Fara í innihald

Þingvallakirkja

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Þingvallakirkja

Þingvallakirkja er kirkja í þjóðgarðinum á Þingvöllum og tilheyrir hún Þingvallaprestakalli í Árnesprófastsdæmi. Núverandi kirkjubygging var reist árið 1858 og vígð á jóladag árið 1859.[1]

Talið er að fyrsta kirkjan á Þingvöllum hafi verið reist árið 1017 af Bjarnharði biskupi Vilráðssyni hinum bókvísa en hann mun hafa komið með kirkjuvið frá Ólafi konungi Haraldssyni í Noregi.

Núverandi kirkjubygging

[breyta | breyta frumkóða]

Séra Símon Beck lét reisa núverandi kirkju árið 1858.[2] Kirkjuturninn var reistur árið 1907 og í honum hanga þrjár klukkur, ein forn, önnur frá árinu 1697 sem vígð var af Jóni Vídalín biskup, og sú þriðja en jafnframt sú stærsta er hin svokallaða Íslandsklukka frá 17. júní 1944. Prédikunarstóll kirkjunnar er frá 1683, skírnarfonturinn er verk Guðmanns Ólafssonar, bónda á Skálabrekku og var gjöf frá Kvenfélagi Þingvallahrepps. Ófeigur Jónsson, bóndi í Heiðarbæ málaði altaristöfluna árið 1834. Taflan var síðar keypt af bresku listakonunni Disney Leith árið 1899 sem gaf hana kirkju sinni á Wight-eyju í Ermasundi. Altaristaflan komst aftur í eigu Þingvallakirkju og var endurvígð árið 1974. Árið 1896 eignaðist kirkjan altaristöflu eftir danska málarann Anker Lund og hanga nú báðar töflurnar uppi í kirkjunni.[2]

Árið 1928 var prestbústaður reistur við hlið Þingvallakirkju. Frá 1958-2000 var sóknarprestur Þingvallakirkju jafnframt þjóðgarðsvörður á Þingvöllum.[1]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. 1,0 1,1 Guðni Einarsson, „Þjóðkirkjan og þjóðgarðurinn“, Morgunblaðið, 13. maí 2001 (skoðað 1. apríl 2021)
  2. 2,0 2,1 Kirkjukort.net, „Þingvallakirkja“ Geymt 10 apríl 2016 í Wayback Machine (skoðað 1. apríl 2021)