Wikipedia:Grein mánaðarins/2021

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Jump to navigation Jump to search
Greinar mánaðarins: 20052006200720082009201020112012201320142015201620172018201920202021
Janúar
Gamla bogabrúin á Fnjóská og Vaglaskógur.jpg

Vaglaskógur er skógur í Fnjóskadal, Suður-Þingeyjarsýslu, einn stærsti skógur landsins. Skógurinn er þjóðskógur í umsjón Skógræktarinnar. Vaglaskógur meðal fjölsóttustu skóga á Íslandi. Stærð skóglendisins er um 4,5 ferkílómetrar. Þúsundir ferðamanna koma í skóginn á hverju ári til að njóta þar dvalar og útiveru, enda er Vaglaskógur tilvalinn til útivistar að sumri sem vetri. Í Vaglaskógi eru fjölbreyttar gönguleiðir, alls um 12,2 km að lengd. Þær eru merktar og fáanlegt er gönguleiðakort af skóginum. Í Vaglaskógi hafa lengi verið rekin tjaldsvæði og kjósa margir að dvelja þar með tjöld sín og ferðavagna yfir sumarið. Norðan við hann er Hálsskógur sem eyddist upp á fyrri öldum vegna beitar og skógarhöggs. Skógurinn komst í eigu Skógræktarinnar þegar stofnunin var sett á fót árið 1908 en nokkru áður hafði íslenska ríkið keypt jörðina Vagli og þar með skóginn. Á Vöglum er starfstöð skógarvarðarins á Norðurlandi og þar rekur Skógræktin fræræktarhús, frægeymslu og fræsölu. Einnig eru stundaðar þar rannsóknir, einkum kynbætur á nytjatrjátegundum.

Fyrri mánuðir: Rússlandsherför NapóleonsKatrín af MediciThe ChicksPol Pot


skoða - spjall - saga


Febrúar
Federal Reserve.jpg

Seðlabanki Bandaríkjanna (e. the Federal Reserve System) var stofnaður 23. desember 1913 í viðleitni til að koma á stöðugleika í bandaríska bankakerfinu og gjaldmiðilsmálum. Áður höfðu ítrekaðar tilraunir verið gerðar til að koma á fót seðlabanka til að auka stöðugleika en þær runnu út í sandinn, einkum vegna hræðslu við miðstýringu seðlabankans. Að lokum varð það svo að komið var til móts við báðar fylkingar með stofnun ómiðstýrðs seðlabanka þegar þáverand forseti Woodrow Wilson skrifaði undir Federal Reserve Act.

Stjórn seðlabankans skiptist á milli alríkisnefndar (e. federal government agency), bankastjórnar (e. board of governors) og tólf svæðisbundinna seðlabanka. Hugmyndin að baki stjórnskipulaginu endurspeglaði hræðslu manna við miðstýrðan seðlabanka. Stjórn bankans er með höfuðstöðvar í Washington D.C. og gegnir meðal annars því hlutverki að stýra aðgerðum í peningamálastefnu þjóðarinnar. Stjórnin hefur vökult auga með skilyrðum á fjármálamörkuðum með greiningu á innlenda og alþjóðlega hagkerfinu. Þá leiðir það ýmsar nefndir í rannsóknum á málefnum tengdum fjármálakerfinu t.d. rafrænum viðskiptum. Eftirlit með fjármálaþjónustukerfi, reglugerðum er varða neytendavernd auk eftirlits með greiðslukerfi þjóðarinnar fellur stjórninni einnig í skaut. Stjórnin hefur eftirlit með starfsemi seðlabankanna tólf, hún m.a. sér um að samþykkja sitjandi stjórn bankanna, ákveður bindiskyldu og samþykkir forvexti.

Meðlimir bankastjórnarinnar eru sjö talsins og tilnefndir af forseta til 14 ára setu, en öldungadeild þingsins verður að samþykkja tilnefningarnar til að þær taki gildi. Lengd setutímabils stjórnarmeðlima endurspeglar viljann til að tryggja stöðugleika í stjórn seðlabankans. Formaður og varaformaður bankans eru tilnefndir til fjögurra ára í senn, en hægt er að tilnefna þá aftur að þeim tíma loknum.

