Wikipedia:Grein mánaðarins/2007

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Greinar mánaðarins:

2005 · 2006 · 2007 · 2008 · 2009 · 2010 · 2011 · 2012 · 2013 · 2014 · 2015 · 2016 · 2017 · 2018 · 2019 · 2020 · 2021 · 2022 · 2023 · 2024

Janúar

Stóra bomba er heiti á atburði sem átti sér stað árið 1930 og varðaði aðallega Jónas Jónsson frá Hriflu og Helga Tómasson, yfirlækni á Kleppi.

Jónas var dómsmálaráðherra á þessum tíma og hafði bakað sér töluverðar óvinsældir meðal lækna. Hápunkti þessara óvinsælda var án efa náð þegar Helgi Tómasson, yfirlæknir á Kleppi, lýsti því yfir að hann teldi Jónas bera merki um geðveiki og ætti hann því að láta af embætti dómsmálaráðherra tafarlaust. Oft er þetta mál kallað geðveikismálið en Jónas nefndi þennan atburð stóru bombuna og hefur það nafn fest við það.

Fyrri mánuðir: ShōgiMatarprjónarHeimspeki


skoða - spjall - saga


Febrúar
Úlfaldalest í Alsír.

Saharaverslunin milli Miðjarðarhafslandanna og Vestur-Afríku var mikilvæg verslunarleið frá 8. öld fram á þá 16. Verslunin byggðist á úlfaldalestum þar sem notaðir voru drómedarar. Dýrin voru fituð í nokkra mánuði á Magrebsvæðinu eða Sahelsvæðinu áður en lestin var mynduð. Samkvæmt landkönnuðinum Ibn Battuta, sem ferðaðist með úlfaldalest á 14. öld var meðalstærð slíkra lesta um þúsund dýr, en sumar náðu upp í 12.000 dýr. Fyrir úlfaldalestunum fóru vel launaðir leiðsögumenn af þjóð Berba sem þekktu eyðimörkina vel og gátu tryggt öryggi lestarinnar fyrir öðrum hirðingjum.

Fyrri mánuðir: Stóra bombaShōgiMatarprjónar


skoða - spjall - saga


Mars
Mýraeldar á gervihnattamynd.

Mýraeldar voru sinueldar sem komu upp að morgni 30. mars og stóðu til aðfararnætur 2. apríl árið 2006 í Hraunhreppi í Borgarbyggð. Þeir fóru um 75 km² landsvæði en alls brunnu um 67 km² lands þegar frá eru dregnar tjarnir og innilokuð svæði sem brunnu ekki. Líklegt er talið að kviknað hafi í út frá vindlingi við þjóðveg 54 á móts við Bretavatn. Sinueldurinn barst mjög hratt, um 18 kílómetra á fyrstu sex klukkustundunum. Brennda svæðið var allt á milli þjóðvegar 54, 540 og 537, að undanskilinni einni tungu sem náði suður fyrir veg 537. Þegar mest var var eldveggurinn allt að tveggja metra hár og fór með tuga metra hraða á mínútu.

Fyrri mánuðir: SaharaversluninStóra bombaShōgi


skoða - spjall - saga


Apríl
Meyjarhofið á Akrópólíshæð.

Grikkland hið forna vísar til hins grískumælandi heims í fornöld. Það vísar ekki eingöngu til þess landsvæðis sem Grikkland nær yfir í dag, heldur einnig landsvæða þar sem grískumælandi fólk bjó í fornöld: Kýpur og Eyjahafseyja, Jóníu í Litlu Asíu (í dag hluti Tyrklands), Sikileyjar og Suður-Ítalíu (nefnt Stóra Grikkland eða Magna Graecia í fornöld) og til ýmissa grískra nýlendna t.d. í Kolkis (við botn Svartahafs), IllyríuBalkanskaga við strönd Adríahafs), í Þrakíu, Egyptalandi, Kýrenæku (í dag Líbýa), suðurhluta Gallíu (í dag Suður-Frakkland), á austur og norðaustur Íberíuskaga, í Íberíu (í dag Georgíu) og Táris (í dag Krímskaga).

