Garðskagaviti
Garðskagaviti er viti á Garðskaga nyrst á Rosmhvalanesi á Suðurnesjum. Fyrsta leiðsögumerkið var varða með járnstöng upp úr sem var reist á Garðskaga árið 1847. Danska vitamálastofnunin reisti svo steinsteyptan ferstrendan vita þar árið 1897. Sú bygging er 12,5 metrar á hæð. Eftir 1940 höfðu menn áhyggjur af því að sjór bryti undan vitanum svo hætta væri á að hann hyrfi í sjó. Árið 1944 var reistur nýr viti innar í landinu. Nýi vitinn var hannaður af Axel Sveinssyni verkfræðingi og er 28,6 metra hár sívalur turn sem upphaflega var húðaður með ljósu kvarsi, en var málaður hvítur árið 1986. Árið 1952 var fyrst settur upp radíóviti á Garðskaga. Ljóseinkenni vitans er Fl W 5s (eitt hvítt blikkljós á 5 sekúndna fresti) og radíóvitinn sendir út morse fyrir bókstafinn G einu sinni á mínútu.