Fyrri mánuðir: VaglaskógurRússlandsherför NapóleonsKatrín af MediciThe Chicks


skoða - spjall - saga


Mars
Portrett av Vidkun Quisling i sivile klær, ukjent datering.jpg

Vidkun Quisling (18. júlí 188724. október 1945) var norskur stjórnmálamaður, herforingi og diplómati. Hann starfaði ásamt Fridtjof Nansen á árunum 1921 til 1922 við að skipuleggja hjálpastarf gegn hungursneyð í Sovétríkjunum og var varnarmálaráðherra í ríkisstjórn Bændaflokksins (Bondepartiet) 1931 - 1933. Árið 1933 sagði hann skilið við ríkisstjórnina og tók þátt í stofnun þjóðernissinnaflokksins Nasjonal Samling (Þjóðleg samstaða), en stefna flokksins einkenndist af ákafri þjóðernishyggju og andstöðu við kommúnisma og verkalýðshreyfingu. Flokkurinn fékk sáralítið fylgi í þingkosningum, 2,23 % í kosningunum 1933 og 1.83 % í kosningunum 1936. Í september 1939, þegar seinni heimsstyjöldin hafði skollið á, sótti Quisling Hitler heim, tókst Quisling þá að beina athygli Hitlers að Norðurlöndum. Þjóðverjar gerðu innrás í Noreg 9. apríl 1940 og sama kvöld lýsti Quisling því yfir að stjórnin væri fallin og hann væri hinn nýi forsætisráðherra. Quisling sat þó einungis skamma stund að völdum í þetta sinn. Þjóðverjar gerðu hins vegar Quisling að forsætisráðherra í leppstjórn sinni 1942 og hélt hann því embæti til stríðsloka 1945. Hann var ákærður og dæmdur til dauða fyrir landráð og ýmsa aðra stríðsglæpi eftir stríð. Hann var tekinn af lífi 24. október 1945.

Á fjölmörgum tungumálum hefur nafn Quislings orðið að samheiti fyrir föðurlandssvikara. Á íslensku er orðið iðulega skrifað kvislingur sem merkir, samkvæmt Íslenskri orðabók, „landráðamaður, sá sem svíkur land sitt í hendur óvinahers”.


Fyrri mánuðir: Seðlabanki BandaríkjannaVaglaskógurRússlandsherför NapóleonsKatrín af Medici


skoða - spjall - saga


Apríl
Charleroi - station Janson - Spirou et Fantasio - 01.jpg

Svalur og Valur (franska: Spirou et Fantasio) er heiti á vinsælum belgískum teiknimyndasögum sem segja frá ævintýrum vinanna og blaðamannanna Svals og Vals. Ýmsir höfundar hafa spreytt sig á sagnaflokknum, en André Franquin er almennt talinn hafa haft mest áhrif á þróun hans. Á árunum 1977 til 1992 komu fjölmargar Svals og Vals-bækur út á íslensku á vegum Bókaútgáfunnar Iðunnar. Íslensk útgáfa Svals og Vals hófst á ný árið 2013 á vegum Frosks útgáfu.

Upphafið má rekja til ársins 1938, þegar Dupuis-forlagið hóf útgáfu teiknimyndablaðsins Svals (Spirou). Í því birtust sögur ýmissa höfunda, en titlpersónan var Svalur sem var hugarsmíð franska teiknarans Robert Velter eða Rob-Vel, eins og hann kallaði sig. Svalur var táningspiltur sem starfaði sem lyftuvörður á hóteli og komst oft í hann krappann ásamt gæluíkornanum sínum, Pésa.

