Condoleezza Rice

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Condoleezza Rice
Utanríkisráðherra Bandaríkjanna
Í embætti
26. janúar 2005 – 20. janúar 2009
ForsetiGeorge W. Bush
ForveriColin Powell
EftirmaðurHillary Clinton
Þjóðaröryggisráðgjafi Bandaríkjanna
Í embætti
20. janúar 2001 – 26. janúar 2005
ForsetiGeorge W. Bush
ForveriSandy Berger
EftirmaðurStephen Hadley
Persónulegar upplýsingar
Fædd14. nóvember 1954 (1954-11-14) (69 ára)
Birningham, Alabama, Bandaríkjunum
ÞjóðerniBandarísk
StjórnmálaflokkurRepúblikanaflokkurinn
HáskóliDenver-háskóli
Notre Dame-háskóli
StarfErindreki, stjórnmálamaður
Undirskrift

Condoleezza Rice (f. 14. nóvember 1954) er bandarískur prófessor og stjórnmálamaður. Hún starfaði í ríkisstjórn George W. Bush og gegndi þar m.a. embætti utanríkisráðherra og var fyrsta blökkukonan til þess. Áður en hún tók við því embætti hafði hún starfað sem öryggisráðgjafi forseta. Fyrr á ferli sínum starfaði hún sem prófessor í stjórnmálafræði við Stanford háskóla. Þar áður hafði hún starfað sem ráðgjafi í ríkisstjórn George H. W. Bush þar sem hún var sérfræðingur í málum er snéru að Sovétríkjunum og Austur-Evrópu.

Æska og menntun[breyta | breyta frumkóða]

Condoleezza Rice fæddist í Birmingham í Alabama fylki þar sem hún ólst upp fram að 13 ára aldri. Eftir að hafa flutt með fjölskyldu sinni til Denver í Colorado árið 1967, hóf hún nám við kaþólska stúlknaskólann St. Mary‘s Academy og lauk því árið 1971. Hún hóf svo nám við háskólann í Denver, með píanóspilun sem aðal námsbraut, en fór fljótlega að leita á önnur mið og skipti yfir í stjórnmálafræði. Árið 1974 lauk hún B.A. prófi í stjórnmálafræði þá aðeins 19 ára gömul, og ári seinna lauk hún svo mastersnámi í stjórnmálafræði frá háskólanum í Notre Dame. Eftir að hafa klárað mastersnám hélt hún áfram námi en ákvað þá að snúa aftur til háskólans í Denver og lauk þaðan doktorsprófi í stjórnmálafræði árið 1981. Pólitískar skoðanir Condoleezza Rice aðhylltust Demókrataflokkinn til ársins 1982 en snérist þá til Repúblikanaflokksins eftir að hafa orðið ósammála skoðunum fyrrum forseta Bandaríkjanna Jimmy Carter í utanríkismálum[1]. Þess má geta að faðir hennar skipti einnig úr Demókrataflokknum yfir í Repúblikanaflokkinn eftir að honum hafði verið neitað um skráningu í flokkinn árið 1952[2].

Akademískur ferill[breyta | breyta frumkóða]

Eftir að hafa lokið námi árið 1981 hóf hún að kenna við Stanford háskóla. Þar var hún aðstoðarprófessor í stjórnmálafræði með áherslu á Sovétríkin og hélt þeirri stöðu til 1987 þegar hún hlaut stöðuhækkun. Hún hefur síðan unnið við háskólann með hléum en snéri aftur til starfa þar eftir að ný ríkisstjórn tók við í byrjun árs 2009.

Upphaf stjórnmálaferils[breyta | breyta frumkóða]

Árið 1986, ásamt því að sinna alþjóðamálum innan Utanríkisráðuneytisins, starfaði hún sem aðstoðarmaður yfirmanns Hernaðarráðs. Frá árunum 1989 til mars 1991 sat hún í stjórn George H. W. Bush Bandaríkjaforseta sem yfirmaður og síðar meir sem æðsti yfirmaður í málum er snéru að Sovétríkjunum og Austur-Evrópu í Öryggisráðuneyti Bandaríkjanna. Sem aðstoðarmaður í Öryggisráðuneytinu tók hún þátt í því að þróa stefnur Bush og James Baker utanríkisráðherra hvað varðar sameiningu Þýskalands. Seinni hluta árs 1991 skipaði fylkisstjóri Kaliforníu, Pete Wilson, hana í þverpólitíska nefnd sem hafði það hlutverk að gera drög að nýju löggjafarvaldi og löggjafarþingi umdæmis í Kaliforníuríki. Árið 1997 sat hún í ráðgjafanefnd er snéri að herþjálfun kynjanna. Í kosningabaráttu George W. Bush árið 2000 tók hún sér ársleyfi frá Stanford háskóla til þess að aðstoða hann sem ráðgjafi í utanríkismálum. Þann 17. desember árið 2000 tók hún við stöðu ráðgjafa í Öryggisráðuneyti Bandaríkjanna og sagði upp stöðu sinni við Stanford háskóla. Var hún fyrsta konan til að gegna því embætti[3].

