Québec

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Quebec)
Québec
Fáni Québec Skjaldarmerki Québec
(Fáni Québec) (Skjaldarmerki Québec)
Kjörorð: Je me souviens (Ég man)
Kort af Québec
Önnur kanadísk fylki og yfirráðasvæði
Höfuðborg Québecborg
Stærsta borgin Montréal
Fylkisstjóri J. Michel Doyon
Forsætisráðherra François Legault (CAQ)
Svæði 1.542.056 km² (2. Sæti)
 - Land 1.183.128 km²
 - Vatn 176.928 km² (11,5%)
Fólksfjöldi (2016)
 - Fólksfjöldi 8.164.361 (2. Sæti)
 - Þéttleiki byggðar 5,6 /km² (5. Sæti)
Aðild í ríkjabandalagið
 - Dagsetning 1. júlí 1867
 - Röð Fyrst
Tímabelti UTC-5
Skipting á þingi
 - Neðri málstofa 75
 - Öldungadeild 24
Skammstafanir
 - Póstur QC
 - ISO 3166-2 CA-QC
Póstfangsforskeyti G, H, J
Vefur www.gouv.qc.ca
Kort.
Quebec árið 1774.

Québec (borið fram [kebɛk]Alþjóðlega hljóðstafrófið) (íslenskað sem Kvíbekk) er frönskumælandi fylki í Austur-Kanada. Nafn fylkisins kemur úr frumbyggjamálinu algonkínsku og þýðir þar sem áin þrengist.

Landafræði og náttúrufar[breyta | breyta frumkóða]

Kvíbekk er stærst fylkja Kanada að flatarmáli (sjálfstjórnarhéraðið Núnavút er stærra en það er önnur stjórnsýslueining) og það næstfjölmennasta, á eftir Ontaríó. Fylkið á landamæri að Ontaríó í vestri, en Nýfundnalandi og Labrador ásamt Saint Lawrence-flóa í austri. Í suðri á fylkið landamæri að: Nýju-Brúnsvík og bandarísku fylkjunum Maine, New Hampshire, Vermont og New York. Hafsvæði Kvíbekk liggja að Núnavút, Eyju Játvarðar prins og Nýja-Skotlandi.

Mikið er af ferskvatni og stöðuvötnum í fylkinu og eru 12% af yfirborði þess vatn. Mistassini-vatn er stærst af hundruðum þúsunda vatna. Stíflur hafa verið byggðar til raforkuframleiðslu. Árið 1959 var opnaður skipaskurður milli Saint Lawrence-fljóts og Vatnanna miklu sem opnaði leið skipaflutninga frá Atlantshafi.

Kvíbekk er fremur flatlent en í suðri eru Appalasíu-fjöll og Laurentíu-fjöll. Hæsti punkturinn er Mont d'Iberville ( Mount Caubvick á ensku); 1652 metrar. Nokkuð er um fjalllendi nyrðra eins og við Torngat-fjöll. Um 95% landsvæðis fylkisins teljast inni á Kanadaskildinum sem hefur mótast af ísaldarjöklum.

Rífleg úrkoma eða 1,000 mm er yfir árið. Á sumrin getur hiti farið í 35 °C og á veturna niður í −40 °C.

Af tegundum spendýra í fylkinu má nefna elg og önnur hjartardýr, sléttuúlf, heimskautaref, úlf, svartbjörn, ísbjörn og hreindýr. Meðal smærri spendýra eru íkorni, þvottabjörn, múrmeldýr og snjóþrúguhéri.

Fuglategundir eru til að mynda gullörn, förufálki, skallaörn, kanadagæs, súla, lundi og lómur.

Skógar þekja um helming fylkisins en norðurhlutinn er freðmýri. Meðal barrtrjáa eru hvítgreni, svartgreni, balsamþinur, gráfura og mýrarlerki. Hlyntegundir, næfurbjörk, nöturösp og skrautreynir eru meðal lauftrjáa.

Söguágrip[breyta | breyta frumkóða]

Áður en Evrópubúar komu til svæðisins sem nú er Kvíbekk voru fyrir frumbyggjarnir Algonkínar, Írókesar og Inúítar og stunduðu þeir veiðar og landbúnað.

Franski landkönnuðurinn Samuel de Champlain sigldi upp Saint Lawrence-fljót árið 1608 og kaus að kalla svæðið þar sem hann hafðist við Kvíbekk (úr frumbyggjamáli). Frakkar hófu að flytjast á svæðið í stórum stíl og var sambúð þeirra við frumbyggja yfirleitt góð. Frumbyggjar seldu Frökkum dýraskinn og Frakkar seldu þeim nútímavörur þess tíma, föt, byssur og málmhluti. Svæðið var nefnt Nýja-Frakkland og var undir Frakkakonungi árið 1663.

