Fara í innihald

Wikipedia:Grein mánaðarins/2021

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Greinar mánaðarins:

2005 · 2006 · 2007 · 2008 · 2009 · 2010 · 2011 · 2012 · 2013 · 2014 · 2015 · 2016 · 2017 · 2018 · 2019 · 2020 · 2021 · 2022 · 2023 · 2024

Janúar

Vaglaskógur er skógur í Fnjóskadal, Suður-Þingeyjarsýslu, einn stærsti skógur landsins. Skógurinn er þjóðskógur í umsjón Skógræktarinnar. Vaglaskógur meðal fjölsóttustu skóga á Íslandi. Stærð skóglendisins er um 4,5 ferkílómetrar. Þúsundir ferðamanna koma í skóginn á hverju ári til að njóta þar dvalar og útiveru, enda er Vaglaskógur tilvalinn til útivistar að sumri sem vetri. Í Vaglaskógi eru fjölbreyttar gönguleiðir, alls um 12,2 km að lengd. Þær eru merktar og fáanlegt er gönguleiðakort af skóginum. Í Vaglaskógi hafa lengi verið rekin tjaldsvæði og kjósa margir að dvelja þar með tjöld sín og ferðavagna yfir sumarið. Norðan við hann er Hálsskógur sem eyddist upp á fyrri öldum vegna beitar og skógarhöggs. Skógurinn komst í eigu Skógræktarinnar þegar stofnunin var sett á fót árið 1908 en nokkru áður hafði íslenska ríkið keypt jörðina Vagli og þar með skóginn. Á Vöglum er starfstöð skógarvarðarins á Norðurlandi og þar rekur Skógræktin fræræktarhús, frægeymslu og fræsölu. Einnig eru stundaðar þar rannsóknir, einkum kynbætur á nytjatrjátegundum.


skoða - spjall - saga


Febrúar

Seðlabanki Bandaríkjanna (e. the Federal Reserve System) var stofnaður 23. desember 1913 í viðleitni til að koma á stöðugleika í bandaríska bankakerfinu og gjaldmiðilsmálum. Áður höfðu ítrekaðar tilraunir verið gerðar til að koma á fót seðlabanka til að auka stöðugleika en þær runnu út í sandinn, einkum vegna hræðslu við miðstýringu seðlabankans. Að lokum varð það svo að komið var til móts við báðar fylkingar með stofnun ómiðstýrðs seðlabanka þegar þáverand forseti Woodrow Wilson skrifaði undir Federal Reserve Act.

Stjórn seðlabankans skiptist á milli alríkisnefndar (e. federal government agency), bankastjórnar (e. board of governors) og tólf svæðisbundinna seðlabanka. Hugmyndin að baki stjórnskipulaginu endurspeglaði hræðslu manna við miðstýrðan seðlabanka. Stjórn bankans er með höfuðstöðvar í Washington D.C. og gegnir meðal annars því hlutverki að stýra aðgerðum í peningamálastefnu þjóðarinnar. Stjórnin hefur vökult auga með skilyrðum á fjármálamörkuðum með greiningu á innlenda og alþjóðlega hagkerfinu. Þá leiðir það ýmsar nefndir í rannsóknum á málefnum tengdum fjármálakerfinu t.d. rafrænum viðskiptum. Eftirlit með fjármálaþjónustukerfi, reglugerðum er varða neytendavernd auk eftirlits með greiðslukerfi þjóðarinnar fellur stjórninni einnig í skaut. Stjórnin hefur eftirlit með starfsemi seðlabankanna tólf, hún m.a. sér um að samþykkja sitjandi stjórn bankanna, ákveður bindiskyldu og samþykkir forvexti.

Meðlimir bankastjórnarinnar eru sjö talsins og tilnefndir af forseta til 14 ára setu, en öldungadeild þingsins verður að samþykkja tilnefningarnar til að þær taki gildi. Lengd setutímabils stjórnarmeðlima endurspeglar viljann til að tryggja stöðugleika í stjórn seðlabankans. Formaður og varaformaður bankans eru tilnefndir til fjögurra ára í senn, en hægt er að tilnefna þá aftur að þeim tíma loknum.


