Wikipedia:Grein mánaðarins/2011
2005 · 2006 · 2007 · 2008 · 2009 · 2010 · 2011 · 2012 · 2013 · 2014 · 2015 · 2016 · 2017 · 2018 · 2019 · 2020 · 2021 · 2022 · 2023 · 2024
- Janúar
Rúnir eru fornt stafróf sem notað var í mörgum germönskum málum frá 2. öld þar til þær smám saman viku fyrir latnesku letri. Rúnir voru fyrst og fremst höggnar í stein eða ristar í tré. Elstu rúnir sem fundist hafa eru frá seinni hluta 2. aldar og voru þær algengar næstu þúsund árin um norðanverða Evrópu, einkum á Norðurlöndum. Með útbreiðslu kristni fylgdi latneska stafrófið inn í þjóðfélög germana og notkun rúnaletursins stórminnkaði allt frá 12. öld. Þó var það talsvert notað á Norðurlöndum allt fram á 14. öld og voru rúnir í notkun (einkum til skrauts) á einstaka stað allt fram um lok 19. aldar. Flestar rúnir hafa fundist í Suður-Skandinavíu, á Jótlandi, Sjálandi, Fjóni og á Skáni og bendir það til þess að rúnir séu upprunnar þaðan.
- Febrúar
Kjördæmi Íslands til Alþingiskosninga eru sex talsins. Kördæmin eru: Reykjavíkurkjördæmi norður (11), Reykjavíkurkjördæmi suður (11), Norðvesturkjördæmi (9), Norðausturkjördæmi (10), Suðurkjördæmi (10) og Suðvesturkjördæmi (12). Um kjördæmaskipan á Íslandi er mælt fyrir í 31. grein stjórnarskrárinnar og í lögum um kosningar til Alþingis. Reglulega hafa komið upp umræður um breytingar á kjördæmaskipaninni, núverandi skipan var komið á með stjórnarskrárbreytingu árið 1999. Umtalsvert misræmi í atkvæðavægi er á milli kjósenda mismunandi kjördæma þó svo að reynt sé að lágmarka það meðal annars með uppbótarþingsætum. Það hefur einnig verið lagt til að Ísland verði eitt kjördæmi.
- Mars
Menntaskólinn Hraðbraut eða einfaldlega Hraðbraut var íslenskur framhaldsskóli sem var starfandi frá 2003–2012.[1] Nafn skólans hlýst af því að þar var hægt að ljúka stúdentsprófi á tveimur skólaárum í stað fjögurra, en aldrei fyrr hafði opinberlega verið boðið upp á tveggja ára framhaldsskólanámi á Íslandi. Á þessum tveimur skólaárum skiptist námið upp í 15 lotur, þar af 7 lotur fyrra skólaárið og 8 lotur hið síðara, þar sem hver lota er 6 vikur (nema síðasta lotan sem er aðeins 2 vikur). Nemendur gátu valið um náttúrufræðibraut og málabraut, en báðar brautirnar lögðu umtalsverða áherslu á raunvísindi; svo sem stærðfræði og líffræði og var auk þess lögð sterk áhersla á enskukennslu. Lesa meira...
- Apríl
Alþingi er löggjafarþing Íslands sem upphaflega var stofnað árið 930 á Þingvöllum þar sem það kom saman árlega fram til ársins 1799. Alþingi var endurreist í núverandi mynd í Reykjavík árið 1844. Á þinginu sitja fulltrúar þjóðarinnar, alþingismenn, sem eru kjörnir af henni í beinni og leynilegri kosningu. Alþingi er æðsti handhafi löggjafarvalds á Íslandi og samkvæmt þingræðisreglunni bera ráðherrar ábyrgð gagnvart Alþingi og ríkisstjórnin verður að njóta stuðnings meirihluta þingheims.
Alþingi kemur saman árlega á fyrsta degi októbermánaðar eða næsta virka degi eftir það og stendur til fyrsta dags októbermánaðar árið eftir ef kjörtímabilinu lýkur ekki í millitíðinni eða þing er rofið, kjörtímabilið er 4 ár. Kosningarétt til Alþingis hafa allir íslenskir ríkisborgarar sem hafa náð 18 ára aldri. Allir þeir sem hafa kosningarétt til þingsins og óflekkað mannorð eru kjörgengir til Alþingis. Þingið starfar í einni deild ólíkt löggjafarþingum margra annarra ríkja.
