Laugarás (Reykjavík)

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Laugarás í Reykjavík

Laugarás er 1,5 hektara friðað náttúruvætti á Laugarásholti í Langholtshverfi. Svæðið er 50 metra yfir sjávarmáli og er af því gott útsýni til allra átta, til fjalla og yfir höfuðborgarsvæðið. Á Laugarás, má finna jökulrispað berg (grágrýti) frá síðustu ísöld og má einnig finna ummerki um hver sjávarstaða var við lok ísaldar. Svæðið var friðað árið 1982 [1]

Jarðfræði[breyta | breyta frumkóða]

Myndun[breyta | breyta frumkóða]

Flekaskil og gosbelti á Íslandi

Í jarðfræðilegum skilningi er Ísland fremur ung eyja og veldur staðsetning landsins að eldvirkni er mikil. Elstu hlutar landsins eru á vestfjörðum og austfjörðum og eru þeir 14-16 milljóna ára gamlir. Laugarás, ásamt Öskjuhlíð og eyjum í Kollafirði eins og Viðey eru grágrýtismyndanir sem urðu til þegar hraun rann frá Borgarhólum á Mosfellsheiði fyrir 200.000 árum.

Ísöld[breyta | breyta frumkóða]

Útbreiddur jökull á jökulskeiði ísaldar

Veðurfar virðist hafa farið kólnandi og fyrir 2,6 milljónum árum fóru jöklar að breiða úr sér. Jöklarnir dreifðu sér yfir norðurhvel. Náði ísinn langt út fyrir strandlínu Íslands. Ekki var ávallt einn heill jökull yfir norðurhveli, heldur skiptist ísöldin í hlýskeið og jökulskeið.

Fyrir 11.000 árum, fór aftur að hlýna og ísaldarjökullinn tók að bráðna. Almennt er sagt að ísöldinni hafi lokið fyrir 10.000 árum, en þá hafði ísinn minnkað umtalsvert, þó að enn væru jöklar allvíða. Þegar þessi mikli ísmassi bráðnaði, hækkaði sjávarmál umtalsvert og eru sumar klappir á Laugarási sjávarsorfnar. Talið er að á þeim tíma, hafi sjávarhæð verið 45 metrum hærri en hún er í dag, og Laugarás, hefur verið hálfgert sker sem nánast maraði í kafi. Öskjuhlíðin var eyja, enda er hún nokkrum metrum hærri en Laugarás.

Minjagildi[breyta | breyta frumkóða]

Laugarás er einstök heimild um forsögulega tíma í Reykjavík. Svæðið er flokkað sem náttúruvætti (flokkur III) hjá Alþjóðlegu náttúruverndarsamtökunum og er friðað vegna fegurðar, fágætis og vísindalegs gildis.[2] Jarðminjar svæðisins veita upplýsingar um loftlagsbreytingar og er á svæðinu einstakur holtagróður sem er á undanhaldi í þéttbýli. Svæðið er eftirsóknarvert útivistarsvæði þar sem vel sést yfir sundin, borgina og fjallasýn er mikil. Menningar- og fræðslugildi svæðisins er mikið.

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]