skoða - spjall - saga


Mars

Vidkun Quisling (18. júlí 188724. október 1945) var norskur stjórnmálamaður, herforingi og diplómati. Hann starfaði ásamt Fridtjof Nansen á árunum 1921 til 1922 við að skipuleggja hjálpastarf gegn hungursneyð í Sovétríkjunum og var varnarmálaráðherra í ríkisstjórn Bændaflokksins (Bondepartiet) 1931 - 1933. Árið 1933 sagði hann skilið við ríkisstjórnina og tók þátt í stofnun þjóðernissinnaflokksins Nasjonal Samling (Þjóðleg samstaða), en stefna flokksins einkenndist af ákafri þjóðernishyggju og andstöðu við kommúnisma og verkalýðshreyfingu. Flokkurinn fékk sáralítið fylgi í þingkosningum, 2,23 % í kosningunum 1933 og 1.83 % í kosningunum 1936. Í september 1939, þegar seinni heimsstyjöldin hafði skollið á, sótti Quisling Hitler heim, tókst Quisling þá að beina athygli Hitlers að Norðurlöndum. Þjóðverjar gerðu innrás í Noreg 9. apríl 1940 og sama kvöld lýsti Quisling því yfir að stjórnin væri fallin og hann væri hinn nýi forsætisráðherra. Quisling sat þó einungis skamma stund að völdum í þetta sinn. Þjóðverjar gerðu hins vegar Quisling að forsætisráðherra í leppstjórn sinni 1942 og hélt hann því embæti til stríðsloka 1945. Hann var ákærður og dæmdur til dauða fyrir landráð og ýmsa aðra stríðsglæpi eftir stríð. Hann var tekinn af lífi 24. október 1945.

Á fjölmörgum tungumálum hefur nafn Quislings orðið að samheiti fyrir föðurlandssvikara. Á íslensku er orðið iðulega skrifað kvislingur sem merkir, samkvæmt Íslenskri orðabók, „landráðamaður, sá sem svíkur land sitt í hendur óvinahers”.skoða - spjall - saga


Apríl

Svalur og Valur (franska: Spirou et Fantasio) er heiti á vinsælum belgískum teiknimyndasögum sem segja frá ævintýrum vinanna og blaðamannanna Svals og Vals. Ýmsir höfundar hafa spreytt sig á sagnaflokknum, en André Franquin er almennt talinn hafa haft mest áhrif á þróun hans. Á árunum 1977 til 1992 komu fjölmargar Svals og Vals-bækur út á íslensku á vegum Bókaútgáfunnar Iðunnar. Íslensk útgáfa Svals og Vals hófst á ný árið 2013 á vegum Frosks útgáfu.

Upphafið má rekja til ársins 1938, þegar Dupuis-forlagið hóf útgáfu teiknimyndablaðsins Svals (Spirou). Í því birtust sögur ýmissa höfunda, en titlpersónan var Svalur sem var hugarsmíð franska teiknarans Robert Velter eða Rob-Vel, eins og hann kallaði sig. Svalur var táningspiltur sem starfaði sem lyftuvörður á hóteli og komst oft í hann krappann ásamt gæluíkornanum sínum, Pésa.

Árið 1943 keypti Dupuis-forlagið höfundaréttinn að persónunni af Rob-Vel, sem þá hafði raunar ekki getað sinnt sögunum um hríð vegna þátttöku sinnar í seinni heimsstyrjöldinni. Belginn Joseph Gillain eða Jijé tók við pennanum. Hann kynnti til sögunnar spjátrunginn Val. Saman lentu þeir félagarnir í ýmsum ævintýrum. Sögurnar voru þó stuttar og gengu fyrst og fremst út á ærslakenndan húmor.

Árið 1946 var ungum Belga, André Franquin, falin umsjón með ævintýrum Svals og Vals. Í hans meðförum urðu miklar breytingar á sögunum. Söguþráðurinn varð flóknari, ævintýrin lengdust til muna og var farið að gefa þau út á bókarformi eftir að þau höfðu birst sem framhaldssögur í Svals-blaðinu. Árið 1948 kom fyrsta slíka bókin á markað og hafði hún að geyma fjórar sögur. Önnur fylgdi í kjölfarið árið 1950, Quatre aventures de Spirou et Fantasio og er hefð fyrir að telja hana fyrstu Svals og Vals-bókina. Síðar hafa komið út söfn með eldri sögum eftir Rob-Vel, Jijé og Franquin, teljast þau ekki hluti af hinum eiginlega bókaflokki frekar en bókin frá 1948.


