Fara í innihald

Játvarður 1.

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Játvarður 1. Mynd í Westminster Abbey.

Játvarður 1. (17. júní 12397. júlí 1307), einnig þekktur sem Játvarður skankalangi og Skotasleggja (enska: Edward Longshanks; Hammer of the Scots), var konungur Englands frá 1272 til 1307. Hann hefur verið talinn mun hæfari konungur en bæði faðir hans og sonur, kom á ýmsum umbótum og átti þátt í að móta enska þingið.

Játvarður og Elinóra.

Játvarður var sonur Hinriks 3. og Elinóru af Provence og var hann elstur fjögurra barna þeirra sem upp komust. Árið 1254 giftist hann Elinóru af Kastilíu, systur Alfons 10. Kastilíukonungs, og samdi faðir hans um ráðahaginn til að afstýra yfirvofandi innrás Kastilíumanna í hertogadæmið Gaskóníu, sem var lénsríki Englandskonunga.

Játvarður var hertogi af Gaskóníu að nafninu til en Simon de Montfort, jarl af Leicester, stýrði héraðinu fyrir hans hönd og hirti tekjurnar af því. Við brúðkaupið var hann líka gerður lávarður af Írlandi og fékk miklar eignir í Englandi og Wales en þessu fylgdu þó engin raunveruleg völd og faðir hans tók mestallar tekjurnar af þessum lendum til sín.

Játvarður var framan af undir miklum áhrifum frá frönskum ættingjum sínum, fyrst fjölskyldu móður sinnar, Savojördum, en síðar hálfbræðrum föður síns, de Lusignan-mönnum. Báðir hóparnir voru valdamiklir við ensku hirðina og óvinsælir meðal landsmanna. Árið 1258 krafðist hópur enskra aðalsmanna endurbóta á stjórnsýslu og var þeirri kröfu raunar fyrst og fremst beint gegn áhrifum Lusignan-manna.

Játvarður studdi fyrst frændur sína en skipti smám saman um skoðun og 15. október 1259 lýsti hann yfir stuðningi við leiðtoga aðalsmanna, Simon de Montfort, sem giftur var föðursystur hans. Á næstu mánuðum ögraði Játvarður föður sínum á ýmsan hátt og Hinrik taldi jafnvel að hann væri að undirbúa valdarán. Þeir sættust þó og Játvarður var sendur til Frakklands, þar sem hann gekk að nýju í bandalag við frændur sína af Lusignan-ætt, sem höfðu verið sendir þangað í útlegð.

Borgarastyrjöldin

[breyta | breyta frumkóða]
Simon de Montfort. Lágmynd í fulltrúadeild Bandaríkjaþings.

Árið 1263 sendi Hinrik Játvarð í herför til Wales gegn Llywelyn ap Gruffud með takmörkuðum árangri. Um sama leyti sneri Simon de Montfort, sem hafði verið erlendis frá 1261, aftur til Englands og hóf að nýju að skipuleggja andstöðu aðalsmanna við konung. Hinrik virtist að því kominn að láta undan kröfum þeirra en þá tók Játvarður málin í sínar hendur og einbeitti sér þaðan í frá að því að verja völd konungs. Hann sættist aftur við ýmsa sem hann hafði áður deilt við og varð aðalleiðtogi konungssinna í borgarastyrjöldinni sem stóð frá 1264 til 1267.

Framan af var Simon de Montfort leiðtogi uppreisnarmanna og í orrustunni við Lewes 14. maí 1264 vann hann sigur á liði Hinriks konungs og Játvarðs prins og tók þá báða höndum. Játvarður var í haldi til 28. maí árið eftir en þá tókst honum að sleppa og 4. ágúst 1265, í orrustunni við Evesham, vann hann sigur á liði uppreisnarmanna og Simon de Montfort var drepinn og lík hans illa leikið. Borgarastyrjöldin hélt þó áfram, Simon de Montfort yngri stýrði liði uppreisnarmanna og fullnaðarsigur vannst ekki fyrr en 1267.