- Maí
System of a Down (oft nefnd SOAD eða System) er bandarísk rokkhljómsveit stofnuð í Los Angeles árið 1995. Allir meðlimirnir fjórir, Serj Tankian, Daron Malakian, Shavo Odadjian og John Dolmayan, eru af armenskum uppruna og eru þekktir fyrir það að láta í ljós stjórnmálaskoðanir sínar með lagasmíðum. Þekktustu lög fjórmenningana eru „Chop Suey“, „Toxicity“, „Aerials“, „B.Y.O.B. (Bring Your Own Bombs)“, „Question!“, „Lonely Day“, „Sugar“ og „Hypnotize“.
Þegar Soil, hljómsveit Tankian og Malakian flosnaði upp, tóku þeir sig saman og bjuggu til nýja hljómsveit. Þeir báðu Odadjian, sem þá var í annarri hljómsveit, um að vera með hljómsveitinni og hann vann fyrst í stað sem umboðsmaður hljómsveitarinnar. Hann fékk þó fljótlega hlutverk bassaleikara í nýju hljómsveitinni, System of a Down. Ein af fyrstu útgáfum sveitarinnar var lagið „Sugar“ sem er spilað á hverjum tónleikum sveitarinnar. Andy Khachaturian kom inn í hljómsveitina sem trommuleikari og með honum hljóðritaði sveitin nokkrar prufuplötur.
- Júní
Katsushika Hokusai, 葛飾北斎 á japönsku (1760 í Jedó í Japan – 1849), var japanskur myndlistarmaður frá Jedótímabilinu, fæddur í Jedó (sem nú heitir Tókýó). Hann gerði skissubók í 15 bindum sem heitir Hokusai manga (frá 1814) og trégrafík, eða tréprent, sem heitir 36 sjónarhorn á Fuji (frá ca. 1823–1829), sem m.a. inniheldur verkið Stóru ölduna við Kanagawa. Hann er talinn vera einn af bestu Ukiyo-e listamönnunum. En ukiyo-e þýðir „myndir af fljótandi veröld“ (daglegt líf). Hokusai er einnig þekktur fyrir erótísku prentin sín í shunga-stíl. Fukujusō-myndaröð hans, sem er 12 mynda röð þar sem hold og ástríða er áberandi, er talin vera ein af þremur bestu shunga-verkunum. List hans hafði mikilvæg áhrif á marga impressjónista eins og Claude Monet.
- Júlí
Keila (fræðiheiti: Brosme brosme) er nytjafiskur af vatnaflekkaætt, sem er ný ætt, en tilheyrði áður þorskaætt. Hún lifir í Norður-Atlantshafi bæði austan og vestan megin við Ísland. Keilan er löng, með sívalan bol, einn bakugga eftir endilöngu bakinu og einn langan raufarugga, sem báðir eru með einkennandi dökkri rönd yst og hvítum jaðri, auk eyrugga og kviðugga. Sporðurinn er lítill og hringlaga. Hún er með skeggþráð á neðri vör sem skagar eilítið fram fyrir þá efri og rönd eftir bolnum endilöngum. Roðið er þykkt og hreistrið smátt. Hún er móleit á lit sem fer frá rauðbrúnu og yfir í gulbrúnan eftir umhverfi. Yngri fiskar eru með sex ljósar þverrákir á síðunni.
- Ágúst
Flórens (ítalska: Firenze) (hefur einnig verið nefnd Fagurborg á íslensku) er sögufræg borg á Ítalíu og höfuðstaður Toskanahéraðs, auk þess að vera höfuðstaður samnefndrar sýslu. Á endurreisnartímanum var borgin borgríki og síðar höfuðborg hertogadæmisins Toskana. Hún er fræg fyrir að hafa alið marga helstu snillinga endurreisnarinnar á sviði vísinda, heimspeki og lista, svo sem Leonardo da Vinci, Galileo Galilei, Michelangelo Buonarroti og Niccolò Machiavelli.
Borgin liggur á hásléttu rétt sunnan við Appenínafjöllin, við Arnófljót í frjósömum dal þar sem áður var mýri. Íbúafjöldi borgarinnar er um 350.000 og atvinnulíf byggir fyrst og fremst á verslun, framleiðsluiðnaði og ferðaþjónustu. Fótboltalið borgarinnar heitir Fiorentina og heimavöllur þess er íþróttavöllur borgarinnar, Campo di Marte. Í borginni er alþjóðaflugvöllur (IATA: FLR), almennt kallaður Peretola eftir hverfinu þar sem hann er, en formlega kenndur við landkönnuðinn Amerigo Vespucci.
