Fara í innihald

Orrustan við Hastings

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Dauði Haraldar sýndur á Bayeux-reflinum.

Orrustan við Hastings var orrusta sem háð var þann 14. október 1066 átta kílómetrum norður af Hastings í Austur-Sussex á Englandi. Orrustan markaði upphaf landvinninga Normanna á Englandi og má segja að hún hafi ráðið úrslitum um það að Normannar náðu yfirráðum í landinu og urðu þar yfirstétt.

Normanski hertoginn Vilhjálmur bastarður kom með her sinn yfir Ermarsund 28. september og er sagt að í flota hans hafi verið 696 skip. Þremur dögum áður, þann 25. september, hafði Haraldur Guðinason Englandskonungur unnið sigur á her Haraldar harðráða Noregskonungs í orrustunni við Stanfurðubryggju, skammt frá Jórvík. Þegar hann frétti af innrásarliðinu flýtti hann sér suður á bóginn og hafði með sér þann hluta hers síns sem fær var til eftir bardagann við Norðmennina og reyndi að safna meira liði á leiðinni. Herirnir mættust við Hastings 14. október og varð þar harður bardagi sem lauk með falli Haraldar. Er sagt að hann hafi fengið ör í augað. Hann var annar af einungis tveimur enskum þjóðhöfðingum sem hafa fallið í orrustu (hinn var Ríkharður 3.).

Fullnaðarsigur vannst þó ekki í orrustunni við Hastings. Lið Vilhjálms mætti töluverðri andspyrnu á næstu vikum en komst þó til London og var hann krýndur konungur Englands í Westminster Abbey á jóladag 1066. Orrustunni og aðdraganda hennar er lýst í útsaumsmyndum á hinum 70 metra langa Bayeux-refli.

  Þessi Englandsgrein sem tengist sögu er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.