuscrito Voynich (spænska). Barcelona: Océano Ambar. ISBN Kerfissíða:Bókaheimildir/84-7556-216-7.
 • Lawrence and Nancy Goldstone (2005). The Friar and the Cipher: Roger Bacon and the Unsolved Mystery of the Most Unusual Manuscript in the World. New York: Doubleday. ISBN Kerfissíða:Bókaheimildir/0-7679-1473-2.
 • Francisco Violat Bordonau (2006). El ABC del Manuscrito Voynich (spænska). Cáceres, Spain: Ed. Asesores Astronómicos Cacereños.

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]