Fara í innihald

George Marshall

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá George Catlett Marshall)
George Marshall
Varnarmálaráðherra Bandaríkjanna
Í embætti
21. september 1950 – 12. september 1951
ForsetiHarry S. Truman
ForveriLouis A. Johnson
EftirmaðurRobert A. Lovett
Utanríkisráðherra Bandaríkjanna
Í embætti
21. janúar 1947 – 20. janúar 1949
ForsetiHarry S. Truman
ForveriJames F. Byrnes
EftirmaðurDean Acheson
Yfirmaður herforingjaráðs bandaríska landhersins
Í embætti
1. september 1939 – 18. nóvember 1945
ForsetiFranklin D. Roosevelt
Harry S. Truman
ForveriMalin Craig
EftirmaðurDwight D. Eisenhower
Persónulegar upplýsingar
Fæddur31. desember 1880
Uniontown, Pennsylvaníu, Bandaríkjunum
Látinn16. október 1959 (78 ára) Washington, D. C., Bandaríkjunum
ÞjóðerniBandarískur
MakiLily Carter Coles (g. 1902; d. 1927)
Katherine Boyce Tupper Brown (g. 1930)
StarfHerforingi, stjórnmálamaður
Undirskrift

George Catlett Marshall yngri (31. desember 1880 – 16. október 1959) var bandarískur stjórnmálamaður og herforingi. Hann var yfirmaður herforingjaráðs bandaríska landhersins í stjórnartíðum Franklins D. Roosevelt og Harry S. Truman og var utanríkis- og varnarmálaráðherra í forsetatíð Truman. Winston Churchill kallaði Marshall „skipuleggjanda sigursins“ vegna forystu hans í seinni heimsstyrjöldinni.[1]

Marshall fæddist í Uniontown í Pennsylvaníu og útskrifaðist árið 1901 úr hernaðarskóla Virginíu. Hann var í stuttan tíma liðsforingi nemenda í hernaðarháskólanum í Danville en var skipaður undirliðsforingi fótgönguliðs í febrúar 1902. Á árunum eftir stríð Spánar og Bandaríkjanna gegndi hann æ hærri stöðum í Bandaríkjunum og erlendis. Þar á meðal var hann flokksdeildarforingi í stríði Bandaríkjanna og Filippseyja. Hann útskrifaðist með sóma úr námskeiði í stjórnun fótgöngu- og riddaraliða árið 1907 og útskrifaðist með hæstu einkunn árið 1908 úr herstjórnarháskóla. Árið 1916 varð Marshall aðstoðarmaður J. Franklin Bell, foringja vesturdeilda Bandaríkjahers. Eftir að Bandaríkin gengu inn í fyrri heimsstyrjöldina aðstoðaði Marshall Bell í stjórn austurdeildarinnar. Marshall var settur í fyrstu deild Bandaríkjahersins og tók þátt í þjálfun og skipulagningu heraflans í Bandaríkjunum og undirbúning fyrir hernaðaraðgerðir þeirra í Frakklandi. Hann tók þátt í skipulagningu sumra lokaáhlaupanna í styrjöldinni, eins og Meuse-Argonne-sóknarinnar.

Eftir stríðið varð Marshall aðstoðarmaður John J. Pershing hershöfðingja, sem var þá yfirmaður hershöfðingjaráðsins. Hann varð síðar meðlimur í ráðinu, fór fyrir fimmtánda fótgönguliðinu í Kína og kenndi í stríðsháskóla hersins. Árið 1927 varð hann aðstoðarforingi í fótgönguliðsskóla hersins, þar sem hann nútímavæddi stjórnkerfið, sem átti eftir að koma að góðum notum í seinni heimsstyrjöldinni. Marshall gekk til liðs við stríðsáætlanadeild stríðsráðuneytis Bandaríkjanna og varð foringi hershöfðingjaráðsins þegar Malin Craig settist í helgan stein árið 1939. Hann gegndi þeirri stöðu til loka seinni heimsstyrjaldarinnar.

Sem foringi hershöfðingjaráðsins stóð Marshall fyrir stærstu heraukningu í sögu Bandaríkjanna og var gerður fimmstjörnuhershöfðingi í Bandaríkjahernum. Marshall skipulagði hernaðaraðgerðir bandamanna í Evrópu og á Kyrrahafinu til loka stríðsins. Auk þess að hljóta hrós frá Churchill var Marshall nefndur maður ársins hjá tímaritinu Time árið 1943. Síðla árs 1945 og 1946 var Marshall sendur til Kína til að reyna að koma á þjóðstjórn þjóðernissinna undir stjórn Chiang Kai-shek og kommúnista undir stjórn Mao Zedong en hafði ekki erindi sem erfiði.

Marshall var utanríkisráðherra frá 1947 til 1949 og var heiðraður fyrir Marshalláætlunina með því að hljóta friðarverðlaun Nóbels árið 1953. Marshall var varnarmálaráðherra í byrjun Kóreustríðsins og vann að því að byggja upp eldmóð og sjálfstraust hersins eftir að hann hafði verið tekinn úr viðbragðsstöðu eftir lok heimsstyrjaldarinnar. Hann stóð einnig fyrir endurbyggingu hersins í byrjun Kóreustríðsins og fyrir aðrar hernaðaraðgerðir í kalda stríðinu. Eftir að hann sagði af sér sem varnarmálaráðherra settist Marshall í helgan stein og lést árið 1959.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. „George Catlett Marshall, U.S. Army Chief of Staff, Secretary of State“. CNN. Afrit af upprunalegu geymt þann 13. nóvember 2007. Sótt 12. desember 2007.