Colin Powell

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Jump to navigation Jump to search
Colin Powell
Colin Powell official Secretary of State photo.jpg
Utanríkisráðherra Bandaríkjanna
Í embætti
20. janúar 2001 – 26. janúar 2005
ForsetiGeorge W. Bush
ForveriMadeleine Albright
EftirmaðurCondoleezza Rice
Persónulegar upplýsingar
Fæddur5. apríl 1937 (1937-04-05) (84 ára)
New York-borg, New York, Bandaríkjunum
ÞjóðerniBandarískur
StjórnmálaflokkurRepúblikanaflokkurinn (1995–2021)
MakiAlma Johnson (g. 1962)
HáskóliBorgarháskóli New York
George Washington-háskóli
StarfHerforingi, stjórnmálamaður
Undirskrift

Colin Luther Powell (f. 5. apríl 1937) er bandarískur stjórnmálamaður og fyrrum fjögurrastjörnuhershöfðingi í Bandaríkjaher. Á hernaðarferli sínum var Powell meðal annars þjóðaröryggisráðgjafi[1] (1987–1989) og forseti herforingjaráðs Bandaríkjahers[2] frá 1989 til 1993, í stjórnartíð George H. W. Bush. Powell gegndi þessu embætti á meðan Bandaríkjamenn háðu fyrra Persaflóastríðið. Powell er fyrsti og hingað til eini maðurinn af jamaískum ættum sem hefur tekið sæti í herforingjaráðinu. Powell varð síðar utanríkisráðherra Bandaríkjanna í stjórnartíð George W. Bush frá 2001 til 2005, fyrstur blökkumanna.

Æviágrip[breyta | breyta frumkóða]

Powell fæddist í New York-borg árið 1937 og var alinn upp í suðurhluta Bronx. Foreldrar hans, Luther og Maud Powell, voru innflytjendur frá Jamaíku. Powell gekk í almenningsskóla í New York og útskrifaðist úr borgarháskóla New York með bakkalársgráðu í jarðfræði. Á háskólaárum sínum tók Powell þjálfunarnámskeið fyrir varaliða í Bandaríkjaher og hafði hlotið lautinantstign þegar hann útskrifaðist í júní árið 1958. Hann hlaut síðar mastersgráðu í viðskiptafræði frá George Washington-háskóla.

Powell var atvinnuhermaður í 35 ár og gegndi á þeim tíma ýmsum ábyrgðarembættum og stjórnarstöðum. Hann var orðinn fjögurrastjörnuhershöfðingi undir lok hernaðarferils síns. Síðasta hernaðarembætti hans var sem tólfti forseti herforingjaráðsins, sem er æðsta embættið í öryggisráðuneyti Bandaríkjastjórnar. Á þessum tíma kom það í hlut Powells að leysa úr 28 deilumálum, meðal annars framkvæmd Desert Storm-aðgerðarinnar í fyrra Persaflóastríðinu árið 1991.

Eftir að Powell settist í helgan stein skrifaði hann metsölubók um ævi sína undir titlinum My American Journey. Þann 16. desember árið 2000 útnefndi George W. Bush Bandaríkjaforseti Powell sem utanríkisráðherra í stjórn sinni.[3] Útnefning Powells var samþykkt einhljóða af öldungadeild Bandaríkjaþings þann 20. janúar árið 2001.

Powell hefur hlotið fjölda hernaðarverðlauna og -viðurkenninga bæði í Bandaríkjunum og erlendis. Meðal borgaralegra verðlauna sem Powell hefur hlotið má einnig nefna tvær frelsisorður Bandaríkjaforseta, borgaraorðu forsetans, gullorðu Bandaríkjaþings og orður fyrir afrek í embættum utanríkisráðherra og orkumálaráðherra.

Powell hefur í seinni tíð verið gagnrýninn á stjórn Donalds Trump Bandaríkjaforseta.[4] Árið 2020 gagnrýndi hann viðbrögð Trumps við George Floyd-mótmælunum og sagði Trump vera að „fjarlægjast stjórnarskrána“. Hann lýsti því yfir að hann myndi styðja Joe Biden, frambjóðanda Demókrata, í forsetakosningum sama ár.[5]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. „Öryggisráðgjafinn kýs herinn þrátt fyrir gylliboð annarra“. Morgunblaðið. 10. janúar 1989. Sótt 12. desember 2018.
  2. „Colin Powell forseti herforingjaráðsins“. Morgunblaðið. 11. ágúst 1989. Sótt 12. desember 2018.
  3. „Spá deilum vegna stefnubreytinga“. Morgunblaðið. 19. desember 2000. Sótt 12. desember 2018.
  4. „Colin Powell kallar Trump „þjóðarskömm“ og „úrhrak““. Kjarninn. 14. september 2016. Sótt 12. desember 2018.
  5. Anna Sigríður Einarsdóttir (7. júní 2020). „Colin Powell styður Biden í forsetaslagnum“. RÚV. Sótt 7. júní 2020.


Fyrirrennari:
Madeleine Albright
Utanríkisráðherra Bandaríkjanna
(20. janúar 200126. janúar 2005)
Eftirmaður:
Condoleezza Rice