Árið 1943 keypti Dupuis-forlagið höfundaréttinn að persónunni af Rob-Vel, sem þá hafði raunar ekki getað sinnt sögunum um hríð vegna þátttöku sinnar í seinni heimsstyrjöldinni. Belginn Joseph Gillain eða Jijé tók við pennanum. Hann kynnti til sögunnar spjátrunginn Val. Saman lentu þeir félagarnir í ýmsum ævintýrum. Sögurnar voru þó stuttar og gengu fyrst og fremst út á ærslakenndan húmor.

Árið 1946 var ungum Belga, André Franquin, falin umsjón með ævintýrum Svals og Vals. Í hans meðförum urðu miklar breytingar á sögunum. Söguþráðurinn varð flóknari, ævintýrin lengdust til muna og var farið að gefa þau út á bókarformi eftir að þau höfðu birst sem framhaldssögur í Svals-blaðinu. Árið 1948 kom fyrsta slíka bókin á markað og hafði hún að geyma fjórar sögur. Önnur fylgdi í kjölfarið árið 1950, Quatre aventures de Spirou et Fantasio og er hefð fyrir að telja hana fyrstu Svals og Vals-bókina. Síðar hafa komið út söfn með eldri sögum eftir Rob-Vel, Jijé og Franquin, teljast þau ekki hluti af hinum eiginlega bókaflokki frekar en bókin frá 1948.

Fyrri mánuðir: Vidkun QuislingSeðlabanki BandaríkjannaVaglaskógurRússlandsherför NapóleonsKatrín af Medici


skoða - spjall - saga


Maí
TRUMAN 58-766-06 (cropped).jpg

Harry S. Truman (8. maí 1884 – 26. desember 1972) var 33. forseti Bandaríkjanna og gegndi embætti frá 1945 til 1953. Truman tók við af Franklin D. Roosevelt eftir andlát hans. Truman tók við stjórnartaumunum á mjög viðkvæmum tímapunkti, undir lok síðari heimsstyrjaldarinnar. Hann er þekktur fyrir að koma Marshalláætluninni af stað til þess að endurbyggja efnahag Vestur-Evrópu. Efnahagur Bandaríkjanna var sá öflugasti í heimi en efnahagir annarra heimsvelda voru í lamasessi eftir hildarleik stríðsátaka. Truman varð kunnur fyrir Truman-kennisetninguna í utanríkisstefnu Bandaríkjanna, sem hann setti fyrst fram í ræðu 12. mars 1947 en hún mælti fyrir um að Bandaríkin myndu beita sér fyrir því að takmarka útbreiðslu kommúnisma með ráðum og dáðum. Þessi tímapunktur er af sumum talinn marka upphaf kalda stríðsins. Í samræmi við kennisetninguna samþykkti Bandaríkjaþing að styrkja Grikkland og Tyrkland bæði efnahagslega og með hergögnum í þeirri von að kommúnistar kæmust ekki til valda. Þeim varð að ósk sinni þar eð bæði Grikkir og Tyrkir gerðust aðilar að Norður-Atlantshafsbandalaginu (NATO) árið 1952. NATO var einmitt stofnað í apríl 1949 og voru Bandaríkin og Ísland á meðal stofnaðila.

Fyrri mánuðir: Svalur og ValurVidkun QuislingSeðlabanki BandaríkjannaVaglaskógurRússlandsherför Napóleons


skoða - spjall - saga


Júní

Wikipedia:Grein mánaðarins/06, 2021
skoða - spjall - saga


Júlí

Wikipedia:Grein mánaðarins/07, 2021
skoða - spjall - saga


Ágúst

Wikipedia:Grein mánaðarins/08, 2021
skoða - spjall - saga


September

Wikipedia:Grein mánaðarins/09, 2021
skoða - spjall - saga


Október

Wikipedia:Grein mánaðarins/10, 2021
skoða - spjall - saga


Nóvember

Wikipedia:Grein mánaðarins/11, 2021
skoða - spjall - saga


Desember

Wikipedia:Grein mánaðarins/12, 2021
skoða - spjall - saga


Greinar mánaðarins: 20052006200720082009201020112012201320142015201620172018201920202021