skoða - spjall - saga


Maí

Harry S. Truman (8. maí 1884 – 26. desember 1972) var 33. forseti Bandaríkjanna og gegndi embætti frá 1945 til 1953. Truman tók við af Franklin D. Roosevelt eftir andlát hans. Truman tók við stjórnartaumunum á mjög viðkvæmum tímapunkti, undir lok síðari heimsstyrjaldarinnar. Hann er þekktur fyrir að koma Marshalláætluninni af stað til þess að endurbyggja efnahag Vestur-Evrópu. Efnahagur Bandaríkjanna var sá öflugasti í heimi en efnahagir annarra heimsvelda voru í lamasessi eftir hildarleik stríðsátaka. Truman varð kunnur fyrir Truman-kennisetninguna í utanríkisstefnu Bandaríkjanna, sem hann setti fyrst fram í ræðu 12. mars 1947 en hún mælti fyrir um að Bandaríkin myndu beita sér fyrir því að takmarka útbreiðslu kommúnisma með ráðum og dáðum. Þessi tímapunktur er af sumum talinn marka upphaf kalda stríðsins. Í samræmi við kennisetninguna samþykkti Bandaríkjaþing að styrkja Grikkland og Tyrkland bæði efnahagslega og með hergögnum í þeirri von að kommúnistar kæmust ekki til valda. Þeim varð að ósk sinni þar eð bæði Grikkir og Tyrkir gerðust aðilar að Norður-Atlantshafsbandalaginu (NATO) árið 1952. NATO var einmitt stofnað í apríl 1949 og voru Bandaríkin og Ísland á meðal stofnaðila.


skoða - spjall - saga


Júní

Elizabeth Cady Stanton (12. nóvember 181526. október 1902) var bandarísk kvenréttindakona og einn af upphafsmönnum kvenfrelsisbaráttunnar á Vesturlöndum. Ólíkt mörgum öðrum í kvenréttindabaráttu 19. aldarinnar barðist Stanton fyrir meiru en bara kosningarétt kvenna. Stanton hafði einnig áhuga að bæta forræðisrétt kvenna, eignarétt þeirra, vinnurétt og stjórn kvenna á barneignum.

Stanton fæddist í Johnstown, New York þann 12. nóvember 1815. Foreldrar hennar voru Margaret Livingston og Daniel Cady, þingmaður og hæstaréttardómari. Ólíkt mörgum konum á hennar tíma, fékk Stanton klassíska menntun í Johnstown Academy, þar sem hún lærði latínu, grísku og stærðfræði til sextán ára aldurs. Árið 1830 hóf Stanton nám í Troy Female Seminary, kvennaskóla stofnuðum af Emmu Willard.

Árið 1851 hitti Stanton Susan B. Anthony. Þær tvær urðu einn helsti drifkraftur kvenréttindabaráttunnar í Bandaríkjunum. Anthony var einhleyp og hafði tækifæri til að ferðast um Bandaríkin að tala um kvenréttindi, eitthvað sem Stanton var ekki í aðstöðu til að gera á þeim tíma. Stanton var betri rithöfundur og skrifaði margar af ræðum Anthony, en Anthony hélt utan um skipalag þessarar nýju hreyfingar. Smám saman fengu fleiri konur leiðtogahlutverk í hreyfingunni, meðal annars Lucy Stone og Matilda Joslyn Gage.


skoða - spjall - saga


Júlí

Ungverjaland (ungverska: Magyarország) er landlukt ríki í Mið-Evrópu, rétt austan Alpafjalla. Það er rúmlega 93 þús km2 að stærð og voru vesturlandamærin að Austurríki jafnframt hluti járntjaldsins. Landið var fyrsta austurevrópska ríkið til að ganga í NATO í mars 1999. 1. maí 2004 fékk það inngöngu í Evrópusambandið. Íbúar eru 10 milljónir. Höfuðborgin er Búdapest.

Ungverjaland á landamæri að sjö öðrum ríkjum. Fyrir norðan er Slóvakía, fyrir norðaustan Úkraína, fyrir austan Rúmenía, fyrir sunnan Serbía, Króatía og Slóvenía og fyrir vestan Austurríki. Landið er afar láglent og er lægsti punkur þess í aðeins 78 metra hæð yfir sjó, þrátt fyrir mikla fjarlægð til sjávar. Dóná skiptir landinu í tvo hluta, en fljótið rennur frá norðri til suðurs um miðbik landsins. Nær allur austurhluti landsins er á ungversku sléttunni (pússtunni). Vestan við Dóná er hæðótt landslag og þar er nokkurt fjalllendi. Hæsti tindur landsins, Kékes, nær þó ekki nema 1.014 metra hæð. Vestast er Vínarsléttan sem teygir sig yfir landamærin til Austurríkis. Vestarlega í landinu er Balatonvatn, en það er stærsta stöðuvatn Mið-Evrópu.

