Vatnsaflsvirkjun

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Virkjunin Barra Bonita í São Paulo, Brasilíu.

Vatnsaflsvirkjun er rafstöð þar sem rafmagn er framleitt með virkjun vatnsafls, þ.e. með því að nota skriðþunga eða fallþunga vatns í fljóti, á eða læk. Virkjun fallvatna er algengasta aðferðin við að framleiða endurnýjanlega orku í heiminum. Áætlað er að heimsframleiðsla rafmagns í vatnsaflsvirkjunum hafi verið 715.000 MWe árið 2005 sem jafngildir 19% af raforkuframleiðslu heimsins og 63% af framleiðslu endurnýjanlegrar orku.

Vatnsaflsvirkjanir á Íslandi[breyta | breyta frumkóða]

Fossafélagið Títan var stofnað 1914 og leyst upp árið 1951. Íslenska ríkið keypti vatnsréttindi þess og lagði til Landsvirkjunar þegar það félag var stofnað þann 1. júlí árið 1965. Landsvirkjun var stofnuð einkum til að byggja og reka raforkuver sem gæti selt raforku til stóriðju og séð markaðnum fyrir raforku á hagkvæmu verði.

Fyrst var ráðist í að byggja Búrfellsvirkjun í júní 1966. Fyrirtækið Alusuisse (í dag Rio Tinto Alcan) byggði og rak Álverið í Straumsvík og átti Búrfellsvirkjun að sjá því fyrir rafmagni. Á fyrstu árum fyrirtækisins voru byggðar þrjár virkjanir í Þjórsá og Tungnaá. Þegar byggingu Búrfellsvirkjunar lauk árið 1972 var byggð Sigölduvirkjun og síðar Hrauneyjafossvirkjun sem hóf rekstur 1981. Bygging virkjananna tveggja fór fram í kapphlaupi við tímann þar sem orkuskortur hafði skapast í landinu vegna veðurfars og aukinnar eftirspurnar.

Í dag eru margar vatnsaflsstöðvar á Íslandi, af þeim eru nokkrar staðsettar á suðvestur hluta landsins. Þessar virkjanir eru Hrauneyjafossvirkjun, Sigöldustöð, Vatnsfellsstöð, Sultartangastöð og Búrfellsstöð auk Sogsvirkjana.

Ítarefni[breyta | breyta frumkóða]

  • „Virkjanir“. Vefur Netorku. Netorka. Sótt 12. mars 2020.
  • „Vatnsaflsvirkjanir: Leyfi og skilyrði – staðan í árslok 2017“ (PDF). Vefur Orkustofnunar. Orkustofnun. apríl 2018. Sótt 12. mars 2020.


  Þessi grein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.