Játvarður krossfari

[breyta | breyta frumkóða]

Árið 1270 hélt Játvarður af stað í krossferð ásamt Játmundi bróður sínum. Elinóra kona hans fór líka með, enda fylgdi hún manni sínum hvert sem hann fóri. Til að fjármagna krossferð prinsanna fékk konungur þingið til að leggja á nýjan skatt gegn því að hann staðfesti að nýju Magna Carta. Játvarður sigldi af stað 20. ágúst og hélt fyrst til Frakklands en Loðvík 9. Frakkakonungur var leiðtogi krossfaranna. Loðvík var þá kominn til Túnis ásamt bróður sínum, Karli af Anjou, sem hafði sett sjálfan sig í konungsstól á Sikiley, og var markmið þeirra að ná fótfestu í Norður-Afríku. En fljótlega eftir komuna þangað kom upp farsótt í franska liðinu og Loðvík dó 25. ágúst. Þegar Játvarður kom til Túnis hafði Karl samið frið við emírinn og ekkert þar að gera meira. Þau Elinóra héldu því til Sikileyjar til vetursetu.

Karl og Filippus 3., hinn nýi Frakkakonungur, höfðu misst áhuga á krossferðum og Játvarður hélt áfram einn. Hann kom til Akkó 9. maí 1271. Þar var þá helsta vígi kristinna manna í Landinu helga því Jerúsalem hafði fallið í hendur múslima 1244. Hann og riddarar hans áttu í ýmsum skærum við Mamelúka ásamt heimamönnum í Akra en varð ekkert ágengt og í maí 1272 samdi Húgó 3. konungur Kýpur, sem var að nafninu til konungur Jerúsalem og var af Lusignan-ætt, tíu ára vopnahlé við Baibars, soldán Mamelúka.

Játvarður og Elinóra héldu heim á leið í september og þegar þau komu loks til Sikileyjar bárust þeim þau tíðindi að Hinrik 3. hefði dáið 16. nóvember og Játvarður væri orðinn konungur. Ríkisstjórnin var þó í öruggum höndum aðalsmannaráðs og Játvarði lá ekkert á heim, hann heimsótti páfann í Róm, ferðaðist um Ítalíu og Frakkland, bældi niður uppreisn í Gaskóníu og kom ekki aftur til Englands fyrr en 2. ágúst 1274. Þau Elinóra voru svo krýnd 19. ágúst.

Konungur Englands

[breyta | breyta frumkóða]
Játvarður vottar Filippusi 3. Frakkakonungi hollustu.

Þegar heim kom sneri Játvarður sér að því að lagfæra það sem aflaga hafði farið á ríkisstjórnarárum föður hans, koma á röð og reglu og reyna að styrkja völd krúnunnar og ná aftur ýmsum eignum sem tapast höfðu. Hann bældi tvívegis niður uppreisn í Wales og lagði landið undir sig á árunum 1276-1277.

Hann var fenginn til að miðla málum í deilunum um ríkiserfðir í Skotlandi eftir lát Alexanders 3. og síðan Margrétar Skotadrottningar og stýra Skotlandi þar til deilan væri leyst en þegar Jóhann Balliol var orðinn konungur var Játvarður tregur til að sleppa völdum og 1296 réðist hann inn í Skotland og setti Jóhann af.

Hann hafði líka í huga að fara í aðra krossferð og reyndi að koma á friði milli stríðandi konunga á meginlandinu í þeim tilgangi að fá þá með sér í krossferðina en þau áform urðu að engu 1291, þegar fréttist að Akkó hefði fallið í hendur Mamelúka. Krossferð Játvarðar 1271-1272 varð því síðasta krossferðin.

Játvarður dvaldi oft í hertogadæmi sínu, Gaskóníu, en var eins og aðrir Englandskonungar í klemmu vegna þess að sem hertogi af Gaskóníu var hann lénsmaður Frakkakonungs og þurfti að votta honum hollustu. Það hafði hann gert á heimferð sinni 1286 en árið 1294 kvaddi Filippus 3. hann á sinn fund í París. Játvarður neitaði að mæta og þá lýsti Filippus því yfir að þar með skyldi hann sviptur Gaskóníu. Þetta leiddi vitaskuld til stríðs milli Játvarðar og Frakkakonungs.