Embætti utanríkisráðherra Bandaríkjanna (2005-2009)[breyta | breyta frumkóða]

Þann 16. nóvember 2004 var hún tilnefnd í embætti utanríkisráðherra Bandaríkjanna af George W. Bush og þann 26. janúar 2005 var sú tilnefning staðfest af öldungadeildinni með 85 atkvæðum gegn 13. Þau atkvæðu sem bárust gegn skipun hennar komu frá öldungadeildarþingmönnum sem, að sögn Barbara Boxer, voru þeirrar skoðunar að gerð höfðu verið mistök í málefnum Íraks og stríðinu gegn hryðjuverkum og að þau mistök væru á ábyrgð Condoleezza Rice og öðrum meðlimum ríkisstjórnar Georg W. Bush. Þeirra rök voru þau að óábyrgt hafi verið af henni að leggja stjórnarfar Saddam Hussein að jöfnu við þau hryðjuverk sem kennd voru við Islam. Sem dæmi greiddi öldungadeildarþingmaðurinn Robert Byrd atkvæði gegn skipun hennar og gaf um leið til kynna að hún stæði vörð um að völd forsetans um stríðsrekstur væru umfram það sem stjórnarskráin kvæði á um[4]. Á tíð sinni sem utanríkisráðherra talaði hún fyrir útbreiðslu lýðræðis sem stjórnarfars í heiminum. Hún sagði árásirnar 11. september hafa átt rætur að rekja til kúgunar og vonleysis og því þyrftu Bandaríkin að koma að erindinu um bætt stjórnskipulag, í formi lýðræðis, til Mið-Austurlandanna[5]. Condoleezza gerði umtalsverðar breytingar á utanríkisráðuneytinu og talaði hún um erindrekstur umbreytinga (e. Transformational Diplomacy) sem nýtt hlutverk þess. Þetta nýja hlutverk ráðuneytisins var að vinna með nánum bandamönnum um heim allan með það að markmiði að koma á fót vel stýrðum lýðræðisríkjum þar sem þarfir þegnanna eru hafðar í forgrunni og viðhöfð er góð og ábyrg hegðun á meðal alþjóðakerfisins[6].

Vangaveltur um forsetakosningarnar 2008[breyta | breyta frumkóða]

Víða höfðu verið vangaveltur um hvort Condoleezza Rice hygðist bjóða sig fram í forkosningar Repúblikanaflokksins fyrir forsetakosningarnar árið 2008. Í febrúar 2008 útilokaði hún þann möguleika með því að segja að það eina sem hún sæi sjálfa sig ekki gera væri að bjóða sig fram í eitthvert af kjörnum embættum innan Bandaríkjanna[7]. Í skoðanakönnun Gallup, sem gerð var dagana 24. – 27. mars 2008, kom fram að átta prósent spurðra nefndu hana sem fyrsta valkost varaforsetaefnis John McCain[8]. Varðandi þann möguleika sagði hún hins vegar í viðtali, sem birt var við hana í Washington Post þann 27. mars 2008, að hún hefði einfaldlega ekki áhuga[9].

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Balz, Dan (August 1, 2000). "The Republicans Showcase a Rising Star; Foreign Policy Fueled Rice's Party Switch and Her Climb to Prominence" Geymt 10 maí 2013 í Wayback Machine. The Washington Post. Sótt 24. september 2010.
  2. Condoleezza, Rice (2000-08-01). "Condoleezza Rice at the Republican National Convention". The Washington Post. Sótt 24. september 2010.
  3. Serafin, Tatiana (Nóvember 2005). "#1 Condoleezza Rice" Geymt 29 september 2010 í Wayback Machine. Forbes. Sótt 24. september 2010.
  4. Robert Byrd (2005-01-25). "Yfirlýsing Robert Byrd" Geymt 17 september 2008 í Wayback Machine. West Virginia Patriots for Peace. Sótt 24. september 2010.
  5. United States Department of State (2005-09-30). "Princeton University's Celebration of the 75th Anniversary Of the Woodrow Wilson School of Public and International Affairs". Yfirlýsing Condoleezza Rice. Sótt 24. september 2010.
  6. United States Department of State (18. janúar 2006). "Transformational Diplomacy". Ávarp Condoleeza Rice á ráðstefnu Georgtown Háskóla. Sótt 24. september 2010.
  7. Mohammed, Arshad (22. febrúar 2008). "Rice says has no plan to run for vice president". Reuters. Sótt 24. september 2010.
  8. "Gallup Polls on GOP VP Preferences". Real Clear Politics. Sótt 24. september 2010.
  9. „Transcript of Secretary Condoleezza Rice's Interview with the Washington Times Editorial Board“. The Washington Times. United States Department of State. 28. mars 2008. Afrit af uppruna á 5. febrúar 2009. Sótt 28. mars 2008.Question: "And would you consider vice president?" Rice: "Not interested."


Fyrirrennari:
Colin Powell
Utanríkisráðherra Bandaríkjanna
(26. janúar 2005 – 20. janúar 2009)
Eftirmaður:
Hillary Clinton