Fyrri mánuðir: MýraeldarSaharaversluninStóra bomba


skoða - spjall - saga


Maí

Byrgið var íslenskt, kristilegt meðferðarheimili fyrir heimilislausa vímuefnaneytendur, spilafíkla og fólk með ýmsar aðrar persónuleikaraskanir. Í mörgum tilvikum var um mjög veika einstaklinga að ræða og því var brugðið á það ráð að einangra þá til þess að auðvelda endurhæfingu þeirra. Byrgið stóð einnig fyrir forvarnarstarfsemi, og ráðgjöf til handa aðstandendum fíkla. Guðmundur Jónsson var forstöðumaður Byrgisins þar til í desember 2006 en þá vék hann sem forstöðumaður tímabundið í kjölfar þess að ásakanir bárust þess efnis að hann hefði misnotað vistmenn. Í framhaldinu var hann kærður af sex mismunandi einstaklingum. Byrginu var lokað í 15. janúar 2007. Ljóst þykir að starfsemin verður endanlega lögð niður.


skoða - spjall - saga


Júní
Stjórnarskrá Íslands.

Stjórnarskrá lýðveldisins Íslands er æðstu lög Íslands, sem öll önnur lög landsins verða að hlíta. Núverandi stjórnarskrá var samþykkt sem lög nr. 33/1944 af Alþingi við lýðveldisstofnunina á Þingvöllum, 17. júní 1944. Stjórnarskráin er í 80 greinum í 7 köflum og í henni er stjórnskipan landsins ákveðin og ýmis grundvallarréttindi borgaranna vernduð.

Með sambandslögunum 1918 varð Ísland fullvalda ríki og árið 1920 fékk landið nýja stjórnarskrá til að endurspegla þær miklu breytingar sem höfðu orðið á stjórnskipun þess. Sú stjórnarskrá var kölluð „Stjórnarskrá konungsríkisins Íslands“. Snemma árs 1944 samþykkti Alþingi að fella niður sambandslögin og samþykkti nýja stjórnarskrá auk þess að boða til þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort tveggja.

Fyrri mánuðir: ByrgiðGrikkland hið fornaMýraeldar


skoða - spjall - saga


Júlí
Maður spilar á tréspil í Malaví.

Malaví er landlukt land í suð-austurhluta Afríku sem liggur á milli Mósambík, Sambíu og Tansaníu. Helsta einkenni Malaví er Malaví-vatn sem þekur tæplega 1/5 hluta landsins, en samtals er flatarmál Malaví 120 þús. ferkílómetrar.

Malaví er eitt af þéttbýlustu löndum í Afríku og búa þar alls 11 milljónir manna. Fólkið lifir helst á landbúnaði og fiskveiðum í Malaví-vatni. Mikil fátækt ríkir í landinu en ríkari lönd keppast við að hjálpa Malavíbúum með því að kenna þeim arðbærari vinnubrögð í landbúnaði og fiskveiðum, ásamt fullorðinsfræðslu.

Þjóðhátíðardagur lýðveldisins er 6. júlí.


skoða - spjall - saga


Ágúst
Georgia Dome, heimavöllur Atlanta Falcons í NFL deildinni

Amerískur fótbolti, þekktur innan Bandaríkjanna og Kanada sem fótbolti (football), er hópíþrótt sem er þekkt fyrir mikla hörku þrátt fyrir að vera þaulskipulögð. Markmið leiksins er að skora sem flest stig með því að koma boltanum að marklínu andstæðingsins. Til þess að koma boltanum áfram má kasta honum, hlaupa með hann eða rétta hann öðrum liðsfélaga. Stig eru skoruð á marga vegu, m.a. með því að koma boltanum yfir marklínuna eða með því að sparka boltanum milli markstanganna. Sigurvegari leiksins er liðið sem skorað hefur flest stig að leik loknum. Stærsta deild í heimi sem spilar amerískan fótbolta er NFL-deildin í Bandaríkjunum.


skoða - spjall - saga


September
Hollenski fáninn.