Ungverjaland heitir Magyarország á ungversku. Heitið er dregið af einum af sjö ættbálkum úgríta, magyara, sem komu upphaflega frá Mið-Asíu. Magyarar sameinuðu ættbálkana á 10. öld og upp frá þeim tíma var heitið notað yfir landið. Á öðrum tungumálum er heitið hins vegar komið úr slavnesku. Slavar kölluðu íbúana onogur, sem merkir tíu ættir. Úr því myndaðist orðið Ungverjar. Ítalir segja Ungheria, en Danir og Þjóðverjar Ungarn. Á latínu bættist auka –h– við orðið, svo úr varð Hungarus. Þannig heitir landið enn Hungary á ensku og Hongrie á frönsku.


skoða - spjall - saga


Ágúst

Fianna Fáil (ísl. Hermenn örlaganna) er hægrisinnaður stjórnmálaflokkur í írska lýðveldinu. Frá stofnun lýðveldisins hafa allar stjórnir ríkisins verið leiddar annaðhvort af Fianna Fáil eða flokknum Fine Gael, sem er einnig hægriflokkur en er talinn frjálslyndari í félagsmálum. Fianna Fáil varð til árið 1926 með klofningi úr írsku sjálfstæðissamtökunum Sinn Féin árið 1926 vegna ósættis með skilmála samningsins sem stofnsetti írska fríríkið. Núverandi leiðtogi flokksins er Micheál Martin.

Fianna Fáil er sem flokkur talinn breiðfylking án sértækrar hugmyndafræði eða stefnumála. Í könnunum, rannsóknum og viðtölum hefur reynst erfitt að benda á áherslumun á milli Fianna Fáil og helsta keppinautar hans, Fine Gael. Margir hafa bent á að munurinn á milli þeirra felist í arfleifð írsku borgarastyrjaldarinnar og í nálgun þeirra á það markmið að ná fram sameiningu Írlands. Kevin Byrne og stjórnmálafræðingurinn Eoin O'Malley hafna þessari skýringu og telja að munurinn á milli flokkanna tveggja eigi sér mun eldri rætur í mismunandi tegundum írskrar þjóðernishyggju (írsku upplýsingarinnar og gelískrar þjóðernishyggju) sem hægt sé að rekja til aðflutninga Engil-Normanna og Englendinga til Írlands annars vegar og gelísku eyjarskeggjanna hins vegar.


skoða - spjall - saga


September

Amharar (amharíska: አማራ, amara, ge'ez: አምሐራ) eru þjóðarbrot í Eþíópíu sem búa aðallega í Amhara-héraði landsins og tala amharísku. Amharar eru um 20 milljónir talsins og eru um 20% Eþíópíumanna. Þeir voru taldir næststærsti þjóðflokkurinn innan landsins í manntali árið 2007 á eftir Orómóum.

Amharaþjóðin hefur sögulega byggt norðurhluta, miðhluta og vesturhluta Eþíópíu. Flestir Amharar eru bændur og raunar eru Amharar taldir meðal fyrstu landbúnaðarþjóða ríkisins. Talið er að þeir hafi hafið landbúnaðarsögu sína með rækt á korni í heimahéruðum sínum, meðal annars á hvingresi og nígerurtarfræum.

Flestir Amharar eru kristnir og eþíópíska rétttrúnaðarkirkjan gegnir mikilvægu hlutverki í menningu þeirra. Samkvæmt manntali ársins 2007 eru 82,5% íbúa Amharahéraðsins meðlimir í eþíópísku rétttrúnaðarkirkjunni; 17,2% eru múslimar (aðallega í Wollo-héraðinu), 0,2% voru mótmælendur og 0,5 gyðingar.


skoða - spjall - saga


Október

Guðrún Ágústa Símonardóttir þekkt sem Guðrún Á. Símonar, var ein þekktasta sópransöngkona Íslands.