Játvarður treysti á stuðning frá Niðurlöndum, Þýskalandi og Búrgund en sá stuðningur brást og hann neyddist til að semja frið. Í því samkomulagi fólst meðal annars að hann gekk að eiga Margréti, dóttur Filippusar.


Stríð við Skota og dauði

[breyta | breyta frumkóða]

Hann þurfti líka að snúa aftur til Skotlands því þar hafði William Wallace risið upp og gerst leiðtogi í frelsisbaráttu Skota. Játvarður vann sigur á liði hans í orrustunni við Falkirk 22. júlí 1298 en náði honum ekki og Wallace hélt áfram baráttu sinni með skæruhernaði. Þegar Róbert Bruce gekk í lið með Englendingum fór þeim þó að ganga betur og árið 1305 náðu þeir William Wallace og fluttu hann ti London þar sem hann var tekinn af lífi. En ári síðar lét Róbert Bruce krýna sig konung Skotlands og hóf baráttu fyrir sjálfstæði landsins.

Játvarður var farinn að missa heilsu og stýrði hernum ekki sjálfur gegn honum. Englendingum gekk betur í fyrstu og mikilli hörku var beitt gegn Skotum en það varð til þess að þjappa þeim saman og Róbert konungur safnaði liði að nýju og vann sigur á Englendingum í orrustunni við Loudon-hæð. Játvarður hélt þá sjálfur norður á bóginn til að berjast við hann en veiktist á leiðinni af blóðkreppusótt og dó í herbúðum rétt sunnnan við skosku landamærin 7. júlí 1307.

Stríðsbrölt Játvarðs var dýrt og hann hafði neyðst til að leggja þunga skatta á landsmenn við litla hrifningu þeirra. Hann naut þó yfirleitt virðingar þegna sinna sem stjórnandi og hermaður. Sú virðing var oft óttablandin því Játvarður var skapmikill og yfirgangssamur, sérlega hávaxinn og hermannlegur. Á yngri árum var hann talinn óútreiknanlegur og ótraustur en það breyttist þó heldur með aldrinum.

Herbergi Játvarðs í Lundúnaturni, endurgert samkvæmt hugmyndum um konungleg húsakynni um aldamótin 1300.

Arftaki hans, Játvarður 2., erfði miklar skuldir, pólitískt vantraust og stríð við Skotland. Játvarðs er líka minnst fyrir illa meðferð á gyðingum en hann rak þá á endanum alla úr landi 1290 og þeim var ekki heimil landvist í Englandi að nýju fyrr en 1656.

Hjónabönd og fjölskylda

[breyta | breyta frumkóða]

Játvarður var tvíkvæntur. Fyrri kona hans var Elinóra af Kastilíu, sem hann giftist þegar hann var fimmtán ára og hún þrettán. Þau eru sögð hafa elskað hvort annað mikið og hún fylgdi honum í nær öll hans ferðalög, líka á vígvöllinn. Hann var henni trúr alla tíð og syrgði hana mikið þegar hún dó 28. nóvember 1290 eftir 36 ára hjónaband.

Í friðarsamningum við Frakka árið 1294 var svo samið um að Játvarður skyldi giftast Margréti dóttur Filippusar 3. Frakkakonungs, og giftust þau 1299, þegar Margrét var tvítug.

Játvarður og Elinóra áttu fjórtán til sextán börn (heimildum ber ekki saman). Fimm af dætrunum komust upp en af fjórum sonum lifði aðeins yngsta barnið, Játvarður, til fullorðinsára. Með Margréti átti Játvarður tvo syni sem náðu fullorðinsaldri.


Fyrirrennari:
Hinrik 3.
Konungur Englands
(1272 – 1307)
Eftirmaður:
Játvarður 2.