Hollenska (Nederlands; framburður), einnig nefnd niðurlenska, er lággermanskt tungumál sem talað er af u.þ.b. 24 milljónum manna, aðallega í Hollandi og Belgíu. Þær hollensku mállýskur sem talaðar eru í Belgíu eru stundum kallaðar flæmska, og stundum er talað um þær sem sérstakt tungumál, þó sjaldan af mælendunum sjálfum. Hollenska er stundum í daglegu tali kölluð Hollands í heimalandinu, en þessi orðnotkun fer minnkandi.

Fornt handritsbrot á hollensku segir: „Hebban olla vogala nestas hagunnan, hinase hic enda tu, wat unbidan we nu“ („Allir fuglar hafa hafist handa við að byggja hreiður, nema ég og þú, eftir hverju bíðum við nú“). Handritið var skrifað um 1100 af flæmskum munki í nunnuklaustri í Rochester á Englandi.
skoða - spjall - saga


Október
Tófa í vetrarbúningi.

Heimskautarefur eða fjallarefur (fræðiheiti: Alopex lagopus), einnig nefndur tófa eða refur á íslensku, er tegund refa af ættkvísl heimskautarefa (Alopex) sem tilheyrir hundaætt (Canidae). Heimskautarefurinn er eina tegundin í ættkvísl heimskautarefa. Hann er eina landspendýrið sem hefur borist til Íslands án aðstoðar manna. Dýrafræðingar hafa greint ellefu undirtegundir heimskautarefsins en ekki eru allir fræðimenn sammála um þær greiningar. Tófur má finna um allar Norðurslóðir. Tegundin er í útrýmingarhættu í Noregi, Svíþjóð og Finnlandi og á eyjum við austurhluta Síberíu.

Fyrri mánuðir: HollenskaAmerískur fótboltiMalaví


skoða - spjall - saga


Nóvember
Gervihnattamynd af Ítalíu.

Ítalía er land í Suður-Evrópu. Landið er aðallega staðsett á Appenínaskaga sem gengur til suðausturs út í Miðjarðarhafið og minnir í lögun dálítið á fótlegg. Að norðan nær landið allt upp í Alpafjöll. Lönd sem liggja að Ítalíu eru Frakkland, Sviss, Austurríki og Slóvenía.

Rómarborg er höfuðborgin og stærsta borgin. Hún er ein af söguríkustu og merkustu borgum Evrópu og er stundum kölluð „borgin eilífa“. Gjaldmiðillinn er evra síðan 1999, en var áður líra. Íbúafjöldinn er um 58 milljónir manna og stærð landsins er þreföld miðað við Ísland.


skoða - spjall - saga


Desember
Hadda Padda var tekin á Íslandi 1923.

Kvikmyndagerð á Íslandi einkenndist lengi vel (og jafnvel enn) af frumkvöðlastarfsemi og gerð ódýrra kvikmynda. Vísir að sjálfstæðum kvikmyndaiðnaði fór ekki að myndast fyrr en undir lok 20. aldar en fram að því var kvikmyndagerð nátengd annarri starfsemi, svo sem ljósmyndun, íslensku leikhúsunum og Ríkissjónvarpinu eftir að það tók til starfa árið 1966. Aðsókn að kvikmyndahúsum hefur verið tiltölulega mikil en fjöldi áhorfenda takmarkaður miðað við þann kostnað sem felst í kvikmyndagerð.

Gjarnan er talað um að stofnun Kvikmyndasjóðs 1978 marki upphaf samfelldrar kvikmyndagerðar á Íslandi og er þannig talað um fyrstu kvikmyndina sem kom út og gerð var með styrk úr sjóðnum, Land og syni, sem fyrstu „alvöru“ íslensku kvikmyndina.


skoða - spjall - saga


Greinar mánaðarins:

2005 · 2006 · 2007 · 2008 · 2009 · 2010 · 2011 · 2012 · 2013 · 2014 · 2015 · 2016 · 2017 · 2018 · 2019 · 2020 · 2021 · 2022 · 2023 · 2024