- September
Stríð Íraks og Írans (einnig kallað Fyrsta Persaflóastríðið) var stríð háð á milli Írans og Íraks sem stóð frá 22. september 1980 til 10. ágúst 1988. Deilt er um upphaf og ástæður stríðsins, en í grundvallaratriðum var barist um áhrif á Persaflóasvæðinu. Valdamenn í báðum löndum vonuðust til að draga úr þrótti andstæðingsins og auka þannig eigin völd bæði heima og á alþjóðavettvangi. Stríðið hófst með innrás Íraka. Þeir sóttu hratt inn í Íran til að byrja með en hægðu svo á og hörfuðu aftur inn í Írak og vörðust. Seinna á lokamánuðum stríðsins hófu þeir svo aftur sókn inn í Íran. Stríðið kallaði miklar hörmungar yfir báðar þjóðirnar, tafði efnahagsþróun, truflaði olíuútflutning og kostaði um eina milljón mannslífa að því að talið er.
- Október
Ríki er yfirflokkur vísindalegra flokka sem notaðir eru til að flokka lífverur. Ríki eru sums staðar notuð sem yfirflokkur fyrir annað en lífverur vegna hliðstæðu milli flokkunarkerfa. Sem dæmi má nefna veiruríkið (veirur eru ekki lífverur en flokkaðar á svipaðan hátt) og steinaríkið. Ríkin eru efsti (eða næstefsti) flokkurinn í flokkunarfræðinni.
Í bók sinni Systema naturae sem kom út árið 1735 gerði Carl von Linné greinarmun á tveimur ríkjum lifandi vera, dýraríkinu og jurtaríkinu. Hann fjallaði raunar líka um steindir og setti þær í sérstakt steinaríki (Mineralia). Linné skipti hverju ríki í flokka sem síðar urðu að fylkingum hjá dýrum og skiptingum hjá jurtum.
- Nóvember
Færeyjar eru klasi 18 eyja í Atlantshafinu á milli Skotlands og Íslands. Þær eru allar í byggð nema ein, en mjög fámennt er á sumum þeirra. Nafnið þýðir fjáreyjar og eru þær kenndar við sauðfé. Þær byggðust á svipuðum tíma og Ísland og með sama hætti, þar eð norskir víkingar og sæfarar settust þar að, auk fólks frá Skotlandi og Írlandi, sem margt var af norrænum stofni.
Höfuðstaður Færeyja er Þórshöfn á Straumey en í sveitarfélaginu eru alls um 20 þúsund íbúar. Heildaríbúafjöldi eyjanna er um 48.500 (árið 2011). Færeyjar tilheyra Danmörku og njóta umtalsverðra fjárstyrkja þaðan en Færeyingar hafa haft sjálfstjórn frá 1948. Æðsti maður færeysku stjórnarinnar er titlaður lögmaður. Þjóðþing Færeyinga er kallað Lögtingið og er með aðsetur í Þórshöfn en þar sitja 33 þingmenn. Færeyingar eiga jafnframt 2 kjörna fulltrúa á Folketinget, þjóðþingi Dana.
- Desember
Platon (forngríska: Πλάτων (umritað Plátōn)) (um 427 f.Kr. – 347 f.Kr.) var forngrískur heimspekingur og einn áhrifamesti hugsuður sögunnar. Hann var nemandi Sókratesar og kennari Aristótelesar, rithöfundur og stofnandi Akademíunnar í Aþenu. Í löndum þar sem töluð er arabíska, tyrkneska, írönsk mál, eða úrdu mál er hann nefndur Eflatun, sem þýðir uppspretta vatns og, í yfirfærðri merkingu, þekkingar.
Platon var sonur aþensku hjónanna Aristons og Periktíone (eða Potone). Fornar heimildir herma að raunverulegt nafn Platons hafi verið Aristókles en hann hafi fengið gælunafnið Platon í glímuskóla Aristons glímukappa frá Argos af því að hann var svo þrekvaxinn. Fræðimenn greinir á um hvort sagan sé sönn.
2005 · 2006 · 2007 · 2008 · 2009 · 2010 · 2011 · 2012 · 2013 · 2014 · 2015 · 2016 · 2017 · 2018 · 2019 · 2020 · 2021 · 2022 · 2023 · 2024
- ↑ „Menntaskólinn Hraðbraut hættir rekstri“. Morgunblaðið. 13. ágúst 2014.