Undir forystu George Washington reyndu Bandaríkjamenn að sölsa undir sig landsvæði um miðja 18. öld en tilraunin misheppnaðist. Síðar, árið 1763 varð svæðið hluti af breska héraðinu Kanada. Það var eftir Sjö ára stríðið þar sem Frakkar lutu í lægra haldi. Árið 1791 var svæðinu skipt í Neðra-(Ontaríó) og Efra-Kanada (Kvíbekk). En árið 1867 urðu þessi svæði að núverandi fylkjunum Kvíbekk og Ontaríó.

Um 6000 manns fráKvíbekki tóku þátt í fyrri heimstyrjöld en það var þó óvinsælt að taka þátt í þeim hernaði. Ríkari þátttaka var í seinni heimstyrjöldinna af hendi Kvíbekk-búa.

Eftir stríð var íhaldsstjórn Maurice Duplessis við völd, með stuðningi kaþólsku kirkjunnar. Pierre Trudeau myndaði bandalag frjálslyndra gegn þeirri stjórn og Þögla byltingin svokallaða kallaði á breytingar. Áhrif kirkjunnar minnkuðu og einnig umsvif enskumælandi viðskiptamanna. Árið 1963 hóf hreyfingin Front de libération du Québec (FLQ) áróðurs- og hryðjuverkastarfsemi sem beindist að enskumælandi stofnunum. Árið 1977 komst flokkurinn Parti Québécois til valda og hann lýsti frönsku sem eina opinbera tungumálið í fylkinu. Árin 1980 og 1995 hélt flokkurinn þjóðaratkvæðagreiðslu um sjálfstæði Kvíbekk. Því var hafnað en í seinna skiptið munaði litlu (50,6 sögðu nei en 49,4% já).

Samfélag[breyta | breyta frumkóða]

Höfuðborgin er Québecborg (einfaldlega kölluð „Québec“ á frönsku) og stærsta borgin er Montréal. Um 8,2 milljónir búa í fylkinu (2016). Það er um 24% af íbúafjölda Kanada. Aðrar stærri borgir eru Gatineau, Sherbrooke, Saguenay og Trois Rivieres. Flestir íbúarnir búa á svæði nálægt Saint Lawrence-fljóti milli borganna Montreal og Quebec. Norður-Quebec er strjálbýlt og aðallega byggt frumbyggjum.

Aðaltungumál Kvíbekks og eina opinbera tungumálið er franska og í fylkinu býr meginhluti frönskumælandi íbúa Norður-Ameríku. Kvíbekk er eina fylkið þar sem enska er ekki opinbert tungumál, og eitt aðeins þriggja fylkja þar sem franska er opinbert tungumál (hin tvö eru Nýja Brúnsvík og Manitóba).

Þjónustugeirinn er mikilvægastur í atvinnulífinu eins og í öðrum þróuðum löndum. Þekkingargeirinn er meðal þeirra leiðandi í heiminum, t.d. innan líftækni, flugvélasmíði og lyfjaframleiðslu. Náttúruauðlindir eru einnig mikilvægar efnahagslega, náma- og pappírsvinnsla, landbúnaður, matvælavinnsla og fiskveiðar. Kvíbekk er fjórði stærsti raforkuframleiðandi í heimi, á eftir Kína, Brasilíu og Bandaríkjunum.

Flestir íbúanna líta á sig sem kanadíska (60%) og þar á eftir franska (29%). Tölur frá 2001 sýna að um 90% íbúa líta á sig sem kristna, þar af eru 83% kaþólskir. 78% hafa frönsku að móðurmáli en 94% geta talað tungumálið (2011). Tæplega 8% eru með ensku sem móðurmál. 43% segjast vera tvítyngdir.

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]


Heimild[breyta | breyta frumkóða]

Fyrirmynd greinarinnar var „Québec“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 14. feb. 2017.


Svæði í Quebec Fáni Quebec

Abitibi-Témiscamingue | Bas-Saint-Laurent | Capitale-Nationale | Centre-du-Québec | Chaudière-Appalaches | Côte-Nord | Estrie | Gaspésie–Îles-de-la-Madeleine | Lanaudière | Laurentides | Laval | Mauricie | Montérégie | Montréal | Nord-du-Québec | Outaouais | Saguenay–Lac-Saint-Jean

Sjá einnig sveitarfélög í Quebec