Þjórsárver

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Jump to navigation Jump to search

Þjórsárver er samheiti yfir ver og gróðursvæði milli Hofsjökuls og Sprengisands. Þjórsárver eru einstök í íslenskri náttúru að því leyti að gróðurþekjan er í yfir 600 metra hæð og þar á einn þriðji hluti allra heiðagæsa í heiminum varpstöðvar sínar. Afréttir Gnúpverja (Gnúpverjaafréttur) og Ásamanna liggja meðal annars í Þjórsárverum.

Náttúrufar[breyta | breyta frumkóða]

Þjórsárver eru gróðursæl ver með tjörnum og rústum. Vestan Þjórsár einkennast verin einnig af þeim mörgu jökulkvíslum sem koma undan Hofsjökli. Svæðið er flatlent og hallalítið. Innst í Þjórsárverum eru tvö Arnarfell; Arnarfell hið mikla og Arnarfell hið litla. Verin sjálf eru að mestu leyti vestan Þjórsár sunnan Hofsjökuls. Gróðursældin stingur í stúf við harðneskjulegt umhverfið, en þarna er að finna gróskumiklar og fjölskrúðugar flæðilendur með fjölbreyttu gróðurfari. Fimm af þeim sex vistgerðum sem taldar eru hafa mest verndargildi á miðhálendinu finnast á Þjórsárverasvæðinu, gilja- og lyngmóavistir, víðikjarrvist, lágstararflóavist, rústamýrarvist og hástaraflóavist. Í Þjórsárverum er eitt stærsta sífrerasvæði landsins. Á svæðinu hafa fundist alls 663 tegundir háplantna, mosa og fléttna og þar af eru tegundir sem eru skráðar á válista yfir tegundir í hættu. Í Þjórsárverum hafa sést 47 fuglategundir og hafa allt að 27 tegundir orpið á svæðinu, þar af fimm tegundir sem eru á válista.

Heiðagæsir[breyta | breyta frumkóða]

Í Þjórsárverum verpa þriðjungur allra heiðagæsa í heiminum. Sumarið 1951 rannsakaði Peter Scott stofninn og skrifaði um það bók.

Friðun[breyta | breyta frumkóða]

Frá árinu 1981 hafa Þjórsárver verið friðuð samkvæmt Umhverfisstofnun og Ramsar-samþykktin nær utan um votlendið og fuglalífið.

Virkjanamál[breyta | breyta frumkóða]

Landsvirkjun hefur lengi haft á teikniborðinu að reisa í Þjórsárverum stíflu og mynda þar miðlunarlón til að safna vatni yfir vetrartímann. Því ætti síðan að dæla yfir í Þórisvatn til að nýta það í öllum virkjunum á Þjórsár-Tungnár-svæðinu. Við þetta myndi stórt gróðursvæði fara undir vatn og fossar í Þjórsá týnast vegna þess hve lítið vatn yrði í þeim. Talað var um „9 til 5 fossa“ – hægt væri að hleypa vatni á þá á milli klukkan 9 og 5 yfir daginn svo ferðamenn gætu notið þeirra.

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]

  Þessi Íslandsgrein sem tengist landafræði er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.