Dyrhólaey

Hnit: 63°23′59″N 19°07′35″V / 63.39972°N 19.12639°V / 63.39972; -19.12639
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Dyrhólaeyjarviti)

63°23′59″N 19°07′35″V / 63.39972°N 19.12639°V / 63.39972; -19.12639

Dyrhólaey
Dyrhólaey
Dyrhólaeyjarviti.

Dyrhólaey er móbergsstapi í Mýrdal á suðurströnd Íslands. Hún dregur nafn sitt af því að gat hefur myndast á þessum um það bil 120 metra háa skaga sem sjórinn flæðir í gegnum. Klettatanginn sem skagar fram úr eynni og gatið er í gegnum nefnist Tóin. Dyrhólaey er einnig nefnd Portland af sjómönnum. Hún var lengi syðsti oddi meginlands Íslands en eftir Kötlugosið 1918 hefur Kötlutangi verið syðsti oddi landsins. Í eynni er mikil lundabyggð. Dyrhólaey var friðlýst árið 1978.

Undan Dyrhólaey eru allnokkrir drangar úti í sjónum. Þekktastur þeirra er Háidrangur, sem er þverhníptur og 56 metrar á hæð. Hann kleif Eldeyjar-Hjalti Jónsson fyrstur manna árið 1893 að beiðni bænda í Mýrdal og rak þá nagla í bergið og setti keðjur á nokkrum stöðum, svo að eftir það var hægt að nýta dranginn til fuglatekju. Aðrir drangar eru Lundadrangur, Mávadrangur, Kambur og Kvistdrangur. Dyrhólaey og drangarnir í nágrenni hennar er mikil paradís fuglaskoðara.

Árið 1910 var byggður stálgrindarviti efst á Háey, sem var fyrsti stálgrindarvitinn á Íslandi. Hann var endurbyggður sem ferstrendur steinsteyptur viti með vitavarðarhúsi árið 1927 eftir teikningum Guðjóns Samúelssonar. Vitavörður hafði fasta búsetu á staðnum til ársins 2015. Vitinn er einn sá ljóssterkasti á Íslandi og sést mjög langt að. Ljóseinkenni hans er Fl W 10s (eitt hvítt blikkljós á 10 sekúndna fresti).

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]

  Þessi Íslandsgrein sem tengist landafræði er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.