Foreldrar Guðrúnar voru Símon Johnsen Þórðarson (1888 – 1934) lögfræðingur, jafnan nefndur „Símon á Hól“ og Steinþóra Ágústa Pálsdóttir (1895 – 1978), kölluð Ágústa. Þau voru bæði gædd tónlistargáfu og söng Ágústa oft á samkomum í Reykjavík og Símon var dáður tenórsöngvari sem tók mikinn þátt í sönglífi bæjarins. Guðrún átti því ekki langt að sækja hæfileikana og eftir hálskirtlatöku á fimmtánda árinu komu sönghæfileikarnir í ljós.

Vorið 1955 stóðu Tónlistarfélagið og Félag íslenskra einsöngvara fyrir uppsetningu á La Bohéme í Þjóðleikhúsinu. Guðrún söng hlutverk berklaveiku stúlkunnar Mimi á tólf sýningum. Óperan vakti mikla hrifningu, fékk afbragðsdóma og var sýningin talin sögulegur viðburður sem hleypti tónlistarunnendum kapp í kinn. Næst söng Guðrún í óperunni Ráðskonuríki eftir Pergolesi sem Ríkisútvarpið stóð að. Síðan var haldið í söngför um Norðurlönd sem tókst vonum framar.

Þrátt fyrir afbragðs dóma og vinsældir erlendis, lét frægðin á sér standa og eftir misheppnað hjónaband flutti Guðrún heim ásamt einkasyninum Ludvig Kára. Hér var í nógu að snúast. Guðrún hélt söngskemmtanir víða um land, kenndi söng og skrifaði um tónlist í dagblöð.


skoða - spjall - saga


Nóvember

James Bond er skáldsagnapersóna úr bókum eftir Ian Fleming. Um hann hafa einnig verið gerðar margar kvikmyndir.

James Bond er myndarlegur breskur njósnari með einkennisnúmerið 007, sem þýðir að hann hefur leyfi til að drepa. Hann ferðast um heiminn og notar gáfur sínar, bardagakunnáttu og hátækni til þess að sigra illmenni sem sækjast eftir heimsyfirráðum. Ian Fleming notaði þó ekki mikil tæki og tól í bókum sínum en þau urðu eitt af helstu einkennum Bonds þegar myndirnar komu út. Önnur helstu einkenni Bonds eru m.a. að hann er hrifinn að vodka-martini („shaken, not stirred”), Walther PPK skammbyssan hans og sá vani hans að kynna sig sem: „Bond, James Bond“.

Ian Fleming, höfundur flestra bókanna, skrifaði margar bækur og smásögur um persónuna frá árunum 1953-1964. En eftir dauða hans árið 1964 voru aðrir rithöfundar sem héldu persónunni gangandi, þ.á m. Kingsley Amis, John Pearson, John Gardner, Raymond Benson og Charlie Higson.


skoða - spjall - saga


Desember

Gilgameskviða er söguljóð frá Mesópótamíu og eitt elsta ritaða bókmenntaverk sem þekkt er. Fræðimenn telja að kviðan eigi rætur sínar að rekja til flokks súmerskra þjóðsagna og kvæða um goðsögnina og hetjukonunginn Gilgames, sem síðar voru sett saman í lengra kvæði á akkadísku. Heillegasta eintakið sem til er í dag er varðveitt á tólf leirtöflum úr bókasafni frá 7. öld f.Kr., í eigu assýríska konungsins Assúrbanípal. Mögulegt er að persónan Gilgames sé byggð á raunverulegum höfðingja á tímabili II. frumkeisaraveldisins á 27. öld f.Kr.

Kviðan fjallar um sambandið á milli konungsins Gilgamess, sem orðinn er spilltur af valdi sínu og snauður að hjartagæsku, og vinar hans, Enkídú, sem er hálfgerður villimaður og fer ásamt Gilgamesi í hættulegan leiðangur. Í kvæðinu er sjónum beint talsvert að hugsunum Gilgamess um missi í kjölfar dauða Enkídús. Þráin eftir ódauðleika leikur einnig stórt hlutverk í kviðunni. Hluti hennar segir frá leiðangri Gilgamess, eftir dauða Enkídús, til þess að öðlast ódauðleika.


skoða - spjall - saga


Greinar mánaðarins:

2005 · 2006 · 2007 · 2008 · 2009 · 2010 · 2011 · 2012 · 2013 · 2014 · 2015 · 2016 · 2017 · 2018 · 2019 · 2020 · 2021 · 2022 · 2023 · 2024