Fara í innihald

Múlahverfi

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Múlahverfi, eða Múlakampur og Herskólakampur, var íbúðarhverfi í Reykjavík, á svæði sem afmarkast u.þ.b. frá Suðurlandsbraut og yfir núverandi götustæði Ármúla og Síðumúla annars vegar og hins vegar af núverandi götustæði Hallarmúla og gömlu símstöðinni við núverandi götustæði Dalsmúla.

Á hernámsárum annarrar heimsstyrjaldar reis þétt braggabyggð á þessum slóðum sem samanstóð af fjórum braggahverfum.  Þau stóðu nyrst við Háaleitisveg, sem áður lá frá Suðurlandsbraut að Bústaðavegi, vestan Grensásvegar og samhliða honum. Háaleitisvegur var einskonar forveri Háaleitisbrautar, en hún var þó lögð eilítið vestar og með tengingu við Kringlumýrarbraut. Hjá bandaríska setuliðinu var Háaleitisvegur kallaður Harley Street. Vestast var Camp Casement (norðan við malagryfjur sem voru þar sem Ármúlaskóli, nú Fjölbrautarskólinn við Ármúla, reis síðar) og rétt austar var Camp Caledonia, betur þekktur sem Múlakampur (á móts við býlið Múla, þar sem gatan Vegmúli liggur nú). Fast austan við hann, austan Háaleitisvegar, var Herskólakampur (austan núverandi Vegmúla, milli Suðurlandsbrautar og Ármúla). Þar ráku Bretar herskóla sem mun hafa verið sá fyrsti í síðari heimsstyrjöldinni sem kenndi vetrarhernað. Lítið eittsunnar við Háaleitisveg var Harley Street Camp (milli Ármúla 24-30 og Síðumúla 11-13). Með hernáminu 1940 jókst eftirspurn eftir vinnuafli gríðarlega enda stóð hernámsliðið fyrir mannaflsfrekum framkvæmdum í bænum. Upp úr því fór Reykjavík ört vaxandi og fjöldi fólks flutti til bæjarins á þessum tíma. Í kjölfarið varð mikill húsnæðisskortur sem varð viðvarandi eftir stríð. Þá tóku að rísa þyrpingar ýmis konar smáhýsa í útjaðri bæjarins sem byggð voru af efnalausu og húsnæðislausu fólki án þess fyrir lægju byggingarleyfi eða lóðaúthlutanir. Húsum þessum komu menn upp í flýti til að fá þak yfir höfuðið fyrir sig og sína og þótt aðbúnaður fólk í þessu húsnæði væri yfirleitt slæmur og bæjaryfirvöld væru lítt hrifin af þessari sjálfsbjargarviðleitni fólks létu þau þessar framkvæmdir óátaldar að mestu vegna húsnæðiseklunnar. Á eftirstríðsárunum bjó einnig fjöldi fólks í bröggum og margir brugðu á það ráð að taka til heilsársbúsetu sumarbústaði sem flestir voru langt utan við meginbyggðina.

Við braggabyggðina í Múlakampi reis eitt þessara óskipulögðu smáhýsahverfa í kringum 1950. Þar reis hvert húsið af öðru, yfirleitt kjallaralaus timburhús, sem iðulega voru byggð af vanefnum, í óleyfi og án lóðaréttinda, sum einungis úr gömlu mótatimbri en önnur úr varanlegra efni. Nokkur hús voru aðflutt og endurbyggð þarna. Vatns- og skólpleiðslur voru ófullkomnar og notast við gamlar leiðslur frá stríðsárunum. Þarna varð til einskonar borgarsamfélag í smækkaðri mynd, með fjölskrúðugu mannlífi, verslunum og verkstæðum. Árið 1953 var eigendum þessara húsa gefinn kostur á lóðasamningi til 10 ára gegn því að hús þeirra yrðu flutt burt þegar hverfið yrði skipulagt. Á sjöunda og áttunda áratug 20. aldar viku flest þessara húsa fyrir nýbyggingum, einkum stórum verslunar- og atvinnuhúsum við Suðurlandsbraut, Síðumúla og Ármúla.

Hverfið var mjög þéttbýlt og þar voru margar barnafjölskyldur. Árið 1963 bjuggu þar um 800 manns, þar af 630 í húsum en aðrir í bröggum. Seint á 6. áratugnum hófst uppbygging hverfisins sem iðnaðar- og verslunarhverfis og voru fyrstu húsin reist upp úr 1957. Á næstu árum voru braggarnir og flest íbúðarhúsin rifin en hverfið var þó ekki að fullu uppbyggt fyrr en 1985 og stóðu nokkur íbúðarhús innan um iðnaðar- og skrifstofuhús allt fram undir það.

Bíbí Ólafsdóttir spákona ólst upp í Múlakampi og er uppvexti hennar þar og mannlífinu í hverfinu lýst vel í endurminningarbókinni Bíbí sem Vigdís Grímsdóttir skrásetti.

  • „„800 Reykvíkingar búa við skert réttindi". Alþýðublaðið, 17. mars 1963“.
  • „„Byggingasaga Múlahverfis". Tíminn, 10. maí 1986“.
  • „„Hugleiðing um íbúðahverfið við Suðurlandsbraut". Þjóðviljinn, 7. október 1953“.
  • „„Byggðakönnun Borgarhluti 5 – Háaleiti". Minjasafn Reykjavíkur — Skýrsla nr. 164, Reykjavík 2014“ (PDF).