John Kerry
John Kerry | |
---|---|
Utanríkisráðherra Bandaríkjanna | |
Í embætti 1. febrúar 2013 – 20. janúar 2017 | |
Forseti | Barack Obama |
Forveri | Hillary Clinton |
Eftirmaður | Rex Tillerson |
Öldungadeildarþingmaður fyrir Massachusetts | |
Í embætti 2. janúar 1985 – 1. febrúar 2013 | |
Forveri | Paul Tsongas |
Eftirmaður | Mo Cowan |
Persónulegar upplýsingar | |
Fæddur | 11. desember 1943 Aurora, Colorado, Bandaríkjunum |
Maki | Julia Thorne (g. 1970; skilin 1988) Teresa Heinz (g. 1995) |
Börn | Alexandra og Vanessa |
Háskóli | Yale-háskóli Boston-háskóli |
Starf | Stjórnmálamaður |
Undirskrift |
John Forbes Kerry (f. 11. desember 1943) er bandarískur stjórnmálamaður og fyrrum öldungadeildarþingmaður á bandaríska þinginu fyrir demókrata. Hann er fyrrum formaður þingnefndar öldungardeildaþingsins um utanríkismál (e. Foreign Relations Committee).[1] Hann var í framboði til forseta fyrir demókrataflokkinn í kosningunum árið 2004 en tapaði þar fyrir George W. Bush. Kerry barðist í Víetnam en eftir að hann kom heim frá Víetnam var hann talsmaður fyrrverandi hermanna gegn stríðinu. Áður en Kerry settist á þing starfaði hann sem aðstoðarsaksóknari og vararíkisstjóri í Massachusetts,[2] heimabæ sínum. Kerry var utanríkisráðherra á seinna kjörtímabili Baracks Obama Bandaríkjaforseta, frá 2013 til 2017. Hann er nú sérstakur loftslagsráðgjafi í ríkisstjórn Joe Biden Bandaríkjaforseta.[3]
Æviágrip
[breyta | breyta frumkóða]John Kerry, sonur Richard John Kerry (f. 1915) og Rosemary Forbes Kerry (f. 1913) fæddist í Massachusetts árið 1943. Hann og systkini hans þrjú ólust upp í kaþólskri trú. Kerry útskrifaðist úr Yale árið 1966 með BA-gráðu í stjórnmálafræði. Eftir að Kerry útskrifaðist frá Yale gekk hann í bandaríska sjóherinn.[4] og barðist í Víetnamstríðinu. Hann þjónaði meðal annars sem sjóliðsforingi á hraðbát (e. Swift boat).[5] Þegar Kerry sneri heim úr stríðinu í apríl 1969 starfaði hann fyrir herinn í ár en baðst þá snemmbúinnar lausnar frá herskyldu vegna þess að hann hugðist bjóða sig fram til þings það haust.
Árið 1970 gekk Kerry í samtökin VVAW, samtök fyrrverandi bandarískra hermanna sem tóku þátt í Víetnamstríðinu en samtökin mótmæltu Víetnamstríðinu.[6] Kerry var einn helsti talsmaður samtakanna en hann var fyrsti hermaðurinn til að bera vitni um stríðið í Víetnam fyrir þinginu þegar lögð var fram tillaga um að enda stríðið. Kerry tók meðal annars þátt í mótmælum ásamt þúsundum hermanna þar sem þeir hentu heiðursmerkjum og borðum frá hernum yfir girðingu fyrir framan þinghúsið.
Kerry giftist Julia Thorne (f. 1944) árið 1970 og eignuðust þau tvær dætur. Kerry og Thorne skildu árið 1988 og fengu síðan hjónabandið ógilt árið 1997. Kerry giftist aftur árið 1995, þá stúlku að nafni Teresa Simões-Ferreira Heinz.
Stjórnmálaferill
[breyta | breyta frumkóða]Árið 1972 bauð Kerry sig fram til þings en náði ekki kjöri en hugsanlega höfðu hneykslismál og ádeilur á hann áhrif auk þess sem aðeins nokkrum dögum fyrir kosningarnar dró sjálfstæður frambjóðandi framboð sitt tilbaka en mótframbjóðandi Kerry, repúblikaninn Paul W. Cronin, græddi á því og sigraði kosningarnar.
Eftir ósigurinn í þingkosningunum hóf Kerry laganám sem hann lauk árið 1976 frá Boston-háskóla og tók þá strax lögmannspróf og fór að vinna sem saksóknari á skrifstofu ríkissaksóknara í Massachusetts. Síðar varð hann aðstoðarríkissaksóknari og svo ríkisstjóri Massachusetts árið 1982.
Árið 1984 bauð Kerry sig fram til öldungardeildarþingi Bandaríkjanna og sigraði hann naumlega. Hann sór embættiseið í janúar 1985.
Framboð til forseta
[breyta | breyta frumkóða]Árið 2004 tilkynnti Kerry að hann hygðist bjóða sig fram sem forsetaefni fyrir demókrata. Hlaut hann tilnefningu demókrataflokksins og keppti hann um forsetastólinn við George W. Bush. George W. Bush bar hins vegar sigur úr býtum og þann 3. nóvember 2004 tilkynnti Kerry um ósigur sinn í forsetakosningunum.
Hópur fyrrverandi hermanna sem barist höfðu í Víetnam voru meðal þeirra sem börðust gegn því að Kerry ynni kosningabaráttuna. Kölluðu þeir sig „Swift Boat Veterans for Truth“[7] og er orðatiltækið „swiftboating“ komið frá þeim en það er notað yfir einhvers konar skítkast í kosningabaráttu. Þessi hópur dró í efa afrek Kerry í Víetnamstríðinu og gagnrýndi Kerry fyrir andhernaðar athafnir sínar með VVAW.
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ „Kerry poised to cap long journey“. Sótt 29. september 2010.
- ↑ „Kerry's Trials“. Sótt 29. september 2010.
- ↑ Tryggvi Páll Tryggvason (23. nóvember 2020). „Kerry fær lykilhlutverk í stjórn Bidens“. Vísir. Sótt 3. febrúar 2021.
- ↑ „Request for History of Service“ (PDF). Afrit af upprunalegu (PDF) geymt þann 7. nóvember 2004. Sótt 29. september 2010.
- ↑ „Official Record Copy of request for duty in Vietnam“ (PDF). Sótt 29. september 2010.
- ↑ „Still a Force for Peace“. Sótt 29. september 2010.
- ↑ „Swift Vets and POWs for Truth“. Sótt 29. september 2010.
Fyrirrennari: Hillary Clinton |
|
Eftirmaður: Rex Tillerson |